Fólkið sem hverfur sporlaust, og enginn veit hvað varð um, skilur eftir sig spurningar sem er ósvarað. Mörg heimsfræg mál þar sem mannshvörf eru í brennidepli hafa komið upp. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur kynnti sér söguna að baki tíu merkilegum mannshvörfum.
- Heinrich Müller
Margir nasistar hurfu í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Stærsta nafnið var óumdeilanlega Heinrich Müller, leiðtogi leynilögreglunnar Gestapo frá árinu 1939. Hann var með Adolf Hitler í neðanjarðarbyrginu þegar foringinn svipti sig lífi, þann 30. apríl 1945, en næsta dag hvarf Müller. Hann á að hafa sagt “ég hef ekki minnsta áhuga að láta Rússana taka mig til fanga”. Sjálfsmorð voru daglegt brauð í byrginu og það er vel hugsanlegt að Müller hafi tekið eigið líf. Aftur á móti eru engin vitni að því og ekkert lík fannst. Fjölmargir leituðu Müllers í áratugi eftir stríðið, þar á meðal starfsmenn Simon Wiesenthal stofnunarinnar, vestur-þýska lögreglan og bandaríska leyniþjónustan CIA. Sumir telja hann hafa flúið til Suður Ameríku en aðrir að hann hafi starfað á laun fyrir Sovétríkin.
- Bison Dele
Bison Dele (fæddur Brian Williams) var körfuknattleiksleikmaður sem spilaði í NBA deildinni á árunum 1991 til 1999. Hann var hæfileikaríkur miðherji sem var meðal annars í meistaraliði Chicago Bulls árið 1997. Það kom öllum á óvart þegar hann hafnaði tugmilljóna dollara samningi á hápunkti ferilsins og lagði skóna á hilluna. Dele hvarf í Suður-Kyrrahafinu, nálægt frönsku eyjunni Tahítí. Hann sigldi ásamt bróður sínum, kærustu og skipstjóra á lítilli snekkju sem hét Hakuna Matata. Lögreglan fann bróður hans, Miles Dabord, á flótta í Phoenix en hann hafði komið að landi í Mexíkó. Frásögn Dabord af atburðum í snekkjunni þóttu ekki trúanlegar og skömmu seinna tók hann of stóran skammt af insúlíni, féll í dá og lést. Líklegt þykir að Dabord hafi myrt hina þrjá ferðalanganna.
- Azaria Chamberlain
Mál Azariu litlu er eitt af óhugnarlegustu morðmálum sögunnar. Azaria var tveggja mánaða gömul þegar hún hvarf úr tjaldi fjölskyldunnar í útilegu við hina frægu Uluru kletta í Ástralíu árið 1980. Foreldrarnir héldu því fram að dingó (ástralskur villihundur) hefði komist í tjaldið og tekið dóttur þeirra en lögreglunni fannst það ekki trúlegt. Móðirin Lindy Chamberlain var ákærð fyrir morð og faðirinn Michael fyrir aðkomu að morðinu. Fátt annað komst að í fjölmiðlum Ástralíu næstu tvö árin og ýmis konar gróusögur komust á kreik. Meðal annars að foreldarnir hefðu fórnað barninu í trúarlegum tilgangi en þau voru sjöunda-dags aðventistar. Þau voru dæmd sek og Lindy fékk lífstíðardóm en þremur árum síðar fannst bútur úr fötum Azariu við dingóbæli og foreldarnir sýknaðir í kjölfarið. Lík hennar fannst þó aldrei.
- Ambrose Bierce
Bierce var einn af þekktustu rithöfundum og blaðamönnum Bandaríkjanna á 19. öld. Verk hans þóttu kaldhæðin og nöpur en vinsældir hans og áhrif voru mikil. Hann lagði til dæmis grunnin að þeim heimi sem Robert Chambers og H.P. Lovecraft skrifuðu inn í. Árið 1913 var Bierce orðinn rúmlega sjötugur og sumir segja að hann hafi verið orðinn leiður á lífinu. Hann hélt suður á bóginn til Mexíkó til að hitta byltingarleiðtogann Pancho Villa. Það seinasta sem fréttist frá honum var bréf sem hann sendi frá bænum Chihuahua til ástkonu sinnar, Blanche Partington. Ýmsar kenningar eru á kreiki um afdrif Bierce. Flestar á þá leið að hann hafi dáið í Mexíkó, annað hvort í bardaga eða verið tekinn af lífi. Aðrir halda því fram að hann hafi aldrei farið til Mexíkó heldur tekið eigið líf í heimalandinu.
- Richey Edwards
Edwards var gítarleikari og lagahöfundur rokkhljómsveitarinnar Manic Street Preachers. Bandið var stofnað í Wales árið 1986 og sló í gegn í upphafi tíunda áratugarins. Edwards var frægasti meðlimur hljómsveitarinnar. Hann var litríkur karakter en þunglyndur og átti það til að meiða sjálfan sig á ýmsan hátt, t.d. skera sig og brenna með sígarettustubbum. Í febrúar 1995 átti Edwards bókað flug frá London til Bandaríkjanna. Hann fór aldrei um borð heldur keyrði heim til Wales. Seinna fannst bíllinn hans yfirgefinn og augljóst að Edwards hafði búið í honum í nokkra daga. Margir telja að hann hafi stokkið í ána Severn en aðrir telja það óhugsandi. Hann hafði tekið út talsverða peninga fyrir hvarfið og sumir segjast hafa séð hann, t.d. í Indlandi og á Kanaríeyjum. Hann var lýstur lagalega dáinn árið 2008.
Auglýsing
- Amelia Earhart
Árið 1928 var Earhart fyrsta konan til að fljúga yfir Atlantshafið og varð á komandi árum einn frægasti fluggarpur heims. Árið 1936 tók hún að sér mun stærra verkefni þ.e. að fljúga í kringum hnöttinn. Ári seinna hóf hún ferðina en þurfti að hætta við vegna vélabilunar og skemmda. Hún var þó ekki af baki dottin og reyndi aftur skömmu síðar. Ferðin gekk vel og Earhart flaug ásamt leiðsögumanninum Fred Noonan austur frá Kaliforníu yfir Ameríku, Afríku, Asíu og Ástralíu. Seinasti spölurinn var sá erfiðasti, yfir Kyrrahafið. Þar misstu loftskeytamenn allt samband við vélina og mikil leit hófst. Alls kyns sögur eru til af afdrifum Earhart, að hún hafi hrapað á lítilli eyju, náð leiðarlokum eða orðið njósnari í stríðinu. Lang líklegast verður þó að teljast að vélin hafi orðið eldsneytislaus og hrapað í Kyrrahafið.
- Anastasia Romanov
Anastasia prinsessa, dóttir Nikulásar II Rússlandskeisara, er frægasta horfna manneskjan sem aldrei hvarf. Hin 17 ára gamla Anastasia var tekin af lífi ásamt foreldrum sínum, fjórum systkinum og fylgdarliði þann 17. júlí árið 1918. Það var hin alræmda leynilögregla bolsjévíka Cheka sem sá um aftökuna í Yekaterinburg við Úralfjöll. Líkin voru falin og mikil leynd yfir aftökunni. Einhverra hluta vegna fór sá kvittur á kreik að mögulega hefðu tvö yngstu börnin, Alexei prins og Anastasia sloppið. Fjölmargar konur komu fram á næstu árum og sögðust vera prinsessan. Hvatinn var sennilega sá mikli Romanov auður sem lá í bankahvelfingum í Sviss. Það voru skrifaðar bækur, leikrit og kvikmyndir um flótta Anastasiu. DNA sýni úr líkfundum frá árunum 1979 og 2007 staðfesta þó að öll Romanov börnin voru tekin af lífi.
- Alcatraz þríeykið
Fangelsið á Alcatraz eyju í Kaliforníu er líklega frægasta fangelsi sögunnar þó að það hafi aðeins verið starfrækt í um 30 ár. Árið 1962, einu ári áður en fangelsinu var lokað, náðu þrír fangar að sleppa og var það eina flóttatilraunin sem tókst í sögu stofnunarinnar. Frank Morris og bræðurnir John og Clarence Anglin sem allir voru dæmdir bankaræningjar höfðu skipulagt flóttann ásamt fjórða fanganum, Allen West, sem tókst ekki að komast úr klefa sínum. Fangarnir bjuggu til höfuð úr pappamassa sem þeir settu í rúm sín til að villa um fyrir fangavörðunum. Þeir komust út um loftræstikerfið og hófust svo handa við að gera fleka og björgunarvesti. Þeir náðu að klifra niður pípu utan á byggingunni og svo yfir næstum fjögurra metra háa gaddavírsgirðingu. Þaðan héldu þeir til hafs og sáust aldrei meir.
- Madeleine McCann
Hin breska Madeleine McCann var þriggja ára þegar hún hvarf af hótelherbergi í Algarve í Portúgal árið 2007. Madeleine var sofandi ásamt yngri systkinum sínum á meðan foreldrarnir borðuðu á veitingastað nærri hótelinu. Augljóst er að Madeleine var rænt en mistök við rannsókn málsins leiddu til þess að foreldrarnir voru grunaðir um að hafa myrt hana. Tveir einstaklingar á svæðinu segjast hafa séð karlmann bera sofandi barn nálægt svæðinu en ekkert hefur fengist með þessum vísbendingum. Málið fékk strax gríðarlega fjölmiðlaathygli og er ennþá í fersku minni fólks. Það sem sérstaklega stendur upp úr er hlutur foreldranna og mörgum þótti þau sína mikið ábyrgðarleysi að skilja börnin ein eftir inni á herbergi. Málið hefur verið margrannsakað en ennþá eru menn engu nær um hvað varð um hana.
- Jimmy Hoffa
Nafnið Jimmy Hoffa er orðið samgróið hugtakinu mannshvarf. Hoffa starfaði alla ævi í verkalýðshreyfingunni í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í IBT hreyfingunni sem samanstendur af vörubílsstjórum, hafnarverkamönnum, vélvirkjum og fleirum. Frá 1958 til 1971 leiddi hann hreyfinguna en á sjöunda áratugnum var hann dæmdur fyrir mútur, fjárdrátt og fleira og endaði í fangelsi. Hoffa var svo náðaður gegn því að hann segði sig úr hreyfingunni. Árið 1975 hvarf hann sporlaust í Detroit borg. Engum duldist að Hoffa hafði sterk tengsl við mafíuna. Hoffa átti að hitta tvo mafíuforingja daginn sem hann hvarf en þeir mættu ekki á fundinn. Ótal kenningar eru á lofti um afdrif hans, t.d. að hann hafi flúið mafíuna og að amerísk stjórnvöld hafi látið drepa hann. En líklegast var hann myrtur af mafíunni.