Lestur Fréttablaðsins og Morgunblaðsins stendur nánast í stað milli mánaða en lestur DV heldur áfram að dala lítillega. Lestur Fréttatímans og Viðskiptablaðsins tekur hins vegar skarpan kipp upp á við.
Þetta kemur fram í nýrri prentmiðlakönnun Gallup sem kannar lestur á helstu prentmiðlum landsins. Niðurstöður könnunarinnar voru birtar í dag.
Fréttablaðið tapar áfram yngri lesendum
Fréttablaðið er sem fyrr langmest lesna dagblað landsins, en því er dreift frítt í 90 þúsund eintökum sex daga vikunnar. Lestur blaðsins eykst lítillega á milli mánaða, eða um 0,16 prósent. Alls lesa 51,5 prósent landsmanna blaðið, samkvæmt könnuninni. Þetta er í fyrsta sinn í sjö mánuði sem lestur á blaðinu minnkar ekki á milli mánaða.
Lestur Fréttablaðsins hefur fallið hratt undanfarin ár og blaðið hefur alls tapað um 20 prósent lesenda sinna á síðustu fimm árum. Upplag blaðsins hefur á móti dregist saman á tímabilinu og skýrir það að hluta til minni lestur. Lesturinn hefur minnkað sérstaklega mikið undanfarna mánuði, en frá því í júlí 2014 hefur hann dregist saman um 8,5 prósent.
Fréttablaðið heldur líka áfram að tapa yngri lesendum. Í aldurshópnum 18-49 ára fækkaði lesendum blaðsins um 2,8 prósent í marsmánuði. Frá því í júlí 2014, fyrir níu mánuðum síðan, hefur lesturinn í þessum aldurshópi dregist saman um 18 prósent.
DV aldrei mælst með minni lestur
Eini stóri prentmiðillinn sem missir heildarlestur milli kannana er DV. Lestur blaðsins er nú 8,4 prósent og hefur aldrei mælst minni hjá Gallup frá því að DV kom aftur inn í mælingar fyrirtækisins í byrjun árs 2010 eftir eigendaskipti. Þegar best gekk hjá nýja DV, í maí 2011, mældist lesturinn 14,15 prósent. Það er þó jákvætt fyrir DV að lestur blaðsins í aldurshópnum 18-49 ára tekur smá kipp upp á við, þótt lesturinn sé enn afar lítill í þessum aldurshópi. Hann fer úr 5,3 prósentum í 6,6 prósent á milli mælinga sem er aukning upp á tæp 20 prósent milli mánaða. Ugglaust spilar þar inn í áskriftartilboð þar sem nýjum áskrifendum býðst að fá iPad með áskrift að DV og dv.is.
Yngri lesendum Morgunblaðsins fjölgar
Lesendum Morgunblaðsins, stærsta áskriftarblaðs landsins, hefur fækkað mikið undanfarin ár. Árið 2009 lásu 43 prósent landsmanna blaðið en lestur þess í dag er 28,7 prósent. Lesturinn fór í fyrsta sinn í áratugi undir 30 prósent snemma árs í fyrra. Annað vandamál sem Morgunblaðið hefur verið að glíma við er aldursamsetning lesenda. Lesendur blaðsins virðast flestir vera í eldri kantinum. Í nóvember 2014 var hlutfall þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára komið niður í 19,05 prósent. Síðan þá hefur það hækkað mánuði frá mánuði og er nú 21,58 prósent.
Viðskiptablaðið og Fréttatíminn sigurvegarar síðasta mánaðar
Sigurvegarar nýjustu prentmiðlakönnunarinnar eru Viðskiptablaðið (bætir við sig 15,4 prósentum milli mánaða) og Fréttatíminn (bætir við sig sjö prósentum milli mánaða). Alls segjast nú 11,64 prósent landsmanna lesa Viðskiptablaðið en 40,57 prósent Fréttatímann.
Ljóst er að aukning Viðskiptablaðsins er mest hjá ungu fólki, þar sem lesturinn jókst um tæp 17 prósent á milli mánaða. Sömu sögu er að segja af Fréttatímanum þar sem lesturinn hjá aldurshópnum 18-49 ára jókst um 10,2 prósent á milli mánaða.