Goshátíð í Geldingadölum
Blaðamaður Kjarnans gekk óþarflega langa leið að gosstöðvunum á Reykjanesi í gær og lýsir því sem fyrir augu bar. Ljósmyndarinn Golli var einnig á staðnum og fangaði stemninguna.
Það var nánast útihátíðarstemning við gosstöðvarnar. Einhverjir voru að steikja pylsur á glænýju hrauninu þegar ég og vinur minn komum á staðinn síðdegis í gær. Ofar í brekkunni var hress hópur ungs fólks að spila eitthvað ABBA-lag, syngja með og dansa. Fólk sat flest með nestið í brekkunni og fylgdist með því sem fyrir augu bar.
Björgunarsveitarfólk með gasgrímur gekk um og gerði sitt besta til að fylgjast með því að fólk færi sér ekki að voða.
Fólk var misjafnlega búið. Þegar við vorum að fara af svæðinu arkaði framhjá okkur ungur maður í gallajakka. Hann virtist ekki hafa komið með þyrlu.
En þær sveimuðu yfir – komu og fóru svo títt að varla gafst tóm til að hlýða almennilega á drunurnar í eldstöðinni og snarkið í hrauninu.
Við félagarnir lögðum af stað úr borginni upp þegar klukkan var að ganga tvö og settum stefnuna að lokuninni á Suðurstrandarvegi rétt utan Grindavíkur. Þar höfðum við lesið að væri einfaldasta og þægilegasta gönguleiðin, tæpir tveir tímar, að miklum hluta á malbiki.
Þetta hugnaðist okkur ágætlega, enda var stefnan að snúa til baka fyrir kvöldmat.
Þegar til Grindavíkur var komið þótti okkur hins vegar ljóst að það myndi ganga hægt að leggja bílnum við lokunina. Tugir ökutækja voru á undan okkur í röð sem endaði hjá björgunarsveitarfólki sem var að leiðbeina fólki að bílastæðum, langt frá lokuninni sjálfri.
Þolinmæði okkar brast í bílaröðinni og við ákváðum snögglega, í nafni þess sem við hugsuðum með okkur að yrði tímasparnaður, að snúa til baka og leggja bílnum í Svartsengi til móts við Bláa lónið og arka af stað. Það reyndist náttúrlega ekki spara neinn tíma. Þvert á móti.
Allt í allt voru þetta tæpir 25 kílómetrar sem við gengum, að mestu leyti eftir grýttum jeppaslóða og stikuðum gönguslóðum. Á kafla þó bara yfir torfært hraunið. Alveg jafn krefjandi og almannavarnir voru búnar að gefa til kynna. Alls 5 klukkustundir og 40 mínútur á göngu og tæplega sjö tíma túr í heildina.
„Ef þessi gönguferð er eitt það erfiðasta sem þú hefur gert undanfarin ár, þá ættir þú einfaldlega ekki að vera hérna,“ sagði vinur minn er við klöngruðumst til baka yfir hraunið á Reykjanesskaganum er myrkur var að skella á í gærkvöldi.
Hann var sem betur fer ekki að tala um okkur, þó við værum orðnir ögn lúnir, heldur sumt fólk sem við höfðum séð yfir daginn og virtist orðið verulega þreytt á röltinu. Sumir voru með ung börn og másandi og blásandi smáhunda með í för.
Þetta var þó einungis lítill hluti, en eins og fram hefur komið voru hátt í fjörutíu manns sem þurftu á hjálp björgunarsveita að halda við að komast til baka, blaut og köld, í fjöldahjálparstöð sem snarað var upp í grunnskólanum í Grindavík.
Löngunin til að bera eldgosið augum í myrkri virðist hafa orðið skynseminni yfirsterkari í einhverjum tilfellum, enda var búið að boða að það myndi hvessa verulega þegar liði á kvöldið.
Sem betur fer komust allir nokkuð heilir frá þessari goshátíð.
Það má þakka ósérhlífnu, vel þjálfuðu og vel útbúnu björgunarsveitarfólki sem ver frítíma sínum í að koma í veg fyrir að við hin förum okkur að voða.
Er við vorum að ljúka göngunni skömmu fyrir kl. 22 í gærkvöldi mættum við þremur björgunarsveitarmönnum sem voru að leggja af stað inn á hraunbreiðuna.
Á móti storminum, sem fór ört vaxandi.
Þrátt fyrir að gosið hafi verið uppnefnt „ræfill“ af einum helsta jarðvísindamanni þjóðarinnar er magnað að hafa tækifæri til að sjá landslagið í mótun og þá krafta sem bærast um, nú á Reykjanesinu í fyrsta sinn í tæp 800 ár. Göngutúr sem gleymist seint.
En það er betra að fara eftir tilmælum, velja þægilegustu leiðina og búa sig vel.