Alec Burslem © Edda Elísabet Magnúsdóttir

Hefur hlýtt á sinn síðasta söng

Hún hefur verið víðförul um heiminn. Að öllum líkindum farið nokkrar ferðir suður á bóginn. Alla leið í Karabíska hafið. Svo hefur hún örugglega makast og mögulega eignast afkvæmi. „Og við munum fljótlega komast að því hvort að hún var þunguð á þeim tímapunkti sem hún lést,“ segir sjávar- og atferlisvistfræðingurinn Edda Elísabet Magnúsdóttir um hnúfubakinn sem rak á land á Garðskaga og dró að sér þúsundir forvitinna manna.

Gríðarlegur áhugi almennings á hræi hnúfubaksins sem rak að landi á Garðskaga fyrir nokkrum dögum kemur Eddu Elísabetu Magnúsdóttur, sjávar- og atferlisvistfræðingi, ekki sérstaklega á óvart.

„Síðustu árin hefur áhugi Íslendinga á hvölum aukist verulega. Það hefur mikil vitundarvakning orðið um að þeir eru hluti af náttúru Íslands,“ segir hún. „Við höfum auðvitað alltaf vitað af þeim en það er ekki fyrr en á síðustu árum að atferli þeirra hefur verið rannsakað að einhverju marki. Þannig hefur verið aflað þekkingar um hvernig lífi þeir lifa, hvernig ár í lífi hvals er.“

Eitt af því sem stuðlaði að vitundarvakningunni var hvalaskoðun. „Hún færði okkur allt í einu nær hvölunum,“ segir Edda.

Um leið og fréttir bárust af því fyrir nokkrum dögum að hræ hnúfubaks hefði rekið að landi beið fólk ekki boðanna, þrátt fyrir jarðskjálfta og hættu á eldgosi á Reykjanesskaganum, að fara á vettvang og berja það augum. Talið er að mörg þúsund manns hafi lagt leið sína þangað.

Myndbandið efst í greininni er tekið nýverið á dróna í Icelandic Winter Whale-rannsóknarleiðangri af Alec Burslem en er í eigu Eddu. Á því má sjá hnúfubaka og hnýðinga leika sér í hafinu norður af landinu.

Auglýsing

Þetta var kvendýr, um fimmtán metrar á lengd og líklega um 30 tonn að þyngd. Ómögulegt er að segja með nokkurri nákvæmni hversu gömul hún var en við vitum þó að hún var fullorðin og því að öllum líkindum frjó. Og líklega ekki öldungur því þá hefði hún verið mun meira rispuð eftir lífsins ólgusjó við þær oft á tíðum krefjandi aðstæður sem upp koma við fæðuöflun á hafsbotni, árekstra við báta og árásir háhyrninga, hákarla og jafnvel höfrunga sem eiga það til að bíta í sporð hnúfubakanna. Engin ummerki um slíkt voru sjáanleg á henni. „Hvers vegna hún dó er ómögulegt að vita,“ segir Edda. „Það getur verið af náttúrulegum orsökum. Kannski var hún þunguð. Kannski voru einhver vandamál tengd því. Kannski var hún bara veik. Kannski var hún búin að ná háum aldri en leit óvenjulega vel út. En það eru auðvitað alltaf ákveðin afföll af stofni. Dýr úr honum deyja og af ýmsum orsökum.“

Frá því um áramótin hefur nokkur fjöldi hnúfubaka haldið sig við Vestmannaeyjar. Þar hefur verið að finna síld sem hefur væntanlega dregið þá að. „Það er ekkert ósennilegt að þessi hvalur hafi einmitt verið á þeim slóðum,“ segir Edda.

Nicholai Xuereb

Þar sem hræið rak að landi á svæði í alfaraleið var ekki ráðlegt að opna það til rannsókna enda getur slík aðgerð verið nokkuð blóðug. En úr því voru tekin ýmis lífsýni sem munu koma að gagni. „Það verður mjög áhugavert að sjá hvort að hún var þunguð. Það mun rannsókn á sýnunum leiða í ljós. Við ættum einnig að geta komist að því hvað hún hefur verið að éta síðustu þrjá mánuði eða svo og á hvaða svæðum, hvort hún hafi haldið til á úthafssvæðum eða strandsvæðum.“

Hvalir eru risastórar skepnur og það eitt vekur skiljanlega athygli. En það er svo miklu fleira en stærðin sem gerir hnúfubaka sérstaklega athyglisverða. Það veit Edda vel enda hafa þeir verið eitt helsta rannsóknarefni hennar í mörg ár.

Hleraði hvali

Edda Elísabet með sogskálamerki sem reynt er að setja á hvali sem tekur svo upp mynd og hljóð og kortleggur köfunarhegðun. Mynd: Alec Burslem

Edda er líffræðingur og eftir að hafa lokið grunnnámi í því fagi hélt hún áfram á menntabrautinni, tók meistarapróf og í kjölfarið doktorspróf. Í framhaldsnáminu beindi hún sjónum fyrst og fremst að hvölum. „Við Ísland er einstakt tækifæri til að rannsaka fjölda tegunda,“ segir hún um áhuga sinn á hvölum. Þegar hún hóf námið fannst henni mikið vanta upp á rannsóknir á atferli þeirra. „Hafrannsóknarstofnun hefur lengi sinnt mikilvægu stofnstærðarmati og þess háttar en það skorti yfirgripsmeiri þekkingu á þessum dýrum – dýrum sem spila mjög stóra rullu í okkar vistkerfi umhverfis landið.“

Renndu blint í sjóinn

Í meistaranáminu rannsakaði Edda Elísabet hnýðinga, þá höfrunga sem sjást hvað mest við Ísland en í doktorsnáminu hóf hún að beita nýstárlegum aðferðum: Að taka upp hljóð í sjónum við Húsavík. „Við ákváðum að fara einfaldlega þá leið að hlera til að kynnast því sem er að gerast í hafinu árið um kring,“ segir hún. „Við vorum í rauninni að renna blint í sjóinn. Vissum ekkert hversu mikil hljóð hvalirnir myndu gefa frá sér og hversu mikið þeir væru hérna yfir höfuð.“

Fleiri rannsóknaraðferðum var einnig beitt og niðurstöðurnar reyndust mjög áhugaverðar.

Hnúfubakur stekkur. Vegna þess hversu mikið þeir halda sig við yfirborð sjávar eru þeir auðveldara rannsóknarefni en margir aðrir hvalir.
Jérémie Silvestro

Hvalir eiga sér fjórfætta forfeður á landi. Þróunarsaga þeirra byggist á því að þessi forfaðir fór að nýta sér strandsvæði til að afla fæðu og á um 15 milljónum ára varð aðlögun að lífinu í hafinu algjör og einn mikilvægasti þátturinn var að heyrnin aðlagaðist neðansjávarskilyrðum. Í stað þess að nota ytri eyrun til að nema hljóð fóru forfeður hvala að nema hljóð neðansjávar með neðri kjálka sem grípur hljóðbylgjurnar og ber þær upp að innra eyra. Sú hæfni gerði þeim kleift að greina staðsetningu hljóðgjafans neðansjávar. Þeir fóru svo einnig að geta gefið frá sér hljóð í vatni. „Og í sjónum berst ljós mun styttra en í lofti,“ segir Edda. „En aftur á móti þá berst hljóð fjórum sinnum hraðar í vatni en í lofti. Það getur borist hundruð og jafnvel þúsundir kílómetra ef skilyrðin eru góð.“

Það er einmitt þetta sem gerir hvölum kleift að eiga í samskiptum yfir langar vegalengdir. „Afleiðing af þessari þróunarsögu hvala, en virðist breytilegt milli tegunda, er að samskiptin verða margslungin og flókin.“

Og þá erum við komin að því sem er einna merkilegast og rannsóknir Eddu hafa m.a. beinst að: „Hjá sumum tegundum hefur þetta þróast í flókna og langa söngva. Mörg karldýr reyðarhvala vekja athygli á sér með því að syngja og nýta söngvana einnig í samkeppni sinni við önnur karldýr.“

Auglýsing

Þetta sjáum við til dæmis hjá hnúfubaknum. „Hann er einstakur í samanburði við ýmsa frændur sína að því leyti að söngvarnir sem hann syngur eru alveg ótrúlega flóknir og fjölbreyttir. Og þeir þróast yfir árið og breytast milli ára.“

Það sem er jafnvel enn áhugaverðara er að karlkyns hnúfubakar á sama svæði, sem eru í hlustunarfæri við hvern annan, syngja sömu söngvana. Sömu söngvarnir geta svo dreifst um stór svæði, allt frá Íslandi til Karabíska hafsins. Um gífurlega langan veg.

„Það er ekki þar með sagt að hvalur sem syngur hér við Ísland heyrist til Karabíska hafsins,“ útskýrir Edda og bendir á að landslag í sjónum, hæðir og hólar, deyfi hljóðið og auk þess sé margskonar hljóðmengun í hafinu. „En þessir hvalir eru á svo gífurlegum ferðalögum og á milli þeirra eru mikil samskipti. Þess vegna dreifast söngvarnir.“

Þannig heyrum við söngva sem eru eins við Ísland, í Karabíska hafinu og við Grænhöfðaeyjar innan sama ársins. „Svo kemur nýtt ár þá sér maður nokkra búta úr laginu frá því í fyrra en alls konar ný erindi,“ segir Edda.

Og þetta er ekki allt.

Hnúfubakar þróa með sér hæfni til þess að syngja runur sem eru endurteknar aftur og aftur. Ein runa getur verið 10-20 mínútur. „Hjá þeim er því til staðar hæfni til hljóðmyndunar, að muna langar runur og geta endurtekið þær aftur og aftur. Og svo geta þeir lært nýja runu á hverju ári.“

Nicholai Xuereb

Söngvarnir eru dýrunum fyrst og fremst til gagns og vitum við ekki hvort þeir hafa sama yndi og ánægju af söngvunum eins og maðurinn en það gæti þó vel verið, segir Edda. Með þeim koma þeir upplýsingum sín á milli sem líklega gefa til kynna hæfni og eiginleika söngvarans, t.d. stærð, söngvarnir virðast nýtast karldýrunum til að helga sér svæði og svo alveg örugglega til að vekja athygli kvendýranna sem virðast ekki búa yfir þessum sönghæfileikum. „Þetta nýtist karldýrunum alveg klárlega og ákveðnar aðstæður hafa ýtt undir þróun þessa mikla sönglífernis á fengitímanum.

En við vitum ekki ennþá hvað það er í söngnum og sönghæfninni sem að heillar kvendýrið, eða sem gerir karldýrið, söngvarann, að sterkari maka.“

Ertu með einhverja kenningu um það?

„Það virðist vera að það skipti máli fyrir hnúfubaka að geta myndað fjölbreyttar gerðir af tónum sem að geta borist vel um strandsvæði sem eru þeirra helstu fengi- og fæðuöflunarsvæði. En á strandsvæðum er ýmist grunnt eða djúpt og það fer eftir því hvort að tónarnir eru háir eða lágir, langir eða stuttir, hvernig þeir berast í hverju umhverfi fyrir sig.

Þannig að fjölbreytt tónamyndun er gagnleg til að auka líkurnar á að hljóðin berist. Það gæti verið að kvendýrin geti líka lesið eitthvað um líkamsstærð karldýrsins út frá styrkleika dýpstu tónanna. Þetta þekkjum við hjá mörgum öðrum spendýrum. Til að geta myndað djúpan tón með miklum styrk þarf stóran líkama.

En svo er það mjög líklegt að getan til að geta fylgt mynstrinu í söngnum sé vísbending um einhvers konar hæfni eða vitsmuni. Söngvarnir virðast auk þess hjálpa karldýrunum til að stilla sig af gagnvart hvert öðru. Ef annað karldýr kemur í áttina að syngjandi karldýri þá hættir söngurinn og söngvarinn færir sig. Einnig renna önnur karldýr á söngvana og reyna að stugga söngvaranum í burtu.

Rannsóknir hafa sýnt að syngjandi karldýr eru að jafnaði með um fimm kílómetra radíus í kringum sig. Þannig að söngurinn gæti líka haft það hlutverk að marka sér yfirráðasvæði á fengitímanum.“

Vísindavefurinn

Þannig að samantekið virðist þrennt skipta máli þegar kemur að söngvunum: Djúpir tónar, fjölbreytileiki þeirra og getan til að muna rununa, það er að segja laglínuna. „Það hefur ekki verið hægt að sanna það að kvendýrin velji sér „besta“ söngvarann. Það flækir þetta svolítið fyrir okkur. En við vitum að þessir mögnuðu söngvar hafa tilgang og örugglega fleiri en eitt hlutverk.“

Söngvar hnúfubaka eru stöðugt til rannsókna meðal margra hópa vísindamanna um alla heim og ný þekking því stöðugt að verða til.

Spjalla og leika sér

Hnúfubakar kjósa að dvelja við Ísland yfir sumartímann en að hausti fara þeir að undirbúa sig fyrir ferðalagið suður á bóginn. Þá hópa þeir sig gjarnan nokkrir saman „og þá er mikið spjallað,“ segir Edda. Þeir leika líka alls konar kúnstir og eru kannski aðeins að byrja að kynda undir kvendýrunum. Sýna sig svolítið.

Hnúfubakur var einn af þeim hvölum sem veiddur var við Íslandsstrendur í miklu magni á árum áður svo það nálgaðist útrýmingu. Með hvalveiðibanninu árið 1986 var veiðum á honum hætt og þegar veiðar hófust aftur fyrir nokkrum árum þá var skutlunum beint að hrefnum og langreyðum.

Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávar- og atferlisvistfræðingur. Mynd: Kristinn Ingvarsson/Háskóli Íslands

„Þó að stofn hnúfubaks hafi náð sér á strik erum við ekki að tala um gífurlega háar tölur,“ segir Edda. „Þetta eru um 11-15 þúsund dýr í öllu Norður-Atlantshafinu. Núna á allra síðustu árum hafa fleiri hvalir sést við landið. Líklega er ekkert óeðlilegt við það heldur virðist stofninn vera að ná ákveðnu náttúrulegu jafnvægi. En það sem við erum að sjá núna og virðist vera nýtt er að við erum að sjá hér miklu meira af hvölum yfir veturinn.“

Það hefur vakið spurningar um farhegðun þessara hvala og aðlögunarhæfni þeirra við breytingum í hafinu. Og í ljós er að koma að hnúfubakar eru mun sveigjanlegri í sínum lifnaðarháttum en áður var talið. „Það er margt sem bendir til þess að þeir séu ansi færir í að aðlagast breytingum í hafinu og nýta sér fjölbreyttar fæðuauðlindir. Þeir virðast á margan hátt vera klókir í samskiptum og fæðuöflun. Það gæti verið þeim til happs í hafi sem breytist hratt. En það er ekki þar með sagt að hnúfubakur muni spjara sig vel alls staðar.“

Auglýsing

Hnúfubakar eru ekki sérstaklega frændræknir. Kálfarnir synda við hlið mæðra sinna í um það bil ár en fara svo sínar eigin leiðir. Hjá öðrum tegundum, til dæmis ýmsum höfrungum, halda kálfarnir sig hjá mæðrum sínum í fleiri ár, jafnvel þar til þeir verða um 25 ára.

En þannig er því ekki farið hjá reyðarhvölunum sem hnúfubakurinn tilheyrir. Fjölskyldutengslin virðast ekki sterk en þeir mynda hins vegar „tækifærissinnuð vinatengsl“, eins og Edda orðar það, sem oftast vara í einhverjar vikur en geta þó varað árum saman. „Þeir eru fullkomlega færir til að bjarga sér einir en þeir eru í sífelldum samskiptum við aðra hnúfubaka. Þetta er samt mjög mismunandi milli einstaklinga. Sumir hafa þörf til að vera alltaf í hópum á meðan aðrir eru meiri einfarar.“

En þó að það sé stundum líf og fjör og engar veiðar séu stundaðar á hnúfubökum þá steðja ýmsar ógnir að þeim.

Athafnir mannsins helsta ógnin

„Það er fyrst og fremst maðurinn og athafnir mannsins sem ógna tilveru hans,“ segir Edda. „Hann verður til dæmis fyrir neikvæðum áhrifum af hljóð- og plastmengun í hafinu.“ Gífurlega há prósenta þeirra lenda einhvern tímann á lífsleiðinni í veiðarfærum. Nýlega kom út íslensk rannsókn um að í kringum 20 prósent þeirra hnúfubaka sem greindir voru sýndu merki um að hafa flækst í veiðarfærum. „Og þetta eru bara þeir sem hafa lifað það af.“

Þá ógnar aukin umferð stórra skipa einnig hnúfubaknum og öðrum hvölum. Og öll hljóðmengun í hafinu sömuleiðis. Það truflar samskipti þeirra. Söngvana.

Hvalir vaxa hægt, verða að jafnaði seint kynþroska og fjölga sér hægt. „Það er því mjög auðvelt að ganga hratt á stofnana, hvort sem það er með beinum veiðum eða óbeinum athöfnum. Svo að það er vissulega á mörgum stöðum áhyggjuefni.“

Nicholai Xuereb

En aftur að hnúfubaknum sem þúsundir Íslendinga virtu fyrir sér slást um í fjöruborðinu á Garðskaga á dögunum. Þetta er ekki algengt. Að hræ hnúfubaka reki að landi á Íslandi. Líkt og þeir geta verið forvitnir um mannanna ferðir á sjó vakti þessi tiltekni hnúfubakur forvitni mannanna.

Við vitum ekki hvað hún var gömul, kannski nokkurra ára, kannski um þrítugt, en við vitum samt að ævi hennar var áhugaverð.

„Hún hefur hlustað á söngva í hafinu, fundið þar með næmni sinni fæðu og fengið að upplifa margbreytileika sjávar, bæði eitthvað heillandi og ógnvænlegt. Og vonandi eitthvað forvitnilegt og skemmtilegt líka,“ segir Edda um lífshlaupið.

Hræið var orðið útbelgt vegna gasmyndunar og því þótti ekki annað fært en að draga það á haf út og sökkva því. Þar með er hafin hringrás sem er fjölda lífvera nauðsynleg. „Hræið hennar er gífurlega mikilvægt fyrir botnvistkerfið,“ segir Edda. „Í því er mjög mikil næring og fjöldinn allur af dýrum mun narta í það. Og stór hluti orkunnar sem hélt henni lifandi mun flytjast yfir í vistkerfið.“

Lífið sem slokknar getur af sér nýtt líf.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal