EPA Sydney
EPA

Frá aðdáun til andófs í álfu strangra takmarkana

Í Eyjaálfu hefur „núllstefnan“ í baráttunni við kórónuveiruna skilað eftirtektarverðum árangri; fáum dauðsföllum og engum smitum í nokkrum ríkjum. En eftir að kúrfan reis á ný í Ástralíu og enn eitt útgöngubannið var sett á fannst mörgum nóg komið. „Ferðakúlan“ við Nýja-Sjáland sprakk og þótt efnahagslífið þar hafi tekið við sér tóku strangar aðgerðir toll af viðkvæmustu hópunum.

Það segir sig sjálft að í Eyja­álfu eru margar eyj­ur. Þær eru stórar og smáar – sú stærsta vit­an­lega Ástr­al­ía, þar sem rúm­lega helm­ingur íbúa álf­unnar býr. Sú næst­stærsta að flat­ar­máli er Nýja-­Sjá­land og þar búa tæp­lega 5 millj­ónir manna. Þriðja í stærða­röð­inni er Papúa Nýja-Gínea sem er sú önnur fjöl­mennasta, með tæp­lega 8,5 millj­ónir íbúa. Eyríkið Tokelau, þar sem kókos­hnetur eru ein helsta útflutn­ings­var­an, er það fámenn­asta af þeim 23 sem finna má í Eyja­álfu (þau eru ýmist sjálf­stæð, sjálf­stjórn­ar­svæði eða með heima­stjórn upp að ein­hverju marki).

Eyjaálfa er minnsta heimsálfan og sú fámennasta að undanskildu Suðurskautslandinu. Mynd: Wikipedia

Eyja­álfa er þó kennd við hafið sem hana ein­kennir á flestum öðrum tungu­málum en íslensku. Oceania kall­ast hún á enskri tungu, svo dæmi sé tek­ið. Það er einmitt hafið sem hefur gert við­brögðin við kór­ónu­far­aldr­inum í Eyja­álfu nokkuð frá­brugðin því sem þekk­ist víð­ast ann­ars staðar á jarð­ar­kringl­unni. Til eyj­anna kemst eng­inn nema fljúg­andi eða á báti. Og þess konar landa­mærum er hægt að stýra með ein­fald­ari hætti en öðr­um.

Enda hefur sú stefna verið tekin í flestum ríkj­un­um. Að verj­ast veirunni á landa­mær­un­um. Setja á harðar tak­mark­an­ir. Jafn­vel skella nær alfarið í lás. Það hefur ekki alltaf tek­ist og veiran hefur fundið sér leið enda lúm­sk, eins og allir vita.

Kjarn­inn birtir þessa dag­ana frétta­skýr­ingar um stöðu heims­far­ald­urs­ins í hverri heims­álfu fyrir sig. Þegar hefur birst grein um Norð­ur­-Am­er­íku, með áherslu á Banda­ríkin og Kana­da, og Suð­ur­-Am­er­íku eða öllu heldur rómönsku Amer­íku sem telur löndin sunnan Banda­ríkj­anna.

Auglýsing

Far­ald­ur­inn í Eyja­álfu hófst 25. jan­úar í fyrra er kín­verskur rík­is­borg­ari sem flogið hafði til Mel­bo­urne nokkrum dögum fyrr greind­ist. Sam­dæg­urs greindust þrír til við­bót­ar, allt fólk sem var að koma heim til Ástr­alíu frá kín­versku borg­inni Wuh­an. Borg­inni þar sem kór­ónu­veiran upp­götv­að­ist í des­em­ber árið 2019.

Síðan þá hefur veiran breiðst út um stærstan hluta álf­unnar en þó virð­ist nokkrum eyríkjum hafa tek­ist að sleppa og á Nauru, Tonga og Tuvalu hafa enn engin smit greinst. Ekki heldur á hringrifj­unum þremur sem mynda eyja­kla­s­ann gull­fal­lega, Tokelau.

Ástr­alía og Nýja-­Sjá­land hafa verið nokkuð sam­stíga í aðgerðum sínum sem vakið hafa heims­at­hygli. Þar er rekin allt að því hrein­ræktuð „núll­stefna“. Sam­fé­lags­smit eru kæfð í fæð­ingu með mjög hörðum og afger­andi aðgerðum á borð við útgöngu­bann, ítar­lega smitrakn­ingu og mik­illi skim­un.

Innan við 100 þús­und smit af kór­ónu­veirunni hafa greinst í Eyja­álfu til þessa og skráð dauðs­föll af völdum COVID-19 eru í kringum 1.500. En þetta er ekki búið. Og í álfu þar sem bólu­setn­inga­hlut­fall er lægra en í öllum öðrum utan Afr­íku er far­ald­ur­inn aftur í upp­sveiflu í Ástr­al­íu, Frönsku Pólý­nesíu og Papúa Nýju-Gíneu. Ástandið er hins vegar lang­verst á Fiji.

Náttúrufegurð hringrifjanna sem mynda Tokelau er gríðarleg.
Wikipedia

Kyrra­hafs­eyj­urnar smit­lausu

Mitt á milli Hawaii og Nýja-­Sjá­lands, úti í miðju Suð­ur­-­Kyrra­hafi, rísa þrjár hring­laga kór­al­eyjur með sjáv­ar­lóni í miðj­unni. Þær raða sér, ásamt minni eyj­um, í klasa á um 200 kíló­metra svæði. Þær rísa ekki hátt. Hæsti punkt­ur­inn er aðeins um fimm metr­ar. Sam­an­lagt land­rými þeirra er aðeins rúm­lega 10 fer­kíló­metr­ar. Og á þeim búa aðeins um 1.500 manns.

Þetta er eyríkið Tokelau en þangað getur tekið allt upp undir sól­ar­hring að ferð­ast með báti frá nálæg­asta flug­velli sem er á Sam­oa­eyj­um.

Taukelau er með stjórnmálatengsl við Nýja-Sjáland. Mynd: Wikipedia

Þessi mikla ein­angrun á sinn þátt í því að ekki eitt ein­asta smit hefur greinst í þessu örsmáa sam­fé­lagi sem hefur ákveðna heima­stjórn, m.a. dóm­stól, en er að ýmsu leyti undir ákvörð­unum nýsjá­lenskra stjórn­valda kom­ið. Þannig hefur það verið frá árinu 1925.

Eyja­skeggjar gripu til þess ráðs snemma á árinu að banna þangað ferða­lög þótt þeir geti sjálfir, ef nauð­syn kref­ur, ferð­ast. Þetta bann kom þó ekki í veg fyrir að þann 19. júlí lagði nýsjá­lenska her­skipið HMNZS Well­ington að bryggju. Um borð var dýr­mætur farm­ur, 120 lyfjaglös, full af bólu­efni Pfiz­er-BioNTech sem nægði til að bólu­setja 720 manns.

Hæst­ráð­andi á eyj­un­um, Siopili Per­ez, tók við bólu­efn­inu með við­höfn en gætt var ítr­ustu var­úðar og her­menn­irnir sem fluttu efnið til eyj­anna héldu sig í góðri fjar­lægð.

Sá fyrsti sem fékk bólu­setn­ingu var Pulenuku Lino Isaia sem er nokk­urs konar borg­ar­stjóri á fjöl­menn­ustu eyj­unni, Nuku­nonu. „Þetta er ekk­ert til að hafa áhyggjur af,“ sagði hann eftir spraut­una. „Þetta er eins og að fá maura­bit og svo er það búið.“

Konungsríkið Tonga. Mynd: Wikipedia

Kon­ungs­ríkið Tonga er í sömu stöðu og Tokelau. Þar hefur ekk­ert smit greinst. Íbú­arnir eru þó mun fleiri, nokkuð yfir 100 þús­und. Þrátt fyrir smit­leysið er neyð­ar­stig almanna­varna enn í gildi á eyj­unum sem mynda ríkið sem m.a. felur í sér útgöngu­bann að næt­ur­lagi og 50 manna sam­komu­tak­mark­anir inn­an­dyra.

Tonga er eina kon­ungs­ríki frum­byggja á eyjum Kyrra­hafs­ins. Ríkið sam­anstendur af 169 eyjum og er búið á 36 þeirra.

Hið örsmáa ríki Nauru hefur státað sig af því að hafa slegið heims­met í bólu­setn­ingum og vera það fyrsta í heimi til að hefja bólu­setn­ingu allra full­orð­inna borg­ara sinna. Nauru fékk Astr­aZeneca-­bólu­efni í gegnum COVAX-­sam­starfið sem hefur það hlut­verk að útvega bólu­efni fyrir fátæk­ari ríki heims.

Nauru er aðeins um 21 ferkílómetri að stærð. Mynd: Wikipedia

Ekk­ert til­felli af COVID-19 hefur greinst í Nauru til þessa.

Nauru er sann­kallað örríki, bæði hvað varðar stærð og mann­fjölda. Flat­ar­mál þess­arar kór­al­eyju er aðeins um 21 fer­kíló­metri og íbú­arnir um tíu þús­und. Þetta er eitt afskekktasta ríki heims, mitt í Kyrra­haf­inu. Ferða­þjón­usta og land­bún­aður (kaffi­bauna­ræktun t.d.) eru mik­il­væg­ustu atvinnu­grein­arnar en helstu tekj­urnar koma þó frá sölu á veiði­heim­ildum til erlendra útgerða.

Eyja­skeggjar eru stoltir af því að allir full­orðnir hafi verið bólu­settir á nokkrum dögum og slá þannig heims­met að eigin sögn. „Allir hafa lagt sitt af mörkum til að halda Nauru öruggu og lausu við COVID,“ sagði í yfir­lýs­ingu stjórn­valda. Þau hafa lagt áherslu á að skima meðal íbú­anna reglu­lega. Nú eru þau hins vegar á tánum vegna fjölg­unar smita á öðrum eyjum í Kyrra­haf­inu.

Á Fiji er að finna mörg lúxushótel. Þar er fátækt meðal almennings útbreidd og eftir hrun ferðaþjónustunnar hafa margir misst lífsviðurværi sitt.
Marriot-hótelin

Ófremd­ar­á­stand á Fiji

Sjúkra­hús eru yfir­full og ringul­reið rík­ir. Eftir að hafa haldið veirunni nán­ast alfarið frá ströndum hefur far­ald­ur­inn nú náð fót­festu á Fiji, um 330 eyja klasa í Suð­ur­-­Kyrra­hafi. Síð­ustu tvær vikur hafa tæp­lega 900 smit verið að grein­ast að með­al­tali á dag hjá þjóð sem telur innan við 900 þús­und manns. Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­un­in, WHO, segir að hvergi ann­ars staðar í heim­inum sé far­ald­ur­inn í jafn mik­illi upp­sveiflu. Að minnsta kosti 206 dauðs­föll hafa orðið af völdum veirunnar frá upp­hafi far­ald­urs­ins, lang­flest nú í júní og júlí. 21 lést í síð­ustu viku og þeirra á meðal voru tvær óléttar og óbólu­settar konur.

Upp­haf bylgj­unnar er rakið til her­manns sem vann á far­sótt­ar­húsi á eyj­unum sem eru vin­sæll áfanga­staður ævin­týra­fólks. Hann er tal­inn hafa smit­ast af ferða­manni sem var að koma frá Ind­landi. Her­mað­ur­inn smit­aði svo sam­starfs­konu sína sem aftur smit­aði marga í sinni fjöl­skyldu. Það sem hins vegar gerði úts­lag­ið, og varð til þess að „of­ursmit“ átti sér stað, var að einn starfs­maður far­sótt­ar­húss­ins sótti jarð­ar­för. Um 500 aðrir voru við­stadd­ir.

Fiji var fyrir faraldurinn vinsæll áfangastaður ferðamanna. Mynd: Wikipedia

Stjórn­völd brugð­ust við bylgj­unni, sem hófst í lok apríl en hóf sitt mikla ris í júní, með umfangs­mik­illi skimun meðal þjóð­ar­inn­ar. Þá eru þau svæði sem hópsmit koma upp á afkvíuð, grímu­skylda sett á og útgöngu­bann er í gildi á stærstu þétt­býl­is­stöð­um.

En nú hafa þau látið af skimun­inni. Ekki eru einu sinni tekin sýni af öllum þeim sem eru með ein­kenni COVID-­sjúk­dóms­ins. Þess í stað er fólki sagt að vera í ein­angrun heima hjá sér og láta vita ef alvar­leg ein­kenni láta á sér kræla. Sjúkra­húsin ráða ekki við meiri fjölda.

Á Fiji er heil­brigð­is­kerfið veikt. Það var það löngu fyrir far­ald­ur­inn. Stærsta sjúkra­húsið á eyj­unni Suva var byggt árið 1923. Og aðstaðan eftir því. Lækn­ir, sem ekki vildi láta nafn síns get­ið, sagði í við­tali við nýsjá­lenska útvarps­stöð í vik­unni að allar heil­brigð­is­stofn­anir væru gríð­ar­lega und­ir­mann­aðar og starfs­fólkið hefði ekki þeim úrræðum til að dreifa sem þarf í heims­far­aldri. Það ótt­að­ist margt um líf sitt. Einn læknir sem vann í fram­lín­unni veik­ist nýverið eftir að sinna COVID-veik­um. Hann lést skömmu síð­ar. Þá hafi að minnsta kosti tveir aðrir heil­brigð­is­starfs­menn lát­ist í sömu vik­unni. Sam­starfs­fé­lagar þeirra eru beðnir um að halda áfram störf­um, jafn­vel þótt þeir grein­ist með COVID-19.

Talið er að rétt rúm­lega 10 pró­sent þjóð­ar­innar séu full­bólu­sett en um helm­ingur hennar hafi fengið að minnsta kosti einn skammt bólu­efn­is. Átak hefur verið gert í bólu­setn­ingum á eyj­unum síð­ustu vikur en hlut­fall jákvæðra sýna sem tekin eru frá degi til dags hefur stundum reynst yfir 27 pró­sent.

Fjöl­miðlar hafa greint frá því að yfir 4.000 þús­und sjúk­lingum með COVID-ein­kenni hafi verið vísað frá sjúkra­húsum á stærstu eyj­unni Viti Levu. Ástæð­an: Það eru öll sjúkra­rúmin upp­tek­in.

Á myndinni má sjá smitfjölda á hverja milljón íbúa á Fiji annars vegar og á Íslandi hins vegar. Mynd: Our world in data

En það er fleira en aðstöðu­leysi sem aukið hefur á vand­ann. Fátækt er gríð­ar­lega útbreidd meðal almenn­ings á Fiji. Þar búa margir sam­an. Og þétt sam­an. Að hlýta fyr­ir­mælum stjórn­valda um að halda sig heima dögum og jafn­vel vikum saman er ein­fald­lega ekki í boði hjá mörg­um. Atvinnu­leysi er útbreitt og hefur auk­ist enn meira í far­aldri á eyjum þar sem ferða­þjón­usta er und­ir­stöðu atvinnu­grein. Til að bjarga sér frá degi til dags reyna margir að afla sér tekna með far­and­sölu eða ráða sig í til­fallandi störf sem bjóð­ast óreglu­lega í skamman tíma í senn.

Fiji tókst að halda kór­ónu­veirunni úti með því að loka landa­mærum sínum í fyrra. En fórn­ar­kostn­að­ur­inn var gríð­ar­leg­ur. Þar er ekki í neina feita sjóði að grípa til að örva hag­kerf­ið. Enda dróst lands­fram­leiðslan saman um 19 pró­sent í fyrra. Fá ríki urðu jafn illa úti og aldrei fyrr hefur Fiji hlotið slíkt efna­hags­legt högg.

Auglýsing

Bylgja rís og bólu­efni skortir

Ástr­al­ía, þar sem um 25 millj­ónir manna búa, hlaut í upp­hafi lof fyrir við­brögð sín við far­aldr­in­um. Þar hafa innan við 40 þús­und smit greinst og rúm­lega 920 lát­ist vegna COVID-19.

En bylgja hófst í júní og sam­kvæmt stefnu stjórn­valda var þegar gripið til harðra tak­mark­ana. Sökum þess hve eyjan er stór er útbreiðsla veirunnar hins vegar mjög svæð­is­bund­in. Til útgöngu­banns var gripið í Nýja Suð­ur­-Wa­les, þar sem smit­fjöld­inn hefur verið einna mestur und­an­far­ið. Þessi ráð­stöf­un, sem hefur ítrekað verið fram­lengd, hefur farið þver­öf­ugt ofan í marga og til fjölda­mót­mæla kom­ið. Ástr­alski her­inn hefur verið kall­aður út í Sydney til að aðstoða yfir­völd, m.a. við að fram­fylgja sótt­varna­ráð­stöf­un­um.

Útgöngu­bannið í Sydney átti að standa í þrjá daga. Það stendur enn og hefur verið fram­lengt um fjórar vikur eða til 28. ágúst. Segja má að þetta sé í fyrsta sinn frá því far­ald­ur­inn hófst sem sú skyndi­að­gerð bregst. Skýr­ingin felst sjálf­sagt í því að bólu­setn­ing er hafin þótt hún sé mun minni þar í landi en þekk­ist t.d. í flestum löndum Evr­ópu. Stjórn­völd hafa verið harð­lega gagn­rýnd fyrir seina­gang­inn en þau veðj­uðu í upp­hafi á bólu­efni sem fram­leiða átti í land­inu en brást á síð­ustu stigum vís­inda­rann­sókna. Fleira hefur farið úrskeiðis hvað bólu­efnin varðar og Ástr­a­lar búnir að fá nóg. Þús­undir þeirra hafa því þram­mað um stræti og torg, ævareiðir yfir enn einu útgöngu­bann­inu.

Bólusetningar í Eyjaálfu eru langt frá því að vera á svipuðu róli og í Evrópu og Norður-Ameríku.
Our world in data

Það er delta-af­brigðið sem búið hefur um sig í sam­fé­lag­inu líkt og svo víða ann­ars stað­ar. Og áfram fjölgar smitum dag frá degi. Þótt þau séu nú aðeins um 200 á dag er það 200 meira en stjórn­völd vilja sjá: Núll.

„Það er ekki hægt að stytta sér leið, það er engin önnur leið. Við verðum bara að setja undir okkur haus­inn og fara í gegnum þetta,“ sagði Scott Morri­son for­sæt­is­ráð­herra í sjón­varps­ávarpi á dög­un­um. Hann hét því að öllum Áströlum myndi standa bólu­setn­ing til boða fyrir árs­lok. Aðeins fjórtán pró­sent þeirra eru full­bólu­settir í dag og í heild hefur rétt um þriðj­ungur fengið að minnsta kosti fyrri skammt bólu­efn­is. „Ég býst við því að um jólin munum við sjá allt aðra Ástr­alíu en við erum að sjá nún­a,“ sagði Morri­son.

Tómar götur í Sydney, stærstu borg Nýja Suður-Wales. Mynd: EPA

Það er útgöngu­bann í fleiri borgum og bæjum Ástr­alíu en í stór­borg­inni Sydn­ey. Og sýna­tökum og rakn­ingu smita er beitt af miklum móð. En áfram fjölgar smit­unum og nú mest hjá fólki undir fer­tugu.

Á einu ári hefur útgöngu­bann verið sett á oftar en tólf sinn­um. Sér­fræð­ingar telja að það sem nú er í gildi gæti varað allt þar til í sept­em­ber. Jafn­vel leng­ur.

Til að lægja óánægju­öldur til­kynnti Morrison í gær­morgun áætlun um hvernig aflétt­ingum verði háttað þegar um 70 pró­sent full­orð­inna verða full­bólu­sett. Sér­stakar reglur munu þá gilda fyrir bólu­setta og til­slak­anir gerðar á landa­mær­um. Er 80 pró­senta bólu­setn­ing­ar­hlut­falli verður náð á að hætta að setja á alls­herjar útgöngu­bann ef upp koma smit.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, og Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, tilkynntu „ferðabandalag“ sitt fyrir utan óperuhúsið í Sydney.
EPA

Á Nýja-­Sjá­landi hefur sama leið verið farin til að verj­ast far­aldr­in­um: Stjórn­völd vilja engin smit. Frá upp­hafi var lögð áhersla á sýna­tökur og ítar­lega smitrakn­ingu sem og per­sónu­bundnar sótt­varn­ir. Þetta hefur skilað eft­ir­tekt­ar­verðum árangri í bar­átt­unni við kór­ónu­veiruna. Aðeins 26 dauðs­föll í land­inu eru rakin til COVID-19. Eftir að tak­mörk­unum inn­an­lands var aflétt að mestu á síð­ari hluta síð­asta árs tók efna­hags­lífið þegar hratt við sér.

Nú eru þar innan við fimm­tíu greindir með COVID-19 og að með­tali tvö smit hafa greinst á dag síð­ustu vik­una. Tak­mark­anir á landa­mær­unum hafa þó verið og eru enn strang­ar. Landið var allt að því lokað nema fólki í brýnum erinda­gjörðum þegar verst lét. Síð­ar, þegar árangur hafði náð­st, var búin til svokölluð „ferða­kúla“ við grann­ana í Ástr­al­íu, svo íbúar land­anna gætu ferð­ast nokkuð frjálst á milli. En nú hún er sprung­in. Jacinda Ardern for­sæt­is­ráð­herra til­kynnti í vik­unni að næstu átta vik­urnar væri far­þega­flugi til og frá Ástr­alíu aflýst. Far­ald­ur­inn í fylk­inu Nýja Suð­ur­-Wa­les væri „greini­lega far­inn úr bönd­un­um“. Hún sagði aukna hættu stafa af delta-af­brigð­inu og við því þyrfti að bregð­ast. „Covid hefur breyst og við þurfum að gera það lík­a,“ sagði hún.

Ekk­ert sam­fé­lags­smit hefur verið á Nýja-­Sjá­landi síðan í febr­ú­ar. Um fimmtán pró­sent full­orð­inna eru full­bólu­sett og 22 pró­sent til við­bótar hafa fengið fyrri skammt­inn.

Auglýsing

Hinar hörðu tak­mark­anir á Nýja-­Sjá­landi hafa kostað sitt. Í nýrri skýrslu, sem kom út í vik­unni, segir að 18 þús­und fleiri börn búa við fátækt en áður en far­ald­ur­inn hófst. Börn úr minni­hluta­hóp­um, m.a. Maórí­ar, eru í meiri hættu en aðrir að falla í fátækt­ar­gildru. Þetta er högg fyrir Ardern sem hefur sett vel­ferð barna á odd­inn.

Nýja-Sjáland. Mynd: Wikipedia

Höf­undar rann­sókn­ar­innar segja að heim­il­is­leysi, mis­rétti og ótryggur aðgangur að mat­vælum hafi auk­ist í far­aldr­in­um. Fram kemur í skýrsl­unni, sem mann­rétt­inda­sam­tökin The Child Poverty Act­ion Group gerðu, að aðsókn í mat­ar­að­stoð hafi rokið upp þegar alls­herjar tak­mark­anir voru í gildi í mars á síð­asta ári. Eftir að útgöngu- og ferða­banni var aflétt dró úr aðsókn­inni en hún er enn helm­ingi meiri en hún var fyrir heims­far­ald­ur­inn.

Rík­is­stjórn Ardern hækk­aði m.a. bætur og gerði breyt­ingar á skatt­kerf­inu í tengslum við björg­un­ar­að­gerðir sínar vegna far­ald­urs­ins til að styðja við efna­m­inna fólk. Björg­un­ar­að­gerð­irn­ar, sem fólust einnig í marg­vís­legri aðstoð við fyr­ir­tæki og fólk sem tíma­bundið missti vinn­una eða komstu ekki til vinnu vegna úrgöngu­banns, voru einar þær mestu í heimi miðað við stærð hag­kerf­is­ins.

Höf­undar skýrsl­unnar benda hins vegar á að á sama tíma og hagur eigna­fólks hafi vænkast á síð­ustu mán­uðum hafi fátækt barna auk­ist um 10 pró­sent. „Rík­is­stjórnin komst hjá meiri­háttar heilsu­fars- og efna­hags­á­falli en plægði jarð­veg­inn fyrir ann­að: Fátækt, heim­il­is­leysi og mis­rétt­i.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar