Hvað gerðist eiginlega í Eystrasalti?

Allur vafi hefur nú verið tekinn af því hvort að rússneskt gas muni streyma til Evrópu í vetur. Sprengingar sem mældust á jarðskjálftamælum og gerðu risastór göt á leiðslurnar í Eystrasalti hafa veitt þeim vangaveltum náðarhöggið.

Gas streymir upp á yfirborðið í Eystrasalti út úr leiðslunum á hafsbotni.
Gas streymir upp á yfirborðið í Eystrasalti út úr leiðslunum á hafsbotni.
Auglýsing

Við­vör­un­ar­bjöllur hafa hringt um alla Evr­ópu eftir að þrjár spreng­ingar urðu í gasleiðslum í Eystra­salti. Þær höfðu kannski ryk­fallið á síð­ustu árum, þessar ímynd­uðu bjöll­ur, en þær hafa þó aldrei verið aftengdar með öllu enda leiðsl­urnar Nord Str­eam 1 og 2, sem leka nú gasi út í sjó­inn og and­rúms­loft­ið, verið áhyggju­efni margra lengi.

Og spreng­ing­arnar eru ekki taldar vera slys heldur skemmd­ar­verk. Á því eru ráða­menn ríkja við Eystra­saltið og fleiri að minnsta kosti á einu máli um. Stríð geisar jú í Úkra­ínu, stríð sem á upp­tök sín í inn­rás Rússa þar í land. Vest­ur­veldin hafa staðið með Úkra­ínu­mönn­um, útvegað þeim vopn en baðað Rússa í við­skipta­bönn­um.

Auglýsing

Rúss­neska gasið er hins vegar trompið sem Pútín for­seti hefur veifað – án þess er von á jök­ulköldum vetri í Evr­ópu. Leið­togar ríkja álf­unnar kepp­ast um að reyna að aðlag­ast breyttum veru­leika, finna nýjar leiðir til orku­öfl­un­ar.

Eitt slíkt verk­efni, gasleiðsla frá Nor­egi, í gegnum Dan­mörk og til Pól­lands, var form­lega vígt af ráða­mönnum ríkj­anna þriggja í gær. Á sama degi og spreng­ingar urðu í Nord Str­eam.

Gæti tekið vikur að kom­ast að göt­unum

Varn­ar­mála­ráð­herra Dana, Morten Bød­skov, sagði í morgun að það gæti tekið nokkrar vikur að koma köf­urum niður að göt­unum á leiðsl­un­um. Þær liggja á 80 metra dýpi. Svo mikið gas streymir út um þau að ekki er óhætt að fara á vett­vang fyrr. „Þetta var mjög stór spreng­ing sem átti sér stað og þetta mun taka tíma.“ Hann segir að Danir hafi engar ábend­ingar fengið um yfir­vof­andi skemmd­ar­verk en að banda­ríska leyni­þjón­ustan CIA hefði varað þýsk stjórn­völd við að hætta gæti verið á slíku.

En í ljósi þeirrar tor­tryggni sem ríkt hefur gagn­vart Rússum lengi er áhuga­vert að velta fyrir sér sögu Nord Str­eam-gasleiðsl­anna.

Nord Str­eam 1 og 2 eru leiðslur sem flytja gas frá Rúss­landi til Evr­ópu. Í raun er um fjórar leiðslur að ræða sem allar liggja um hafs­botn Eystra­salts­ins. Þær liggja um 1.200 kíló­metra leið, frá nágrenni St. Pét­urs­borgar í Rúss­landi til Þýska­lands. Leiðsl­urnar eru sam­settar úr hund­ruðum þús­unda röra sem hvert og eitt er 12 metrar á lengd og 1,2 metrar í þver­mál.

Svo miklar eru leiðsl­urnar að um þær geta flætt 110 millj­arða rúmmetra af gasi til Evr­ópu á hverju ári.

Ekki var enn búið að taka hina nýju leiðslu Nord Str­eam 2 í gagn­ið. Gas fór aðeins um Nord Str­eam 1. Og nú er sú leiðsla einnig orðin gas­laus.

Upp­haf við­ræðna um flutn­ing gass frá Rúss­landi til Evr­ópu má rekja til tíunda ára­tugar síð­ustu ald­ar. Þá var kalda stríðið talið að baki. Rúss­land bjó yfir gríð­ar­legum gaslindum og Evr­ópu­ríki þurftu gas í meira mæli en þau gátu sjálf unn­ið.

Það var þó ekki fyrr en árið 2005 að samn­ingar um Nord Str­eam voru í höfn. Rúss­neska gas­fyr­ir­tækið Gazprom, sem er í rík­i­s­eigu, varð stærsti eig­andi gasleiðsl­unnar en þýsk einka­fyr­ir­tæki komu einnig að samn­ing­un­um.

Sex árum síðar eða árið 2011 var gas farið að flæða frá Rúss­landi suð­vestur á bóg­inn í gegnum Nord Str­eam 1.

Nord Str­eam 2

Ekki leið á löngu þar til Gazprom viðr­aði áform um aðra leiðslu, Nord Str­eam 2, en þegar rúss­nesk stjórn­völd inn­lim­uðu Krím­skaga í Úkra­ínu árið 2014 ákváðu Evr­ópu­ríki og önnur vest­ur­veldi að setja við­skipta­hömlur á Rúss­land í refs­ing­ar­skyni. Evr­ópa var orðin mjög háð rúss­neska gas­inu, og því ljóst þá þegar að Rússar hefðu dýr­mætt tromp uppi í erminni. Og að Nord Str­eam 2 myndi aðeins styrkja samn­ings­stöðu þeirra. Pólsk stjórn­völd voru meðal þeirra sem vöktu athygli á þessu og vildu að var­lega yrði farið í frek­ari samn­inga um gas­kaup.

Engu að síður var gengið til samn­inga og Gazprom hóf að leggja leiðsl­una. Þrátt fyrir að efa­semdir um aukið sam­starf við Rússa að þessu leyti hafi verið vakn­aðar hjá ráða­mönnum fleiri Evr­ópu­ríkja en Pól­lands. Stjórn­völd í Þýska­landi voru hins vegar áfram um að verk­efnið hlyti braut­ar­gengi.

Með spreng­ing­unum í gasleiðsl­unni í Eystra­salti í gær fengu Danir hvella áminn­ingu um hversu nálægt stríðs­rekstur Rússa er í raun og veru. Nord Str­eam 2 liggur mjög nálægt Borg­und­ar­hólmi. Nú hefur verið rifjað upp að nokkrir danskir stjórn­mála­menn höfðu á sínum tíma lagst gegn því að rúss­neskt gas kæmi svo nálægt dönskum ströndum – myndi streyma um leiðslur á hafs­botni innan danskrar lög­sögu. Áformin voru hins vegar að lokum sam­þykkt á sínum tíma.

Síð­asta rörið var skrúfað í Nord Str­eam 2 í fyrra. Þá var spenna í sam­skiptum Rússa og Úkra­ínu orðin áþreif­an­leg að nýju og tvær grímur farnar að renna á leið­toga á Vest­ur­lönd­um. Verið getur að þessi staða hafi verið ástæða þess að þýsk yfir­völd hik­uðu við að ljúka mati á umhverf­is­á­hrifum svo að gas gæti farið að flæða um leiðsl­una. Líkt og rakið er í fréttum danska rík­is­út­varps­ins ákváðu Þjóð­verjar svo að hafna því að leiðslan, sem var til­bú­in, yrði tekin í notkun að svo stöddu. Neit­unin kom aðeins tveimur dögum áður en Rússar hófu inn­rás sína í Úkra­ínu og var hluti af við­skipta­þving­unum sem vest­ur­veldin ákváðu að beita Rússa vegna stríðs­rekstr­ar­ins.

Smám saman skrúfað fyrir

En Evr­ópa gat ekki verið án rúss­neska gass­ins. Það er það ódýrasta á mark­aðnum og inn­viðir allir voru til stað­ar. Nord Str­eam 1 var því ekki lokað – gasið hélt áfram að streyma um þá leiðslu þrátt fyrir athafnir Rússa í Úkra­ínu. Það er nefni­lega ekki ein­falt mál að finna stað­gengil þessa elds­neyt­is. Um 40 pró­sent af öllu gasi sem notað er í ríkjum Evr­ópu­sam­bands­ins er unnið úr rúss­neskri jörðu.

Rúss­nesk stjórn­völd vissu af þessu leyni­vopni sínu. Að Evr­ópa myndi engj­ast um ef ekk­ert kæmi gas­ið. Og þess vegna skrúf­uðu þau nokkrum sinnum fyrir það í sum­ar. Minnk­uðu fyrst flæðið niður í 60 pró­sent. Sögðu það gert vegna við­halds á gasleiðsl­unni löngu. Svo fór flæðið niður í 40 pró­sent. Þá 20 pró­sent. Og loks í síð­asta mán­uði, rétt áður en fyrstu haust­lægð­irnar skullu á, var skrúfað alveg fyr­ir.

Gazprom og rúss­nesk stjórn­völd hafa alfarið hafnað því að vera að nota gasið í því skyni að þvinga vest­ur­veldin til að aflétta við­skipta­bönn­um. Þau hafa sagt að íhluti hafi vant­að. Að ekki hafi tek­ist að ljúka hinu reglu­bundna við­haldi sem komið hefði verði að í sumar vegna þess að það vant­aði vara­hluti. Og að það vant­aði vara­hluti vegna við­skipta­þving­ana Vest­ur­landa.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir að skemmdarverk hafi verið unnin á gasleiðslunni. Mynd: EPA

Stjórn­völd í flestum Evr­ópu­ríkjum hafa blásið á þessar útskýr­ing­ar. Til­gang­ur­inn sé að valda skelf­ingu.

Og segja má að það hafi tek­ist. Orku­krísan sem nú geisar í álf­unni er risa­vaxið verk­efni. Orku­verð hefur hækkað svo mikið að ótt­ast er að fátækt auk­ist í álf­unni. Að fólk slig­ist undan raf­magns­reikn­ing­um. Að verk­smiðjur þurfi að draga úr fram­leiðslu á nauð­synja- og neyslu­vör­um.

Allt sprakk svo í loft upp í gær. Í bók­staf­legri merk­ingu. Tvö göt urðu á gasleiðsl­unum skammt undan Krist­jáns­eyju í Eystra­salti. Þótt Nord Str­eam 1 hafi verið lokuð var leiðslan full af jarð­gasi. Gasið getur valdið trufl­unum fyrir skip, það getur verið erfitt að sigla í gegnum svelg­inn sem það veld­ur. Auk þess er það heilsu­far­sógn. Bæði sigl­inga­leiðum og flug­leiðum yfir svæðið hefur því verið breytt vegna lek­ans.

Auglýsing

Jarð­vís­inda­stofn­anir við Eystra­salt segja að spreng­ingar hafi vissu­lega orð­ið. Þær hafi komið fram á jarð­skjálfta­mæl­um.

Spreng­ing­arnar á leiðsl­unni voru vilja­verk, sagði Mette Frederiksen, for­sæt­is­ráð­herra Dan­merkur í gær­kvöldi. „Þetta var ekki óhapp.“

„Skemmd­ar­verk,“ var orðið sem for­sæt­is­ráð­herra Pól­lands not­aði. Ursula von der Leyen, for­seti fram­kvæmda­stjórnar ESB, sagði slíkt hið sama.

„Þetta er ekki lítil sprunga þetta er risa­stórt gat,“ sagði danski orku­mála­ráð­herr­ann.

Rúss­nesk stjórn­völd segja að ekki sé hægt að úti­loka skemmd­ar­verk. Þau segj­ast hins vegar ekki bera neina ábyrgð á slíku.

Gas, gas, gas

Evr­ópa vill ekki aðeins verða óháð rúss­nesku gasi. Hún vill verða óháð gasi almennt. Ef ná á mark­miðum sem sett hafa verið fram í lofts­lags­mál­um, svo að koma megi í veg fyrir ham­fara­hlýnun á jörð­inni, þarf að draga veru­lega úr og að lokum að hætta að nota gas og önnur jarð­efna­elds­neyti.

Það er því þyngra en tárum taki að gas streymi nú út úr gasleiðslum Eystra­salts­ins, í hafið og loks að stórum hluta út í and­rúms­loft­ið. Þetta mun hafa áhrif á umhverfið en hversu mikil er ekki gott að segja til um, jafn­vel ómögu­legt, því eng­inn veit á þess­ari stundu nákvæm­lega hversu mikið gas er að leka út. „Það eru margir óvissu­þættir en ef þessar gasleiðslur halda áfram að leka þá gætu áhrifin á umhverfið orðið gríð­ar­leg og jafn­vel for­dæma­laus,“ hefur Reuters eftir David McCabe, sér­fræð­ingi í lofts­lagi. Einn óvissu­þátt­ur­inn er sá hversu mikið af gróð­ur­húsa­loft­teg­undum sem er að finna í gas­inu örverur í Eystra­salt­inu munu binda. Gasið er að uppi­stöðu metangas, sem á eftir koltví­oxíði er mesti skað­valdur lofts­lags­ins og drif­kraftur lofts­lags­breyt­inga.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar