Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í gær kröfu Hörpu að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar frá 30. maí 2012 verði ógiltur. Samkvæmt úrskurðinum átti Harpa að greiða 355 milljónir króna í fasteignagjöld á árinu 2012. Húsið hefur greitt um einn milljarð króna í slík gjöld á síðustu þremur árum og á að borga yfir 380 milljónir króna í þau í ár. Sú álagning, sem gerir það að verkum að rúmur þriðjungur af rekstrartekjum Hörpu fer í fasteignagjöld, mun því standa. Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir húsið ekki geta greitt svo háa upphæð í fasteignagjöld lengur.
Fasteignamat miðaði við byggingakostnað
Í maí 2011 var Harpan tekin í notkun. Í saman mánuði tilkynnti Þjóðskrá Íslands rekstrarfélagi Hörpu um að fasteignamat tónlistar- og ráðstefnuhússins væri reiknað 17 milljarðar króna, og var þar miðað við byggingakostnað þess. Það mat gerði það að verkum að fasteignagjöld sem Harpa þurfti að greiða Reykjavíkurborg voru 355 milljónir króna vegna þess árs. Tekjur af starfsemi Hörpu voru 492 milljónir króna árið 2011 og 645 milljónir króna árið 2012. Miðað við fasteignamatið var því ljóst að þorri rekstrartekna sem kæmu inn vegna útleigu á húsinu myndi fara í fasteignagjöld, sem rynnu auk þess í vasa annars eiganda Hörpu, Reykjavíkurborgar.
Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu.
Harpa vildi ekki sætta sig við þetta mat og kærði það til yfirfasteignamatsnefndar. Í kæru Hörpu kemur fram að stjórnendur Hörpu telji að fasteignamat hússins hefði átt að vera 6,8 milljarðar króna og fasteignagjöld í samræmi við það. Fasteignamatið ætti að taka mið af tekjumöguleikum hússins, ekki byggingakostnaði. Yfirfasteignamatsnefnd komst að þeirri niðurstöður fyrir nærri þremur árum síðan að fasteignamatið ætti hins vegar að halda, og Harpa ætti að greiða hin háum fasteignagjöld.
Í kjölfarið ákvað Harpa að leita til dómstóla og reyna að fá úrskurð yfirfasteignamatsnefndar ógildan. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu í gær.
Það sem er sérstakt við málið er að þar var lögmaðurinn Ásgerður Ragnarsdóttir,fyrir hönd Hörpu, að stefna ríkisstofnuninni Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurborg. Harpa var því að stefna eigendum sínum til að reyna að fá að greiða öðrum þeirra minna fé í fasteignagjöld sem hinn eigandinn, ríkið, ákvað hversu há ættu að vera. Einar Karl Hallvarðsson rak málið fyrir hönd Þjóðskrár og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson fyrir hönd Reykjavíkurborgar.
Segir Hörpu ekki geta borgað svona há gjöld
Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir að Harpa sé að borga þrisvar til fjórum sinnum meira í fasteignagjöld á fermeter en Kringlan, Smáralind og Leifsstöð, svo dæmi séu tekin. „Okkur fannst þetta mjög óréttlát álagning og töldum okkur ekki eiga annan kost í stöðunni en að leita með þetta mál til dómstóla. Héraðsdómur hefur nú hafnað því. Í kjölfarið þurfum við að meta stöðuna en það er alveg jafn ljóst nú og var áður, þótt veltan hjá Hörpu hafi aukist mikið, að þessi rekstur stendur ekki undir þessum álögum.“
Halldór segir að það verði skoðað gaumgæfilega hvort dómi héraðdóms verði áfrýjað. Niðurstaða liggi þó ekki fyrir.
Hann bendir á að Harpa hafi þegar greitt yfir einn milljarð króna í fasteignagjöld á árunum 2012 til 2014. Veltan í dag sé um 1.100 milljónir króna á ári og samkvæmt álagningu eigi Harpa að greiða yfir 380 milljónir króna í fasteignagjöld á þessu ári. Það geti Harpa einfaldlega ekki gert og þeim skilaboðum hafi verið komið til eigenda hússins, ríkisins og Reykjavíkurborgar.