Bandaríkjamaðurinn Ross William Ulbricht var sakfelldur fyrir dómstóli í New York ríki í gær, meðal annars fyrir fíkniefnasölu og peningaþvætti í gegnum vefsíðuna Silk Road. Ákæran á hendur Ulbricht var í sjö liðum, og var hann sakfelldur í þeim öllum. Hundruð milljónir króna voru vistaðar á vefþjónum vefsíðunnar á Íslandi. Fréttamiðillinn Wired greinir frá málinu.
Vefsíðan Silk Road var tekin niður í október árið 2013, en hún var nokkurs konar markaðstorg fyrir fíkniefni og annan ólöglegan varning. Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur sagt að vefsíðan hafi reynst þróaðasta og umfangsmesta markaðstorg glæpamanna á netinu, en henni hefur verið líkt við eBay fyrir viðskipti með fíkniefni þar sem þúsundir fíkniefnasala hafi selt mörg hundruð kíló af fíkniefnum.
Þá greindu fjölmiðlar frá því að þar hafi verið að finna til sölu leiðbeiningar um hvernig skuli brjótast inn í hraðbanka, listar yfir tengiliði á svarta markaðnum og skjalafalsara og þá hafi verið hægt að komast í samband við leigumorðingja í tíu löndum í gegnum vefsíðuna.
Lögregluyfirvöld á Íslandi aðstoðuðu FBI
Þar sem síðan var vistuð hér á landi, aðstoðaði rannsóknarlögregludeild lögreglu höfuðborgasvæðisins bandarísku alríkislögregluna (FBI) við rannsókn á starfsemi vefsíðunnar. Aðstoðin var veitt á grundvelli réttarbeiðni og fólst í öflun rafrænna gagna um vefsíðuna.
Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Íslandi, sem send var fjölmiðlum í kjölfar aðgerðanna segir: „Lauk þessari rannsóknaraðstoð með aðgerðum hér á landi í síðustu viku þar sem Silkroad vefsíðan var tekin niður og haldlagður rafrænn gjaldmiðill, Bitcoin, að jafnvirði yfir 3 milljónir bandaríkjadala. Ekki eru önnur tengsl við Ísland en þau að vefsíðan var hýst hér á landi, engar handtökur voru framkvæmdar vegna þessa hér á landi og engir innlendir aðilar tengjast að öðru leyti rekstri hennar.“
Áðurnefndur stofnandi Silk Road á yfir höfði sér að minnsta kosti þrjátíu ára fangelsisdóm, en lögmenn hans segja að dómnum verði áfrýjað.
FBI fann fúlgu fjár í gegnum vefþjón á Íslandi
Ulbricht var handtekinn í San Francisco í október 2013, og þá lagði lögregla jafnframt hald á fartölvuna hans. Við aðalmeðferð málsins kom fram hvernig fulltrúar FBI röktu 13,4 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar tæplega 1,8 milljörðum króna, í formi Bitcoin rafmyntar í gegnum vefþjóna vefsíðunnar á Íslandi og Pennsylvaníu í Bandaríkjunum yfir í „rafveski“ Ulbricht sem var aðgengilegt í gegnum fartölvu hans. Veskið var það sönnunaragn sem vó þyngst í sakfellingu stofnanda Silk Road, en rafmyntin var millifærð inn í það frá vefþjónunum á Íslandi og í Bandaríkjunum.
Samkvæmt frétt Vísis frá 9. október voru gögn Silk Road hér á landi vistuð í gagnvaveri Thor sem rekið er af Advania.
Við fyrirtöku málsins krafðist verjandi Albricht þess að sönnunargögn saksóknara yrðu útilokuð frá réttarhöldunum þar sem FBI hefði komist yfir þau með ólöglegri og tilhæfulausri leit á vefþjónum Silk Road á Íslandi til að staðsetja tölvu höfuðpaursins.
Albricht notaðist við forritið Tor til að fela slóð sína, en forritið hefur verið bendlað við hið svokallaða „myrkranet“ eða „Dark Web,“ þar sem notendur forritisins geta athafnað sig á internetinu eftirlitslaust.