Mynd: Festi Eggert Þór Kristófersson
Eggert Þór Kristófersson hættir sem forstjóri Festi hf. í sumar.
Mynd: Festi

Forstjórinn sem var rekinn og stjórnin sem sendi ranga tilkynningu til Kauphallar um það

Eggert Þór Kristófersson var rekinn sem forstjóri Festi í byrjun mánaðar. Stór hluti hluthafa er verulega óánægður með þá ákvörðun og tilkynningu sem send var til Kauphallar vegna hennar, sem nú er til rannsóknar. Þeir vilja boða til hluthafafundar, sem gæti þýtt endalok núverandi stjórnar.

Þann 2. júní var send til­kynn­ing til Kaup­hallar Íslands um að Egg­ert Þór Krist­ó­fers­son, for­stjóri Festi hf. síð­ustu sjö árin, hefði sagt starfi sínu lausu.

Til­kynn­ingin kom flestum í opna skjöldu enda hafði ekk­ert bent til þess að Egg­ert, sem verið hefur stjórn­andi hjá Festi og fyr­ir­renn­urum þess félags frá 2011, væri á útleið. Rekstur félags­ins, eins stærsta smá­sala lands­ins sem rekur meðal ann­ars Krón­una, Elko og N1, gengur afar vel og Festi hefur haldið mark­aðsvirði sínu ágæt­lega það sem af er ári á meðan að flest félög í Kaup­höll­inni hafa verið að síga umtals­vert í verði.

Þá voru Egg­ert og félagið til­tölu­lega nýbúin að standa af sér mik­inn storm þegar tveir af stærstu einka­hlut­höfum Festi, Hregg­viður Jóns­son og Þórður Már Jóhann­es­son, voru ásak­aðir um að hafa brotið á konu kyn­ferð­is­lega í heitum potti í félagi við annan mann haustið 2020. Þórður Már neydd­ist á end­anum til að segja af sér stjórn­ar­for­mennsku í Festi vegna máls­ins. Það gerð­ist 6. jan­úar síð­ast­lið­inn.

Heim­ildir Kjarn­ans herma að þá hafi aðrir stjórn­­­ar­­menn, stórir hlut­hafar og stjórn­­endur félags­­ins allir reynt að þrýsta beint eða óbeint á að Þórður Már myndi hætta í nokkurn tíma, en án árang­­urs. Lög og sam­­þykktir félags­­ins voru ein­fald­­lega með þeim hætti að honum var í sjálfs­­vald sett milli aðal­­funda hvort hann hætti eða ekki.

Á end­anum var honum stillt upp við vegg af líf­eyr­is­sjóðum lands­ins, sem eiga um 70 pró­sent hlut í félag­inu.

Ljóst er að Þórður Már kenndi Egg­erti um afdrif sín. Í nýlegri Twitt­er-­færslu sagði kon­an, Vítalía Laz­areva, að Egg­ert hefði hlustað á hana og gefið henni tæki­­færi til að segja hennar hlið þegar Þórður Már „var búinn að leggja allt aðra sögu á borðið hjá stjórn­­inn­i“. Vítalía sagð­ist eiga Egg­erti mikið að þakka og von­aði að hann vissi það.

Það kom svo nokkuð fljótt á dag­inn að til­kynn­ingin sem send var í Kaup­höll um upp­sögn Egg­erts var röng. Hann sagði aldrei upp. Hann var rek­inn.

Egg­ert ekki múl­bund­inn – hefur kosið að ræða ekki við fjöl­miðla

Ýmis­legt hefur verið skrifað um málið í fjöl­miðlum síð­ustu daga. Það var meðal ann­ars sagt frá því, í umfjöllun Mann­lífs, að Egg­ert hefði fengið tveggja ára starfs­loka­samn­ing og að sam­kvæmt honum mætti hann ekki tjá sig við fjöl­miðla. Hvor­ugt er rétt. Egg­ert, sem var með 4,9 millj­ónir króna á mán­uði í fyrra í laun, fékk samn­ings­bund­inn eins árs upp­sagn­ar­frest en ekk­ert var samið um múl­bind­ingu sem skil­yrði fyrir því að hann yrði efnd­ur. Egg­ert hefur ein­fald­lega valið að tala ekk­ert við fjöl­miðla.

Tveir stjórn­ar­menn í Festi, nýi stjórn­ar­for­mað­ur­inn Guð­jón Reyn­is­son, og Mar­grét Guð­munds­dótt­ir, sem tók við sem vara­for­maður stjórnar þegar Þórður Már hætti, lögðu fram til­lögu um að Egg­erti yrði sagt upp störf­um. Aðrir stjórn­ar­menn sam­þykktu hana og Egg­erti var í kjöl­farið greint frá þess­ari nið­ur­stöðu.

Sam­kvæmt því sem við­mæl­endur Kjarn­ans segja var honum sagt að þetta væri tæki­færi fyrir hann. Egg­ert væri enn ungur maður og hefði verið for­stjóri í sjö ár. Það væri nægi­legur tími og breyt­inga væri þörf.

Þórður Már Jóhannsson, fyrrverandi stjórnarformaður Festi.
Festi

Grunur var þó um að Þórður Már og Hregg­viður hefðu þrýst á upp­sögn­ina og við­mæl­endur Kjarn­ans segja að auk þess hafi Guð­jón viljað fá Jón Björns­son, for­stjóra Origo, til að stýra Festi. Hags­munir hefðu því farið sam­an. Ekk­ert leynd­ar­mál er að Festi hafði, fram að Vítal­íu-­mál­inu, verið stýrt af nokkrum einka­hlut­höfum að uppi­stöðu þótt líf­eyr­is­sjóð­irnir færu sam­eig­in­lega með langstærstan eign­ar­hluta. Þar voru Þórður Már, Hregg­viður og Bjarni Ármans­son fyr­ir­ferða­mest­ir.

Sagt nær öruggt að hlut­hafa­fundur verði hald­inn

Það er ekki lítið mál að segja ósatt í til­kynn­ingu til Kaup­hallar Íslands. Hluta­bréfa­mark­að­ur­inn byggir á trausti um að allir hlut­hafar séu jafn­settir þegar kemur að upp­lýs­ingum sem geta haft áhrif á verð­mæti bréfa. Ef gefin er út fölsk yfir­lýs­ing um að æðsta stjórn­anda hafi verið sagt upp, þegar hann var í raun rek­inn, þá kallar það á rann­sókn hjá Kaup­höll­inni og eftir atvikum fjár­mála­eft­ir­liti Seðla­banka Íslands.

Þegar líf­eyr­is­sjóð­irnir sem eiga í Festi, og ýmsir aðrir einka­fjár­fest­ar, fóru að spyrj­ast fyrir um þessa ákvörðun kom einmitt þetta í ljós: til­kynn­ingin var ekki sann­leik­anum sam­kvæm.

Bjarni Ármannsson er á meðal stærstu einkafjárfestanna í Festi.
Icelandic Seafood International

Hópur hlut­hafa fór í kjöl­farið að kalla eftir því að hlut­hafa­fundur yrði boð­aður til að fara yfir mál­ið, en til þess að það verði þurfa eig­endur tíu pró­sent hluta­fjár að biðja um það. Heim­ildir Kjarn­ans herma að Bjarni Ármanns­son, sem var utan þjón­ustu­svæðis þegar Egg­erti var sagt upp, hafi beitt sér einna mest við að kalla þann fund fram. Þeir Egg­ert eru búnir að þekkj­ast lengi, en Egg­ert var fram­kvæmd­ar­stjóri Sjáv­ar­sýn­ar, fjár­fest­inga­fé­lags Bjarna áður en hann hóf störf hjá Festi.

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að það sé nán­ast öruggt, eins og sakir standa nú, að hlut­hafa­fund­ur­inn verði hald­inn. Ger­ist það er talið lík­leg­ast að núver­andi stjórn segi af sér og ný verði kjör­in.

Ný til­kynn­ing – nýjar skýr­ingar

Stjórn Festi brást loks við í gær, með nýrri til­kynn­ingu til Kaup­hall­ar. Þar við­ur­kenndi stjórnin að hún hefði haft for­göngu um að óska eftir sam­tali við Egg­ert um starfs­lok hans fimmtu­dag­inn 2. júní.

„Við þær aðstæður óskaði for­stjóri eftir að fá að segja upp störfum í stað þess að honum yrði sagt upp, með hags­muni sjálf síns og félags­ins í huga. Var fall­ist á þá mála­leitan og náð­ust samn­ingar sam­dæg­urs á milli félags­ins og for­stjóra um starfs­lok hans eins og til­kynn­ing til kaup­hallar þann dag ber með sér,“ sagði í yfir­lýs­ingu stjórn­ar­innar og því bætt við að það væri eitt helsta verk­efni hennar að ráða og reka for­stjóra – og sam­tal við aðra hlut­hafa í slíku ferli væri bein­línis á skjön við reglur Kaup­hall­ar­inn­ar.

„Stjórnin stendur við ákvörðun sína og byggir hana á því mati að félagið standi nú á tíma­mótum eftir mörg ár upp­bygg­ingar og mót­un­ar. Þessi tíma­mót, á sama tíma og sam­keppni er að aukast á öllum rekstr­ar­sviðum félags­ins og ólík verk­efni blasa við, kalla á nýja nálgun og nýjar hendur til að vinna verk­in. Hlut­hafar geta að sjálf­sögðu haft aðra skoðun á þessu máli og komið þeirri skoðun á fram­færi við stjórn eftir við­eig­andi boð­leið­um. Erfitt er hins vegar að taka það sam­tal í smá­at­riðum á hlut­hafa­fundi, þar sem til staðar eru, auk hlut­hafa, fjöl­miðlar og full­trúar sam­keppn­is­að­ila,“ sagði einnig í yfir­lýs­ingu stjórn­ar­inn­ar.

Enn­fremur sagði að teng­ing máls­ins við mál Þórðar Más og aðdrag­anda afsagnar hans ætti sér enga stoð í raun­veru­leik­anum og var því vísað algjör­lega á bug. „Á sama tíma gerir stjórn sér grein fyr­ir, eins og sam­keppn­is­yf­ir­völd, að eign­ar­hald skráðra félaga á Íslandi, þar sem líf­eyr­is­sjóðir fara oft sam­eig­in­lega með meiri­hluta hluta­fjár í sam­keppn­is­að­il­um, er vand­með­farið og krefj­andi. Líf­eyr­is­sjóðir verða að tryggja virka sam­keppni sam­keppn­is­að­ila sem þeir eiga hluti í. Þá verður einnig að horfa til þess að Festi hf. er aðili að sátt við sam­keppn­is­yf­ir­völd sem virða ber í hví­vetna.“

Þessi skýr­ing á upp­sögn Egg­erts rímar ekki við þær upp­lýs­ingar sem veittar hafa verið meg­in­þorra stærri hlut­hafa, sem eru óánægðir með upp­sögn­ina og þá til­kynn­ingu sem send var til Kaup­hallar vegna henn­ar.

Þeim var sagt að Egg­ert hefði ein­fald­lega verið rek­inn.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar