Fréttir af vaxandi áhuga stærri ríkja og orkufyrirtækja á Norðurskautssvæðinu hafa verið áberandi í íslenskum fjölmiðlum síðustu misseri og settar í samhengi við spennandi tækifæri fyrir Íslendinga á norðurslóðum. Þar felast vissulega ákveðnir möguleikar en áhuganum fylgir einnig áhætta því framtíðarþróun í þessum heimshluta er óljós og þau tækifæri sem við fáum verða ekki endilega þau sem við áttum von á. Orkumarkaðurinn er ófyrirsjáanlegur og óvæntar breytingar síðustu ára sýna fram á það hversu mikilvægt það er að aðlagast hratt að breyttum aðstæðum.
Það hefði þótt lygileg bjartsýni fyrir áratug síðan að halda því fram að Bandaríkin ættu eftir að geta skákað Rússum í útflutning á gasi eða keppt við Katar á hráolíumarkaði. Það virðist þó vera raunin því ef yfirstandandi þróun heldur áfram verður það veruleikinn á næstu árum. Nýsköpun í jarðgas- og olíuvinnslu, sérstaklega í tengslum við vatnsþrýstingsbrot (e. fracking) hefur gjörbylt orkumarkaðnum í Bandaríkjunum og hefur áhrif um allan heim. Í júnítölublaði bandaríska tímaritsins Foreign Affairs (sjá hér og hér), og nýlegum tölublöðum The Economist (sjá 1. nóvember og 25. október) var fjallað um nýsköpun í orkugeiranum og hvernig hún hefur þegar breytt forsendum heimsmarkaðar með orku. Vatnsþrýstingsbrot og gasvinnsla voru títtnefnd í þessum umfjöllunum en engin grein í blöðunum fjallaði um norðurslóðir. Þegar áhrif „leirsteinsbyltingarinnar“ eru skoðuð er auðvelt að greina af hverju vatnsþrýstingsbrot þykir fýsilegra en olíuleit á norðurslóðum.
Glen Crabtree, verkamaður á olíubor í Norður-Dakóta, smyr bor. Undanfarin ár hefur verið mikill uppgangur í olíuvinnslu í Norður-Dakóta, meðal annars vegna vatnsþrýsingsbrots-aðferðarinnar.
Betri er einn í hendi en tveir í skógi
Árið 2008 þurftu Bandaríkin að flytja inn tæplega 2 miljónir tunna af olíu á dag til að mæta eftirspurn þar í landi. Í fyrra voru þau farin að flytja út sambærilegt magn. Framleiðsla þeirra á olíu hefur aukist um 60 prósent og framleiðsla á jarðgasi um tæpan fjórðung. Olíuævintýri Bandaríkjamanna á norðurslóðum hefur á hinn bóginn ekki skilað jafn góðum árangri. Margar af þekktum og líklegum olíulindum eru á miklu dýpi og erfiðu umhverfi sem eykur áhættu og kostnað. Vatnsþrýstingsbrot getur hins vegar átt sér stað á landi, þar sem olíufyrirtækin þurfa ekki að hafa jafn miklar áhyggjur af veðráttu og búa þegar yfir mikilli tæknilegri reynslu og þekkja allar aðstæður. Hugsanleg víðtækari olíu- og gasvinnsla á norðurslóðum er af ýmsum ástæðum ekki lengur eftirsóknarverð og sum olíufyrirtækjanna virðast ætla að snúa sér annað.
Í Beaufort-hafi norðan Alaska hafa fyrirtæki til dæmis minnkað leitar- og vinnslusvæði um tæplega sex hundruð þúsund hektara, sem er rúmlega helmingurinn af því svæði sem þau fengu upprunalega leyfi til að nýta.
Exxon-orkurisinn bandaríski hóf samstarf við rússneska aðila við boranir í Karahafinu í ágúst og fengin reynsla lofar góðu. Nú ríkir hins vegar óvissa um framhald borana vegna refsiaðgerða Bandaríkjanna gegn Rússlandi í tengslum við afskipti Rússa af málefnum Úkraínu. Á bandarískum norðurslóðum hafa mörg fyrirtæki ákveðið að endurnýja ekki borleyfin sín. Í Beaufort-hafi norðan Alaska hafa fyrirtæki til dæmis minnkað leitar- og vinnslusvæði um tæplega sex hundruð þúsund hektara, sem er rúmlega helmingurinn af því svæði sem þau fengu upprunalega leyfi til að nýta. Áætlað er að svæðið innihaldi tæplega 30 miljarða tunna af olíu og nokkra tugi billjón rúmmetra af gasi, þannig að ástæðan er ekki skortur á auðlindum heldur hversu erfiðar aðstæðunar þar nyrðra eru og kostnaður við framkvæmdir mikill.
Olíuborpallur Shell strandaði við Alaska í lok árs 2012 og var mikil hætta á að olía mengaði hafið og strendurnar í kjölfarið.
Víða á norðurslóðum hefur hafís reynst meiri og veður verri en spár gerðu ráð fyrir. Þannig missti orkufyrirtækið Shell stjórn á borpalli sem strandaði nánast við Kódíak-eyju árið 2012. Stuttu síðar stóðst viðbragðskip fyrirtækisins ekki öryggiskröfur bandarískra stjórnvalda og annað skip Shell strandaði við Alaska. Margir umhverfissinnar og frumbyggjar hafa áhyggjur af hugsanlegum afleiðingum slysa og mistaka á viðkvæmt lífríki og berjast gegn leit og vinnslu olíufyrirtækja við hvert tækifæri. Shell hefur enn ekki hafið boranir á ný og virðist ekki hafa áætlanir um að hefja þær fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári. Stjórnendur Shell hafa hiklaust selt svæði og starfsemi sem standast ekki væntingar til að lækka kostnað og bæta sjóðstreymi. Það má velta fyrir sér hversu lengi þeir vilja bíða þangað til fjárfesting fyrirtækisins á þessum hluta norðurslóða fari að borga sig.
Sama og þegið
Þrátt fyrir núverandi þróun er framtíð leirsteinsvinnslu jafn óvís og framtíð orkuvinnslu á norðurslóðum. Margir eru mótfallnir þessum aðferðum af mörgum ólíkum ástæðum. Umhverfissinnar hafa áhyggjur af losun metans út í andrúmsloftið og mengun grunnvatns. Rúmlega 150 þúsund borstöðvar í leirsteinsvinnslu eru nú víða um Bandaríkin og þeim hefur stundum fylgt mikil staðbundin mengun. Þau fyrirtæki sem eiga hlut að máli benda á að vinnslan sé umhverfisvænni en vinnsla kola og halda því fram að engar vísindalega sannanir séu til fyrir því að vatnsþrýstingsbrot geti mengað grunnvatn ef rétt er staðið að málum. Það virðist auðveldara sagt en gert, þar sem fleiri hundruð kvartanir hafa borist bandarískum stjórnvöldum. Rannsóknarblaðamenn á vegum Associated Press-fréttaveitunnar hafa auk þess fjallað um vatnsmengun á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum.
Nýjum olíuvinnsluaðferðum hefur verið mótmælt í Bandaríkjunum undanfarið. Í október sýndu mótmælendur dæmi um vatnsmengunina sem hlýst við vatnsþrýsingsbrot.
Önnur ástæða fyrir því að umhverfisverndarsinnar eru mótfallnir aukinni jarðgasvinnslu eru áhyggjur af því að fjárfestar missi áhuga á kolefnisfríum orkugjöfum, til dæmis sólar-, sjávarfalla- og vindorku. Þverþjóðleg nefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur lagt áherslu á að þótt jarðgasvinnsla losi ekki jafn mikið kolefni út í andrúmsloftið og aðrir orkugjafar, þá geti notkun þess í besta falli talist skammtímalausn. Einungis kolefnisfríir orkugjafar geti tryggt sjálfbæra og umhverfisvæna framtíð í orkumálum. Í Þýskalandi og í nokkrum bandarískum ríkjum hefur umhverfisverndarsinnum tekist að knýja á um tímabundna stöðvun borana þar sem vatnsþrýstingsbrotsaðferðin er notuð. Frönsk yfirvöld bönnuðu notkun þessa aðferðar árið 2011 og fleiri ríkisstjórnir íhuga að fylgja fordæmi þeirra.
Einungis kolefnisfríir orkugjafar geti tryggt sjálfbæra og umhverfisvæna framtíð í orkumálum.
Aðrir gagnrýnendur „leirsteinsbyltingarinnar“ efast um hversu góð fjárfesting vinnsla á gasi úr leirsteini mun reynast til lengri tíma. Fjárfestar hafa lagt margar billjónir króna í leirsteinsvinnslu á frekar skömmum tíma, sem skýrir að hluta til þá gríðarlegu aukningu sem hefur átt sér stað. Þrátt fyrir það benda rannsóknir til þess að framleiðni slíkra borstöðva minnki töluvert hraðar en hefðbundinna borstöðva, eða um helming á fyrsta árinu. Samanborið við hefðbundnar borstöðvar, þar sem framleiðni minnkar um 7-10 prósent á ári er ljóst að fullyrðingar IPCC um aukna gasframleiðslu sem skammtímalausn eru ekki orðum auknar, hvað varðar umhverfið og efnahaginn.
Eggin í fleiri körfur
Nýsköpun og rannsóknarvinna er nauðsynleg til þess að kolefnisfríu orkugjafirnar geti orðið markaðsvænni en það er langtíma markmið. Miðað við áframhaldandi þróun gætu áratugir liðið áður en nútímasamfélög geti vænst þess að einungis kolefnisfríir orkugjafar verði notaðir til orkuframleiðslu.
Það hefur reynst varasamt fyrir marga sérfræðinga að spá nákvæmlega fyrir um framtíðarþróun í vinnslu og nýtingu orkugjafa og þá um leið sveiflur í heimsmarkaðsverði. Þeir sem hafa reynt það hafa oft þurft að éta ofan í sig spádóma, til dæmis þeir sem spáðu því að vinnsla Bandaríkjanna á jarðgasi og olíu gæti ekki annað en haldið áfram að minnka. Eitt er víst að áreiðanleg og kolefnisfrí orkuvinnsla mun ekki verða að veruleika nema með áframhaldandi veitingu fjármagns og rannsókna, hvort tveggja af hálfu hins opinbera og einkageirans. Ef gagnrýnendur vatnsþrýstingsbrots og orkuvinnslu á norðurslóðum hafa rétt fyrir sér mun það á endanum teljast framsýni.