Stofnun um fjármálalæsi og Meniga hafa tekið saman helstu útgjaldaflokka Meniganotenda og breytingar á þeim. Niðurstaða samantektarinnar er að einkaneysla hefur vaxið um 1 % á fyrstu ellefu mánuði ársins miðað við árið í fyrra.
Í niðurbroti á hlutdeild helstu útgjaldaflokka sést að innkaup í matvöruverslunum eru 30%, eldsneytiskaup 14%, tilbúinn matur tæp 11% og kaup í húsgagna- og byggingavöruverslunum 10%.
Meðalvelta Meniganotenda í matvöruverslunum jókst um 3% ef fyrstu ellefu mánuðir ársins eru bornir saman við sama tímabil á fyrra ári. Viðskipti við bensínstöðvar dróst saman um tæp 3% og kaup á tilbúnum mat jukust um tæp 7%.
Hlutfallsleg aukning útgjalda til fjarskiptafyrirtækja var 7% og til byggingavöru- og húsgagnaverslana var 6,5%. Þá dró úr útgjöldum við fjölmiðla um tæp 7%.
Mikil aukning í erlendri vefverslun, en fólk eyðir minna
Heildarvelta vefverslunar jókst um tæp 23% fyrstu ellefu mánuði ársins sem skýrist aðallega af því að fleiri versla á netinu en áður. Fjöldi Meniganotenda sem versluðu á netinu jókst um tæp 32% á milli ára. Á sama tíma lækkaði meðalupphæð verslunar um tæp 7% sem líklega má skýra með styrkingu krónunnar.
Undanfarin ár hefur vefverslunin náð hámarki í nóvember og líklegt má telja að kaupendur séu að versla fyrir jólin. Ef litið er til síðustu þriggja mánaða sést að það eru tveir turnar á markaðinum. Langvinsælustu vefverslanirnar eru Amazon og AliExpress, en þrjár af hverjum fjórum krónum sem verslað er með á netinu rata til Amazon eða AliExpress. Verslun hjá Amazon hefur aukist á milli ára um 12% og um 23% hjá AliExpress. Sé einungis litið til nóvembermánaðar hefur vefverslun við Amazon aukist um 10% og um 3% hjá AliExpress.
Af þeim Meniganotendum sem verslað hafa á netinu á síðustu þrjá mánuðum hefur rúmlega helmingur verslað við Amazon á tímabilinu og rúmlega þriðjungur við AliExpress. Það er um 5% aukning hjá Amazon og 40% aukning hjá AliExpress miðað við sama tímabil í fyrra.
Meðalverslun Meninganotenda hjá Amazon nemur rúmum 6.500 krónum og hefur hækkað um tæp 14% á meðan meðalupphæð hefur lækkað um tæp 25% hjá AliExpress og nemur nú rúmum 4.100.
Allar tölur miðast við breytilegt verðlag, þ.e.a.s. ekki er leiðrétt fyrir verðbólgu. Ofangreindar upplýsingar eru fengnar úr Menigahagkerfinu og unnar í samstarfi Stofnunar um fjármálalæsi og Meniga. Meniga hjálpar fólki að halda utan um fjármál heimilisins og er heildarfjöldi notenda um 40.000. Aldrei er unnið með persónugreinanleg gögn í Meniga hagkerfinu. Nánari upplýsingar má finna á www.fe.is og www.meniga.is.