Er nýtt vígbúnaðarkapphlaup að hefjast?
Hvers vegna koma ríki sér upp kjarnorkuvopnunum?
Um þessar mundir eru 70 ár frá því að Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki, en það markaði lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Í kjölfarið fór í gang mikið vígbúnaðarkapphlaup með ógnarjafnvægi sem byggðist á kjarnorkuvopnum þar sem stórveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, voru í forgrunni. Þeir sem lifðu þessa tíma kalda stríðsins muna vel hvernig kjarnorkuváin vofði stöðugt yfir og varla leið sá dagur að fólk væri ekki minnt á hættuna á kjarnorkustríði.
Stórveldin tvö höfðu þó náð vissum árangri með samningum um takmörkun og eyðingu kjarnorkuvopna strax á 8. áratugnum, en eftir stóð að þau réðu enn yfir gríðarlegu magni sem nægt hefði til að tortíma gervöllum heiminum mörgum sinnum.
Það voru stærstu og voldugustu ríki heims sem þróuðu kjarnorkutæknina og komu sér upp kjarnorkuvopnum, þó fleiri hafi fengið að fylgja með. Til varð fyrirkomulag, sem ekki gefst færi á að fara nánar út í hér, þar sem sum ríki fengu að þróa og ráða yfir kjarnorku og kjarnorkuvopnum en önnur ekki.
Níu ríki búa nú yfir kjarnorkuvopnum, fimm þeirra eiga fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna: Bandaríkin, Rússland, Frakkland, Bretland og Kína – auk þess sem Indland, Pakistan, Norður Kórea og Ísrael eiga kjarnorkuvopn.
Eftir að kalda stríðinu lauk hefur umræða um kjarnorkuvopn og mögulega beitingu þeirra ekki verið mjög áberandi. Jafnframt hefur verið unnið áfram að afvopnun, takmörkun og fækkun kjarnorkuvopna í heiminum undir formerkjum NPT samningsins sem á rætur að rekja allt aftur til ársins 1968.
Er nýtt kapphlaup hafið?
Þegar betur er að gáð hefur afvopnunin ekki verið eins markviss og virðast mætti í fyrstu. Stöðugt er unnið að þróun á fullkomnari vopnum, sem beita má af meiri nákvæmni, þó einhverjum úreltum hafi verið fargað. Magn vopna hefur dregist saman, en heildar getan aukist. Jafnframt eru nú komnar upp aðstæður sem minna óþægilega á fyrri tíma, því eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu og hertóku Krímskaga hafa samskipti þeirra og Vesturlanda verið talsvert ógnvekjandi.
Vladimir Pútín sagði fyrr á þessu ári að Rússar hefðu áhyggjur af eldflaugavarnarbúnaði nálægt landamærum sínum um leið og tilkynnt var að Rússar myndu bæta 40 langdrægum eldflaugum í kjarnorkuvopnabúr sitt strax á þessu ári. Pútín sagði að Rússar væru knúnir til að beina vopnum sínum að þeim svæðum þaðan sem ógnin kæmi. Hann sagði áætlanir Bandaríkjanna um að koma fyrir skriðdrekum og þungavopnum í NATO-ríkjum við landamæri Rússlands mestu ógn af hálfu Bandaríkjamanna síðan í kalda stríðinu.
Bresk stjórnvöld hafa brugðist við með því að hvetja NATO til heræfinga með kjarnorkuvopnum og John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna lýsti í kjölfarið áhyggjum sínum vegna ummæla Pútíns. Hann sagði engan vilja sjá samskiptin fara aftur í sama far og þau voru í á kaldastríðsárunum og að ummæli þjóðarleiðtoga jafn valdamikils ríkis og Rússlands hljóti að vekja fólk til umhugsunar um hverjar afleiðingarnar gætu orðið.
Haft hefur verið eftir yfirmönnum hjá NATO að það sé almenn stefna bandalagsins að fælingarmáttur fáist með samblandi af hefðbundnum vopnum, eldflaugum og kjarnaflaugum. Hins vegar sé það áhyggjuefni að Rússar hafi lækkað þann þröskuld sem almennt viðgengst í samskiptum hvað varðar kjarnorkuvopn. Þeir gangi jafnvel lengra en á meðan kalda stríðinu stóð og sé það mikið áhyggjuefni.
Nú er talið að um 200 B61 kjarnaoddar séu geymdir í bandarískum herstöðvum í fimm Evrópulöndum, einhver afgangur af vopnabúri þeirra frá sjöunda áratugnum. Hernaðarsérfræðingar vilja meina að þessi vopn séu ögrandi tímaskekkja og hafa bent á að langdrægar flaugar í Bretlandi og Bandaríkjunum, auk þeirra sem beita má frá kafbátum, séu yfirdrifið nógur fælingarmáttur gagnvart Rússum.
Þessi vígbúnaður virðist þó ekki nægja og það vekur ugg að í kjölfar nýrrar stöðu milli Rússlands og Vesturveldanna eru nú uppi áætlanir um að uppfæra þessar flaugar með nútíma tæknibúnaði. Þannig yrðu þær mun nákvæmari og beita mætti þeim gegn afmarkaðri skotmörkum. Bandaríkjaþing samþykkti einmitt ekki beiðni hersins um slík nákvæmnisvopn á 10. áratugnum því þau stórauka hættu á að menn sjái kjarnorkuvopn sem raunhæfan möguleika í stríði.
Er meira undir en hefðbundnar varnir?
Ekki þarf að fjölyrða um afleiðingar kjarnorkusprenginga og þótt einhverjir hernaðarsérfræðingar telji að ný tækni geri það betur mögulegt að heyja takmarkað kjarnorkustríð, sjá væntanlega flestir beitingu kjarnorkuvopna sem algerlega óásættanlegan valkost.
Mikilvægt er að koma auga á hvað býr að baki því að ríki komi sér upp kjarnorkuvopnum, annað en þegar um hefðbundinn vígbúnað er að ræða. Það segir nefnilega ekki nema hálfa söguna að skoða einungis hinn eiginlega varnarþátt kjarnorkuvopna – og hvernig þau þjóna því hlutverki að bregðast við hernaðarlegri ógn.
Nú er rætt um þá ógn sem stafar af því ef kjarnorkuvopn kæmust í hendur öfgasinnaðra hryðjuverkahópa eins og Íslamska ríkisins og er það réttmætur ótti. Hér er sjónum hins vegar beint að því þegar kjarnorka og kjarnorkuvopn eru nýtt sem valdatæki, sem aftur riðlar stjórnskipan, takmarkar eðlilega umræðu og lýðræði þar með. En jafnframt því, þegar þeir sem telja sig þess umkomna að ráða yfir kjarnorkuvopnum fara að sjá það sem raunhæfan möguleika að beita þeim.
Grundvallaratriðið í þessari umræðu er hversu kjarnorka og kjarnorkuvopn eru sérstök fyrirbæri, sem byggist m.a. á hinum gríðarlega eyðingarmætti og háþróaðri tækni sem ekki er á allra færi. Því verður auðvelt að gera allt sem tengist kjarnorku og kjarnorkuvopnum órætt og dularfullt auk þess sem gjarnan ríkir leynd um fyrirkomulag varnarmála ríkja.
Auk þess ríkir í heiminum ákveðið stigveldi varðandi það hver má ráða yfir kjarnorku og kjarnorkuvopnum og til er nokkuð sem fræðimenn hafa kallað á ensku „nuclear exeptionalism“. Hugtak þetta lýsir ástandinu sem verður til í kringum kjarnorkusprengjuna vegna þess að allt sem tengist henni þykir svo sérstakt og stórbrotið að ekki sé á færi venjulegs fólks eða stofnana að fjalla um það. Því verður kjarnorkan, sér í lagi kjarnorkuvopn, smátt og smátt óháð hefðbundnum ferlum við áætlanir og ákvarðanatöku, hvort sem um er að ræða tiltekin ríki eða alþjóðasamfélagið í heild.
Kjarnorkumál verða þá nokkurs konar ríki í ríkinu, sem getur gert valdhöfum auðvelt að nota kjarnorkuna sem tæki til að ráða stjórnmálum innanlands á ólýðræðislegan máta. Kjarnorkumál eru gjarnan umdeild mál en alltaf má skáka í skjóli óljósra en tilfinningatengdra hugtaka eins og „þjóðaröryggis“. Kjarnorkusprengjan getur því verið kjörin leið fyrir stjórnmálaöfl til að ná til sín fylgi í andrúmslofti óeiningar með því að t.d. magna upp ótta og þjóðerniskennd.
Dæmi um þetta er kjarnorkuvopnaáætlun Indverja sem var gerð að kosningamáli árið 1998 og var fjarri því að vera byggð á ígrunduðum strategískum áætlunum um raunverulega varnarþörf. Stjórnmálaöfl nýttu sér kjarnorkuáætlun ríkisins sér til framdráttar. Hrært var saman óljósum tilvísunum í þjóðerni, trú, sögu og arfleifð og látið í veðri vaka að þeir ógnarkraftar sem búa þarna að baki ættu sér einhverja guðlega tengingu.
Einnig ná nota kjarnorkuvopn til að skapa ríki stöðu í alþjóðlegu samhengi og styrkja um leið viðkomandi stjórnmálaafl innanlands. Ríkið getur breytt sjálfsmynd sinni og sýnt hversu nútímavætt það er. Gott dæmi um þetta er Frakkland og kjarnorkuáætlunin sem sett var í gang á sjötta áratug síðustu aldar. Frökkum stóð ekki nein ógn af nokkrum sem kallaði á kjarnorkuvígbúnað, þeim var hins vegar mjög í mun að sýna fram á mátt sinn og megin og að Frakkar væru þjóð í fremstu röð á sviði tækni og vísinda.
Kjarnorkuvopn eru því annað og meira en vopn sem beint er gegn hugsanlegum óvini. Þau eru tákn um vald, stöðu, mikilfengleik, tæknilega yfirburði – jafnvel einhvers konar samband við æðri máttarvöld, tenging við hið guðlega.
Þegar spenna magnast í samskiptum gamalla óvina er útlitið ekki gott. Hugsanlega erum við að horfa fram á nýja tíma, nýtt vígbúnaðarkapphlaup þar sem trúin á tæknina verður aðal driffjöðrin, nú þegar einhverjir telja tækniframfarir geti gert takmörkuð kjarnorkustríð möguleg. Við þessu má bregðast með því að hafna óþarfa leynd og viðhafa lýðræðisleg vinnubrögð þegar kjarnorka og kjarnorkuvopn eru annars vegar.