Þann 1. janúar 2015 hóf evrasíska efnahagssambandið samstarf sitt. Sá atburður hefur ekki vakið mikla athygli hér á landi og leitun er að því í íslenskum fjölmiðlum að sambandið sé nefnt á nafn. Eflaust vita fáir Íslendingar yfir höfuð hvað evrasíska efnahagssambandið er. Því er fullt tilefni til að taka saman grunnupplýsingar um sambandið, íslenskum lesendum - að minnsta kosti áhugasömum - til gagns.
Lauslega mætti skilgreina það sem samstarf fimm þjóða: Rússlands, Kazakhstan, Hvíta-Rússlands, Armeníu og Kyrgistan, sem nú er í inntökuferli. Sambandið á sér langan tildraganda og er byggt á evrasísku efnahagssamstarfi og tollasambandi þjóða í Mið-Asíu og Rússlands. Íbúar landanna fimm eru u.þ.b 180 milljónir talsins, en þar af eru Rússar um 130 milljónir. Hlutverk sambandins er aðallega efnahagslegt, en í því felst einnig nokkur samstaða í alþjóðamálum og hernaðarleg samvinna landanna. Vegna hlutfallslegrar stöðu landanna innan sambandsins hafa margir talið það vera, a.m.k. að hluta, ætlað til að auka áhrif Rússlands í nærlöndum þess.
Evrasíusambandið er byggt upp á mjög keimlíkan hátt og ESB, með framkvæmdaráði og ráðherraráði þar sem aðildarríki taka ákvarðanir samhljóða. Samstarfið virðist þó strax vera í uppnámi.
Evrasíusambandið er byggt upp á mjög keimlíkan hátt og ESB, með framkvæmdaráði og ráðherraráði þar sem aðildarríki taka ákvarðanir samhljóða. Samstarfið virðist þó strax vera í uppnámi. Nýlega lét sendiherra Rússa gagnvart ESB lét þau orð falla, að Evrasíusambandið leitaði eftir nánara samstarfi við ESB, þrátt fyrir vægast sagt stirð samskipti Rússa og ESB og efnahagsþvinganir.
Ekkert verður til í tómarúmi
Sambandið er byggt á tollabandalagi frá árinu 2010, en það var þó ekki fyrsta tilraun Rússlands til aukinna áhrifa í nærlöndum sínum. Eftir fall Berlínarmúrsins hefur Rússland lent í tilvistarkreppu og reynt að endurskapa fyrri frægð eftir bestu getu. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi eftir að Vladimir Pútín tók við stjórnartaumum og innlyksun Krímeu fór eflaust ekki framhjá neinum. Þetta er ekki eini liðurinn í utanríkisstefnu Rússa gagnvart nágrönnum sínum og hefur Pútin reynt að hafa puttana í stjórnun ýmissa ríkja gömlu Sovétríkjanna á seinustu árum (sbr. innrás Rússa í Georgíu o.s.frv.), með því að móta stefnu gagnvart erlendum samlöndum sínum (þ.e. fyrrverandi þegnum Sovétríkjanna sem mætti telja rússneska).
Það virðist nokkuð augljóst að Rússland sé að reyna að færa sig upp á skaftið í heimsstjórnmálum og nú þegar Evrópusambandið hefur átt í efnahaglegum erfiðleikum síðasliðin ár þá hafa ríkisstjórnir landanna fimm eflaust séð leik á borði til þess að mynda mótjafnvægi og bjóða upp á annan möguleika fyrir lönd, sem voru hluti af Sovetríkjunum, en hafa verið í nánu samstarfi við ESB á síðustu árum.
Draumur verður að martröð
Evrasíudraumur Pútíns virðist vera að breytast í martröð miðað við efnahagsstöðu Rússlands nú þessa fyrstu daga ársins 2015. Löndin sem stofnuðu sambandið með Rússlandi hljóta að sjá eftir því í dag. Rúblan hríðfellur og erfiðleikar Rússlands aukast. Kasakskir ráðamenn hafa viljað skilgreina sambandið eingöngu sem efnahagslega stofnun. Ef ríkisstjórn Kazaksthan, sem hefur orðið vellauðugt af olíu, hugsaði aðallega um hagsmuni sjálfs síns, þá ættu þeir að reyna að fjarlægjast Rússum og leita annað.
Vladimír Pútin fer yfir málin með Nursultan Nazarbayev, forseta Kasakstan, á fundi Evrasíusambandsleiðtoga á Þorláksmessu.
Efnahagslegir örðugleikar sambandsins standa í vegi fyrir að það verði valdamikið á næstu árum, en að mínu mati þá segir það okkur að Rússland Pútíns er augljóslega að reyna að búa til mótjafnvægi gegn vestrænum öflum. Rússar eru að færa sig enn fjær Evrópusambandinu, þeir vilja vera sinn eigin herra og helst herrar annarra.
Nýtt kalt stríð, eða ný heimsmynd?
Heyrst hefur verið talað um nýtt kalt stríð, annað hvort í uppsiglingu, eða þá að það sé hreinlega hafið. Það er villandi að tala um nýtt kalt stríð vegna þess að í raun er heimurinn talsvert breyttur staður og getur það verið hættulegt að hugsa of mikið í fortíðinni.
En það er augljóst að valdahlutföll í heiminum eru að breytast. Vestrænt ofurvald (e. hegemony) er að minnka og aðrir valdakjarnar eru að verða til í heiminum. Rússland er augljóslega að reyna að vera einn af þeim valdakjörnum. Lönd eins og Rússland og Kína geta boðið upp á efnahagslegt samstarf án eins þröngra skilyrða og ESB. En hvernig fer, veit enginn, nema kannski guð og Pútín.