Þingkosningar í Bretlandi nálgast óðfluga, en þær verða haldnar í maí næstkomandi. Í vikunni hafa skattamálin verið rædd í þaula og þá sérstaklega í samhengi við uppljóstranir um skattaundanskot sem HSBC bankinn aðstoðaði viðskiptavini sína með.
Ed Miliband, formaður breska Verkamannaflokksins, talaði um það nú um helgina að tvö kerfi væru við lýði í landinu; eitt fyrir hina efnameiri og annað fyrir hina efnaminni. Á sama tíma eru kosningamálin að skýrast og hefur Nigel Farage, formaður hins róttæka sjálfstæðisflokks UKIP, viðrað hugmyndir sínar um að koma á einkareknu heilbrigðistryggingakerfi í stað NHS, hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu.
Fjölbreyttar skoðanir rúmast innan flokksins
Ástæður þessa eru áhyggjur af því að með breyttri aldurssamsetningu bresku þjóðarinnar á næstu 10 árum muni núverandi kerfi ekki þola álagið og þar af leiðandi þurfi að auka greiðsluþátttöku almennings í kerfinu. Ekki eru þó allir sammála formanninum og heldur Louise Bours, talsmaður UKIP í heilbrigðismálum, því fram að flokkurinn sé mun lýðræðislegri en aðrir flokkar og því rúmist flokkurinn fjölbreyttar skoðanir á málaflokknum.
Í janúar talaði hún um að hún teldi meðlimi flokksins þurfi að ræða málið frekar. Farage var gestur þáttarins Newsnight á BBC síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem hann ræddi aftur hugmyndir sínar um að draga þyrfti úr hlutverki ríkisins. Þar minnti hann á þá skoðun sína að með auknum mannfjölda í landinu myndi NHS heilbrigðisþjónustan ekki þola álagið.
Nigel Farage formaður UKIP.
Ráðsettir silfurrefir og Aldi konur
Í úttekt blaðsins Independent í vikunni var farið yfir helstu hópa kjósenda og skoðanir þeirra á kosningamálunum. Íhaldsflokkurinn og UKIP eru á eftir atkvæðum þeirra sem til heyra aldurshópnum yfir sextugu, hinir „ráðsettu silfurrefir“, sem eru enn í vinnu eða komnir á eftirlaun og njóta þess að fá niðurgreidda húshitun ásamt ókeypis útvarpsgjaldi og fríum almenningssamgöngum. Þetta er hópur sem almennt hefur áhyggjur af auknum straumi innflytjenda og Evrópumálum.
Þá er talað um svokallaðar Aldi konur sem tilheyra hópi í Englandi sem áður gat verslað í verslunum Marks & Spencer og Waitrose en hafa nú þurft að skera niður og eru í auknum mæli farnar að venja komur sínar í lágvörðuverðsverslanir á borð við Aldi. Konur í þessum hópi eru taldar vera líklegir kjósendur Verkamannaflokksins eða Íhaldsflokksins.
Áreitti hipsterinn og unga fólkið
Samkvæmt úttekt blaðsins er hópur hinna áreittu hipstera mjög mikilvægur Verkamannaflokknum. Þeim hópi tilheyra mörg vel launuð pör sem oft á tíðum eiga börn og lifa í fjölbreyttum hverfum inni í borgum frekar en í úthverfunum. Sá hópur sem Græningjar virðast ná best til er ungt fólk af stafrænu kynslóðinni sem er nýlega útskrifað úr háskóla en á í erfiðleikum með að finna vinnu. Þetta er hópur sem þrýstir á aukið aðgengi að ódýrara húsnæði og hækkun á lágmarkslaunum.
Útgjöld til menntamála
Miliband hefur lofað að Verkamannaflokkurinn muni auka útgjöld til menntamála frá leikskóla og fram að háskóla sem nemur verðbólgu, en tillaga Íhaldsflokksins er að frysta útgjöld til málaflokksins sem jafngildir í raun lækkun. Báðir flokkar hafa verið gagnrýndir fyrir að huga ekki að þeirri staðreynd að aukinn fjöldi nemenda kallar á aukin útgjöld til skóla.
Ed Miliband formaður breska Verkamannaflokksins.
Fulltrúar Verkamannaflokksins hafa jafnframt talað fyrir því að tryggja þurfi að kennarar séu með viðeigandi menntun ásamt því að setja hámark á nemendafjölda í fyrstu bekkjum grunnskóla. Cameron kynnti áætlun Íhaldsflokksins í menntamálum í byrjun mánaðarins þar sem hann kallaði eftir aukinni hagkvæmni í rekstri skóla og talaði hann um mikilvægi þess að uppræta meðalmennsku í rekstri skólanna.
Fylgi Frjálslyndra demókrata í lágmarki
Í könnun um fylgi stjórnmálaflokka, sem kynnt var á fimmtudaginn, kemur fram að fylgi Frjálslyndra demókrata hefur ekki verið lægra í 25 ár. Ef gengið yrði til kosninga nú myndi flokkurinn fá sex prósent atkvæða, meðal þeirra sem ætla sér að kjósa. Næstir eru Græningjar með sjö prósent atkvæða og þá UKIP með 9 prósent. Nokkuð mjótt er á munum milli Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins, sá fyrrnefndi mælist með 36 prósenta fylgi og hinn síðari 34 prósent.
Stóra spurningin nú er því hvort David Cameron og flokkur hans nái að halda velli. Það mun skýrast á næstu vikum hvort kjósendur velji í samræmi við niðurstöður þessarar könnunar og veiti Verkamannaflokknum brautargengi eða velji Cameron áfram sem forsætisráðherra landsins.