Óskar Þorgils Stefánsson, sem segist hafa keypt smálánafyrirtækin Hraðpeninga, 1909 og Múla, í september 2013 sagði við Kjarnann í janúar 2014 að fyrirtækin væru í eigu kýpversks skúffufélags sem hann hefði ekki leyfi til að upplýsa um hver ætti. Hann er því tvísaga um eignarhaldið á fyrirtækjunum. Aðspurður segir hann ástæðu þess að hann hafi sagt Kjarnanum ósatt þá að kaupin hafi verið á viðkvæmum tímapunkti þegar fyrirspurn hans barst.
Svar barst aldrei
Kjarninn hafði samband við Óskar Þorgils í janúar 2014 til að spyrja hann út í eignarhald á Hraðpeningum, 1909 og Múla. Þá sagði hann að eigandi fyrirtækjanna þriggja væri kýpverska fyrirtækið Jumdon Finance sem hefði eignast það árið 2011.
Aðspurður hverjir væru eigendur Jumdon Finance sagði Óskar Þorgils að hann ætlaði að setja sig í samband við stjórnarmenn félagsins og óska eftir leyfi til að segja frá því hverjir endanlegir eigendur þess væru. Svar við spurningunni barst hins vegar aldrei þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir frá Kjarnanum.
Aðspurður hverjir væru eigendur Jumdon Finance sagði Óskar Þorgils að hann ætlaði að setja sig í samband við stjórnarmenn félagsins og óska eftir leyfi til að segja frá því hverjir endanlegir eigendur þess væru. Svar við spurningunni barst hins vegar aldrei þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir frá Kjarnanum.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Óskar Þorgils hafði vikið sér undan því að svara því hverjir væru eigendur Jumdon Finance. Í maí 2013 svaraði hann fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið á þann veg að hann hefði „ ítrekað reynt að ná sambandi við stjórn félagsins á Kýpur til að fá nýjustu hlutaskrá félagsins en án árangurs. Verð í sambandi þegar stjórn félagsins hefur svarað mér.“
Morgunblaðið hefur fjallað töluvert um smálánafyrirtækin í sunnudagsútgáfu sinni undanfarnar vikur. Um síðustu helgi birtist umfjöllun um að eigendur Jumdon Finance væru „ótilgreindir útlendingar.“ Þar var haft eftir Óskari Þorgils að hann hefði keypt félagið Neytendalán ehf., sem var stofnað árið 2013 og er nú hattur yfir Hraðpeninga, 1909 og Múla, af Jumdon Finance í september 2013.
Félagið hefur ekki skilað gildum ársreikningi og eignarhald þess kemur ekki fram í gagnagrunni Creditinfo. Þar er hins vegar kemur þar fram að Óskar Þorgils sé prófkúruhafi þess og annar stjórnarmaður. Í frétt Morgunblaðsins um málefni félagsins kemur hins vegar fram að eigendurnir séu „ótilgreindir útlendingar“.
Kaupin voru á viðkvæmum tímapunkti
Sú fullyrðing, að Óskar Þorgils hafi keypt Neytendalán ehf. í september 2013, stangast algjörlega á við það sem hann sagði við Kjarnann í janúar 2014, þegar hann sagði að Jumdon Finance væri eigandi Hraðpeninga, 1909 og Múla. Kjarninn bar þetta misræmi upp á Óskar Þorgils og í tölvupósti segist hann hafa keypt Neytendalán af Jumdon Finance í september 2013 en „af margvíslegum ástæðum hafði endanlegt kaupverð ekki verið greitt og salan var ekki frágengin að fullu fyrr en í febrúar 2014. Á þessum viðkvæma tímapunkti var ég ekki í aðstöðu til að upplýsa þig né aðra um stöðu mála. Eins og þú bendir réttilega á fékkstu aldrei algjörlega skýr svör frá mér og það helgast af þessu. Ég bið þig velvirðingar á þessu og vona að þetta skýri málið.“
Óskar Þorgils vildi ekki svara spurningum um hver væri eigandi Jumdon Finance, sem hann segist hafa keypt fyrirtækið Neytendalán af í september 2013, þar sem að fyrirtækið væri ekki á hans vegum.
Óskar Þorgils vildi ekki svara spurningum um hver væri eigandi Jumdon Finance, sem hann segist hafa keypt fyrirtækið Neytendalán af í september 2013, þar sem að fyrirtækið væri ekki á hans vegum. Hann sagðist hins vegar ætla að koma fyrirspurn Kjarnans á framfæri við Jumdon Finance og að hann vænti þess að forsvarsmenn fyrirtækisins myndu verða í sambandi í kjölfarið. Ekkert hefur heyrst frá forsvarsmönnum Jumdon Finance.
Eftirlitsstofnanir vita ekkert um eignarhaldið
Þegar Kjarninn fjallaði um starfsemi og eignarhald smálánafyrirtækja fyrir ári síðan var leitað eftir því hjá Fjármálaeftirlitinu, sem annast eftirlit með þeim lögum sem smálánafyrirtæki starfa eftir, hvort það byggi yfir upplýsingum um hverjir væru endanlegir eigendur Hraðpeninga, Múla og 1909. Í svari frá eftirlitinu kom fram að það búi ekki yfir slíkum upplýsingum.
Kjarninn setti sig líka i samband við Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra í sömu erindagjörðum. Þar fengust sömu svör: stofnunin bjó ekki yfir upplýsingum um eigendur fyrirtækjanna.
Mikill hagnaður
Rekstur smáláfyrirtækjanna þriggja virðist hafa verið nokkuð ábatasamur undanfarin ár. 1909 ehf. hagnaðist um 136 milljónir króna árin 2012 og 2013 og Múla hefur hafnast um 99 milljónir króna á sama tímabili.
Hraðpeningar, elsta félagið í samstæðunni og það sem er líkast til með mestu umsvifin, hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2012. Árið 2011 nam hagnaður þess hins vegar 34,8 milljónir króna og árið áður hafði félagið hagnast um 14,9 milljónir króna.
Fjárfestir frá Slóvakíu á hina smálánablokkina
Neytendalánablokkinn er önnur tveggja smálánafyrirtækjablokka hérlendis. Hin, sem á smálánafyrirtæki Kredia og Smálán, er í eigu Mario Magela. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans keypti Magela félögin af Leifi Alexander Haraldssyni í desember 2013. Breytingin á eignarhaldinu var hins vegar fyrst skráð inn hjá fyrirtækjaskrá 23. september 2014.
Megela er með víðtæka starfsemi, meðal annars með smálán, í Tékklandi og Slóvakíu. Þar rekur hann til að mynda smálánasíðuna www.kredia.cz, sem byggir á íslensku fyrirmyndinni.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans keypti Magela félögin af Leifi Alexander Haraldssyni í desember 2013. Breytingin á eignarhaldinu var hins vegar fyrst skráð inn hjá fyrirtækjaskrá 23. september 2014.
Keypti hlut í eiganda Inkasso
Kjarninn greindi frá því í janúar síðastliðnum að Magela hefði átt hlut í félagi sem hét DCG ehf. Það félag var hins vegar á þeim tíma skráð að fullu í eigu Leifs Alexanders Haraldssonar og hafði þá nýverið einnig keypt innheimtufyrirtækið Inkasso, sem meðal hafði séð um innheimtu fyrir smálánastarfsemi. DCG ehf. átti á þeim tíma einnig Hópkaup, Heimkaup, SpotOn og ýmislegt annað.
Frá því í september er Magela hins vegar einn skráður eigandi Kredia og Smálána. Inkasso er enn í eigu DCG ehf., sem heitir í dag Kaptura Eignarhald og Rekstur ehf. Það félag er í 100 prósent eigu Leifs Alexanders Haraldssonar.