Margir Danir hafa sjálfsagt hrokkið við þegar ofangreind fyrirsögn blasti við, með stóru letri í Berlingske, einu virtasta dagblaði Danmerkur á dögunum. En dagsetningin var ekki 1. apríl heldur 4. janúar og umfjöllun blaðsins ekkert áramótagrín.
Þegar komið er inn í danska matvöruverslun fer ekki fram hjá viðskiptavininum að áfengi, einkum léttvín og bjór, er mikilvæg söluvara. Eftir því sem verslanirnar eru stærri því meira pláss taka hinar „ljúfu veigar“ ekki síst í kringum hátíðir. Í stórri verslun skammt frá heimili þessa pistlahöfundar voru um nýliðin jól og áramót stórar stæður af léttvíni og bjór á miðju gólfi, allt auðvitað á sérstöku tilboðsverði, margar tegundir. Þá er ekki verið að tala um einhvern smáafslátt heldur iðulega rúmlega helmings afslátt frá hinu daglega verði sem þó þykir lágt í samanburði við mörg önnur lönd. Og guðaveigarnar staldra stutt við í búðinni; þegar fylgst er með þeim sem út fara má iðulega sjá fólk með marga kassa af léttvíni (hér eru oftast 6 flöskur í kassa) sama gildir um bjórinn. Enda eru innkaupakerrur stórmarkaða bæði stórar og sterkbyggðar.
Minna drukkið í vinnunni
Í umfjöllun Berlingske (sem aðrir miðlar hafa síðan tekið upp og fylgt eftir) kemur fram að áfengisneysla Dana hefur minnkað á síðustu árum. Bjórdrykkja á vinnustöðum hefur minnkað umtalsvert og ekki þykir lengur sjálfsagt að boðið sé uppá snafs af Gammel dansk þegar einhver vinnufélaginn á afmæli. Fyrir þremur árum lagði starfsfólk Carlsberg verksmiðjanna niður vinnu hluta úr degi til að mótmæla hertum reglum fyrirtækisins, þær kváðu á um að þeir sem ynnu hjá fyrirtækinu mættu einungis drekka bjór í matar-og kaffitímum. „Kjararýrnun“ sagði starfsfólkið.
Starfsmenn Carlsberg mótmæla hertum reglum fyrirtækisins varðandi bjórdrykkju á vinnutíma.
Þrátt fyrir að áfengisneyslan hafi minnkað eru Danir þeirra þjóða Evrópu sem innbyrða mest áfengi, um 11.5 lítra á mann af hreinum vínanda (jafngildir 40 flöskum af Vodka sagði Berlingske) á ári hverju. Margir telja reyndar að þessi tala sé alltof lág, þegar neyslan sé reiknuð út gleymist nefnilega eitt: landamærabúðirnar þýsku.
Sannkölluð stórinnkaup
Það er sérkennileg sjón sem ætíð blasir við á bílastæðum stórra þýskra verslana skammt frá dönsku landamærunum, hinum svonefndu landamæraverslunum. Stærðar innkaupavagnar hlaðnir áfengi og þar má sjá margan hleðslusérfræðinginn að störfum, allir með sama markmið í huga: að koma sem mestu fyrir í bílnum og hámarka þannig ágóðann af verslunarferðinni. Geysimikið magn áfengis og bjórs fer með þessum hætti til Danmerkur (og reyndar fleiri landa) og það sem þarna er keypt er ekki með í opinberum tölum um áfengisneyslu. Og munar um minna.
Danska þjóðarsálin
Til skamms tíma hafa Danir lítið gefið fyrir það álit annarra að þeir drekki of mikið. Hafa talið það hluta af hinni dönsku þjóðarsál að „hygge sig“ enda af mörgum taldir skemmtilegri heim að sækja en grannarnir hinum megin við Eyrarsund að ekki sé nú minnst á Norðmennina. Tuborg og Carlsberg, ásamt Gammel Dansk og Álaborgarákavíti (ásamt smørrebrauðinu) eru þannig hluti þjóðarsálarinnar segja sumir. Og fótbolti myndu einhverjir bæta við!
Fimmti hver Kaupmannahafnarbúi drykkjurútur
Þegar dagblaðið Berlingske greindi frá viðamikilli könnun á drykkjuvenjum íbúa höfuðborgar Danmerkur undir þessari fyrirsögn hrukku margir við. Könnunin, sem var gerð á vegum Heilsugæslunnar Í Kaupmannahöfn, stóð yfir um nokkura ára skeið. Niðurstöðurnar eru sláandi: nær fimmti hver íbúi borgarinnar eldri en 16 ára telst, eða telur sig háðan áfengi og sjöundi til áttundi hver íbúi er ofdrykkjumaður samkvæmt skilgreiningu heilbrigðisyfirvalda.
Þrjú þúsund dauðsföll árlega eru beinlínis rakin til óhóflegrar áfengisneyslu og kostnaður samfélagsins skiptir hundruðum milljóna á ári.
Það vekur líka athygli, og áhyggjur, að á sjöunda hverju heimili þar sem börn búa, býr einstaklingur sem drekkur í óhófi. Þetta eru, að mati heilbrigðisyfirvalda, uggvænlegar upplýsingar og vandinn mun meiri en fyrirfram var talið. Hliðstæð könnun hefur ekki farið fram annars staðar í landinu en heilbrigðisyfirvöld telja sig vita að ástandið sé þar víðast hvar skárra en í höfuðborginni.
Augu Dana að opnast og hvað er til ráða?
Heilsugæslan í Kaupmannahöfn hefur um margra ára skeið boðið upp á námskeið sem hjálpa fólki að takast á við áfengisvandann en fram til þessa hefur áhugi á slíku verið fremur dræmur. Ýmislegt bendir til þess að þetta sé að breytast. Æ oftar er í fjölmiðlum fjallað um skaðsemi óhóflegrar áfengisneyslu og tölur um afleiðingarnar tala sínu máli. Þrjú þúsund dauðsföll árlega eru beinlínis rakin til óhóflegrar áfengisneyslu og kostnaður samfélagsins skiptir hundruðum milljóna á ári.
Heilsugæsla og læknar fá nú margfalt fleiri fyrirspurnir en áður um slík námskeið, hvaða fræðsla og möguleikar séu í boði fyrir þá sem vilja gera eitthvað í sínum málum o.s.frv. Fræðsluyfirvöld boða líka aukna fræðslu fyrir kennara, á grunn-og leikskólastigi, til að þeir verði betur færir til að ræða við foreldra um þessi mál.
Í tengslum við áðurnefnda könnun og umfjöllun ræddu blaðamenn Berlingske við fjölmarga sem tengjast heilbrigðismálum og einnig stjórnmálamenn. Allir viðmælendur blaðsins voru sammála um að Danir verði að bregðast við, fræðsla og opin umræða sé rétta, og eina leiðin, til að ná árangri. Blaðinu verði hinsvegar ekki snúið við á einum degi, það sem blasi við sé sannkallað langtímaverkefni.