Forstjórinn sem var rekinn og stjórnin sem sendi ranga tilkynningu til Kauphallar um það
Eggert Þór Kristófersson var rekinn sem forstjóri Festi í byrjun mánaðar. Stór hluti hluthafa er verulega óánægður með þá ákvörðun og tilkynningu sem send var til Kauphallar vegna hennar, sem nú er til rannsóknar. Þeir vilja boða til hluthafafundar, sem gæti þýtt endalok núverandi stjórnar.
Þann 2. júní var send tilkynning til Kauphallar Íslands um að Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi hf. síðustu sjö árin, hefði sagt starfi sínu lausu.
Tilkynningin kom flestum í opna skjöldu enda hafði ekkert bent til þess að Eggert, sem verið hefur stjórnandi hjá Festi og fyrirrennurum þess félags frá 2011, væri á útleið. Rekstur félagsins, eins stærsta smásala landsins sem rekur meðal annars Krónuna, Elko og N1, gengur afar vel og Festi hefur haldið markaðsvirði sínu ágætlega það sem af er ári á meðan að flest félög í Kauphöllinni hafa verið að síga umtalsvert í verði.
Þá voru Eggert og félagið tiltölulega nýbúin að standa af sér mikinn storm þegar tveir af stærstu einkahluthöfum Festi, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson, voru ásakaðir um að hafa brotið á konu kynferðislega í heitum potti í félagi við annan mann haustið 2020. Þórður Már neyddist á endanum til að segja af sér stjórnarformennsku í Festi vegna málsins. Það gerðist 6. janúar síðastliðinn.
Heimildir Kjarnans herma að þá hafi aðrir stjórnarmenn, stórir hluthafar og stjórnendur félagsins allir reynt að þrýsta beint eða óbeint á að Þórður Már myndi hætta í nokkurn tíma, en án árangurs. Lög og samþykktir félagsins voru einfaldlega með þeim hætti að honum var í sjálfsvald sett milli aðalfunda hvort hann hætti eða ekki.
Á endanum var honum stillt upp við vegg af lífeyrissjóðum landsins, sem eiga um 70 prósent hlut í félaginu.
Ljóst er að Þórður Már kenndi Eggerti um afdrif sín. Í nýlegri Twitter-færslu sagði konan, Vítalía Lazareva, að Eggert hefði hlustað á hana og gefið henni tækifæri til að segja hennar hlið þegar Þórður Már „var búinn að leggja allt aðra sögu á borðið hjá stjórninni“. Vítalía sagðist eiga Eggerti mikið að þakka og vonaði að hann vissi það.
Það kom svo nokkuð fljótt á daginn að tilkynningin sem send var í Kauphöll um uppsögn Eggerts var röng. Hann sagði aldrei upp. Hann var rekinn.
Eggert ekki múlbundinn – hefur kosið að ræða ekki við fjölmiðla
Ýmislegt hefur verið skrifað um málið í fjölmiðlum síðustu daga. Það var meðal annars sagt frá því, í umfjöllun Mannlífs, að Eggert hefði fengið tveggja ára starfslokasamning og að samkvæmt honum mætti hann ekki tjá sig við fjölmiðla. Hvorugt er rétt. Eggert, sem var með 4,9 milljónir króna á mánuði í fyrra í laun, fékk samningsbundinn eins árs uppsagnarfrest en ekkert var samið um múlbindingu sem skilyrði fyrir því að hann yrði efndur. Eggert hefur einfaldlega valið að tala ekkert við fjölmiðla.
Tveir stjórnarmenn í Festi, nýi stjórnarformaðurinn Guðjón Reynisson, og Margrét Guðmundsdóttir, sem tók við sem varaformaður stjórnar þegar Þórður Már hætti, lögðu fram tillögu um að Eggerti yrði sagt upp störfum. Aðrir stjórnarmenn samþykktu hana og Eggerti var í kjölfarið greint frá þessari niðurstöðu.
Samkvæmt því sem viðmælendur Kjarnans segja var honum sagt að þetta væri tækifæri fyrir hann. Eggert væri enn ungur maður og hefði verið forstjóri í sjö ár. Það væri nægilegur tími og breytinga væri þörf.
Grunur var þó um að Þórður Már og Hreggviður hefðu þrýst á uppsögnina og viðmælendur Kjarnans segja að auk þess hafi Guðjón viljað fá Jón Björnsson, forstjóra Origo, til að stýra Festi. Hagsmunir hefðu því farið saman. Ekkert leyndarmál er að Festi hafði, fram að Vítalíu-málinu, verið stýrt af nokkrum einkahluthöfum að uppistöðu þótt lífeyrissjóðirnir færu sameiginlega með langstærstan eignarhluta. Þar voru Þórður Már, Hreggviður og Bjarni Ármansson fyrirferðamestir.
Sagt nær öruggt að hluthafafundur verði haldinn
Það er ekki lítið mál að segja ósatt í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Hlutabréfamarkaðurinn byggir á trausti um að allir hluthafar séu jafnsettir þegar kemur að upplýsingum sem geta haft áhrif á verðmæti bréfa. Ef gefin er út fölsk yfirlýsing um að æðsta stjórnanda hafi verið sagt upp, þegar hann var í raun rekinn, þá kallar það á rannsókn hjá Kauphöllinni og eftir atvikum fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.
Þegar lífeyrissjóðirnir sem eiga í Festi, og ýmsir aðrir einkafjárfestar, fóru að spyrjast fyrir um þessa ákvörðun kom einmitt þetta í ljós: tilkynningin var ekki sannleikanum samkvæm.
Hópur hluthafa fór í kjölfarið að kalla eftir því að hluthafafundur yrði boðaður til að fara yfir málið, en til þess að það verði þurfa eigendur tíu prósent hlutafjár að biðja um það. Heimildir Kjarnans herma að Bjarni Ármannsson, sem var utan þjónustusvæðis þegar Eggerti var sagt upp, hafi beitt sér einna mest við að kalla þann fund fram. Þeir Eggert eru búnir að þekkjast lengi, en Eggert var framkvæmdarstjóri Sjávarsýnar, fjárfestingafélags Bjarna áður en hann hóf störf hjá Festi.
Viðmælendur Kjarnans segja að það sé nánast öruggt, eins og sakir standa nú, að hluthafafundurinn verði haldinn. Gerist það er talið líklegast að núverandi stjórn segi af sér og ný verði kjörin.
Ný tilkynning – nýjar skýringar
Stjórn Festi brást loks við í gær, með nýrri tilkynningu til Kauphallar. Þar viðurkenndi stjórnin að hún hefði haft forgöngu um að óska eftir samtali við Eggert um starfslok hans fimmtudaginn 2. júní.
„Við þær aðstæður óskaði forstjóri eftir að fá að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp, með hagsmuni sjálf síns og félagsins í huga. Var fallist á þá málaleitan og náðust samningar samdægurs á milli félagsins og forstjóra um starfslok hans eins og tilkynning til kauphallar þann dag ber með sér,“ sagði í yfirlýsingu stjórnarinnar og því bætt við að það væri eitt helsta verkefni hennar að ráða og reka forstjóra – og samtal við aðra hluthafa í slíku ferli væri beinlínis á skjön við reglur Kauphallarinnar.
„Stjórnin stendur við ákvörðun sína og byggir hana á því mati að félagið standi nú á tímamótum eftir mörg ár uppbyggingar og mótunar. Þessi tímamót, á sama tíma og samkeppni er að aukast á öllum rekstrarsviðum félagsins og ólík verkefni blasa við, kalla á nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verkin. Hluthafar geta að sjálfsögðu haft aðra skoðun á þessu máli og komið þeirri skoðun á framfæri við stjórn eftir viðeigandi boðleiðum. Erfitt er hins vegar að taka það samtal í smáatriðum á hluthafafundi, þar sem til staðar eru, auk hluthafa, fjölmiðlar og fulltrúar samkeppnisaðila,“ sagði einnig í yfirlýsingu stjórnarinnar.
Ennfremur sagði að tenging málsins við mál Þórðar Más og aðdraganda afsagnar hans ætti sér enga stoð í raunveruleikanum og var því vísað algjörlega á bug. „Á sama tíma gerir stjórn sér grein fyrir, eins og samkeppnisyfirvöld, að eignarhald skráðra félaga á Íslandi, þar sem lífeyrissjóðir fara oft sameiginlega með meirihluta hlutafjár í samkeppnisaðilum, er vandmeðfarið og krefjandi. Lífeyrissjóðir verða að tryggja virka samkeppni samkeppnisaðila sem þeir eiga hluti í. Þá verður einnig að horfa til þess að Festi hf. er aðili að sátt við samkeppnisyfirvöld sem virða ber í hvívetna.“
Þessi skýring á uppsögn Eggerts rímar ekki við þær upplýsingar sem veittar hafa verið meginþorra stærri hluthafa, sem eru óánægðir með uppsögnina og þá tilkynningu sem send var til Kauphallar vegna hennar.
Þeim var sagt að Eggert hefði einfaldlega verið rekinn.
Lestu meira
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta