EPA

Framhjáhaldið sem felldi Hancock

Matt Hancock steig til hliðar sem heilbrigðisráðherra Bretlands um síðustu helgi eftir að The Sun birti mynd af honum vera að kyssa aðstoðarkonu sína, Ginu Coladangelo, á forsíðu blaðsins. Hingað til hafa ráðherrar í ríkisstjórn Borisar Johnson ekki þurft að taka pokann sinn eftir hneykslismál en þetta mál setur nýtt fordæmi.

Í störfum sínum sem heil­brigð­is­ráð­herra á tímum veiru­far­ald­urs hefur Matt Hancock reglu­lega minnt fólk á mik­il­vægi þess að bæði fylgja sótt­varna­reglum og huga að sótt­vörnum almennt. Hann var til við­tals á sjón­varps­stöð­inni Sky í sept­em­ber í fyrra þegar talið barst að sótt­vörnum og kyn­lífi. „Við skulum túlka regl­urnar bók­staf­lega, það er í lagi að stunda kyn­líf svo lengi sem maður sé í föstu sam­band­i,“ sagði Matt hálf­vand­ræða­lega í við­tal­inu. Þessi orð hans hafa nýlega verið rifjuð upp vegna þess að Matt sjálfur hefur átt í ást­ar­sam­bandi við aðstoð­ar­konu sína, Ginu Cola­dang­elo, þrátt fyrir að vera sjálfur harð­gift­ur.

Málið komst upp fyrir um viku síðan og vakti strax reiði, bæði meðal almenn­ings sem og þing­manna stjórn­ar­and­stöð­unn­ar, enda fór ráð­herr­ann gegn ráð­legg­ingum sinnar eigin rík­is­stjórn­ar. Þá hafa ein­hverjir furðað sig á því að það hafi þurft fram­hjá­hald til þess að velta heil­brigð­is­ráð­herra af stalli en ekki meint sinnu­leysi hans í starfi á tímum veiru­far­ald­urs sem hefur dregið fleiri en 150 þús­und til dauða í Bret­landi.

Vakti son sinn til að segja honum frá hjóna­skiln­aði

Síð­degis á fimmtu­dag í síð­ustu viku má segja að bolt­inn hafi farið að rúlla. Matt Hancock hafði nýlokið að ræða mál­efni bresku heil­brigð­is­þjón­ust­unnar NHS í full­trúa­deild breska þings­ins þegar hann fékk sím­tal frá breska dag­blað­inu The Sun. Í sím­tal­inu var Hancock tjáð að blaðið hafi undir höndum myndefni sem sýnir hann og Ginu Cola­dang­elo kyss­ast á skrif­stofu Hancock.

Matt og Gina hafa þekkst lengi. Þau störf­uðu bæði við stúd­enta­út­varpið í Oxford en þau lögðu stund sama nám í Exeter Col­lege, lærðu heim­speki, stjórn­mála- og hag­fræði, á deild sem hefur stundum verið líkt við útung­un­ar­stöð fyrir stjórn­mála­fólk. Gina hóf störf fyrir Matt árið 2019 þegar hann var til skamms tíma í fram­boði til for­manns Íhalds­flokk­ins.

Auglýsing

Eftir að sím­tal­inu frá The Sun lauk á Hancock að hafa haldið heim til eig­in­konu sinn­ar, Mörthu Hancock, sagt henni frá yfir­vof­andi umfjöllun blaðs­ins, frá mynd­unum sem umfjöll­unin byggði á og lýst því yfir að hjóna­bandi þeirra væri lok­ið. Því næst vakti hann yngsta son þeirra hjóna, átta ára gamlan, til þess að segja honum frá yfir­vof­andi hjóna­skiln­aði for­eldr­anna.

Forsíða The Sun föstudaginin 25. júní.

Í umfjöllun Daily Mail er haft eftir vinum Hancock hjón­anna að opin­berun Matt hafi komið Mörthu algjör­lega í opna skjöldu. Hún hafi talið sig vera í ham­ingju­sömu hjóna­bandi og traustu. Vinir Matt hafa hins vegar sagt að alvara sé í sam­bandi þeirra Ginu, þrátt fyrir að það hafi ekki staðið lengi yfir, hann hafi sjálfur í hug að stofna með henni heim­ili.

Mál­inu lokið að mati for­sæt­is­ráð­herra eftir afsök­un­ar­beiðni

Þrátt fyrir að Matt Hancock sé nú búinn að segja af sér þá tók hann sér aðeins lengri tíma til þess að segja skilið við ráð­herra­emb­ættið heldur en hann tók sér til þess að segja skilið við eig­in­kon­una. Hann sendi frá sér yfir­lýs­ingu um hádeg­is­bil á föstu­dag, sama dag og mynd þeirra Ginu birt­ist á for­síðu The Sun. Í yfir­lýs­ing­unni baðst hann afsök­unar á því að hafa gengið gegn til­mælum um fjar­lægð­ar­mörk, hann sagði sig hafa brugð­ist fólki og að hann sæi eftir því. Engu að síður ætl­aði hann að halda áfram að gegna emb­ætti ráð­herra, „Ég mun halda áfram að ein­beita mér að þeirri vinnu að koma þjóð­inni út úr þessum far­aldri og yrði þakk­látur ef mér og minni fjöl­skyldu yrði veitt næði vegna þessa máls,“ sagði meðal ann­ars í yfir­lýs­ingu Hancocks.

Sú afsök­un­ar­beiðni virt­ist nægja for­sæt­is­ráð­herr­anum Boris John­son sem stóð með Hancock og leit svo á að mál­inu væri lokið um miðjan dag á föstu­dag.

En mál­inu var hvergi nærri lok­ið. Þing­menn Íhalds­flokks­ins, ráð­herrar hans og gras­rót­ar­fé­lagar mót­mæltu afstöðu for­sæt­is­ráð­herr­ans og fóru fram á að Hancock yrði vikið úr rík­is­stjórn­inni. Hancock sendi for­sæt­is­ráð­herra svo afsagn­ar­bréf á laug­ar­dag.

Auglýsing

Í bréfi Hancocks sagði hann að hann vildi síst af öllu að hans einka­líf drægi skugga á þá kröft­ugu bar­áttu sem unnin hefði verið til þess að vinna bug á far­aldr­in­um. „Ég vil ítreka afsök­un­ar­beiðni mína vegna þess að ég fór á svig við gild­andi leið­bein­ingar og ég vil biðja fjöl­skyldu mína og ást­vini afsök­unar á því að leggja þetta á þau. Einnig þarf ég núna að verja tíma með börn­unum mín­um,“ segir í bréfi Hancocks.

Boris John­son sagði í svar­bréfi sínu til Hancock að hann mætti vera stoltur af sínum verkum sem heil­brigð­is­ráð­herra, bæði fyrir störf sín í bar­átt­unni við kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn sem og í ráð­herra­störfum sínum fyrir far­ald­ur. Boris sagð­ist auk þess vera viss um að störfum Hancocks í þágu almenn­ings væri langt í frá lok­ið.

For­sæt­is­ráð­herra sagði Hancock vera von­lausan

Vera má að hér sé aðeins um venju­bundna kurt­eisi að ræða af hálfu for­sæt­is­ráð­herr­ans, því skammt er síðan að fréttir voru fluttar af opin­berun fyrrum aðstoð­ar­manns for­sæt­is­ráð­herr­ans, Dom­inic Cumm­ings, á sam­skiptum þeirra tveggja sem sneru meðal ann­ars að Matt Hancock. Dom­inc Cumm­ings varð sjálfur upp­vís af því að fara gegn til­mælum stjórn­valda í fyrra þegar hann fór í ferða­lag þegar útgöngu­bann var í gildi.

Í skila­boðum sem fóru milli þeirra Cumm­ings og John­son segir John­son meðal ann­ars að Matt Hancock sé „gjör­sam­lega von­laus“ sem heil­brigð­is­ráð­herra. Þá kemur þar einnig fram að John­son hafi verið að hugsa um að skipta Matt Hancock út fyrir Mich­ael Gove í emb­ætti heli­brigð­is­ráð­herra en skila­boðin eru frá því snemma í kór­ónu­veiru­far­aldr­inum á fyrri hluta árs 2020.

Segja má að van­trú for­sæt­is­ráð­herr­ans á Matt Hancock sé skili­j­an­leg, enda Bret­land meðal þeirra landa sem verst hafa farið út úr kór­ónu­veiru­far­aldr­in­um. Jon­athan Freed­land, dálka­höf­undur hjá Guar­di­an, sagði í hlað­varpi blaðs­ins, Today in Focus, að það væru ef til vill ein­hverjir pirraðir á því að það hefði verið mynd­birt­ing af þessu tagi sem felldi Hancock en ekki frammi­staða hans sem ráð­herra. Fólk hefði kallað eftir því að bæði Matt Hancock sem og rík­is­stjórn öll myndi svara fyrir aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar, eða öllu heldur aðgerð­ar­leysi henn­ar.

Boris Johnson íhugaði það að skipta Matt Hancock út fyrir Michael Gove í fyrra.
EPA

Til að mynda nefnir Freed­land að fram­kvæmd skim­ana í Bret­landi hafi verið klúð­urs­leg, fram­vkæmdin hafi verið dýr og ekki skilað til­ætl­uðum árangri. Til við­bótar við þetta hefði mátt bjarga þús­undum manns­lífa í Bret­landi ef harð­ari sótt­varna­að­gerðum hefði verið beitt fyrr í far­aldr­inum og vísar hann þar til útreikn­inga sem gerðir voru af Neil Fergu­son. Neil, sem er sótt­varna­lækn­ir, ákvað í maí í fyrra að taka ábyrgð á gjörðum sínum og sagði sig frá ráð­gjaf­ar­störfum fyrir rík­is­stjórn­ina eftir heim­sókn frá kær­ustu hans, en þau deildu ekki heim­ili.

Stigið yfir línu for­sæt­is­ráð­herr­ans

Innan stjórn­kerf­is­ins hefur það ekki tíðkast hingað til að fólk segi af sér vegna skakka­falla í einka­lífi, að minnsta kosti ekki hjá núver­andi rík­is­stjórn. Það hefur í það minnsta verið stefna for­sæt­is­ráð­herr­ans sem hefur ekki séð sig knú­inn til þess að losa sig við ráð­herra úr rík­is­stjórn­inni þrátt fyrir hneyksl­is­mál sem komið hafa upp. Sá stuðn­ingur sem Boris sýndi Matt á föstu­dag í síð­ustu viku þegar hann sagð­ist líta svo á að mál­inu væri lokið var til marks um þá stefnu.

Auglýsing

Líkt og áður segir hafa komið upp hneyksl­is­mál sem höfðu litla sem enga eft­ir­mála fyrir þá ráð­herra sem áttu þar hlut að máli. Priti Patel inn­an­rík­is­ráð­herra var til að mynda sökuð um að reyna að skara eld að köku fyr­ir­tækis í eigu vinar henn­ar. Ráð­herra hús­næð­is­mála Robert Jen­rick á að hafa sparað verk­taka­fyr­ir­tæki tugi millj­óna punda með því að greiða götu þess per­sónu­lega, en fyr­ir­tækið hefur stutt rausn­ar­lega við bakið á Íhalds­flokknum með fjár­fram­lög­um. Þá var mennta­mála­ráð­herr­ann Gavin Willi­ams­son í klemmu í fyrra eftir að hann breytti til­högun ein­kunna­gjafar í loka­prófum fram­halds­skóla á síð­ustu stundu, en fyrir vikið lækk­aði ein­kunn fjölda nem­enda. Öll héldu þau starf­inu, að ógleymdum Dom­inic Cumm­ings sem hér var áður minnst á.

Nú er hins vegar komið for­dæmi fyrir því að ráð­herra í rík­is­stjórn Borisar hverfi af sjón­ar­svið­inu. Það gæti breytt stöðu for­sæt­is­ráð­herr­ans, líkt og Jon­athan Freed­land fór yfir í áður­nefndu hlað­varpi. Hann sagði það ljóst að horft yrði til Matt Hancock næst þegar ein­hver ráð­herra brýtur af sér og krafan um afsögn eða brott­vikn­ingu hávær­ari en áður. For­sæt­is­ráð­herr­ann sjálfur hefur einnig orðið ber­skjald­aðri eftir afsögn Matt Hancock, en skjöldur hans er ekki tand­ur­hreinn þegar hneyksl­is­mál eru ann­ars veg­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnGrétar Þór Sigurðsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar