Karlar eru allsráðandi í íslenskum fjármálageira og konur sjaldséðar í æðstu stjórnunarstöðum. Í úttekt Kjarnans, sem náði til 87 æðstu stjórnenda fyrirtækja sem starfa í íslensku fjárfestinga- og fjármálakerfi, kemur í ljós að einungis sjö konur stýra þeim fyrirtækjum en 80 karlar. Því eru níu prósent þeirra stjórnenda sem stjórna peningunum í íslensku samfélagi konur en 91 prósent þeirra karlar.
Kjarninn taldi saman æðstu stjórnendur viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, orkufyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, rekstrarfélaga verðbréfa- og fjárfestingasjóða, innlánsdeilda, verðbréfamiðlara og Framtakssjóðs Íslands. Niðurstaðan varð sú sem greint er frá hér að ofan.
Lög sem taka á kynjahlutfalli stjórna
Í september 2013 tóku gildi lög hérlendis sem gerðu þær kröfur að hlutfall hvors kyns í stjórnum fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn væri að minnsta kosti 40 prósent. Þetta leiddi til þess að ansi mörg fyrirtæki og lífeyrissjóðir þurftu að ráðast í miklar breytingar á samsetningu stjórna sinna, enda var hlutfall kvenna í stjórnum sem féllu undir löggjöfina einungis 20 prósent í árslok 2009.
Í árslok 2013, eftir að lögin tóku gildi, voru konur orðnar 31 prósent stjórnarmanna í þeim félögum sem þau náðu yfir. Einungis um helmingur fyrirtækjanna sem falla undir lögin uppfylltu skilyrðin á þessum tíma.
Ekki liggja fyrir sambærilegar tölur um stöðuna í árslok 2014. Lögin ná hins vegar einungis til stjórna fyrirtækjanna, ekki stjórnenda. Í þeim leðurstólum eru konur enn ákaflega fáséðar, sérstaklega þegar kemur að störfum sem fela í sér stýringu á peningum. Og peningar láta jú heiminn snúast.
Karlar eyðilögðu allt, en stýra samt áfram
Fyrir bankahrun var íslenski peningageirinn þéttsetinn körlum. Karlar stýrðu öllum helstu bönkunum, öllum helstu fjárfestingafélögunum og öllum stærstu fyrirtækjunum. Og þessir karlar skiluðu af sér íslensku fjármálakerfi ónýtu og án nokkurs trúverðugleika. Menningin sem einkenndi óhófið sem fylgdi þessum stjórnendum var einnig mjög karllæg.
Þrátt fyrir sex og hálft ár sé liðið frá hruni þá virðast ekki hafa orðið miklar breytingar á því hvort kynið stýrir fjármagninu. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er enn eina konan sem stýrir viðskiptabanka. Hinir þrír, Landsbankinn, Arion banki og MP banki, eru allir með karl við stýrið. Landsbankinn er eini bankinn sem er með jafn marga karla í framkvæmdastjórn og konur, fjóra af hvoru kyni. Hjá Arion banka eru karlarnir sjö en konurnar þrjár, hjá Íslandsbanka karlarnir fimm en konurnar fjórar og hjá MP banka eru karlarnir sjö en einungis ein kona.
Sparisjóðum landsins stýra fimm karlar en ein kona. Sú heiti Anna Karen Arnardóttir og er sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga.
Karlar, karlar, karlar
Alls eru rekin tíu rekstrarfélög verðbréfa- og fjárfestingasjóða á Íslandi. Þau höndla með hundruð ef ekki þúsundir milljarða króna. Þau heita nöfnum eins og t.d. Stefnir, Landsbréf, Íslandssjóðir, GAMMA og Júpíter. Og öllum tíu er stýrt af körlum.
Alls eru níu verðbréfafyrirtæki á Íslandi eftirlitsskyld. Æðstu stjórnendur þeirra allra eru karlar. Karlar stýra líka báðum eftirlitsskyldu verðbréfamiðlunum landsins og einu innlánsdeild samvinnufélags (Hjá Kaupfélagi Skagfirðinga) sem starfrækt er á landinu.
Lánafyrirtækjum landsins, sem eru Borgun, Valitor, Lýsing, Straumur fjárfestingabanki, Byggðastofnun og Lánasjóður sveitafélaga, er stýrt af fimm körlum og einni konu. Hún heitir Lilja Dóra Halldórsdóttir og er forstjóri Lýsingar.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, er eina konan sem stýrir skráðu félagi á Íslandi í dag.
Lífeyrissjóðunum að langmestu leyti stýrt af körlum
Íslensku lífeyrissjóðirnir eru langstærstu fjárfestar landsins. Þeir eiga tæplega 2.700 milljarða króna og þurfa að koma um 120 milljörðum krónum í vinnu fyrir sig á ári. Til marks um stærð þeirra á íslenskum markaði þá er innlend verðbréfaeign þeirra metin á rúmlega 1.900 milljarða króna. Sjóðirnir eiga, beint og óbeint, yfir helming allra skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni í dag.
Þeir eiga auk þess þorra skráðra útgefinna skuldabréfa á íslenska markaðinum. Tíu stærstu sjóðirnir eru langumsvifamestir. Þeir eiga um 81 prósent af öllum eignum íslenska lífeyriskerfisins. Allir stjórnendur þeirra eru karlar og starfsmenn í eignastýringu þeirra að langmestu leyti karlar. Alls eru æðstu stjórnendur lífeyrissjóða 23. Tveir þeirra eru konur, þær Gerður Guðjónsdóttir, sem stýrir lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga, og Auður Finnbogadóttir, sem stýrir lífeyrissjóði verkfræðinga. Til viðbótar er Herdís Dröfn Fjeldsted forstjóri Framtakssjóðs Íslands, sem er að stórum hluta í eigu íslensku lífeyrissjóðanna. Þórey S. Þórðardóttir er síðan framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, en þau fjárfesta auðvitað ekki.
Tegund fyrirtækja | karlar | konur |
Viðskiptabankar | 3 | 1 |
Sparisjóðir | 5 | 1 |
Lánafyrirtæki | 5 | 1 |
Verðbréfafyrirtæki | 9 | 0 |
Verðbréfamiðlanir | 2 | 0 |
Rekstrarfélög verðbréfa- og fjárfestingasjóða | 10 | 0 |
Eftirlitsskyld innlánsdeild samvinnufélags | 1 | 0 |
Lífeyrissjóðir | 21 | 2 |
Framtakssjóður Íslands | 0 | 1 |
Orkufyrirtæki | 7 | 0 |
Skráð félög á markaði | 12 | 1 |
Félög á leið á markað | 3 | 0 |
Óskráð tryggingafélög | 2 | 0 |
80 | 7 |
Ein kona stýrir skráðu félagi
Þegar kemur að skráðum félögum á markaði er kynjahlutfallið ekkert mikið skárra en annarsstaðar. Raunar er einungis ein koma æðsti stjórnandi skráðs félags, Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS. Karlarnir eru hins vegar tólf. Þrjú félög hafa tilkynnt um skráningu á þessu ári: Reitir, Eik og Síminn. Þeim eru öllum stýrt af körlum.
Æðstu stjórnendur skráðra félaga og félaga á leið á markað | Create infographics
Í stjórnum skráðra félaga sitja fimm konur sem stjórnarformenn en átta karlar. Af öllum stjórnarmönnum eru 30 konur en 37 karlar. Í þeim þremur félögum sem eru á leið á markað sitja níu karlar í stjórn en sex konur.
Stjórnarformenn skráðra félaga | Create infographics
Stjórnarmenn í skráðum félögum | Create infographics
Og restin er...karlar
Forstjóri Kauphallar Íslands er karl. Seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og aðalhagfræðingur Seðlabankans eru allt karlar. Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsmálaráðherra, sem leiða sitjandi ríkisstjórn og ráða langmestu innan hennar, eru báðir karlar. Og allir forstjórar orkufyrirtækja landsins; Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, ON, HS Orku, Orkubús Vestfjarða, Landsnets og Orkusölunnar eru líka allt karlar.