„Aldrei aftur“ voru skilaboðin frá heimsbyggðinni eftir þjóðarmorðin í Rúanda árið 1994 þar sem er talið að um 800.000 manns hafi fallið á einungis 100 dögum. Í Kígalí, höfuðborg Rúanda, má finna safn og minnisvarða um þessa atburði, sem lýsir því hvernig Hútúar myrtu Tútsa á öllum aldri í þeim tilgangi að útrýma þeim öllum. Safnið lætur engan ósnortinn og skilur við lífsglaða ferðalanga niðurbrotna og með tárin í augunum. Hryllingurinn sem blasir þar við er ógnvænlegur - þar er herbergi tileinkað börnum með myndum af þeim og lýsingum á því hvernig þau voru myrt.
Paul Kagame kom sá og sigraði. Og friðaði
Á meðan alheimssamfélagið svaf algjörlega á verðinum náði her Tútsa í útlegð (RPF) undir forystu Paul Kagame, núverandi forseta Rúanda, að hrekja burt helstu gerendurna (Interahamwe) í þjóðarmorðunum og ná völdum. Síðan þá hefur Rúanda verið friðsælt land. Ferðamenn sækja til landsins og þykir Kígalí vera meðal öruggustu borga í austanverðri Afríku. Einnig hefur landið náð talsverðum árangri efnahagslega og er í 3. sæti í Afríku sunnan Sahara á "Doing Business" lista Alþjóðabankans. Þá hefur landsframleiðsla á mann tvöfaldast, ungbarnadauði lækkað úr 124 í 37 á hverjar 1,000 fæðingar og skólasókn aukist.
Við fyrstu sýn virðist Paul Kagame vera hetja - maðurinn sem bjargaði Rúanda hér um bil frá tortímingu. Hann hefur á undanförnum árum fengið mikið lof fyrir að hafa haldið friðinn og rifið hagkerfið í gang. Rúanda hefur ítrekað verið nefnt það sem kallast "donor darling" og er Kagame vinsæll meðal vestrænna leiðtoga. Hann á fræga vini - Bill Clinton, Ben Affleck, Bono og sérstaklega Tony Blair hafa lýst yfir mikilli aðdáun á Kagame. Einnig virðist, á yfirborðinu a.m.k., vera loksins búið að stöðva þjóðerniserjur í eitt skipti fyrir öll og er stranglega bannað að skilgreina sig og aðra Hútúa eða Tútsa.
Paul Kagame, forseti Rúanda.
Glansímynd Kagame sem sterks og góðs leiðtoga er að falla
Þrátt fyrir mikið lof um árangur í efnahagsmálum er Rúanda enn sárafátækt og 82% þjóðarinnar lifir á 2 dollurum eða minna á dag - hlutfall sem hefur lítið lækkað á síðastliðnum áratug. Einnig er landið gríðarlega háð þróunaraðstoð og hefur hún numið um kringum 20% af þjóðartekjum síðustu tvo áratugi, þar til að hún lækkaði um nærri því helming árið 2012 vegna vísbendinga um að Rúanda hafi stutt við M23 skæruliðahreyfinguna í Austur-Kongó.
Heilt yfir hefur gríman verið hægt og rólega að falla af Kagame. Við blasa mannréttindabrot, skoðanakúgun, einræðistilburðir, morð á andstæðingum og annað sem gefur tilefni til að hafa áhyggjur af þróuninni í Rúanda, sem upplifði nánast samfellda valdabaráttu og spennu frá sjálfstæði þar til 1994.
Er opinbera sagan á bak við þjóðarmorðin bjöguð?
Sigurvegararnir skrifa söguna og það sést vel á áðurnefndum þjóðarmorðaminnisvarða í Kígalí. Opinbera sagan er sú að eftir að hútúskir uppreisnarmenn hafi skotið niður flugvél forsetans Habyarimana í apríl 1994 og sett af stað skipulögð morð á Tútsum. Þó að fáir neiti því að þjóðarmorðin hafi átt sér stað og sannanirnar um fjöldamorð á Tútsum séu óyggjandi, benda ýmsar vísbendingar til þess að það segi ekki alla söguna.
Í nýrri og gríðarlega umdeildri heimildarmynd BBC Rwanda's Untold Story er slíkum kenningum velt upp. Sumar þeirra virðast hæpnar, eins og að Kagame hafi skipulagt að flugvél forsetans væri skotin niður. Þá segir frá vísbendingum um að Kagame og RPF hafi myrt þúsundir sekra og saklausra Hútúa þegar þeir náðu völdum í landinu. Einng er vísað í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 2010 og aðrar vísbendingar um að RPF hafi skipulega myrt tugþúsundir hútúskra flóttamanna í Austur-Kongó á árunum eftir þjóðarmorðin. Ólöglegt er að hafa svo mikið sem efasemdir um opinberu söguna á bakvið þjóðarmorðin svo það þarf varla að taka það fram að BBC var bannað í Rúanda um leið og myndin var sýnd.
Vaxandi alræðistilburðir
Þó deilt sé um hvað nákvæmlega gerðist og hversu mikil hetja Kagame er, þá er enginn vafi á því að Kagame hefur sýnt mikla valdníðslu og ber hann niður alla mótspyrnu hvað sem það kostar. Einnig virðist vera að hann hafi allt að því einræðisvald yfir landinu. Fjölmargar alþjóðlegar stofnanir eins og Amnesty International og Human Righs Watch hafa harðlega gagnrýnt spillt réttarkerfi og stjórnvöld fyrir að virða ekki tjáningarfrelsi. Kagame hefur horn í síðu slíkra samtaka á grundvelli þess að það sé hætta á að ný átök brjótist út ef farið sé að þeirra ráðum. Kagame hikar heldur ekki við að handtaka stjórnmála- og blaðamenn sem eru honum ósammála. Í kosningunum 2010 sem Kagame vann með 93% atkvæða voru þrír stjórnmálaflokkar útilokaðir og tveir leiðtogar þeirra settir í fangelsi.
Í safninu um þjóðarmorðin í Kígalí. Hryllingurinn vekur iðulega upp miklar tilfinningar.
Margir fyrrverandi samstarfsmenn Kagame og blaðamenn, sem eiga það sameiginlegt að hafa þurft að flýja land eftir ósætti við Kagame, hafa gagnrýnt hann vægast sagt harkalega í útlegðinni. Nýlega skrifaði fyrrverandi aðstoðarmaður Kagame harðorða grein um skort á lýðræði, hvernig Kagame hefur mistekist að koma landinu á réttan kjöl og að elíta í skjóli hans sé að taka yfir hagkerfið. Þeir sem hafa gagnrýnt Kagame eiga það oft sameiginlegt að hafa fengið líflátshótanir, orðið fyrir árásum eða myrtir. Einn þeirra, Kayumba Nyamwaza, sem var lengi vel háttsettur í RPF en lenti svo upp á kant við Kagame, hefur kallað eftir uppreisn gegn honum. Á sama tíma hefur Nyamwaza sloppið frá þremur morðtilraunum. Samstarfsmaður Nyamwaza, Patrick Karegeya, flúði land eftir að hann gagnrýndi mannréttindabrot og glæpi stjórnvalda. Hann var myrtur á dularfullan hátt í Suður-Afríku fyrir ári síðan
Þurfum við að óttast?
Milljón mannslífa spurningin er hvort að þjóðarmorð eða átök milli þjóðarbrotanna tveggja sé eitthvað sem gæti endurtekið sig. Í nágrannalandinu Búrúndi er skipting milli Tútsa og Hútúa svipuð. Þar má finna í megindráttum svipaða sorgarsögu um ættbálkaátök og eru teikn á lofti um að kosningarnar á þessu ári verði hugsanlega ekki friðsamar. Stuttu fyrir þjóðarmorðin árið 1994 var hútúskur forseti Búrúndí myrtur, sem hleypti afar illu blóði í rúandska Hútúa.
Þó að það sé ekkert sem bendi til þess að slíkt endurtaki sig núna, þá kennir sagan okkur að alræðistilburðir og skoðanakúgun eins og Kagame hefur sýnt gangi oft ekki upp til lengri tíma. Í aðstæðum eins og eru í Rúanda, þar sem stutt er frá hörmungunum árið 1994 og öll andstaða við stjórnvöld er kæfð niður með ofbeldi, er auðvelt að ímynda sér að verið sé að setja af stað tímasprengju. Sérstaklega ef uppbygging hagkerfisins mun ekki ganga sem skyldi og fólk verður enn fast í fátækt með litla möguleika. Eftirmálum þjóðarmorðanna er heldur ekki alveg lokið, þar sem enn má finna hútúska skæruliða í Austur-Kongó, sem tóku þátt í þjóðarmorðunum. Vissulega er pólitíska staðan svipuð í mörgum öðrum ríkjum en sporin hræða í Rúanda.