Johannes Hahn, sem í september var tilnefndur sem nýr stækkunar- og nágrannastefnustjóri Evrópusambandsins, segir fullljóst að aðildarviðræður við Ísland hafi verið erfiðar. Sérstaklega hafi þetta átt við viðræðukafla um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál sem ekki hafi tekist að loka. Hins vegar sé enn gott svigrúm til viðræðna.
Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kynnti tillögu sína að liðskipan nýrrar framkvæmdastjórnar í september í kjölfar Evrópukosninga sem voru haldnar í maí. Á meðal þeirra breytinga sem Juncker leggur til að gera á framkvæmdastjórninni er að sameina þá hluta sem fara með stækkunarmál annars vegar og nágrannastefnu Evrópusambandsins hins vegar.
Á mánudag 29. september hófust svokallaðar yfirheyrslur Evrópuþingsins yfir þeim 27 framkvæmdastjórum sem lagt er til að starfi með Juncker. Evrópuþingið þarf að leggja blessun sína yfir tillögu hans núna í október svo að nýju framkvæmdastjórarnir geti hafið störf 1. nóvember. Hafni Evrópuþingið tillögunni þarf að leggja fram aðra liðskipan.
Þingið áhugalítið um Ísland
Hahn mætti fyrir utanríkismálanefnd þingsins á þriðjudag 30. september þar sem hann svaraði spurningum um hver yrðu stefnumál hans næstu fimm árin. Augljóst var að Evrópuþingmennirnir höfðu mikinn áhuga á því hvernig Hahn muni hægja á stækkun Evrópusambandsins í samræmi við boðaða stefnu Junckers. Í því skipunarbréfi sem Juncker sendi Hahn í september leggur hann til að Hahn framfylgi viðræðum við umsóknarríki á Vestur-Balkanskaganum. Hvorki er minnst á umsókn Íslands né Tyrklands.
Hahn var þráspurður um viðhorf hans til mannréttindabrota í Tyrklandi og framhald aðildarviðræðnanna sem samþykktar voru árið 2004 en hafa verið í frosti síðan þá. Enginn Evrópuþingmaður spurði Hahn aftur á móti út í aðildarferli Íslands og framhald þess. Þvert á móti nefndi Hahn Ísland sem dæmi í svari við spurningu um hvernig hann muni afgreiða nýjar umsóknir og hvort Evrópusambandið hefði farið úr hófi fram í stækkun þess.
Gæði umfram hraða
Slagorð Hahns verður að hafa gæði umfram hraða í afgreiðslu umsókna ríkja að Evrópusambandinu. Hann vill herða kröfur til umsóknarríkja um að þau lagi sig að regluverki þess og uppfylli öll nauðsynleg skilyrði, svo sem í efnahags- og mannréttindamálum. Í tilfelli Tyrklands sagði Hahn vera vongóður um að hægt væri að taka upp þráðinn að nýju og hugsanlega opna nýja viðræðukafla, enda hefði nýr Evrópumálaráðherra þar kynnt áætlun um hvernig mætti endurvekja aðildarferlið. Í svari Hahns til þingnefndarnnar gaf hann sömuleiðis til kynna að hann væri reiðubúinn til að hefja viðræður aftur við Ísland þegar stjórnvöld væru reiðubúin, en að hann myndi ekki hafa frumkvæði að því að slíta viðræðum.
„Reynslan hefur kennt okkur að sumir viðræðukaflar hafi verið opnaðir og lokað of snemma. Í Serbíu og Svartfjallalandi hafa þessir kaflar verið settir aftarlega á dagskrá til að tryggja að viðmiðum um atriði eins og gagnsæi, réttarfar og tjáningarfrelsi verði fylgt eftir. Þetta eru viðræður sem stefna að ákveðnu markmiði sem er að koma á laggirnar breytingum. Ríkin ákveða viðbragðshraða þeirra og hversu langan tíma þau þurfa í aðildarferlið,“ sagði Hahn við þingnefndina.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hahn lætur þessa skoðun í ljós því hann hefur verið framkvæmdastjóri byggðastefnu Evrópusambandsins frá 2009 og fór hann í opinbera heimsókn til Íslands árið 2012. Þá ræddi hann við íslensk stjórnvöld um hugsanlega þátttöku Íslands í byggðasjóði Evrópusambandsins. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 28. september 2012, skrifaði Hahn um þátttöku Íslands í Evrópumálum og hugsanlega aðild að sambandinu. „Ákvörðunin um hvort ganga eigi til liðs við ESB er stór og mikilvæg og alfarið í höndum Íslendinga. Aðildarviðræðum miðar vel áfram og nú þegar er viðræðum lokið í tíu af þeim þrjátíu og fimm köflum regluverks ESB sem þarf að semja um áður en kemur að ákvörðun um aðild.“
Ekkert sérval í EES
Samkvæmt tillögu Junckers munu sex varaforsetar stýra allri vinnu framkvæmdastjórnarinnar. Stjórnarsvið Hahns mun heyra undir utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, Federicu Mogherini. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, sem Ísland, Noregur og Liechtenstein eru aðilar að og veitir aðgang að innri markaði Evrópusambandsins, hefur hingað til heyrt undir utanríkisþjónustu Evrópusambandsins. Hahn gerði þetta samstarf sömuleiðis að umtalsefni.
„Við munum reyna að efla samstarfið til að tryggja að reglur innri markaðsins verði virtar. Þar verður ekkert sérval,“ sagði Hahn og sendi þar með Íslandi og Noregi tóninn vegna þess hvernig löndin hafa dregið lappirnar í innleiðingu tilskipana og reglugerða frá Evrópusambandinu.
Þetta er ekki að ástæðulausu því í sumar birti Eftirlitsstofnun EFTA stöðumat sem sagði Ísland standa sig verst í innleiðingu tilskipana og reglugerða, eins og því ber skylda til í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þrjátíu og fjórar tilskipanir höfðu ekki verið innleiddar innan tiltekins tímaramma. Þann 24. september tapaði Ísland ennfremur þremur málum fyrir EFTA dómstólnum sem komst að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði ekki tekið upp þrjár tilskipanir í samræmi við samninginn. Dæmi eru um að tilskipanir velkist um í kerfinu svo árum skiptir áður en þær eru teknar upp á Íslandi og hefur Ísland frestað afgreiðslu margra mála á fundum nefnda Evrópska efnahagssvæðisins, svo sem tilskipun um gagnageymd og fleiri.
Fulltrúar Evrópusambandsins hafa margítrekað sagt á fundum þessara nefnda að EFTA ríkin verði að bæta innleiðingu tilskipana og reglugerða og hyggst nýja framkvæmdastjórn endurskoða þetta fyrirkomulag þegar hún tekur við valdataumunum.
Á fundi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins var Hahn spurður út í viðhorf ríkja til Evrópusambandsins og hvers vegna rík lönd eins og Noregur og Sviss sóttu ekki um aðild heldur aðeins fátækari ríki. Hahn svaraði því ekki, en sagði að hann myndi gera sitt í því að bæta ímynd sambandsins. „Aðildarríkjum hefur fjölgað úr tólf í tuttugu og sjö á stuttum tíma. Samt sem áður hefur okkur tekist ætlunarverkið og náð merkilegum árangri. Við ættum að vera stolt og sjálfsörugg. Þetta ætti að vera grundvöllur frekari viðræðna,“ sagði hann.