Frasinn „gefðu manni fisk og þú hefur mett hann í einn dag. Kenndu manni að veiða fisk og þú hefur mett hann fyrir lífstíð“ er fyrir löngu orðinn klassískur, eða hin versta klisja - það fer eftir því hver er spurður. Eitt er þó á kristaltæru og það er að oftast sé betra til lengri tíma að kenna fólki að bjarga sér sjálft heldur en að bjarga því beint. Þróunaraðstoð og góðgerðastarfsemi er engin undantekning.
Undir lok síðasta árs var hér á Kjarnanum fjallað um hvernig það að gerast sjálfboðaliði í þróunarlandi getur verið beinlínis skaðlegt. Á undanförnum árum hafa fatagjafir frá Vesturlöndum til þróunarlanda, einna helst í Afríku, einnig hlotið mikla gagnrýni einmitt vegna þess að sagt er að hún hafi skaðleg áhrif.
Tugmilljarða atvinnugrein í miklum vexti
Vesturlandabúar losa sig við milljónir tonna af fatnaði til góðgerðarmála á hverju ári. Íslendingar, sem leggja á sig sérstakar ferðir yfir hálft Atlantshafið til að versla föt í H&M, leggja þar sitt að mörkum. Á 9. áratugnum stórjukust fatagjafir til Afríku sunnan Sahara og hafa þær vaxið mikið á síðastliðnum árum. Þó að það virðist sem góð hugmynd að nýta það sem er til nú þegar og gefa nauðsynjar eins og föt til fátækasta fólks heimsins er málið e.t.v. aðeins flóknara. Í fæstum tilfellum enda fötin í höndum einhverra sem virkilega þurfa á þeim að halda og þeim að kostnaðarlausu. Í staðinn eru fötin seld til endurvinnslustöðva í Evrópu eða Ameríku þar sem þau eru flokkuð eftir gæðum í ca. 50 kg búnt og seld þaðan til dæmis til Afríku þar sem þau enda á mörkuðum eða í verslunum.
Þeir sem hafa komið til Austur-Afríku vita a.m.k. að slík föt eru bókstaflega út um allt. Það er sennilega auðveldara að verða sér úti um Levi's gallabuxur eða Hugo Boss skyrtu í Kampala, höfuðborg Úganda, heldur en góðan kaffibolla. Það er afar kaldhæðnislegt í ljósi þess að Úganda er 11. mesti kaffiframleiðandi heims og landsframleiðsla á mann er um 3% af því sem hún er á Íslandi. Þó er á þessu einföld skýring - meira en 80% af fatnaði í Úganda er notuð föt frá Vesturlöndum. Heildarverðmæti viðskipta með notuð föt er á reiki en ljóst er að hann hleypur á tugmilljörðum króna, ef ekki hundruðum milljarða árlega. Sérfræðingar telja að það gæti numið allt að 6 milljörðum bandaríkjadala
Skaða fatagjafir efnahagslega velferð?
Innlendir framleiðendur sem þurfa að keppa við hræódýran erlendan fatnað lenda eðlilega í vandræðum. Í staðinn fyrir að geta byggt upp fata- og textíliðnað, eiga þeir sé litla von. Þó að hagfræðikenningar og flestir hagfræðingar mæli með því að opna fyrir alþjóðaviðskipti og að hlutir séu endurnýttir ef það borgi sig, þá er staðreyndin sú að vefnaðariðnaður hefur oft leikið lykilhlutverk í iðnvæðingu.
Allt frá Bretlandi á tímum iðnvæðingar og til tígranna í Austur-Asíu á seinni hluta 20. aldar hefur vefnaður oft verið mikilvægur löndum til að brjótast út úr fátækt. Í eðli sínu hentar hann slíkum löndum vel vegna þess að hann krefst tiltölulega lítils fjármagns, sem fátæk lönd hafa lítið af, en mikils og ódýrs vinnuafls, sem fátæk lönd eiga yfirleitt nóg af. Einnig hafa mörg lönd brotist út úr fátækt með því að verja innlenda framleiðslu frá erlendri samkeppni á meðan hann er byggður upp en síðan opnað hagkerfið þegar á líður. Suður-Kórea sem tuttugufaldaði landsframleiðslu á mann á 50 árum er gott dæmi.
Fatainnflutningur frá Vesturlöndum til Afríku hefur leikið fataiðnað í mörgum löndum grátt. Í Gana féll atvinna í vefnaðariðnaði um 80% frá 1975 til 1980 og í Kenýa er svipaða sögu að segja þar sem fata- og vefnaðariðnaður svo gott sem hvarf á 9. áratugnum. Rannsókn Gareth Frazer frá 2008 bendir til þess að fatagjafir til Afríku útskýri 40% af samdrætti í fataframleiðslu á árunum 1981-2000. Auk þess bendir hann á að fatagjafir séu einnig sambærilegar matargjöfum sem einnig hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir að skaða hvata bænda og innlenda framleiðslu. Frazer hefur ennfremur bent á það nær engin lönd hafi brotist út úr fátækt án þess að a.m.k. 1% vinnuaflsins hafi unnið í vefnaðar- og fataiðnaði.
Mynd eftir Pál Kvaran af manni sem hann hitti fyrir tilviljun og var í ÍSLENSKRI peysu. Tekin í Kabale í Úganda í fyrra.
Hvað verður um íslensk föt?
En eru Íslendingar að senda föt til Afríku? Rauði krossinn er mjög umsvifamikill í fatasöfnun til góðagerðarmála út um land allt. Að sögn Björns Teitssonar verkefnastjóra hjá Rauða Krossinum er mikið selt til að fjármagna innanlands, þá fyrst og fremst innanlands og til efnaiðnaðar í Evrópu. Einnig eru föt send út í sértæk verkefni, t.d. til dreifbýlis í Hvíta Rússlandi þar sem fólk býr í illa kyntum húsum, vegna náttúruhamfara eins og nýlegra flóða í Malaví og nú síðast barst beiðni frá Sierra Leone þar sem þurft hefur að brenna föt vegna hættu á ebólusmitum. Björn áréttaði að Rauði Krossinn væri vel meðvitaður um hugsanleg skaðleg áhrif þess að gefa föt og eru slíkar gjafir háðar ströngum skilyrðum.
Einnig var haft samband við Hjálpræðisherinn og þar fengust þær upplýsingar að stærstur hluti fatagjafa sem þangað kemur sé seldur innanlands. Afgangurinn er fluttur til Evrópu og er það háð ströngum reglum til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif.
Hvað sem öllu líður, vöndum okkur
Þegar öllu er á botninn hvolft er málið ekki einfalt. Í raun er það þannig þegar að kemur að allri þróunaraðstoð - hún getur verið áhrifarík en það gerist ekkert að sjálfu sér með góðum vilja einum og sér. Það þarf mikla þekkingu á aðstæðum í hverju tilfelli og raunverulegum þörfum fólks. Þetta þýðir ekki að þess vegna eigi að hætta þessu öllu saman, heldur þvert á móti að það þurfi að halda áfram að vanda betur til verka. Í ljósi þessara áskoranna og að hér er um að ræða fátækasta og oft óheppnasta fólkið í heiminum ættum við að íhuga vandlega hvernig við leggjum því lið. Og helst gera aðeins meira af því.