Alec Burslem © Edda Elísabet Magnúsdóttir

Hefur hlýtt á sinn síðasta söng

Hún hefur verið víðförul um heiminn. Að öllum líkindum farið nokkrar ferðir suður á bóginn. Alla leið í Karabíska hafið. Svo hefur hún örugglega makast og mögulega eignast afkvæmi. „Og við munum fljótlega komast að því hvort að hún var þunguð á þeim tímapunkti sem hún lést,“ segir sjávar- og atferlisvistfræðingurinn Edda Elísabet Magnúsdóttir um hnúfubakinn sem rak á land á Garðskaga og dró að sér þúsundir forvitinna manna.

Gríð­ar­legur áhugi almenn­ings á hræi hnúfu­baks­ins sem rak að landi á Garð­skaga fyrir nokkrum dögum kemur Eddu Elísa­betu Magn­ús­dótt­ur, sjáv­ar- og atferl­is­vist­fræð­ingi, ekki sér­stak­lega á óvart.

„Síð­ustu árin hefur áhugi Íslend­inga á hvölum auk­ist veru­lega. Það hefur mikil vit­und­ar­vakn­ing orðið um að þeir eru hluti af nátt­úru Íslands,“ segir hún. „Við höfum auð­vitað alltaf vitað af þeim en það er ekki fyrr en á síð­ustu árum að atferli þeirra hefur verið rann­sakað að ein­hverju marki. Þannig hefur verið aflað þekk­ingar um hvernig lífi þeir lifa, hvernig ár í lífi hvals er.“

Eitt af því sem stuðl­aði að vit­und­ar­vakn­ing­unni var hvala­skoð­un. „Hún færði okkur allt í einu nær hvöl­un­um,“ segir Edda.

Um leið og fréttir bár­ust af því fyrir nokkrum dögum að hræ hnúfu­baks hefði rekið að landi beið fólk ekki boð­anna, þrátt fyrir jarð­skjálfta og hættu á eld­gosi á Reykja­nesskag­an­um, að fara á vett­vang og berja það aug­um. Talið er að mörg þús­und manns hafi lagt leið sína þang­að.

Mynd­bandið efst í grein­inni er tekið nýverið á dróna í Icelandic Winter Whale-­rann­sókn­ar­leið­angri af Alec Burslem en er í eigu Eddu. Á því má sjá hnúfu­baka og hnýð­inga leika sér í haf­inu norður af land­inu.

Auglýsing

Þetta var kven­dýr, um fimmtán metrar á lengd og lík­lega um 30 tonn að þyngd. Ómögu­legt er að segja með nokk­urri nákvæmni hversu gömul hún var en við vitum þó að hún var full­orðin og því að öllum lík­indum frjó. Og lík­lega ekki öld­ungur því þá hefði hún verið mun meira rispuð eftir lífs­ins ólgu­sjó við þær oft á tíðum krefj­andi aðstæður sem upp koma við fæðu­öflun á hafs­botni, árekstra við báta og árásir háhyrn­inga, hákarla og jafn­vel höfr­unga sem eiga það til að bíta í sporð hnúfu­bak­anna. Engin ummerki um slíkt voru sjá­an­leg á henni. „Hvers vegna hún dó er ómögu­legt að vita,“ segir Edda. „Það getur verið af nátt­úru­legum orsök­um. Kannski var hún þunguð. Kannski voru ein­hver vanda­mál tengd því. Kannski var hún bara veik. Kannski var hún búin að ná háum aldri en leit óvenju­lega vel út. En það eru auð­vitað alltaf ákveðin afföll af stofni. Dýr úr honum deyja og af ýmsum orsök­um.“

Frá því um ára­mótin hefur nokkur fjöldi hnúfu­baka haldið sig við Vest­manna­eyj­ar. Þar hefur verið að finna síld sem hefur vænt­an­lega dregið þá að. „Það er ekk­ert ósenni­legt að þessi hvalur hafi einmitt verið á þeim slóð­u­m,“ segir Edda.

Nicholai Xuereb

Þar sem hræið rak að landi á svæði í alfara­leið var ekki ráð­legt að opna það til rann­sókna enda getur slík aðgerð verið nokkuð blóð­ug. En úr því voru tekin ýmis líf­sýni sem munu koma að gagni. „Það verður mjög áhuga­vert að sjá hvort að hún var þunguð. Það mun rann­sókn á sýn­unum leiða í ljós. Við ættum einnig að geta kom­ist að því hvað hún hefur verið að éta síð­ustu þrjá mán­uði eða svo og á hvaða svæð­um, hvort hún hafi haldið til á úthafs­svæðum eða strand­svæð­u­m.“

Hvalir eru risa­stórar skepnur og það eitt vekur skilj­an­lega athygli. En það er svo miklu fleira en stærðin sem gerir hnúfu­baka sér­stak­lega athygl­is­verða. Það veit Edda vel enda hafa þeir verið eitt helsta rann­sókn­ar­efni hennar í mörg ár.

Hler­aði hvali

Edda Elísabet með sogskálamerki sem reynt er að setja á hvali sem tekur svo upp mynd og hljóð og kortleggur köfunarhegðun. Mynd: Alec Burslem

Edda er líf­fræð­ingur og eftir að hafa lokið grunn­námi í því fagi hélt hún áfram á mennta­braut­inni, tók meist­ara­próf og í kjöl­farið dokt­ors­próf. Í fram­halds­nám­inu beindi hún sjónum fyrst og fremst að hvöl­um. „Við Ísland er ein­stakt tæki­færi til að rann­saka fjölda teg­unda,“ segir hún um áhuga sinn á hvöl­um. Þegar hún hóf námið fannst henni mikið vanta upp á rann­sóknir á atferli þeirra. „Haf­rann­sókn­ar­stofnun hefur lengi sinnt mik­il­vægu stofn­stærð­ar­mati og þess háttar en það skorti yfir­grips­meiri þekk­ingu á þessum dýrum – dýrum sem spila mjög stóra rullu í okkar vist­kerfi umhverfis land­ið.“

Renndu blint í sjó­inn

Í meist­ara­nám­inu rann­sak­aði Edda Elísa­bet hnýð­inga, þá höfr­unga sem sjást hvað mest við Ísland en í dokt­ors­nám­inu hóf hún að beita nýstár­legum aðferð­um: Að taka upp hljóð í sjónum við Húsa­vík. „Við ákváðum að fara ein­fald­lega þá leið að hlera til að kynn­ast því sem er að ger­ast í haf­inu árið um kring,“ segir hún. „Við vorum í raun­inni að renna blint í sjó­inn. Vissum ekk­ert hversu mikil hljóð hval­irnir myndu gefa frá sér og hversu mikið þeir væru hérna yfir höf­uð.“

Fleiri rann­sókn­ar­að­ferðum var einnig beitt og nið­ur­stöð­urnar reynd­ust mjög áhuga­verð­ar.

Hnúfubakur stekkur. Vegna þess hversu mikið þeir halda sig við yfirborð sjávar eru þeir auðveldara rannsóknarefni en margir aðrir hvalir.
Jérémie Silvestro

Hvalir eiga sér fjór­fætta for­feður á landi. Þró­un­ar­saga þeirra bygg­ist á því að þessi for­faðir fór að nýta sér strand­svæði til að afla fæðu og á um 15 millj­ónum ára varð aðlögun að líf­inu í haf­inu algjör og einn mik­il­væg­asti þátt­ur­inn var að heyrnin aðlag­að­ist neð­an­sjáv­ar­skil­yrð­um. Í stað þess að nota ytri eyrun til að nema hljóð fóru for­feður hvala að nema hljóð neð­an­sjávar með neðri kjálka sem grípur hljóð­bylgj­urnar og ber þær upp að innra eyra. Sú hæfni gerði þeim kleift að greina stað­setn­ingu hljóð­gjafans neð­an­sjáv­ar. Þeir fóru svo einnig að geta gefið frá sér hljóð í vatni. „Og í sjónum berst ljós mun styttra en í loft­i,“ segir Edda. „En aftur á móti þá berst hljóð fjórum sinnum hraðar í vatni en í lofti. Það getur borist hund­ruð og jafn­vel þús­undir kíló­metra ef skil­yrðin eru góð.“

Það er einmitt þetta sem gerir hvölum kleift að eiga í sam­skiptum yfir langar vega­lengd­ir. „Af­leið­ing af þess­ari þró­un­ar­sögu hvala, en virð­ist breyti­legt milli teg­unda, er að sam­skiptin verða marg­slungin og flók­in.“

Og þá erum við komin að því sem er einna merki­leg­ast og rann­sóknir Eddu hafa m.a. beinst að: „Hjá sumum teg­undum hefur þetta þró­ast í flókna og langa söngva. Mörg karl­dýr reyð­ar­hvala vekja athygli á sér með því að syngja og nýta söngvana einnig í sam­keppni sinni við önnur karl­dýr.“

Auglýsing

Þetta sjáum við til dæmis hjá hnúfu­bakn­um. „Hann er ein­stakur í sam­an­burði við ýmsa frændur sína að því leyti að söngv­arnir sem hann syngur eru alveg ótrú­lega flóknir og fjöl­breytt­ir. Og þeir þró­ast yfir árið og breyt­ast milli ára.“

Það sem er jafn­vel enn áhuga­verð­ara er að karl­kyns hnúfu­bakar á sama svæði, sem eru í hlust­un­ar­færi við hvern ann­an, syngja sömu söngvana. Sömu söngv­arnir geta svo dreifst um stór svæði, allt frá Íslandi til Kar­ab­íska hafs­ins. Um gíf­ur­lega langan veg.

„Það er ekki þar með sagt að hvalur sem syngur hér við Ísland heyr­ist til Kar­ab­íska hafs­ins,“ útskýrir Edda og bendir á að lands­lag í sjón­um, hæðir og hól­ar, deyfi hljóðið og auk þess sé margs­konar hljóð­mengun í haf­inu. „En þessir hvalir eru á svo gíf­ur­legum ferða­lögum og á milli þeirra eru mikil sam­skipti. Þess vegna dreifast söngv­arn­ir.“

Þannig heyrum við söngva sem eru eins við Ísland, í Kar­ab­íska haf­inu og við Græn­höfða­eyjar innan sama árs­ins. „Svo kemur nýtt ár þá sér maður nokkra búta úr lag­inu frá því í fyrra en alls konar ný erind­i,“ segir Edda.

Og þetta er ekki allt.

Hnúfu­bakar þróa með sér hæfni til þess að syngja runur sem eru end­ur­teknar aftur og aft­ur. Ein runa getur verið 10-20 mín­út­ur. „Hjá þeim er því til staðar hæfni til hljóð­mynd­un­ar, að muna langar runur og geta end­ur­tekið þær aftur og aft­ur. Og svo geta þeir lært nýja runu á hverju ári.“

Nicholai Xuereb

Söngv­arnir eru dýr­unum fyrst og fremst til gagns og vitum við ekki hvort þeir hafa sama yndi og ánægju af söngvunum eins og mað­ur­inn en það gæti þó vel ver­ið, segir Edda. Með þeim koma þeir upp­lýs­ingum sín á milli sem lík­lega gefa til kynna hæfni og eig­in­leika söngv­ar­ans, t.d. stærð, söngv­arnir virð­ast nýt­ast karl­dýr­unum til að helga sér svæði og svo alveg örugg­lega til að vekja athygli kven­dýr­anna sem virð­ast ekki búa yfir þessum söng­hæfi­leik­um. „Þetta nýt­ist karl­dýr­unum alveg klár­lega og ákveðnar aðstæður hafa ýtt undir þróun þessa mikla söng­líf­ernis á fengi­tím­an­um.

En við vitum ekki ennþá hvað það er í söngnum og söng­hæfn­inni sem að heillar kven­dýrið, eða sem gerir karl­dýrið, söngv­arann, að sterk­ari maka.“

Ertu með ein­hverja kenn­ingu um það?

„Það virð­ist vera að það skipti máli fyrir hnúfu­baka að geta myndað fjöl­breyttar gerðir af tónum sem að geta borist vel um strand­svæði sem eru þeirra helstu fengi- og fæðu­öfl­un­ar­svæði. En á strand­svæðum er ýmist grunnt eða djúpt og það fer eftir því hvort að tón­arnir eru háir eða lágir, langir eða stutt­ir, hvernig þeir ber­ast í hverju umhverfi fyrir sig.

Þannig að fjöl­breytt tóna­myndun er gagn­leg til að auka lík­urnar á að hljóðin ber­ist. Það gæti verið að kven­dýrin geti líka lesið eitt­hvað um lík­ams­stærð karl­dýrs­ins út frá styrk­leika dýpstu tón­anna. Þetta þekkjum við hjá mörgum öðrum spen­dýr­um. Til að geta myndað djúpan tón með miklum styrk þarf stóran lík­ama.

En svo er það mjög lík­legt að getan til að geta fylgt mynstr­inu í söngnum sé vís­bend­ing um ein­hvers konar hæfni eða vits­muni. Söngv­arnir virð­ast auk þess hjálpa karl­dýr­unum til að stilla sig af gagn­vart hvert öðru. Ef annað karl­dýr kemur í átt­ina að syngj­andi karl­dýri þá hættir söng­ur­inn og söngv­ar­inn færir sig. Einnig renna önnur karl­dýr á söngvana og reyna að stugga söngv­ar­anum í burtu.

Rann­sóknir hafa sýnt að syngj­andi karl­dýr eru að jafn­aði með um fimm kíló­metra rad­íus í kringum sig. Þannig að söng­ur­inn gæti líka haft það hlut­verk að marka sér yfir­ráða­svæði á fengi­tím­an­um.“

Vísindavefurinn

Þannig að sam­an­tekið virð­ist þrennt skipta máli þegar kemur að söngvun­um: Djúpir tón­ar, fjöl­breyti­leiki þeirra og getan til að muna run­una, það er að segja lag­lín­una. „Það hefur ekki verið hægt að sanna það að kven­dýrin velji sér „besta“ söngv­ar­ann. Það flækir þetta svo­lítið fyrir okk­ur. En við vitum að þessir mögn­uðu söngvar hafa til­gang og örugg­lega fleiri en eitt hlut­verk.“

Söngvar hnúfu­baka eru stöðugt til rann­sókna meðal margra hópa vís­inda­manna um alla heim og ný þekk­ing því stöðugt að verða til.

Spjalla og leika sér

Hnúfu­bakar kjósa að dvelja við Ísland yfir sum­ar­tím­ann en að hausti fara þeir að und­ir­búa sig fyrir ferða­lagið suður á bóg­inn. Þá hópa þeir sig gjarnan nokkrir saman „og þá er mikið spjall­að,“ segir Edda. Þeir leika líka alls konar kúnstir og eru kannski aðeins að byrja að kynda undir kven­dýr­un­um. Sýna sig svo­lít­ið.

Hnúfu­bakur var einn af þeim hvölum sem veiddur var við Íslands­strendur í miklu magni á árum áður svo það nálg­að­ist útrým­ingu. Með hval­veiði­bann­inu árið 1986 var veiðum á honum hætt og þegar veiðar hófust aftur fyrir nokkrum árum þá var skutl­unum beint að hrefnum og lang­reyð­um.

Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávar- og atferlisvistfræðingur. Mynd: Kristinn Ingvarsson/Háskóli Íslands

„Þó að stofn hnúfu­baks hafi náð sér á strik erum við ekki að tala um gíf­ur­lega háar töl­ur,“ segir Edda. „Þetta eru um 11-15 þús­und dýr í öllu Norð­ur­-Atl­ants­haf­inu. Núna á allra síð­ustu árum hafa fleiri hvalir sést við land­ið. Lík­lega er ekk­ert óeðli­legt við það heldur virð­ist stofn­inn vera að ná ákveðnu nátt­úru­legu jafn­vægi. En það sem við erum að sjá núna og virð­ist vera nýtt er að við erum að sjá hér miklu meira af hvölum yfir vet­ur­inn.“

Það hefur vakið spurn­ingar um far­hegðun þess­ara hvala og aðlög­un­ar­hæfni þeirra við breyt­ingum í haf­inu. Og í ljós er að koma að hnúfu­bakar eru mun sveigj­an­legri í sínum lifn­að­ar­háttum en áður var talið. „Það er margt sem bendir til þess að þeir séu ansi færir í að aðlag­ast breyt­ingum í haf­inu og nýta sér fjöl­breyttar fæðu­auð­lind­ir. Þeir virð­ast á margan hátt vera klókir í sam­skiptum og fæðu­öfl­un. Það gæti verið þeim til happs í hafi sem breyt­ist hratt. En það er ekki þar með sagt að hnúfu­bakur muni spjara sig vel alls stað­ar.“

Auglýsing

Hnúfu­bakar eru ekki sér­stak­lega frænd­rækn­ir. Kálfarnir synda við hlið mæðra sinna í um það bil ár en fara svo sínar eigin leið­ir. Hjá öðrum teg­und­um, til dæmis ýmsum höfr­ung­um, halda kálfarnir sig hjá mæðrum sínum í fleiri ár, jafn­vel þar til þeir verða um 25 ára.

En þannig er því ekki farið hjá reyð­ar­hvöl­unum sem hnúfu­bak­ur­inn til­heyr­ir. Fjöl­skyldu­tengslin virð­ast ekki sterk en þeir mynda hins vegar „tæki­fær­issinnuð vina­tengsl“, eins og Edda orðar það, sem oft­ast vara í ein­hverjar vikur en geta þó varað árum sam­an. „Þeir eru full­kom­lega færir til að bjarga sér einir en þeir eru í sífelldum sam­skiptum við aðra hnúfu­baka. Þetta er samt mjög mis­mun­andi milli ein­stak­linga. Sumir hafa þörf til að vera alltaf í hópum á meðan aðrir eru meiri ein­far­ar.“

En þó að það sé stundum líf og fjör og engar veiðar séu stund­aðar á hnúfu­bökum þá steðja ýmsar ógnir að þeim.

Athafnir manns­ins helsta ógnin

„Það er fyrst og fremst mað­ur­inn og athafnir manns­ins sem ógna til­veru hans,“ segir Edda. „Hann verður til dæmis fyrir nei­kvæðum áhrifum af hljóð- og plast­mengun í haf­in­u.“ Gíf­ur­lega há pró­senta þeirra lenda ein­hvern tím­ann á lífs­leið­inni í veið­ar­fær­um. Nýlega kom út íslensk rann­sókn um að í kringum 20 pró­sent þeirra hnúfu­baka sem greindir voru sýndu merki um að hafa flækst í veið­ar­fær­um. „Og þetta eru bara þeir sem hafa lifað það af.“

Þá ógnar aukin umferð stórra skipa einnig hnúfu­baknum og öðrum hvöl­um. Og öll hljóð­mengun í haf­inu sömu­leið­is. Það truflar sam­skipti þeirra. Söngvana.

Hvalir vaxa hægt, verða að jafn­aði seint kyn­þroska og fjölga sér hægt. „Það er því mjög auð­velt að ganga hratt á stofn­ana, hvort sem það er með beinum veiðum eða óbeinum athöfn­um. Svo að það er vissu­lega á mörgum stöðum áhyggju­efn­i.“

Nicholai Xuereb

En aftur að hnúfu­baknum sem þús­undir Íslend­inga virtu fyrir sér slást um í fjöru­borð­inu á Garð­skaga á dög­un­um. Þetta er ekki algengt. Að hræ hnúfu­baka reki að landi á Íslandi. Líkt og þeir geta verið for­vitnir um mann­anna ferðir á sjó vakti þessi til­tekni hnúfu­bakur for­vitni mann­anna.

Við vitum ekki hvað hún var göm­ul, kannski nokk­urra ára, kannski um þrí­tugt, en við vitum samt að ævi hennar var áhuga­verð.

„Hún hefur hlustað á söngva í haf­inu, fundið þar með næmni sinni fæðu og fengið að upp­lifa marg­breyti­leika sjáv­ar, bæði eitt­hvað heill­andi og ógn­væn­legt. Og von­andi eitt­hvað for­vitni­legt og skemmti­legt lík­a,“ segir Edda um lífs­hlaup­ið.

Hræið var orðið útbelgt vegna gas­mynd­unar og því þótti ekki annað fært en að draga það á haf út og sökkva því. Þar með er hafin hringrás sem er fjölda líf­vera nauð­syn­leg. „Hræið hennar er gíf­ur­lega mik­il­vægt fyrir botn­vist­kerf­ið,“ segir Edda. „Í því er mjög mikil nær­ing og fjöld­inn allur af dýrum mun narta í það. Og stór hluti orkunnar sem hélt henni lif­andi mun flytj­ast yfir í vist­kerf­ið.“

Lífið sem slokknar getur af sér nýtt líf.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal