Sögusagnir um hvar Vladimír Pútín sé niðurkominn, hvernig heilsa hans sé og hvort að vald hans sé enn algert verða furðulegri og furðulegri. Pútín hefur ekki sést opinberlega frá 5. mars síðastliðnum og þegar hann aflýsti opinberri heimsókn sinni til Astana, höfuðborgar Kasakstan, fóru af stað háværar sögusagnir um að Rússlandsforseti hefði fengið heilablóðfall.
Þær voru bornar til baka en skömmu síðar bárust fréttir af því að Pútín væri dauður. Þær voru líka bornar til baka og þá spruttu upp fréttir í fjölmiðlum víða um heim um að Pútín væri í raun í Sviss til að taka á móti barni sem hann sé að eignast í lausaleik með einni af ástkonum sínum, en Pútín skildi við Lyudmilu, eiginkonu sína til tæplega þriggja áratuga, í fyrra.
Pútín hefur lagt mikið upp úr því að sýna fram á líkamlegt hreysti. Hann lætur til dæmis ítrekað mynda sig beran á ofan og við að ástunda ýmis konar hættulegar jaðaríþróttir eða veiðar.
Sú saga sem er lífseigust er samt sú að ástæða þess að Pútín sést ekki opinberlega sé sú að harðvítug átök séu á meðal valdaelítunnar í Kreml á bakvið tjöldin, og að þar séu öfl sem vilji svipta Pútín völdum.
Kreml hefur reynt að bregðast við með því að birta myndir af Pútín og myndband fór í umferð á föstudag sem átti að sýna hann á „týnda tímabilinu“. Þá segir forseti Armeníu að hann hafi rætt við Pútín í síma í síðustu viku. Það að Pútín hringi í fólk afsannar hins vegar bara það að hann sé dauður og myndirnar og myndbandið hefðu getað verið tekin upp hvenær sem er.
Auk þess vakti það mikla athygli þegar Andrey Illarinov, fyrrum efnahagsráðgjafi Pútíns, skrifaði bloggfærslu um það að hin langa fjarvera Pútíns benti til þess að valdarán hefði verið framið.
Pólitískt valdarán ólíklegt
Náið hefur verið fylgst með málinu hjá Business Insider. Í nýjustu greiningunni sem birtist þar skrifar Mark Galeotti, sem heldur úti virtu bloggi um rússnesk öryggismál, að hann sé ekki sannfærður um að valdarán standi yfir. Galeotti segir það líklegra en ekki að Pútín verði einhvern tímann steypt af stóli, enda ólíklegt að hann hætti nokkru sinni sjálfviljugur nema heilsan taki í taumanna. Hann telur þann tíma þó ekki kominn, enda fjarri því að sú eining sé til staðar á meðal valdahópanna sem standa að baki Pútín um að tími hans sé liðinn. Ástandið í Rússlandi þurfi að versna til muna, og haldast þannig í lengri tíma, svo að pólitískt valdarán geti orðið raunverulegur valkostur.
Galeotti útilokar líka valdarán hersins og byggir það á því hvernig herinn hélt sig til baka í valdaránunum 1991 og 1993. Auk þess telur hann að Sergey Shoigu, yfirmaður rússneska hersins, sé ekki einhverskonar blóðugur ævintýramaður sem sé líklegur til að rísa upp gegn forseta sínum.
Staðan fer hratt versnandi
Staðan í Rússlandi hefur vissulega versnað undanfarin misseri, eftir mikinn efnahagslegan vöxt árin á undan. Það hefur hins vegar ekki farið framhjá neinum að misskipting þess auðs sem Rússland hefur sankað að sér er gríðarleg. Margir hafa hagnast með þeim hætti að þeir gætu aldrei eytt öllum peningunum sínum þótt þeir myndu lifa hundrað sinnum heila ævi. Flestir íbúar Rússlands hafa það hins vegar enn ekkert sérstaklega gott, einkum ef lífsgæðin eru borin saman við það sem þykir normið í Vestur-Evrópu.
Það hefur samt ekki fjarað meira undan valdi Pútíns en svo að Forbes útnefndi hann sem valdamesta mann heims í lok síðasta árs. Það var annað árið í röð sem Pútín sat í efsta sæti listans
Það hefur samt ekki fjarað meira undan valdi Pútíns en svo að Forbes útnefndi hann sem valdamesta mann heims í lok síðasta árs. Það var annað árið í röð sem Pútín sat í efsta sæti listans, en Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sat í næsta sæti fyrir neðan hann. Að mati Forbes hefur Pútín gríðarlega mikil völd og áhrif í heiminum í dag, ekki síst í gegnum opinbera orkustefnu ríkisstjórnar hans sem hefur áhrif um alla Evrópu, til Asíu og þannig á heimsbúaskapinn allan. Þá hafi hann einnig sýnt óttaleysi í samskiptum við Bandaríkin.
Snýst alltaf um efnahagsmálin
Í styrkleikum Pútín, alræðistilburðum hans og orkustefnuunni, liggja líka veikleikar hans. Stríðið í Úkraínu hefur skaðað Rússa á alþjóðavísu og líkast til valdið landinu mun fleiri erfiðleikum en ávinningum. Morðið á stjórnarandstæðingnum stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov, sem Pútín ákvað að stýra rannsókn á sjálfur, hefur líka ýtt undir öldu óánægju bæði á meðal almennings og innan valdahópa í stjórnmálalegu baklandi Pútín. Reuters greindi til að mynda frá því á fimmtudag að morðið hefði leitt af sér sjaldséða spennu milli ýmissa hópa innan stjórnkerfis Rússlands sem vanalega standa fast á bak við Pútín.
Morðið á Boris Nemtsov hefur vakið upp mikla úlfúð hjá almenningi og valdahópum í Kreml.
En það eru efnahagsmál sem eru líklegust til að fella Pútín. Hríðfallandi verð á olíu og gasi, en útflutningur á slíkri orku er uppistaðan í rússneska ríkisrekstrinum, hefur sett allt á hliðina í Rússlandi. Í byrjun þessa mánaðar undirritaði Pútín þrjár lagabreytingar sem gera það að meðal annars að verkum að laun ríkisstarfsmanna verða lækkuð frá og með 1. maí næstkomandi. Pútín og Dmitri Medvedev forsætisráðherra ætla að leiða með fordæmi og taka á sig tíu prósent launalækkanir.
Til viðbótar ætla rússnesk stjórnvöld að fækka ríkisstarfsmönnum um fimm til 20 prósent.
Seilast í varasjóði
Aðgerðirnar eru hluti af víðfermum neyðaraðgerðum sem rússnesk stjórnvöld hafa gripið til vegna þess mikla tekjusamdráttar sem lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu hefur valdið landinu. Hver tunna af olíu er nú að seljast á um 45 dali en fjárlög rússneska ríkisins miðuðu við að tunnan væri að seljast á um 100 dali. Þar sem olíuútflutningur skiptir ríkið öllu máli er ljóst að risastórt gat er að myndast í fjárlögum ársins 2015.
Hver tunna af olíu er nú að seljast á um 45 dali en fjárlög rússneska ríkisins miðuðu við að tunnan væri að seljast á um 100 dali. Þar sem olíuútflutningur skiptir ríkið öllu máli er ljóst að risastórt gat er að myndast í fjárlögum ársins 2015.
Þessar fréttir bárust skömmu eftir að Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússlands, bað rússneska þingið um að fá aðgang að um 34 milljörðum punda, um 7.000 milljörðum króna, sem geymdir eru í varasjóði sem Rússland á til að fármagna áætlun sína sem á að vinna gegn kreppuáhrifum. Upphæðin nemur um helmingi allra eigna sjóðsins.
Verðbólga mældist 16,7 prósent í Rússlandi í febrúar og spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gera ráð fyrir að efnahagur landsins dragist saman um þrjú prósent á þessu ári og eitt prósent til viðbótar á því næsta.
Þessar spár gera hins vegar ráð fyrir því að ástandið í Úkraínu muni lagast á næstu misserum. Það er alls ójóst að það ástand muni lagast og því enn töluverðar líkur á að samdrátturinn í Rússlandi verði meiri.
Ef Pútín er á lífi þá stendur hann frammi fyrir miklum vanda
Hvar sem Pútín er og hvert sem líkamlegt ástand hann er þá er augljóst að hann stendur frammi fyrir miklum vanda. Ef sögusagnir um yfirstandandi valdaráð reynast rangar, og Pútín mætir aftur í kastljós fjölmiðla í næstu viku, þá mun slíkt einungis slá á vangaveltur um framtíð hans til skamms tíma. Áframhaldandi órói í Úkraínu og hið sífellt versnandi efnahagsástand mun halda honum verulega við efnið og auka þrýsting á þennan valdamesta mann heims.
Seinni hluta apríl, skömmu áður en launalækkanir opinberra starfsmanna taka gildi, er síðan væntanleg skýrsla sem hinn myrti Boris Nemtsov skrifaði um ástandið í Úkraínu. Innihald hennar gæti orðið eldfimt, ef Kreml hefur ekki komist í hana eftir dauða Nemtsov til að „hreinsa“ frásögnina.
Og þá gætu þyrnirnir þrír í síðu Pútíns: Úkraína, Nemtsov og efnahagsástandið, saman myndað neista sem gæti kveikt nýtt bál.