Íslenskt neyslusamfélag hefur gjörbreyst undanfarin ár samhliða aukinni tækniþróun. Ekkert hefur breytt því jafnmikið og tilkoma snjallsímans. Íslendingar eru mjög framarlega í eign á snjallsímum, enda vanalega afar fljótir að tileinka sér tækninýjungar. Í könnun sem MMR framkvæmdi snemma haustið 2013 kom í ljós að 66,4 prósent landsmanna ættu snjallsíma. Tveimur árum áður var hlutfall þeirra 38 prósent. Til samanburðar sögðust 68 prósent Breta eiga snjallsíma, 52 prósent Bandaríkjanna og 64 prósent Rússa í lok árs 2013. Óhætt er að álykta að snjallsímaeign hafi vaxið enn meira á því einu og hálfa ári sem liðið er síðan að könnun MMR var gert.
Sú ályktun fær stuðning í þeim upplýsingum sem koma fram í nýrri tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um íslenska fjarskiptamarkaðinn á árinu 2014, sem var birt á mánudag. Það er nefnilega ekki til nein betri mælistika á þá breytingu sem orðið hefur á neysluhegðun Íslendinga með almennri eign á snjallsímum en sú aukning á notuðu gagnamagni sem orðið hefur. Í skýrslunni kemur fram að frá árinu 2012 hefur notkunin fimmfaldast. Bara á síðasta ári einu saman rúmlega tvöfaldaðist hún.
Það þýðir að neytendur eru að vafra um internetið, ná sér í fréttir, horfa á afþreyingu, panta sér mat, mæla svefn eða hreyfingu, spila leiki, eiga samskipti og gera allt hitt sem nútíminn býður upp á í gegnum tölvuna í vasanum sínum, snjallsímann, í sífellt auknum mæli.
Færsla inn í tíu sinnum hraðari heim 4G
Ástæðan fyrir þessari miklu breytingu er sú að farsímatímabil fjarskiptageirans er að líða undir lok og gagnaflutningatímabilið að taka við. Tíðniheimildir fyrir 3G, fyrsta háhraðakynslóð farsímanetskerfið, voru boðnar út á Íslandi í lok árs 2006. Kerfið er í raun mun frekar netkerfi en farsímakerfi og gerði gagnaflutning mögulegan. Allt í einu var mögulegt að hlaða niður tónlist, horfa á kvikmyndir eða þætti í símanum sínum.
Nú stendur næsti fasi yfir. 4G-væðingin er í fullum gangi. Skrefið sem verður tekið upp á við með henni er stærra en margir átta sig á. Hraðinn á 4G-tengingu er tíu sinnum hraðari en í 3G og um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar.
Færsla Íslendinga inn í hinn hraða heim 4G átti sér stað í fyrra. Fjöldi þeirra sem eru með 4G-kort í símanum sínum fimmfaldaðist á síðasta ári. Nú eru 29,6 prósent allra virkra símakorta 4G-kort og 62,6 prósent eru 3G-kort. Fjöldi þeirra sem er með 2G-kort dróst að sama skapi saman um tæplega eitt hundrað þúsund á síðasta ári og um síðustu áramót voru einungis um 32 þúsund slík kort í umferð. Ugglaust hefur innleiðing rafrænna skilríkja, sem tengjast 4G-netinu og þurfti meðal annars til að samþykkja skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar, haft umtalsvert um það að segja hversu hratt 4G-símakortaeign hefur vaxið á síðasta ári.
Fjöldi þeirra sem eru í 4G-heimi mun aukast hratt á næstu árum. Síminn, Nova, Vodafone og 365-miðlar hafa öll fengið úthlutað tíðnum til að byggja upp 4G þjónustu og enn er ýmislegt ógert í þeim efnum. Aðgengið mun því aukast enn á næstu árum. Fjarskiptafyrirtækin eru ekki öll að njóta hinnar miklu aukningar á notkun gagnamagns til jafns.
Nova er í algjörum sérflokki þegar kemur að þeirri notkun. Viðskiptavinir fyrirtækisins notuðu tæplega 75 prósent alls gagnamagns sem notað var á Íslandi í fyrra. Það má því segja að Nova hafi veðjað á réttan hest þegar fyrirtækið ákvað að höfða til yngstu notendanna á árdögum starfsemi fyrirtækisins með því að gefa frí símtöl og SMS skilaboð innan kerfis. Sú kynslóð sem þá gekk til liðs við fyrirtækið er síðan orðin fyrsta kynslóð stórnotenda snjallsíma.
Nova sækir á Símann á farsímamarkaði
Fólk hringir hins vegar líka úr snjallsímanum sínum. Og á farsímamarkaði er Síminn enn með sterkasta stöðu, þótt Nova nálgist fyrirtækið mjög hratt. Alls eru viðskiptavinir Símans í farsímaþjónustu rúmlega 148 þúsund talsins á meðan að viðskiptavinir Nova eru um 137 þúsund talsins.
Viðskiptavinum Nova hefur fjölgað mjög hratt síðustu ár, eða um 24 þúsund síðan í lok árs 2012. Á sama tíma hefur Síminn haldið nánast sama fjölda viðskiptavina sem hann hafði þá.
Athygli vekur hins vegar hversu stór hluti viðskiptavina Nova eru með fyrirframgreidd símakort, eða alls 90 þúsund. Það þýðir að tveir af hverjum þremur sem eru í viðskiptum hjá félaginu eru í frelsisþjónustu. Hlutfall viðskiptavina Símans sem eru í frelsi er 25 prósent og hjá Vodafone er það 28 prósent. Restin er í fastri áskriftarþjónustu sem skilar stöðugri og meiri tekjum.
Vodafone hefur upplifað nokkrar sveiflur síðustu ár. Í lok árs 2012 voru viðskiptavinir fyrirtækisins í farsímaþjónustu um 115 þúsund talsins en fækkaði um sjö þúsund á árinu 2013. Vodafone hefur náð vopnum sínum að einhverju leyti að nýju og um síðustu áramót voru viðskiptavinir fyrirtækisins orðnir tæplega 114 þúsund.
365 sameinaðist Tali í desember 2014 og tók þar með yfir farsímaviðskipti síðarnefnda fyrirtækisins. Þeir voru alls rúmlega þrettán þúsund um síðustu áramót og hefur fækkað töluvert undanfarin ár. Tal var til að mynda með um 20 þúsund viðskiptavini í lok árs 2012.
SMS að detta úr tísku
Sú var tíðin að SMS skilaboðasendingar voru einn helsti samskiptamáti Íslendinga. Sú tíð er liðin og í skýrslunni kemur fram að sendingu slíkra skilaboða heldur áfram að fækka. Slík fækkun átti sér fyrsta stað á árinu 2013 þegar send voru um 214 milljónir SMS skilaboða, um tveimur milljónum færri en árið áður. Í fyrra fækkaði þeim enn frekar, þegar 204 milljónir slíka skilaboða voru send.
Viðskiptavinir Nova eru langduglegastir að senda SMS, en þeir sendu alls 67,4 prósent allra SMS-a send voru á síðasta ári.
Þessi hnignun SMS-ins á fyrst og síðast rætur sinar að rekja til uppgangs samskiptaforrita á vegum Facebook, Apple og fleiri slíkra aðila. Slík forrit eru í sífelldri sókn samhliða aukinni notkun farsíma.
Stöðnun á internetmarkaði
Það virðist nánast ekkert hafa hreyfst að neinu viti á íslenskum internetmarkaði á síðasta ári. Síminn tapar að vísu tæplega 800 viðskiptavinum en er samt sem áður með helming markaðarins með um 60 þúsund viðskiptavini. Vodafone stendur nánast í stað líka, tapar 900 viðskiptavinum, og er með tæplega 30 prósent hlutdeild.
365 miðlar hófu að bjóða upp á fjarskiptaþjónustu með síma og interneti í haustið 2013. Tal var síðan rennt inn í 365 í desember 2014 og því er nýja tölfræðiskýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar sú fyrsta sem sýnir sameiginlegan árangur hins sameinaða fyrirtækis. Þótt bæst hafi við kúnna hóp þess þá er markaðshlutdeild 365 enn sem komið er einungis um 13 prósent. Viðskiptavinirnir voru samtals 15.500 um síðustu áramót, sem er um tvö þúsund fleiri en 365 og Tal voru samanlagt með í lok árs 2013.
Til einföldunar má segja að 365 hafi tekist að ná til sín mestum hluta af þeirri aukningu sem varð á tengingum milli ára, þeim fjölgaði um 2.200, en ekki tekist að höggva skarð í markaðshlutdeild stóru fyrirtækjanna á markaði, Símans og Vodafone. Aðrir á markaði voru samtals með 7,6 prósent markaðshlutdeild og þar af var Hringdu með um helming.
Mikil velta og aukin fjárfesting
Í skýrslunni eru lika teknar saman heildartekjur af fjarskiptastarfsemi á árinu. Samtals velti geirinn um 52,3 milljörðum króna í fyrra sem er aukning um tæpa tvo milljarða króna frá árinu á undan og um fjóra milljarða króna frá árinu 2012.
Samhliða hefur fjárfesting í fjarskiptastarfsemi aukist umtalsvert. Árið 2012 eyddu fyrirtækin á markaðnum 5,9 milljörðum króna í fjárfestingar en í fyrra var sú upphæð 7,9 milljarða króna. Það er þriðjungsaukning á einungis tveimur árum. Athygli vekur að mest var fjárfest í fastanetinu í fyrra, eða fyrir um 2,8 milljarða króna. Það er um 1,1 milljarði krónum meira en á árinu 2013. Fjárfesting í farsímarekstri var um tveir milljarðar króna.
Það er hins vegar lýsandi fyrir stöðu hins hefðbundna talsíma að fjarskiptafyrirtækin eyddu einungis 78 milljónum króna í að uppfæra hans kerfi á síðasta ári, eða tæplega einu prósenti af heildarfjárfestingu sinni.