Frá aðdáun til andófs í álfu strangra takmarkana
Í Eyjaálfu hefur „núllstefnan“ í baráttunni við kórónuveiruna skilað eftirtektarverðum árangri; fáum dauðsföllum og engum smitum í nokkrum ríkjum. En eftir að kúrfan reis á ný í Ástralíu og enn eitt útgöngubannið var sett á fannst mörgum nóg komið. „Ferðakúlan“ við Nýja-Sjáland sprakk og þótt efnahagslífið þar hafi tekið við sér tóku strangar aðgerðir toll af viðkvæmustu hópunum.
Það segir sig sjálft að í Eyjaálfu eru margar eyjur. Þær eru stórar og smáar – sú stærsta vitanlega Ástralía, þar sem rúmlega helmingur íbúa álfunnar býr. Sú næststærsta að flatarmáli er Nýja-Sjáland og þar búa tæplega 5 milljónir manna. Þriðja í stærðaröðinni er Papúa Nýja-Gínea sem er sú önnur fjölmennasta, með tæplega 8,5 milljónir íbúa. Eyríkið Tokelau, þar sem kókoshnetur eru ein helsta útflutningsvaran, er það fámennasta af þeim 23 sem finna má í Eyjaálfu (þau eru ýmist sjálfstæð, sjálfstjórnarsvæði eða með heimastjórn upp að einhverju marki).
Eyjaálfa er þó kennd við hafið sem hana einkennir á flestum öðrum tungumálum en íslensku. Oceania kallast hún á enskri tungu, svo dæmi sé tekið. Það er einmitt hafið sem hefur gert viðbrögðin við kórónufaraldrinum í Eyjaálfu nokkuð frábrugðin því sem þekkist víðast annars staðar á jarðarkringlunni. Til eyjanna kemst enginn nema fljúgandi eða á báti. Og þess konar landamærum er hægt að stýra með einfaldari hætti en öðrum.
Enda hefur sú stefna verið tekin í flestum ríkjunum. Að verjast veirunni á landamærunum. Setja á harðar takmarkanir. Jafnvel skella nær alfarið í lás. Það hefur ekki alltaf tekist og veiran hefur fundið sér leið enda lúmsk, eins og allir vita.
Kjarninn birtir þessa dagana fréttaskýringar um stöðu heimsfaraldursins í hverri heimsálfu fyrir sig. Þegar hefur birst grein um Norður-Ameríku, með áherslu á Bandaríkin og Kanada, og Suður-Ameríku eða öllu heldur rómönsku Ameríku sem telur löndin sunnan Bandaríkjanna.
Faraldurinn í Eyjaálfu hófst 25. janúar í fyrra er kínverskur ríkisborgari sem flogið hafði til Melbourne nokkrum dögum fyrr greindist. Samdægurs greindust þrír til viðbótar, allt fólk sem var að koma heim til Ástralíu frá kínversku borginni Wuhan. Borginni þar sem kórónuveiran uppgötvaðist í desember árið 2019.
Síðan þá hefur veiran breiðst út um stærstan hluta álfunnar en þó virðist nokkrum eyríkjum hafa tekist að sleppa og á Nauru, Tonga og Tuvalu hafa enn engin smit greinst. Ekki heldur á hringrifjunum þremur sem mynda eyjaklasann gullfallega, Tokelau.
Ástralía og Nýja-Sjáland hafa verið nokkuð samstíga í aðgerðum sínum sem vakið hafa heimsathygli. Þar er rekin allt að því hreinræktuð „núllstefna“. Samfélagssmit eru kæfð í fæðingu með mjög hörðum og afgerandi aðgerðum á borð við útgöngubann, ítarlega smitrakningu og mikilli skimun.
Innan við 100 þúsund smit af kórónuveirunni hafa greinst í Eyjaálfu til þessa og skráð dauðsföll af völdum COVID-19 eru í kringum 1.500. En þetta er ekki búið. Og í álfu þar sem bólusetningahlutfall er lægra en í öllum öðrum utan Afríku er faraldurinn aftur í uppsveiflu í Ástralíu, Frönsku Pólýnesíu og Papúa Nýju-Gíneu. Ástandið er hins vegar langverst á Fiji.
Kyrrahafseyjurnar smitlausu
Mitt á milli Hawaii og Nýja-Sjálands, úti í miðju Suður-Kyrrahafi, rísa þrjár hringlaga kóraleyjur með sjávarlóni í miðjunni. Þær raða sér, ásamt minni eyjum, í klasa á um 200 kílómetra svæði. Þær rísa ekki hátt. Hæsti punkturinn er aðeins um fimm metrar. Samanlagt landrými þeirra er aðeins rúmlega 10 ferkílómetrar. Og á þeim búa aðeins um 1.500 manns.
Þetta er eyríkið Tokelau en þangað getur tekið allt upp undir sólarhring að ferðast með báti frá nálægasta flugvelli sem er á Samoaeyjum.
Þessi mikla einangrun á sinn þátt í því að ekki eitt einasta smit hefur greinst í þessu örsmáa samfélagi sem hefur ákveðna heimastjórn, m.a. dómstól, en er að ýmsu leyti undir ákvörðunum nýsjálenskra stjórnvalda komið. Þannig hefur það verið frá árinu 1925.
Eyjaskeggjar gripu til þess ráðs snemma á árinu að banna þangað ferðalög þótt þeir geti sjálfir, ef nauðsyn krefur, ferðast. Þetta bann kom þó ekki í veg fyrir að þann 19. júlí lagði nýsjálenska herskipið HMNZS Wellington að bryggju. Um borð var dýrmætur farmur, 120 lyfjaglös, full af bóluefni Pfizer-BioNTech sem nægði til að bólusetja 720 manns.
Hæstráðandi á eyjunum, Siopili Perez, tók við bóluefninu með viðhöfn en gætt var ítrustu varúðar og hermennirnir sem fluttu efnið til eyjanna héldu sig í góðri fjarlægð.
Sá fyrsti sem fékk bólusetningu var Pulenuku Lino Isaia sem er nokkurs konar borgarstjóri á fjölmennustu eyjunni, Nukunonu. „Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af,“ sagði hann eftir sprautuna. „Þetta er eins og að fá maurabit og svo er það búið.“
Konungsríkið Tonga er í sömu stöðu og Tokelau. Þar hefur ekkert smit greinst. Íbúarnir eru þó mun fleiri, nokkuð yfir 100 þúsund. Þrátt fyrir smitleysið er neyðarstig almannavarna enn í gildi á eyjunum sem mynda ríkið sem m.a. felur í sér útgöngubann að næturlagi og 50 manna samkomutakmarkanir innandyra.
Tonga er eina konungsríki frumbyggja á eyjum Kyrrahafsins. Ríkið samanstendur af 169 eyjum og er búið á 36 þeirra.
Hið örsmáa ríki Nauru hefur státað sig af því að hafa slegið heimsmet í bólusetningum og vera það fyrsta í heimi til að hefja bólusetningu allra fullorðinna borgara sinna. Nauru fékk AstraZeneca-bóluefni í gegnum COVAX-samstarfið sem hefur það hlutverk að útvega bóluefni fyrir fátækari ríki heims.
Ekkert tilfelli af COVID-19 hefur greinst í Nauru til þessa.
Nauru er sannkallað örríki, bæði hvað varðar stærð og mannfjölda. Flatarmál þessarar kóraleyju er aðeins um 21 ferkílómetri og íbúarnir um tíu þúsund. Þetta er eitt afskekktasta ríki heims, mitt í Kyrrahafinu. Ferðaþjónusta og landbúnaður (kaffibaunaræktun t.d.) eru mikilvægustu atvinnugreinarnar en helstu tekjurnar koma þó frá sölu á veiðiheimildum til erlendra útgerða.
Eyjaskeggjar eru stoltir af því að allir fullorðnir hafi verið bólusettir á nokkrum dögum og slá þannig heimsmet að eigin sögn. „Allir hafa lagt sitt af mörkum til að halda Nauru öruggu og lausu við COVID,“ sagði í yfirlýsingu stjórnvalda. Þau hafa lagt áherslu á að skima meðal íbúanna reglulega. Nú eru þau hins vegar á tánum vegna fjölgunar smita á öðrum eyjum í Kyrrahafinu.
Ófremdarástand á Fiji
Sjúkrahús eru yfirfull og ringulreið ríkir. Eftir að hafa haldið veirunni nánast alfarið frá ströndum hefur faraldurinn nú náð fótfestu á Fiji, um 330 eyja klasa í Suður-Kyrrahafi. Síðustu tvær vikur hafa tæplega 900 smit verið að greinast að meðaltali á dag hjá þjóð sem telur innan við 900 þúsund manns. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, segir að hvergi annars staðar í heiminum sé faraldurinn í jafn mikilli uppsveiflu. Að minnsta kosti 206 dauðsföll hafa orðið af völdum veirunnar frá upphafi faraldursins, langflest nú í júní og júlí. 21 lést í síðustu viku og þeirra á meðal voru tvær óléttar og óbólusettar konur.
Upphaf bylgjunnar er rakið til hermanns sem vann á farsóttarhúsi á eyjunum sem eru vinsæll áfangastaður ævintýrafólks. Hann er talinn hafa smitast af ferðamanni sem var að koma frá Indlandi. Hermaðurinn smitaði svo samstarfskonu sína sem aftur smitaði marga í sinni fjölskyldu. Það sem hins vegar gerði útslagið, og varð til þess að „ofursmit“ átti sér stað, var að einn starfsmaður farsóttarhússins sótti jarðarför. Um 500 aðrir voru viðstaddir.
Stjórnvöld brugðust við bylgjunni, sem hófst í lok apríl en hóf sitt mikla ris í júní, með umfangsmikilli skimun meðal þjóðarinnar. Þá eru þau svæði sem hópsmit koma upp á afkvíuð, grímuskylda sett á og útgöngubann er í gildi á stærstu þéttbýlisstöðum.
En nú hafa þau látið af skimuninni. Ekki eru einu sinni tekin sýni af öllum þeim sem eru með einkenni COVID-sjúkdómsins. Þess í stað er fólki sagt að vera í einangrun heima hjá sér og láta vita ef alvarleg einkenni láta á sér kræla. Sjúkrahúsin ráða ekki við meiri fjölda.
Á Fiji er heilbrigðiskerfið veikt. Það var það löngu fyrir faraldurinn. Stærsta sjúkrahúsið á eyjunni Suva var byggt árið 1923. Og aðstaðan eftir því. Læknir, sem ekki vildi láta nafn síns getið, sagði í viðtali við nýsjálenska útvarpsstöð í vikunni að allar heilbrigðisstofnanir væru gríðarlega undirmannaðar og starfsfólkið hefði ekki þeim úrræðum til að dreifa sem þarf í heimsfaraldri. Það óttaðist margt um líf sitt. Einn læknir sem vann í framlínunni veikist nýverið eftir að sinna COVID-veikum. Hann lést skömmu síðar. Þá hafi að minnsta kosti tveir aðrir heilbrigðisstarfsmenn látist í sömu vikunni. Samstarfsfélagar þeirra eru beðnir um að halda áfram störfum, jafnvel þótt þeir greinist með COVID-19.
An 11-month-old baby is among the latest victims of Covid-19 in Fiji, health authorities said. https://t.co/MEYiNBM9w6 pic.twitter.com/fqQJhWD3Iy
— nzherald (@nzherald) July 30, 2021
Talið er að rétt rúmlega 10 prósent þjóðarinnar séu fullbólusett en um helmingur hennar hafi fengið að minnsta kosti einn skammt bóluefnis. Átak hefur verið gert í bólusetningum á eyjunum síðustu vikur en hlutfall jákvæðra sýna sem tekin eru frá degi til dags hefur stundum reynst yfir 27 prósent.
Fjölmiðlar hafa greint frá því að yfir 4.000 þúsund sjúklingum með COVID-einkenni hafi verið vísað frá sjúkrahúsum á stærstu eyjunni Viti Levu. Ástæðan: Það eru öll sjúkrarúmin upptekin.
En það er fleira en aðstöðuleysi sem aukið hefur á vandann. Fátækt er gríðarlega útbreidd meðal almennings á Fiji. Þar búa margir saman. Og þétt saman. Að hlýta fyrirmælum stjórnvalda um að halda sig heima dögum og jafnvel vikum saman er einfaldlega ekki í boði hjá mörgum. Atvinnuleysi er útbreitt og hefur aukist enn meira í faraldri á eyjum þar sem ferðaþjónusta er undirstöðu atvinnugrein. Til að bjarga sér frá degi til dags reyna margir að afla sér tekna með farandsölu eða ráða sig í tilfallandi störf sem bjóðast óreglulega í skamman tíma í senn.
Fiji tókst að halda kórónuveirunni úti með því að loka landamærum sínum í fyrra. En fórnarkostnaðurinn var gríðarlegur. Þar er ekki í neina feita sjóði að grípa til að örva hagkerfið. Enda dróst landsframleiðslan saman um 19 prósent í fyrra. Fá ríki urðu jafn illa úti og aldrei fyrr hefur Fiji hlotið slíkt efnahagslegt högg.
Bylgja rís og bóluefni skortir
Ástralía, þar sem um 25 milljónir manna búa, hlaut í upphafi lof fyrir viðbrögð sín við faraldrinum. Þar hafa innan við 40 þúsund smit greinst og rúmlega 920 látist vegna COVID-19.
En bylgja hófst í júní og samkvæmt stefnu stjórnvalda var þegar gripið til harðra takmarkana. Sökum þess hve eyjan er stór er útbreiðsla veirunnar hins vegar mjög svæðisbundin. Til útgöngubanns var gripið í Nýja Suður-Wales, þar sem smitfjöldinn hefur verið einna mestur undanfarið. Þessi ráðstöfun, sem hefur ítrekað verið framlengd, hefur farið þveröfugt ofan í marga og til fjöldamótmæla komið. Ástralski herinn hefur verið kallaður út í Sydney til að aðstoða yfirvöld, m.a. við að framfylgja sóttvarnaráðstöfunum.
Útgöngubannið í Sydney átti að standa í þrjá daga. Það stendur enn og hefur verið framlengt um fjórar vikur eða til 28. ágúst. Segja má að þetta sé í fyrsta sinn frá því faraldurinn hófst sem sú skyndiaðgerð bregst. Skýringin felst sjálfsagt í því að bólusetning er hafin þótt hún sé mun minni þar í landi en þekkist t.d. í flestum löndum Evrópu. Stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir seinaganginn en þau veðjuðu í upphafi á bóluefni sem framleiða átti í landinu en brást á síðustu stigum vísindarannsókna. Fleira hefur farið úrskeiðis hvað bóluefnin varðar og Ástralar búnir að fá nóg. Þúsundir þeirra hafa því þrammað um stræti og torg, ævareiðir yfir enn einu útgöngubanninu.
Það er delta-afbrigðið sem búið hefur um sig í samfélaginu líkt og svo víða annars staðar. Og áfram fjölgar smitum dag frá degi. Þótt þau séu nú aðeins um 200 á dag er það 200 meira en stjórnvöld vilja sjá: Núll.
„Það er ekki hægt að stytta sér leið, það er engin önnur leið. Við verðum bara að setja undir okkur hausinn og fara í gegnum þetta,“ sagði Scott Morrison forsætisráðherra í sjónvarpsávarpi á dögunum. Hann hét því að öllum Áströlum myndi standa bólusetning til boða fyrir árslok. Aðeins fjórtán prósent þeirra eru fullbólusettir í dag og í heild hefur rétt um þriðjungur fengið að minnsta kosti fyrri skammt bóluefnis. „Ég býst við því að um jólin munum við sjá allt aðra Ástralíu en við erum að sjá núna,“ sagði Morrison.
Það er útgöngubann í fleiri borgum og bæjum Ástralíu en í stórborginni Sydney. Og sýnatökum og rakningu smita er beitt af miklum móð. En áfram fjölgar smitunum og nú mest hjá fólki undir fertugu.
Á einu ári hefur útgöngubann verið sett á oftar en tólf sinnum. Sérfræðingar telja að það sem nú er í gildi gæti varað allt þar til í september. Jafnvel lengur.
Til að lægja óánægjuöldur tilkynnti Morrison í gærmorgun áætlun um hvernig afléttingum verði háttað þegar um 70 prósent fullorðinna verða fullbólusett. Sérstakar reglur munu þá gilda fyrir bólusetta og tilslakanir gerðar á landamærum. Er 80 prósenta bólusetningarhlutfalli verður náð á að hætta að setja á allsherjar útgöngubann ef upp koma smit.
Á Nýja-Sjálandi hefur sama leið verið farin til að verjast faraldrinum: Stjórnvöld vilja engin smit. Frá upphafi var lögð áhersla á sýnatökur og ítarlega smitrakningu sem og persónubundnar sóttvarnir. Þetta hefur skilað eftirtektarverðum árangri í baráttunni við kórónuveiruna. Aðeins 26 dauðsföll í landinu eru rakin til COVID-19. Eftir að takmörkunum innanlands var aflétt að mestu á síðari hluta síðasta árs tók efnahagslífið þegar hratt við sér.
Nú eru þar innan við fimmtíu greindir með COVID-19 og að meðtali tvö smit hafa greinst á dag síðustu vikuna. Takmarkanir á landamærunum hafa þó verið og eru enn strangar. Landið var allt að því lokað nema fólki í brýnum erindagjörðum þegar verst lét. Síðar, þegar árangur hafði náðst, var búin til svokölluð „ferðakúla“ við grannana í Ástralíu, svo íbúar landanna gætu ferðast nokkuð frjálst á milli. En nú hún er sprungin. Jacinda Ardern forsætisráðherra tilkynnti í vikunni að næstu átta vikurnar væri farþegaflugi til og frá Ástralíu aflýst. Faraldurinn í fylkinu Nýja Suður-Wales væri „greinilega farinn úr böndunum“. Hún sagði aukna hættu stafa af delta-afbrigðinu og við því þyrfti að bregðast. „Covid hefur breyst og við þurfum að gera það líka,“ sagði hún.
Ekkert samfélagssmit hefur verið á Nýja-Sjálandi síðan í febrúar. Um fimmtán prósent fullorðinna eru fullbólusett og 22 prósent til viðbótar hafa fengið fyrri skammtinn.
Hinar hörðu takmarkanir á Nýja-Sjálandi hafa kostað sitt. Í nýrri skýrslu, sem kom út í vikunni, segir að 18 þúsund fleiri börn búa við fátækt en áður en faraldurinn hófst. Börn úr minnihlutahópum, m.a. Maóríar, eru í meiri hættu en aðrir að falla í fátæktargildru. Þetta er högg fyrir Ardern sem hefur sett velferð barna á oddinn.
Höfundar rannsóknarinnar segja að heimilisleysi, misrétti og ótryggur aðgangur að matvælum hafi aukist í faraldrinum. Fram kemur í skýrslunni, sem mannréttindasamtökin The Child Poverty Action Group gerðu, að aðsókn í mataraðstoð hafi rokið upp þegar allsherjar takmarkanir voru í gildi í mars á síðasta ári. Eftir að útgöngu- og ferðabanni var aflétt dró úr aðsókninni en hún er enn helmingi meiri en hún var fyrir heimsfaraldurinn.
Ríkisstjórn Ardern hækkaði m.a. bætur og gerði breytingar á skattkerfinu í tengslum við björgunaraðgerðir sínar vegna faraldursins til að styðja við efnaminna fólk. Björgunaraðgerðirnar, sem fólust einnig í margvíslegri aðstoð við fyrirtæki og fólk sem tímabundið missti vinnuna eða komstu ekki til vinnu vegna úrgöngubanns, voru einar þær mestu í heimi miðað við stærð hagkerfisins.
Höfundar skýrslunnar benda hins vegar á að á sama tíma og hagur eignafólks hafi vænkast á síðustu mánuðum hafi fátækt barna aukist um 10 prósent. „Ríkisstjórnin komst hjá meiriháttar heilsufars- og efnahagsáfalli en plægði jarðveginn fyrir annað: Fátækt, heimilisleysi og misrétti.“