Eftir að Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tilkynnti síðasta vor að ekki væri á von á frumvarpi um náttúrupassa á vorþingi, ákváðu Samtök ferðaþjónustunar (SAF) að kanna hug félagsmanna sinna til þeirra gjaldtökuleiða sem helst höfðu verið til umræðu til að standa straum af kostnaði við varðveislu og uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi. Samtökin sáu sér þá leik á borði í kjölfar tilkynningar ráðherra um að dráttur yrði á náttúrupassanum, til að skapa víðtæka sátt um þá leið sem samtökin ættu að fylkja sér á bakvið.
Samtökin réðu til sín ráðgjafa og í gang fóru fundahöld með félagsmönnum víðs vegar um land, en auk þess var skoðanakönnun send félagsmönnum í maímánuði, þar sem þeir voru spurðir að því hvaða skilyrði fyrirhuguð gjaldtaka yrði að uppfylla. Niðurstöðurnar voru afgerandi. Félagsmenn SAF lögðu áherslu á að ásýnd ferðamannastaða myndu ekki taka breytingum vegna gjaldtökunnar, til að mynda með tilkomu gjaldskýla eða eftirlitsmanna.
Félagsmenn SAF settu komugjöld í fyrsta sætið
Á félagsfundi í júní lá niðurstaða félagsmanna SAF fyrir. Valkostunum var raðað upp á lista, eftir forgangsröð, sem samtökin ættu að beita sér fyrir að yrðu ofan á. Í fyrsta sætið voru sett svokölluð komugjöld, eða hóflegt gjald á alla farþega sem koma inn til landsins. Félagsmönnum SAF þótti fyrirkomulagið einfalt og skilvirkt, auk þess sem gjaldtakan yrði einföld í útfærslu, það er að gjaldið yrði haft inn í farmiðaverðum flugfélaganna.
Sérstakt landamæragjald var sett í annað sæti listans, sem er sambærilegt við komugjaldið, nema þá myndi sérstakt gjald vera innheimt við komuna til landsins, í stað þess að flugfélögin sæu um innheimtuna.
Í þriðja sæti var krafa um að hið opinbera myndi veita meira fé til varðveislu og uppbyggingu ferðamannastaða, á þeim rökum að ferðaþjónustan væri nú þegar að skila góðum tekjum í ríkissjóð í formi skatta.
„Ráðuneytið hafi tjáð samtökunum að sérstök komu- eða landamæragjöld, væru ekki framkvæmanleg þar sem þau brjóti í bága við alþjóðlega samninga, til að mynda Shengen og EES-samninginn.“
Hækkun gistináttagjalds þótti fjórði álitlegasti kosturinn, og í fimmta sæti var hugmynd um að ferðaþjónustan kæmi á fót sérstökum sjóði sem myndi standa straum af náttúruvernd og öðru tilheyrandi. Sjóðurinn yrði fjármagnaður með gjöldum sem ferðaþjónustan myndi innheimta og úthluta sjálf. Hugmyndin var ekki síst sprottinn af efasemdum aðila innan ferðaþjónustunnar að fjármagnið myndi ekki skila sér að fullu til geirans ef ríkissjóður sæi um innheimtuna.
Í sjötta sæti var svo hinn umdeildi náttúrupassi, sem er sú leið sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur nú ákveðið að fara, og gjaldtaka landeigenda rak lestina í sjöunda sæti listans.
Stjórn SAF ákveður að hampa fjórða kostinum
Eftir að hafa kannað gerleika valkostanna ákvað stjórn SAF á dögunum að leggja til að gistináttagjaldið yrði hækkað til að kosta bráðnauðsynlegar aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar. Samkvæmt heimildum Kjarnans olli ákvörðun stjórnarinnar, um að fara þessa leið, töluverða furðu og reiði á meðal hótel- og gistihúsaeigenda sem að minnsta kosti í einu tilfelli leiddi til úrsagnar úr samtökunum. Heimildir Kjarnans herma að fleiri aðilar í gistirekstri hyggist gera slíkt hið sama.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF, segir í samtali við Kjarnann, að ákvörðun stjórnarinnar um að leggja til hækkun gistináttagjalds, hafi meðal annars byggt á samskiptum við atvinnuvegaráðuneytið. Ráðuneytið hafi tjáð samtökunum að sérstök komu- eða landamæragjöld, væru ekki framkvæmanleg þar sem þau brjóti í bága við alþjóðlega samninga, til að mynda Shengen og EES-samninginn. Þá hafi sömuleiðis ekki þótt ráðlegt að leggja á komugjöld, þar sem innanlandsflugið yrði ekki undanskilið þeim.
Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mikið undanfarin ár, og viðbúið er að þeim haldi áfram að fjölga.
Helstu rök atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fyrir því að ekki sé hægt að ráðast í sérstök komu- og/eða brottfarargjöld, eru að þau yrðu flokkuð sem landamæragjöld og hvorki megi leggja þau á íbúa á EES-svæðinu né í Schengen löndunum. Þá hafi ekki verið talin farsæl leið að innheimta slík gjöld einungis af hluta ferðamanna. Enda kveður EES-samningurinn á um einhlýtt bann við hverslags mismunun vegna þjóðernis.
Komugjöld lifa góðu lífi innan Evrópusambandsins
Í Bretlandi, sem á aðild að Evrópusambandinu, hefur verið við lýði sérstakur flugfarþegaskattur (Air Passenger Duty) undanfarin ár. Bresk stjórnvöld rukka flugfarþega um þrettán evrur, eða um rétt rúmar 2000 krónur, að því er þau segja vegna náttúruverndarsjónarmiða, en upphæðin hækkar í samræmi við lengd flugferða. Flugfarþegar sem millilenda á Bretlandseyjum, á leiðinni úr landi, eru undanskildir skattinum. Skattheimtan gildir jafnt um innanlandsflug og millilandaflug, með því skilyrði að umrædd flugvél sé þyngri en tíu tonn og beri fleiri en tuttugu farþega.
Þjóðverjar, sem eiga sömuleiðis aðild að Evrópusambandinu, rukka líka sérstakt brottfarargjald. Það nemur 7,5 evrum, sé flogið innan Evrópu, og getur hækkað upp í ríflega 42 evrur á lengri flugleiðum. Svipað fyrirkomulag er við lýði í Austurríki. Frakkar, enn önnur Evrópusambandsþjóðin, rukka rúmlega eina evru í farþegaskatt innan EES-svæðisins og röskar 4,5 evrur utan þess, en upphæðinni er varið til mannúðarmála.
„Sérstakur farþegaskattur er þannig ekki við lýði í innanlandsflugi, en hann var aflagður á Íslandi árið 2010.“
Írar settu sérstakt brottfarargjald árið 2009. Gjaldið hljóðaði þá upp á tíu evrur, fyrir farþega sem flugu lengra en 300 kílómetra frá Dublin, en tvær evrur fyrir þá sem flugu styttra. Vegna þess að fyrirkomulagið hafði í för með sér að nánast öll flug til annarra landa voru á hærra gjaldinu, en innanlandsflug á því lægra, var gjaldinu breytt í þrjár evrur árið 2011, óháð lengd flugs. Enda kveða lög Evrópusambandsins á um að ekki megi leggja hærri gjöld á flugþjónustu milli landa ESB en innan hvers lands.
Stjórnvöldum kunnugt um fordæmi innan EES
Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Alta, sem unnin var fyrir Ferðamálastofu árið 2013, að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, er fjallað um brottfarar- og komugjöld á flugfarþega. Þar kemur fram að allmörg lönd innheimti slík gjöld, sem séu oftast í formi brottfarargjalda. Í flestum tilfellum sé flugfélögum falið að innheimta gjaldið og sé það þá innheimt við kaup á flugmiðanum. Nær öll fordæmin hér að ofan eru rakin í skýrslunni. Þá telja skýrsluhöfundar að gjaldtökuleiðin sé bæði raunhæf og fremur einföld til notkunar hér á landi.
Í dag greiða flugfarþegar sem fara um Keflavíkurflugvöll sérstakt brottfarargjald, sem er 900 krónur á sumrin og 450 krónur á veturna. Þá greiða flugfarþegar í innanlandsflugi, sem fljúga frá Reykjavíkurflugvelli, 1.200 krónur í sérstakt farþegagjald sem renna til reksturs flugvallarins. Sama fyrirkomulag er fyrir hendi á öðrum flugvöllum landsins en þar er gjaldið lægra. Sérstakur farþegaskattur er þannig ekki við lýði í innanlandsflugi, en hann var aflagður á Íslandi árið 2010.