Það tekur ekki langan tíma að finna sænskar síður sem innihalda viðbjóðslegan hatursboðskap. Margar þeirra beinast gegn innflytjendum og reyndar öllu því sem síðuhaldarar telja ógna hvíta kynstofninum. Í þessum kreðsum telja margir að Svíþjóðardemókratar gangi alls ekki nógu langt í málflutningi sínum og því hefur nýr flokkur verið stofnaður, Flokkur Svía. Þarna fær ómengaður hatursboðskapur útrás og allri gagnrýni á flokkinn er svarað með því að hún sé tilraun til að brjóta mannréttindi þeirra og hefta tjáningarfrelsi. Þessi spurning er orðin lykillinn að því að drepa alla umræðu um fordóma í Svíþjóð: Er ekki tjáningarfrelsi í landinu?
Síðustu tvær vikur hefur fréttaskýringarþátturinn Uppdrag Granskning í sænska sjónvarpinu fjallað um gyðinga- og múslimahatur í Svíþjóð. Þættirnir varpa ljósi á alvarlega stöðu því hatursglæpum fer fjölgandi á sama tíma og umburðarlyndi eykst hjá þjóðinni í heild. Það er tilfinning bæði þeirra sem verða fyrir slíkum glæpum og þeirra sem starfa að þessum málum, að lítill hópur sé orðinn háværari og gangi sífellt lengra. Gyðingar verða fyrir margvíslegu aðkasti sem birtist síðast í mótmælum gegn því að fjölmiðlar minntust þess að 70 ár væru liðin frá frelsun fanga í Auschwitz. Þótt aðgerðir nýnasista gegn gyðingum séu þekktar kom þó á óvart hvaða hópur það er sem ógnar þeim mest í Malmö.
„Okkar götur. Okkar torg.“ Í lok ágúst kom saman fjöldi fólks á götum Stokkhólms til að mótmæla fjöldafundi á vegum Flokks Svía.
Gyðingahatrið tengist deilunum um Palestínu
Í fyrrgreindum þætti SVT reyna þáttargerðarmenn að átta sig á því hverjir það eru sem hæðast að eða ógna gyðingum í Malmö. Í árlegri skýrslu sænskrar stofnunnar sem heldur utan um afbrotatölfræði kemur fram að það séu ekki nýnasistar sem standi fyrir flestum brotum gegn gyðingum. Algengara er að það séu þeir sem flust hafi til Svíþjóðar frá Miðausturlöndum og þá einkum ungir karlmenn. Tilvikunum fjölgar um leið og fréttir berast af átökum í Ísrael og Palestínu og í frétt SVT segjast gyðingar í Malmö ítrekað þurfa að svara fyrir aðgerðir ísraelska hersins. Árin 2013 og 2014 bárust lögreglunni á Skáni 137 kærur vegna gyðingahaturs. Þar gat verið um að ræða hakakrossa sem höfðu verið teiknaðir á hús, hótanir út á götu, árásir þar sem flöskum var kastað og sprengjuhótun sem beindist gegn bænahúsi gyðinga. Af þessum 137 kærum leiddi engin til ákæru, ekki einu sinni þar sem lögreglan taldi sig geta rakið 13 kærur til sama brotamanns.
Hann segir að umburðarlyndi hafa aukist hjá þjóðinni en að öfgamenn séu jafnframt meira áberandi en áður.
Þegar fréttamenn SVT setja upp trúartákn gyðinga og ganga um Malmö í þættinum taka langflestir þeim vel, líka í þeim hverfum þar sem innflytjendur frá Miðausturlöndum eru fjölmennastir. Einstaka maður horfir undarlega á þau en það er ekki fyrr en um kvöldið sem þeim finnst þeim ógnað. Þá kemur hópur ungra manna að þeim og vill ræða við þau um Ísrael. Á leiðinni burt er eggi kastað að þeim úr húsaglugga. Nokkrum dögum seinna koma þau aftur sem fréttamenn og ræða við nokkra af ungu mönnunum í þessum hópi. Þeir segja að eina ástæðan fyrir því að þeir hati gyðinga sé hvernig Ísrael komi fram við Palestínu.
Ætli það sé ekki ágætt að hnykkja á því hér að það er jafn fáránlegt að láta alla gyðinga svara fyrir aðgerðir Ísraelshers eins og að láta alla múslima svara fyrir gjörðir nokkurra einstaklinga úr þeirra röðum.
Múslimahatur er sýnilegra en áður
Hatursbrotum gegn múslimum fjölgar í Svíþjóð og reyndar tóku þeir kipp árið 2014 þegar á þriðja tug árása á moskur og bænahús áttu sér stað. Þrjár árásir hafa svo verið kærðar það sem af er ári. Árið 2013 voru 327 kærur vegna hatursbrota sem beindust gegn múslimum, 69 prósent fleiri en árið 2009. Lögreglan finnur gerandann í þremur prósentum tilvika og samkvæmt rannsókn Uppdrag Granskning hafa aðeins tveir dómar fallið undanfarin tíu ár vegna árásar á samkomustaði múslima. Í þættinum er rætt við félagsfræðinginn Klas Borell sem er einn helsti sérfræðingur Svía á þessu sviði. Hann segir að umburðarlyndi hafa aukist hjá þjóðinni en að öfgamenn séu jafnframt meira áberandi en áður. Það kemur berlega í ljós þegar rætt er við nokkra þeirra.
Ungar konur verða fyrir sérstaklega miklu aðkasti á götum úti og lenda oft í grófu einelti ef þær ákveða að ganga með slæðu.
Fréttamennirnir hringdu í nokkra sem eru virkir í hópum á Facebook sem berjast gegn moskum og múslimum í Svíþjóð. Ónafngreind kona segist vera hrædd um líf sitt og tengir það við múslima og reyndar alla innflytjendur. Hún hefur verið virk í starfi kirkjunnar en þegar hún er spurð hvers vegna múslimar megi ekki iðka sína trú segir hún að þeir séu öðruvísi. Hún útskýrir það ekkert frekar en bætir við að hún sé á eftirlaunum sem séu allt of lág. Hún hafi ekki efni á því að búa í eigin landi og tengir það innflytjendum. Karlmaður sem berst gegn nýrri mosku í Trollhättan segir í viðtali að ef hún verði byggð muni þeir sprengja hana í loft upp. Hann segir að fólk hafi vissulega rétt á að iðka sína trú „en ekki helvítis múslimahelvítin.“ Hann bætir við að þetta sé eiginlega ekki trú, heldur bara eitthvað pakk.
Árásir gegn múslimum eru margs konar. Hróp og köll úti á götu, hótanir, barsmíðar og íkveikjur. Ungar konur verða fyrir sérstaklega miklu aðkasti á götum úti og lenda oft í grófu einelti ef þær ákveða að ganga með slæðu. Eins og með gyðingana í Malmö má einnig finna tengingar við deilur í Miðausturlöndum þegar kemur að múslimahatri í Svíþjóð. Í Södertälje fyrir sunnan Stokkhólm er til að mynda stór hópur kristinna innflytjenda frá Sýrlandi og Írak. Flest brot gegn múslimum á svæðinu eru rakin til þessa hóps og í viðtali vísa nokkrir gerendur til árása gegn kristnu fólki í heimalandinu.
Þögul mótmæli á fjöldafundi Sænskra demókrata í Södertälje í september.
Þrátt fyrir tilraunir til að fá stjórnmálamenn til að beita sér í málinu hefur fátt gerst. Árið 2010 var myndaður hópur með fulltrúum ólíkra trúarhópa til að berjast gegn múslimahatri í Södertälje. Það tók þrjú ár að ná sátt um yfirlýsingu en í henni er ekki minnst á múslima heldur er aðeins talað um nauðsyn þess að minnka átök milli ólíkra hópa. Vandamálið blasir við því þegar á að taka á málum sem tengjast ákveðnum hópi rísa margir upp á afturlappirnar og telja að þar sé sjónarhornið of þröngt. Þar af leiðandi hverfa brot gegn minnihlutahópum í réttindabaráttu heildarinnar.
Hatur leiðir af sér hatur
Eftir þættina tvo hafa áhugaverðar umræður átt sér stað á heimasíðu Uppdrag Granskning og á samfélagsmiðlum. Skoðanir eru skiptar og gagnrýnin kemur úr mörgum áttum. Sumir túlka stöðuna þannig að innflytjendur taki sjálfir með sér vandamálin til Svíþjóðar, en öðrum finnst þættirnir draga upp neikvæða mynd af bæði múslimum í Malmö og kristnum Sýrlendingum í Södertälje. Í Aftonbladet bendir leiðarahöfundur á að í þáttunum sé ekki nefnt að gyðinga- og múslimahatur eigi sér langar rætur í Svíþjóð og hafi verið vandamál löngu áður en innflytjendum fjölgaði. Þetta er ekki alveg sanngjarnt því fréttamennirnir vísuðu vissulega í ummæli á Facebooksíðum og tóku viðtöl við fólk sem svo sannarlega eru ekki innflytjendur. Framkoma Svía gegn minnihlutahópum er reyndar skelfilegur hluti af sögu þjóðarinnar sem margir vilja gleyma. Í síðustu viku kom þetta berlega í ljós þegar fréttamaður SVT fékk yfir sig holskeflu af gagnrýni þegar hann spurði Viktoríu krónprinsessu út í móðurafa hennar sem var meðlimur í nasistaflokknum.
Önnur spurning sem hefur verið áberandi síðustu daga og vikur í Svíþjóð er hvort gagnrýna megi Islam án þess að það sé túlkað sem hatur gegn múslimum. Hvar eru mörk gagnrýni og haturs og hvernig á að ræða um kvenréttindi og réttindi hinsegin fólks án þess að alhæft sé um bæði trúarhópa og einstaklinga? Ætli svarið sé ekki einfaldlega – á nákvæmlega sama hátt og gert er almennt. Við verðum að þora að gagnrýna á málefnalegan hátt á sama tíma og við erum á varðbergi gagnvart þeim sem fela hatrið á bak við grímu tjáningarfrelsis. Lærdómurinn sem draga má af fréttaskýringum sænska sjónvarpsins er í raun furðu einfaldur, að hatur leiðir af sér meira hatur. Svo einfalt er það – en um leið svo afskaplega flókið.