Meirihluti málanna frá þingmönnum Flokks fólksins eru endurunnið efni úr ranni flokksins frá síðasta kjörtímabili, en sum eru ný. Inga Sæland flokksformaður er fyrsti flutningsmaður alls 30 mála, 22 framlagðra frumvarpa og átta þingsályktunartillagna, en einungis eitt mál frá henni hefur ekki áður komið fyrir augu þingsins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er fyrsti flutningsmaður tíu frumvarpa, Guðmundur Ingi Kristinsson er með fjögur frumvörp í sínu nafni og hinir karlarnir í þingflokknum, Eyjólfur Ármannsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, eru fyrstu flutningsmenn samtals sex mála.
Baráttumál Hagsmunasamtaka heimilanna ofarlega á baugi
Ekki þarf að koma á óvart að mörg frumvörp líti dagsins ljós frá Ásthildi Lóu, sem verið hefur formaður Hagsmunasamtaka heimilanna undanfarin ár. Hún var búin að lýsa því yfir í kosningabaráttunni að hún væri með allnokkrar tillögur að lagabreytingum tilbúnar.
Kennir ýmissa grasa í þeim málum sem hún leggur fram, en mörg snúast þau um stöðu neytenda á húsnæðismarkaði, mál sem Ásthildur Lóa hefur beitt sér fyrir að koma á dagskrá stjórnmálanna undanfarin ár á vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna.
Þannig lýtur eitt mál að því að hætta að miða stofn álagningar fasteignaskatts við fasteignamat og að skatturinn verði fremur lagður á „sem tiltekin fjárhæð á hvern fermetra fasteigna“ svo fasteignaskattar taki ekki stökk þegar íbúðaverð snarhækkar. Í öðru máli Ástu Lóu er lagt til að sett verði inn bráðabirgðaákvæði í lög um vexti og verðtryggingu og húsaleigulög sem tryggi að verðtryggðar skuldbindingar, húsnæðislán og húsaleiga, skuli ekki hækka á árinu 2022.
Enn annað mál snýr einnig að verðtryggðum lánum, en þar eru lagðar til breytingar á lögum um neytenda- og fasteignalán sem fela í sér að neytendum verði veittur réttur til aðfá verðtryggðum lánum sínum breytt yfir í óverðtryggð lán, án endurnýjunar lánshæfis- og greiðslumats, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Annað mál varðar greiðslu séreignarsparnaðar beint inn á húsnæðislán, sem hefur staðið fyrstu kaupendum til boða. Ásta Lóa og meðflutningsmenn hennar í þingflokknum leggja til að „rétturinn til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð verði ekki einskorðaður við fyrstu kaup, heldur verði einstaklingum sem ekki hafa átt íbúð undangengin þrjú ár einnig heimilt að nýta sér þetta úrræði.“
Í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta sé meðal annars miðað að þeim hópi fólks sem missti eigið húsnæði í kjölfar bankahrunsins og hafi ekki náð að komast aftur inn á fasteignamarkað.
Þrír þingmenn Pírata slást í lið með Ástu Lóu og öðrum í þingflokki Flokks fólksins í máli sem fjallar um það að samtök neytenda fái aukinn rétt til þess að leita til þar til bærra stjórnvalda fyrir hönd neytenda um úrlausn ýmissa mála. Frumvarpinu er þannig ætlað að bregðast við ítrekuðum frávísunum stjórnvalda á slíkum málum á þeim grundvelli að samtök á sviði neytendaverndar skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málanna.
Flest mála formannsins endurflutt
Nær öll þeirra mála sem Inga Sæland er fyrsti flutningsmaður á eru endurflutt mál frá síðasta þingi. Þeirra á meðal er tillaga að styrkjum til kaupa á sérútbúnum bifreiðum fyrir hreyfihamlaða, auk frumvarpa um bann við rekstri spilakassa á Íslandi, bann við okri á tímum hættuástands, bann við blóðmerahaldi (sem tveir þingmenn Vinstri grænna styðja nú), afnám allra skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna.
Að auki leggur Inga að nýju fram frumvörp um að allir íbúar í fjölbýlishúsum megi eiga kött eða hund nema aukinn meirihluti í húsfélagi segi til um annað og um niðurgreiðslu raforku til garðyrkjubænda, svo eitthvað sé nefnt.
Þþfbsoemssoh verði Sjónstöð
Eitt nýtt mál er sett fram af hálfu Ingu Sæland. Það er frumvarp um að nafni stofnunar sem heitir í dag Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu verði einfaldlega breytt í Sjónstöð Íslands.
„Við endurskoðun laga í gegnum árin hefur heitið ítrekað tekið breytingum og stafafjöldinn aukist. Það tíðkast almennt ekki í heiti annarra stofnana að telja upp í heiti þeirra hvert og eitt einasta viðfangsefni stofnunar. Því er engin ástæða til að beita þeirri formúlu einungis um heiti þessarar stofnunar,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Varaformaður flokksins Guðmundur Ingi Kristinsson leggur fram fjögur frumvörp, sem öll eru endurflutt frá fyrri þingum.
„Fæði, klæði og húsnæði“ fyrir námsmenn
Tómas A. Tómasson, sem er nýr þingmaður og jafnframt sá elsti í þinginu, er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir skerðingar á framfærslu námsmanna vegna launatekna. Samkvæmt frumvarpinu myndu launatekjur ekki hafa nein áhrif á framfærslulán frá Menntasjóði námsmanna.
„Ein helsta hindrunin í vegi námsmanna sem þurfa að treysta á framfærslulán frá Menntasjóði eru reglur um skerðingar á framfærslu vegna tekna námsmanna. Hafi námsmaður tekjur umfram frítekjumörk úthlutunarreglna skerðist framfærsla frá Menntasjóði verulega. Þetta er sérstaklega íþyngjandi í ljósi þess að framfærsla Menntasjóðs dugar almennt ekki ein og sér til að greiða fyrir fæði, klæði og húsnæði,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Sundabraut fyrr, frjálsar handfæraveiðar og ný Breiðafjarðarferja
Eyjólfur Ármannsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillagna um samgöngumál sem tengjast því kjördæmi. Í fyrsta lagi leggur hann til að ný Breiðafjarðarferja verði keypt og að þar til ný ferja verði keypt skuli nota gamla Herjólf í reglulegum ferjusiglingum um Breiðafjörðinn. Auk þingflokks Flokks fólksins eru þeir Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks og Bjarni Jónsson þingmaður Vinstri grænna með á þessu máli.
Annað mál Eyjólfs snýst svo um að lagningu Sundabrautar verði flýtt og þeim lokið fyrir árslok 2027, en ekki árið 2031 eins og stefnt er að í stjórnarsáttmála. „Það tók ekki áratugi að færa Kárahnjúkavirkjun frá hugmynd að veruleika þrátt fyrir að sú hugmynd hefði í alla staði verið mun flóknari og stærri framkvæmd en lagning Sundabrautar. Sundabraut er framkvæmd sem nánast allir eru sammála um að sé mikilvæg fyrir samfélagið og ekki er eftir neinu að bíða. Ef allir leggjast á eitt má hefja framkvæmdina á allra næstu árum,“ segir í greinagerð með tillögunni.
Eyjólfur er svo einnig fyrsti flutningsmaður í máli sem varðar frjálsar handfæraveiðar, en þar er leitað beint í smiðju Guðjóns Arnar Kristinssonar, sem sat á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn sáluga. Frumvarp hans um málið er sett fram efnislega óbreytt.
„Guðjón Arnar barðist fyrir því árum saman að almenningur fengi tækifæri til að stunda frjálsar handfæraveiðar. Sú barátta stuðlaði m.a. að því að opnað var á strandveiðar fyrir rúmum áratug síðan. Strandveiðarnar hafa skilað sjávarbyggðum miklu, en strandveiðikerfið er eigi að síður mörgum annmörkum háð. [...] Takmarkanir á atvinnufrelsi þurfa að byggjast á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Aflahámark sem takmarkar fiskveiðar á eingöngu að ná til þeirra veiða sem ógna fiskstofnum, ekki til sjálfbærra veiða. Handfæraveiðar eru sjálfbærar og ógna ekki fiskstofnum landsins,“ segir m.a. í greinargerð með frumvarpinu.
Ívilnanir fyrir rafknúna báta og flugvélar og betra símasamband
Jakob Frímann Magnússon er fyrsti flutningsmaður tveggja frumvarpa. Annað þeirra snýst um ívilnanir vegna nýrra og nýlegra flugvéla og báta, sem einungis ganga fyrir rafmagni. Virðisaukaskattur af slíkum tækjum myndi falla á brott, yrði frumvarpið að lögum. Hitt snýst um betra farsímasamband á þjóðvegum landsins, en það felur í sér að Fjarskiptastofu verði veitt heimild til þess að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki um að koma upp og reka fjarskiptavirki á ákveðnum stöðum, til þess að gloppur verði ekki í kerfinu.
„Tæknin er til staðar til að stoppa upp í götin en fjarskiptafyrirtæki virðast hafa lítinn áhuga á því mikilvæga verkefni. Ef fjarskiptafyrirtæki sjá sér ekki hagnaðarvon í því að tryggja öryggi á vegum landsins þá verða stjórnvöld að grípa inn í og útrýma þeim markaðsbresti,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Lestu meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars