Heiðar Már Guðjónsson, eigandi fjárfestingafélagsins Ursus, hefur dregið til baka mál sem hann höfðaði í sumar gegn Eignasafni Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Íslands. Heiðar Már höfðaði málið vegna meints tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna söluferli Sjóvár, en hann telur að ESÍ og Seðlabankinn hafi ekki staðið við samning um sölu á tryggingafélaginu til hóps sem hann leiddi árið 2010. Heiðar Már fór fram á rúmlega 1,4 milljarða króna ásamt vöxtum í bætur. Hann ætlar að hækka kröfuna um hálfan milljarð króna. Krafan verður því um 1,9 milljarðar króna.
Nýtt mál með hærri kröfu verður höfðað þegar í stað og héraðsdómur hefur fellt málið niður,“ segir Heiðar Már.
Heiðar Már staðfestir þetta við Kjarnann en segir að nýtt mál verði höfðað. „Málið er dregið til baka í því skyni að hækka fjárhæð kröfu sem Ursus gerir í málinu á hendur ESÍ og SÍ. Nýtt mál með hærri kröfu verður höfðað þegar í stað og héraðsdómur hefur fellt málið niður,“ segir Heiðar Már.
Komið var í veg fyrir að Heiðar Már fengi að leiða hóp til að kaupa Sjóvá árið 2010 vegna rannsóknar gjaldeyriseftirlits Seðlabankans áá skuldabréfaútgáfu félags Heiðars sem grunur lék á um að færu í bága við reglur Seðlabankans um gjaldeyrismál. Málinu var síðar vísað til embættis sérstaks saksóknara sem tók ákvörðun um að hætta rannsókn þess í febrúar 2012. Ríkissaksóknari staðfesti síðar ákvörðun sérstaks saksóknara.
Heiðar Már tilkynnti í kjölfarið að hann hefði falið lögmönnum sínum að undirbúa skaðabótamál á hendur Seðlabankanum vegna þess fjárhagslega tjóns sem rannsóknin hefði valdið honum.
Már sagður hafa þrýst á að Heiðar Már yrði ekki með
Tryggingafélagið Sjóvá fór illa út úr hruninu. Í maí 2009 ákvað íslenska ríkið að koma inn í félagið. Vátryggingarekstur Sjóvár var svo „seldur“ inn í nýtt félag, Sjóvá-almennar tryggingar ehf., þann 30. september 2009 .
Framlag ríkisins varð á endanum 11,6 milljarðar króna, sem voru greiddar með kröfum á aðra sem ríkið átti. Auk þess lögðu Glitnir og Íslandsbanki til um fimm milljarða króna svo nýja félagið yrði starfhæft. Í kjölfarið var nýja Sjóvá sett í söluferli til að reyna að ná meðgjöfinni til baka.
Sjóvá var auglýst til sölu í janúar 2010. Fjárfestahópur sem leiddur var af Heiðari Má Guðjónssyni átti hæsta tilboðið og hóf samningaviðræður við Seðlabanka Íslands, sem hélt á hlut ríkisins, og Íslandsbanka um kaupin.
Auk Heiðars Más stóðu að tilboðinu meðal annars Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Stefnir, Ársæll Valfells og systkinin Guðmundur og Berglind Jónsbörn, kennd við Sjólaskip í Hafnarfirði. Eitthvað varðandi tilboðið og hópinn sem að því stóð var ekki nægilega traust að mati Seðlabankans.
Ástæðan var athugun á viðskiptum Heiðars Más með aflandskrónur. DV greindi frá því á sínum tíma að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefði setti þrýsting á að Heiðar Már hyrfi úr hópnum og á fundi með fulltrúum Seðlabankans hafi verið lögð fram gögn um viðskipti hans með aflandskrónur og honum bent á að þar til bær rannsóknaryfirvöld kynnu að hafa áhuga á þeim viðskiptum.
Már hafnar því að hafa staðið í vegi Heiðars Más
Már hafnaði þessu í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu tveimur árum síðar. Þar segist hann hafa bundið vonir við að Heiðar Már gæti leitt hóp fjárfesta í kaupum á stórum hlut í Sjóvá og að hann yrði á endanum forstjóri félagsins. Framkoma og viðmót lögmanna Heiðars Más á fundi þar sem rætt var um söluna hafi hins vegar orðið til þess að draga úr þeim vonum seðlabankastjórans.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagðist hafa bent á það á fundinum að mál félags Heiðars Más hafi á þessum tíma verið til meðferðar hjá gjaldeyriseftirliti bankans og að salan á Sjóvá væri háð niðurstöðu þess. Már neitaði því algjörlega að hafa hótað að senda mál Heiðars Más til lögreglu, enda hefði hann ekki haft neitt vald til þess.
Már sagðist hafa bent á það á fundinum að mál félags Heiðars Más hafi á þessum tíma verið til meðferðar hjá gjaldeyriseftirliti bankans og að salan á Sjóvá væri háð niðurstöðu þess. Már neitaði því algjörlega að hafa hótað að senda mál Heiðars Más til lögreglu, enda hefði hann ekki haft neitt vald til þess.
Aðrir keyptu Sjóvá og skráðu á markað
Hópurinn sagði sig frá ferlinu áður en niðurstaða gjaldeyriseftirlitsins lá fyrir og þar með áður en Fjármálaeftirlið gat skilað afstöðu sinni um hæfi kaupendahópsins til að eiga tryggingafélag. Það gerðist í nóvember 2010, um ellefu mánuðum eftir að söluferlið hófst. Sjóvá var því áfram til sölu.
Í lok júlí 2011 var síðan tilkynnt um að hópur fjárfesta hefði keypt rúmlega helmingshlut í Sjóvá. Hópurinn hafði verið settur saman af Stefni, eignastýringarfyrirtæki í eigu Arion banka, og keypti hlutinn í nafni félags sem heitir SF1 slhf. Stærstu eigendur þess eru lífeyrissjóðir, félag í eigu Síldarvinnslunnar (sem er að hluta til í eigu Samherja), félag í eigu Steinunnar Jónsdóttur, félag í eigu Ernu Gísladóttur, félag í eigu Tómasar Kristjánssonar og Finns Reyrs Stefánssonar (eiginmanns Steinunnar Jónsdóttur) og félag í eigu Jóns Diðriks Jónssonar. Hópurinn fékk auk þess forkaupsrétt á um 20 prósenta hlut til viðbótar og nýtti sér hann skömmu síðar. Hann átti því 73 prósenta hlut í Sjóvá í lok árs 2012. Afgangurinn var í eigu ríkisins, þrotabús Glitnis og Íslandsbanka.
Í apríl 2014 voru hlutabréf í Sjóvá svo skrá í Kauphöll Íslands. Markaðsvirði félagsins miðað við gengi bréfa þess í dag er um 20,5 milljarðar króna.