Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri opinberaði í dag að ákvörðun hafi verið tekin um að ganga til samninga við manninn sem hefur boðið gögn um fjármunaeign Íslendinga í þekktum skattaskjólum til sölu.
Hún á ekki von á því að það verði vandkvæðum bundið að ganga frá þeim samningi, þar sem íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að ganga að kröfum hans. Aðspurð hvenær hún geti búist við að fá gögnin, sem snerta alls 416 mál, segir Bryndís að það ætti að vera hægt að ganga frá því fljótt. Það verði hins vegar ekki greitt fyrir þau með ferðatöskum fullum af peningum.
Fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið upplýsti í gær að maðurinn vilji fá 150 milljónir króna fyrir öll gögnin, eða 2.500 evrur (375 þúsund krónur), fyrir hver mál. Mögulegt verður að kaupa einungis hluta gagnanna. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur sagt að það standi ekki upp á ríkisstjórnina sem hann er í að veita þessum kaupum brautargengi.
Gögnin annars eðlis en mörg erlend stjórnvöld hafa keypt
En hvers konar gögn eru þetta? Fram hefur komið að um sé að ræða upplýsingar sem tengja Íslendinga við félög í skattaskjólum. Sum gagnanna eru nokkurra ára gömul en önnur nýlegri. Bryndís segir að gögnin séu ekki fengin úr banka eða fjármálastofnun. „Þetta er svolítið öðruvísi en var til dæmis í Þýskalandi, þar sem lá fyrir listi um bankainnstæður með kennitölum. Það er fyrirséð að, í að minnsta kosti einhverjum tilvikum, þá er þörf á áframhaldandi rannsókn og aðgerðum.“
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.
Það sem gerðist í Þýskalandi var að stjórnvöld þar keyptu gögn um skattaundanskot þegna sinna sem höfðu boðið þau til sölu. Yfirvöld í Þýskalandi greiddu samtals 20 milljónir evra, um þrjá milljarða króna, fyrir slík gögn á tímabilinu 2006 til 2012. Samkvæmt frétt Der Spiegel um kaupin var ávinningur þýska ríkisins vegna kaupanna margfaldur, eða um tvö þúsund milljónir evra. Það gera um þrjú hundruð milljarðar króna.
Bryndís segir að gögnin sem íslensk stjórnvöld ætla að kaupa séu annars eðlis en að hún telji að fordæmi séu fyrir því að önnur ríki hafi keypt sambærileg gögn. Hún vill hins vegar ekki segja hver fordæmin eru en Kjarninn greindi frá því í vikunni að dönsk stjórnvöld hafi skoðað það alvarlega að kaupa gögn frá sama aðila og er nú að selja íslenskum stjórnvöldum gögn.
"Útilokað" að borga með ferðatösku fullri af seðlum
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, gagnrýndi Bryndísi og embætti hennar harðlega í viðtali við RÚV um helgina fyrir það hvernig haldið hafi verið á gagnakaupsmálinu. Sagði Bjarni að sér hafi þótt málið hafa þvælst allt of lengi hjá embættinu og að ekki hafi allt staðist sem frá því hafi komið. „Eins og til dæmis þegar embættið færir þær upplýsingar í ráðuneytið að gögnin standi til boða fyrir tiltekna hlutfallsfjárhæð af innheimtum skatttekjum sem myndi leiða af upplýsingunum. En eitthvað allt annað kemur í ljós síðar. Og auðvitað getur það ekki komið til greina að við ætlum að fara að greiða fyrir gögn af þessum toga með ferðatöskum af seðlum til einhverra huldumanna.“
Aðspurð hvort til standi að greiða manninum með ferðatösku fullri af seðlum segir Bryndís að svo sé ekki. „Það held ég að sé útilokað.“
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hefur heimilað embætti skattrannsóknarstjóra að kaupa gögn um eignir Íslendinga í erlendum skattaskjólum.
Starfshópur um sakaruppgjöf skilar brátt skýrslu
Þetta er ekki eini angi skattsvikamála sem verið er að afgreiða þessa daganna. Starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem hefur skoðað hvort ástæða sé til að taka upp svokölluð „Amnesty“ ákvæði í íslenskum skattalögum og hvort lagaheimildir skattayfirvalda til öflunar upplýsinga í baráttunni gegn skattsvikum, mun skila skýrslu í síðasta lagi næstkomandi sunnudag, 15. febrúar.
Í svokölluðu „Amnesty“ ákvæði felst að þeim sem svíkja undan skatti verði veitt einskonar sakaruppgjöf gegn því að skila því sem þeir skutu undan skatti. Slíkt ákvæði er í lögum í mörgum nágrannalöndum Íslands.