EPA

Framhjáhaldið sem felldi Hancock

Matt Hancock steig til hliðar sem heilbrigðisráðherra Bretlands um síðustu helgi eftir að The Sun birti mynd af honum vera að kyssa aðstoðarkonu sína, Ginu Coladangelo, á forsíðu blaðsins. Hingað til hafa ráðherrar í ríkisstjórn Borisar Johnson ekki þurft að taka pokann sinn eftir hneykslismál en þetta mál setur nýtt fordæmi.

Í störfum sínum sem heilbrigðisráðherra á tímum veirufaraldurs hefur Matt Hancock reglulega minnt fólk á mikilvægi þess að bæði fylgja sóttvarnareglum og huga að sóttvörnum almennt. Hann var til viðtals á sjónvarpsstöðinni Sky í september í fyrra þegar talið barst að sóttvörnum og kynlífi. „Við skulum túlka reglurnar bókstaflega, það er í lagi að stunda kynlíf svo lengi sem maður sé í föstu sambandi,“ sagði Matt hálfvandræðalega í viðtalinu. Þessi orð hans hafa nýlega verið rifjuð upp vegna þess að Matt sjálfur hefur átt í ástarsambandi við aðstoðarkonu sína, Ginu Coladangelo, þrátt fyrir að vera sjálfur harðgiftur.

Málið komst upp fyrir um viku síðan og vakti strax reiði, bæði meðal almennings sem og þingmanna stjórnarandstöðunnar, enda fór ráðherrann gegn ráðleggingum sinnar eigin ríkisstjórnar. Þá hafa einhverjir furðað sig á því að það hafi þurft framhjáhald til þess að velta heilbrigðisráðherra af stalli en ekki meint sinnuleysi hans í starfi á tímum veirufaraldurs sem hefur dregið fleiri en 150 þúsund til dauða í Bretlandi.

Vakti son sinn til að segja honum frá hjónaskilnaði

Síðdegis á fimmtudag í síðustu viku má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Matt Hancock hafði nýlokið að ræða málefni bresku heilbrigðisþjónustunnar NHS í fulltrúadeild breska þingsins þegar hann fékk símtal frá breska dagblaðinu The Sun. Í símtalinu var Hancock tjáð að blaðið hafi undir höndum myndefni sem sýnir hann og Ginu Coladangelo kyssast á skrifstofu Hancock.

Matt og Gina hafa þekkst lengi. Þau störfuðu bæði við stúdentaútvarpið í Oxford en þau lögðu stund sama nám í Exeter College, lærðu heimspeki, stjórnmála- og hagfræði, á deild sem hefur stundum verið líkt við útungunarstöð fyrir stjórnmálafólk. Gina hóf störf fyrir Matt árið 2019 þegar hann var til skamms tíma í framboði til formanns Íhaldsflokkins.

Auglýsing

Eftir að símtalinu frá The Sun lauk á Hancock að hafa haldið heim til eiginkonu sinnar, Mörthu Hancock, sagt henni frá yfirvofandi umfjöllun blaðsins, frá myndunum sem umfjöllunin byggði á og lýst því yfir að hjónabandi þeirra væri lokið. Því næst vakti hann yngsta son þeirra hjóna, átta ára gamlan, til þess að segja honum frá yfirvofandi hjónaskilnaði foreldranna.

Forsíða The Sun föstudaginin 25. júní.

Í umfjöllun Daily Mail er haft eftir vinum Hancock hjónanna að opinberun Matt hafi komið Mörthu algjörlega í opna skjöldu. Hún hafi talið sig vera í hamingjusömu hjónabandi og traustu. Vinir Matt hafa hins vegar sagt að alvara sé í sambandi þeirra Ginu, þrátt fyrir að það hafi ekki staðið lengi yfir, hann hafi sjálfur í hug að stofna með henni heimili.

Málinu lokið að mati forsætisráðherra eftir afsökunarbeiðni

Þrátt fyrir að Matt Hancock sé nú búinn að segja af sér þá tók hann sér aðeins lengri tíma til þess að segja skilið við ráðherraembættið heldur en hann tók sér til þess að segja skilið við eiginkonuna. Hann sendi frá sér yfirlýsingu um hádegisbil á föstudag, sama dag og mynd þeirra Ginu birtist á forsíðu The Sun. Í yfirlýsingunni baðst hann afsökunar á því að hafa gengið gegn tilmælum um fjarlægðarmörk, hann sagði sig hafa brugðist fólki og að hann sæi eftir því. Engu að síður ætlaði hann að halda áfram að gegna embætti ráðherra, „Ég mun halda áfram að einbeita mér að þeirri vinnu að koma þjóðinni út úr þessum faraldri og yrði þakklátur ef mér og minni fjölskyldu yrði veitt næði vegna þessa máls,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Hancocks.

Sú afsökunarbeiðni virtist nægja forsætisráðherranum Boris Johnson sem stóð með Hancock og leit svo á að málinu væri lokið um miðjan dag á föstudag.

En málinu var hvergi nærri lokið. Þingmenn Íhaldsflokksins, ráðherrar hans og grasrótarfélagar mótmæltu afstöðu forsætisráðherrans og fóru fram á að Hancock yrði vikið úr ríkisstjórninni. Hancock sendi forsætisráðherra svo afsagnarbréf á laugardag.

Auglýsing

Í bréfi Hancocks sagði hann að hann vildi síst af öllu að hans einkalíf drægi skugga á þá kröftugu baráttu sem unnin hefði verið til þess að vinna bug á faraldrinum. „Ég vil ítreka afsökunarbeiðni mína vegna þess að ég fór á svig við gildandi leiðbeiningar og ég vil biðja fjölskyldu mína og ástvini afsökunar á því að leggja þetta á þau. Einnig þarf ég núna að verja tíma með börnunum mínum,“ segir í bréfi Hancocks.

Boris Johnson sagði í svarbréfi sínu til Hancock að hann mætti vera stoltur af sínum verkum sem heilbrigðisráðherra, bæði fyrir störf sín í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn sem og í ráðherrastörfum sínum fyrir faraldur. Boris sagðist auk þess vera viss um að störfum Hancocks í þágu almennings væri langt í frá lokið.

Forsætisráðherra sagði Hancock vera vonlausan

Vera má að hér sé aðeins um venjubundna kurteisi að ræða af hálfu forsætisráðherrans, því skammt er síðan að fréttir voru fluttar af opinberun fyrrum aðstoðarmanns forsætisráðherrans, Dominic Cummings, á samskiptum þeirra tveggja sem sneru meðal annars að Matt Hancock. Dominc Cummings varð sjálfur uppvís af því að fara gegn tilmælum stjórnvalda í fyrra þegar hann fór í ferðalag þegar útgöngubann var í gildi.

Í skilaboðum sem fóru milli þeirra Cummings og Johnson segir Johnson meðal annars að Matt Hancock sé „gjörsamlega vonlaus“ sem heilbrigðisráðherra. Þá kemur þar einnig fram að Johnson hafi verið að hugsa um að skipta Matt Hancock út fyrir Michael Gove í embætti helibrigðisráðherra en skilaboðin eru frá því snemma í kórónuveirufaraldrinum á fyrri hluta árs 2020.

Segja má að vantrú forsætisráðherrans á Matt Hancock sé skilijanleg, enda Bretland meðal þeirra landa sem verst hafa farið út úr kórónuveirufaraldrinum. Jonathan Freedland, dálkahöfundur hjá Guardian, sagði í hlaðvarpi blaðsins, Today in Focus, að það væru ef til vill einhverjir pirraðir á því að það hefði verið myndbirting af þessu tagi sem felldi Hancock en ekki frammistaða hans sem ráðherra. Fólk hefði kallað eftir því að bæði Matt Hancock sem og ríkisstjórn öll myndi svara fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, eða öllu heldur aðgerðarleysi hennar.

Boris Johnson íhugaði það að skipta Matt Hancock út fyrir Michael Gove í fyrra.
EPA

Til að mynda nefnir Freedland að framkvæmd skimana í Bretlandi hafi verið klúðursleg, framvkæmdin hafi verið dýr og ekki skilað tilætluðum árangri. Til viðbótar við þetta hefði mátt bjarga þúsundum mannslífa í Bretlandi ef harðari sóttvarnaaðgerðum hefði verið beitt fyrr í faraldrinum og vísar hann þar til útreikninga sem gerðir voru af Neil Ferguson. Neil, sem er sóttvarnalæknir, ákvað í maí í fyrra að taka ábyrgð á gjörðum sínum og sagði sig frá ráðgjafarstörfum fyrir ríkisstjórnina eftir heimsókn frá kærustu hans, en þau deildu ekki heimili.

Stigið yfir línu forsætisráðherrans

Innan stjórnkerfisins hefur það ekki tíðkast hingað til að fólk segi af sér vegna skakkafalla í einkalífi, að minnsta kosti ekki hjá núverandi ríkisstjórn. Það hefur í það minnsta verið stefna forsætisráðherrans sem hefur ekki séð sig knúinn til þess að losa sig við ráðherra úr ríkisstjórninni þrátt fyrir hneykslismál sem komið hafa upp. Sá stuðningur sem Boris sýndi Matt á föstudag í síðustu viku þegar hann sagðist líta svo á að málinu væri lokið var til marks um þá stefnu.

Auglýsing

Líkt og áður segir hafa komið upp hneykslismál sem höfðu litla sem enga eftirmála fyrir þá ráðherra sem áttu þar hlut að máli. Priti Patel innanríkisráðherra var til að mynda sökuð um að reyna að skara eld að köku fyrirtækis í eigu vinar hennar. Ráðherra húsnæðismála Robert Jenrick á að hafa sparað verktakafyrirtæki tugi milljóna punda með því að greiða götu þess persónulega, en fyrirtækið hefur stutt rausnarlega við bakið á Íhaldsflokknum með fjárframlögum. Þá var menntamálaráðherrann Gavin Williamsson í klemmu í fyrra eftir að hann breytti tilhögun einkunnagjafar í lokaprófum framhaldsskóla á síðustu stundu, en fyrir vikið lækkaði einkunn fjölda nemenda. Öll héldu þau starfinu, að ógleymdum Dominic Cummings sem hér var áður minnst á.

Nú er hins vegar komið fordæmi fyrir því að ráðherra í ríkisstjórn Borisar hverfi af sjónarsviðinu. Það gæti breytt stöðu forsætisráðherrans, líkt og Jonathan Freedland fór yfir í áðurnefndu hlaðvarpi. Hann sagði það ljóst að horft yrði til Matt Hancock næst þegar einhver ráðherra brýtur af sér og krafan um afsögn eða brottvikningu háværari en áður. Forsætisráðherrann sjálfur hefur einnig orðið berskjaldaðri eftir afsögn Matt Hancock, en skjöldur hans er ekki tandurhreinn þegar hneykslismál eru annars vegar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar