Mynd: Bára Huld Beck

Flokkur fólksins lætur sér ekki duga að dotta

Þrátt fyrir að það hafi vakið athygli á fyrsta þingfundi vetrarins að einn nýrra þingmanna Flokks fólksins dottaði í þingsal hafa þingmenn flokksins hreint ekki setið auðum höndum í upphafi nýs þings, heldur lagt fram mörg þingmál, alls 50 talsins. Kjarninn rýndi í áherslumál flokksins, sem var einn af sigurvegurum kosninganna í september og er með sex þingmenn.

Meiri­hluti mál­anna frá þing­mönnum Flokks fólks­ins eru end­ur­unnið efni úr ranni flokks­ins frá síð­asta kjör­tíma­bili, en sum eru ný. Inga Sæland flokks­for­maður er fyrsti flutn­ings­maður alls 30 mála, 22 fram­lagðra frum­varpa og átta þings­á­lykt­un­ar­til­lagna, en ein­ungis eitt mál frá henni hefur ekki áður komið fyrir augu þings­ins.

Ást­hildur Lóa Þórs­dóttir er fyrsti flutn­ings­maður tíu frum­varpa, Guð­mundur Ingi Krist­ins­son er með fjögur frum­vörp í sínu nafni og hinir karl­arnir í þing­flokkn­um, Eyjólfur Ármanns­son, Jakob Frí­mann Magn­ús­son og Tómas A. Tóm­as­son, eru fyrstu flutn­ings­menn sam­tals sex mála.

Bar­áttu­mál Hags­muna­sam­taka heim­il­anna ofar­lega á baugi

Ekki þarf að koma á óvart að mörg frum­vörp líti dags­ins ljós frá Ást­hildi Lóu, sem verið hefur for­maður Hags­muna­sam­taka heim­il­anna und­an­farin ár. Hún var búin að lýsa því yfir í kosn­inga­bar­átt­unni að hún væri með all­nokkrar til­lögur að laga­breyt­ingum til­bún­ar.

Kennir ýmissa grasa í þeim málum sem hún leggur fram, en mörg snú­ast þau um stöðu neyt­enda á hús­næð­is­mark­aði, mál sem Ást­hildur Lóa hefur beitt sér fyrir að koma á dag­skrá stjórn­mál­anna und­an­farin ár á vett­vangi Hags­muna­sam­taka heim­il­anna.

Þannig lýtur eitt mál að því að hætta að miða stofn álagn­ingar fast­eigna­skatts við fast­eigna­mat og að skatt­ur­inn verði fremur lagður á „sem til­tekin fjár­hæð á hvern fer­metra fast­eigna“ svo fast­eigna­skattar taki ekki stökk þegar íbúða­verð snar­hækk­ar. Í öðru máli Ástu Lóu er lagt til að sett verði inn bráða­birgða­á­kvæði í lög um vexti og verð­trygg­ingu og húsa­leigu­lög sem tryggi að verð­tryggðar skuld­bind­ing­ar, hús­næð­is­lán og húsa­leiga, skuli ekki hækka á árinu 2022.

Enn annað mál snýr einnig að verð­tryggðum lán­um, en þar eru lagðar til breyt­ingar á lögum um neyt­enda- og fast­eigna­lán sem fela í sér að neyt­endum verði veittur réttur til aðfá verð­tryggðum lánum sínum breytt yfir í óverð­tryggð lán, án end­ur­nýj­unar láns­hæf­is- og greiðslu­mats, að ákveðnum skil­yrðum upp­fyllt­um.

Annað mál varðar greiðslu sér­eign­ar­sparn­aðar beint inn á hús­næð­is­lán, sem hefur staðið fyrstu kaup­endum til boða. Ásta Lóa og með­flutn­ings­menn hennar í þing­flokknum leggja til að „rétt­ur­inn til skatt­frjálsrar nýt­ingar sér­eign­ar­sparn­aðar til kaupa á fyrstu íbúð verði ekki ein­skorð­aður við fyrstu kaup, heldur verði ein­stak­lingum sem ekki hafa átt íbúð und­an­gengin þrjú ár einnig heim­ilt að nýta sér þetta úrræð­i.“

Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu segir að þetta sé meðal ann­ars miðað að þeim hópi fólks sem missti eigið hús­næði í kjöl­far banka­hruns­ins og hafi ekki náð að kom­ast aftur inn á fast­eigna­mark­að.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir hefur sett fram tíu frumvörp sem fyrsti flutningsmaður.
RÚV

Þrír þing­menn Pírata slást í lið með Ástu Lóu og öðrum í þing­flokki Flokks fólks­ins í máli sem fjallar um það að sam­tök neyt­enda fái auk­inn rétt til þess að leita til þar til bærra stjórn­valda fyrir hönd neyt­enda um úrlausn ýmissa mála. Frum­varp­inu er þannig ætlað að bregð­ast við ítrek­uðum frá­vís­unum stjórn­valda á slíkum málum á þeim grund­velli að sam­tök á sviði neyt­enda­verndar skorti lögvarða hags­muni af úrlausn mál­anna.

Flest mála for­manns­ins end­ur­flutt

Nær öll þeirra mála sem Inga Sæland er fyrsti flutn­ings­maður á eru end­ur­flutt mál frá síð­asta þingi. Þeirra á meðal er til­laga að styrkjum til kaupa á sér­út­búnum bif­reiðum fyrir hreyfi­haml­aða, auk frum­varpa um bann við rekstri spila­kassa á Íslandi, bann við okri á tímum hættu­á­stands, bann við blóð­mera­haldi (sem tveir þing­menn Vinstri grænna styðja nú), afnám allra skerð­inga elli­líf­eyris vegna atvinnu­tekna.

Að auki leggur Inga að nýju fram frum­vörp um að allir íbúar í fjöl­býl­is­húsum megi eiga kött eða hund nema auk­inn meiri­hluti í hús­fé­lagi segi til um annað og um nið­ur­greiðslu raf­orku til garð­yrkju­bænda, svo eitt­hvað sé nefnt.

Þþfbsoems­soh verði Sjón­stöð

Eitt nýtt mál er sett fram af hálfu Ingu Sæland. Það er frum­varp um að nafni stofn­unar sem heitir í dag Þjón­ustu- og þekk­ing­ar­mið­stöðvar fyrir blinda, sjón­skerta og ein­stak­linga með sam­þætta sjón- og heyrn­ar­skerð­ingu verði ein­fald­lega breytt í Sjón­stöð Íslands.

„Við end­ur­skoðun laga í gegnum árin hefur heitið ítrekað tekið breyt­ingum og stafa­fjöld­inn auk­ist. Það tíðkast almennt ekki í heiti ann­arra stofn­ana að telja upp í heiti þeirra hvert og eitt ein­asta við­fangs­efni stofn­un­ar. Því er engin ástæða til að beita þeirri for­múlu ein­ungis um heiti þess­arar stofn­un­ar,“ segir í grein­ar­gerð með frum­varp­inu.

Vara­for­maður flokks­ins Guð­mundur Ingi Krist­ins­son leggur fram fjögur frum­vörp, sem öll eru end­ur­flutt frá fyrri þing­um.

„Fæði, klæði og hús­næði“ fyrir náms­menn

Tómas A. Tóm­as­son, sem er nýr þing­maður og jafn­framt sá elsti í þing­inu, er fyrsti flutn­ings­maður frum­varps sem hefur það að mark­miði að koma í veg fyrir skerð­ingar á fram­færslu náms­manna vegna launa­tekna. Sam­kvæmt frum­varp­inu myndu launa­tekjur ekki hafa nein áhrif á fram­færslu­lán frá Mennta­sjóði náms­manna.

Tómas A. Tómasson vill að námsmenn fái að vinna eins mikið og þeim lystir með námi, án þess að það skerði framfærslulán frá Menntasjóði.
Aðsend

„Ein helsta hindr­unin í vegi náms­manna sem þurfa að treysta á fram­færslu­lán frá Mennta­sjóði eru reglur um skerð­ingar á fram­færslu vegna tekna náms­manna. Hafi náms­maður tekjur umfram frí­tekju­mörk úthlut­un­ar­reglna skerð­ist fram­færsla frá Mennta­sjóði veru­lega. Þetta er sér­stak­lega íþyngj­andi í ljósi þess að fram­færsla Mennta­sjóðs dugar almennt ekki ein og sér til að greiða fyrir fæði, klæði og hús­næð­i,“ segir í grein­ar­gerð með frum­varp­inu.

Sunda­braut fyrr, frjálsar hand­færa­veiðar og ný Breiða­fjarð­ar­ferja

Eyjólfur Ármanns­son, odd­viti Flokks fólks­ins í Norð­vest­ur­kjör­dæmi, er fyrsti flutn­ings­maður þings­á­lykt­un­ar­til­lagna um sam­göngu­mál sem tengj­ast því kjör­dæmi. Í fyrsta lagi leggur hann til að ný Breiða­fjarð­ar­ferja verði keypt og að þar til ný ferja verði keypt skuli nota gamla Herj­ólf í reglu­legum ferju­sigl­ingum um Breiða­fjörð­inn. Auk þing­flokks Flokks fólks­ins eru þeir Ásmundur Frið­riks­son þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks og Bjarni Jóns­son þing­maður Vinstri grænna með á þessu máli.

Annað mál Eyj­ólfs snýst svo um að lagn­ingu Sunda­brautar verði flýtt og þeim lokið fyrir árs­lok 2027, en ekki árið 2031 eins og stefnt er að í stjórn­ar­sátt­mála. „Það tók ekki ára­tugi að færa Kára­hnjúka­virkjun frá hug­mynd að veru­leika þrátt fyrir að sú hug­mynd hefði í alla staði verið mun flókn­ari og stærri fram­kvæmd en lagn­ing Sunda­braut­ar. Sunda­braut er fram­kvæmd sem nán­ast allir eru sam­mála um að sé mik­il­væg fyrir sam­fé­lagið og ekki er eftir neinu að bíða. Ef allir leggj­ast á eitt má hefja fram­kvæmd­ina á allra næstu árum,“ segir í greina­gerð með til­lög­unni.

Eyjólfur Ármannsson var oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.
Aðsend

Eyjólfur er svo einnig fyrsti flutn­ings­maður í máli sem varðar frjálsar hand­færa­veið­ar, en þar er leitað beint í smiðju Guð­jóns Arnar Krist­ins­son­ar, sem sat á þingi fyrir Frjáls­lynda flokk­inn sál­uga. Frum­varp hans um málið er sett fram efn­is­lega óbreytt.

„Guð­jón Arnar barð­ist fyrir því árum saman að almenn­ingur fengi tæki­færi til að stunda frjálsar hand­færa­veið­ar. Sú bar­átta stuðl­aði m.a. að því að opnað var á strand­veiðar fyrir rúmum ára­tug síð­an. Strand­veið­arnar hafa skilað sjáv­ar­byggðum miklu, en strand­veiði­kerfið er eigi að síður mörgum ann­mörkum háð. [...] Tak­mark­anir á atvinnu­frelsi þurfa að byggj­ast á sterkum rökum og ekki ganga lengra en nauð­syn kref­ur. Afla­há­mark sem tak­markar fisk­veiðar á ein­göngu að ná til þeirra veiða sem ógna fisk­stofn­um, ekki til sjálf­bærra veiða. Hand­færa­veiðar eru sjálf­bærar og ógna ekki fisk­stofnum lands­ins,“ segir m.a. í grein­ar­gerð með frum­varp­inu.

Íviln­anir fyrir raf­knúna báta og flug­vélar og betra síma­sam­band

Jakob Frí­mann Magn­ús­son er fyrsti flutn­ings­maður tveggja frum­varpa. Annað þeirra snýst um íviln­anir vegna nýrra og nýlegra flug­véla og báta, sem ein­ungis ganga fyrir raf­magni. Virð­is­auka­skattur af slíkum tækjum myndi falla á brott, yrði frum­varpið að lög­um. Hitt snýst um betra far­síma­sam­band á þjóð­vegum lands­ins, en það felur í sér að Fjar­skipta­stofu verði veitt heim­ild til þess að leggja kvaðir á fjar­skipta­fyr­ir­tæki um að koma upp og reka fjar­skipta­virki á ákveðnum stöð­um, til þess að gloppur verði ekki í kerf­inu.

„Tæknin er til staðar til að stoppa upp í götin en fjar­skipta­fyr­ir­tæki virð­ast hafa lít­inn áhuga á því mik­il­væga verk­efni. Ef fjar­skipta­fyr­ir­tæki sjá sér ekki hagn­að­ar­von í því að tryggja öryggi á vegum lands­ins þá verða stjórn­völd að grípa inn í og útrýma þeim mark­aðs­brest­i,“ segir í grein­ar­gerð með frum­varp­inu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiInnlent