Viðvörunarbjöllur hafa hringt um alla Evrópu eftir að þrjár sprengingar urðu í gasleiðslum í Eystrasalti. Þær höfðu kannski rykfallið á síðustu árum, þessar ímynduðu bjöllur, en þær hafa þó aldrei verið aftengdar með öllu enda leiðslurnar Nord Stream 1 og 2, sem leka nú gasi út í sjóinn og andrúmsloftið, verið áhyggjuefni margra lengi.
Og sprengingarnar eru ekki taldar vera slys heldur skemmdarverk. Á því eru ráðamenn ríkja við Eystrasaltið og fleiri að minnsta kosti á einu máli um. Stríð geisar jú í Úkraínu, stríð sem á upptök sín í innrás Rússa þar í land. Vesturveldin hafa staðið með Úkraínumönnum, útvegað þeim vopn en baðað Rússa í viðskiptabönnum.
Rússneska gasið er hins vegar trompið sem Pútín forseti hefur veifað – án þess er von á jökulköldum vetri í Evrópu. Leiðtogar ríkja álfunnar keppast um að reyna að aðlagast breyttum veruleika, finna nýjar leiðir til orkuöflunar.
Eitt slíkt verkefni, gasleiðsla frá Noregi, í gegnum Danmörk og til Póllands, var formlega vígt af ráðamönnum ríkjanna þriggja í gær. Á sama degi og sprengingar urðu í Nord Stream.
Gæti tekið vikur að komast að götunum
Varnarmálaráðherra Dana, Morten Bødskov, sagði í morgun að það gæti tekið nokkrar vikur að koma köfurum niður að götunum á leiðslunum. Þær liggja á 80 metra dýpi. Svo mikið gas streymir út um þau að ekki er óhætt að fara á vettvang fyrr. „Þetta var mjög stór sprenging sem átti sér stað og þetta mun taka tíma.“ Hann segir að Danir hafi engar ábendingar fengið um yfirvofandi skemmdarverk en að bandaríska leyniþjónustan CIA hefði varað þýsk stjórnvöld við að hætta gæti verið á slíku.
En í ljósi þeirrar tortryggni sem ríkt hefur gagnvart Rússum lengi er áhugavert að velta fyrir sér sögu Nord Stream-gasleiðslanna.
Nord Stream 1 og 2 eru leiðslur sem flytja gas frá Rússlandi til Evrópu. Í raun er um fjórar leiðslur að ræða sem allar liggja um hafsbotn Eystrasaltsins. Þær liggja um 1.200 kílómetra leið, frá nágrenni St. Pétursborgar í Rússlandi til Þýskalands. Leiðslurnar eru samsettar úr hundruðum þúsunda röra sem hvert og eitt er 12 metrar á lengd og 1,2 metrar í þvermál.
Svo miklar eru leiðslurnar að um þær geta flætt 110 milljarða rúmmetra af gasi til Evrópu á hverju ári.
Map of the leaks in Nord Stream 1 and Nord Stream 2pic.twitter.com/C0GWs0tEG9 https://t.co/zfFN0CPBiR
— René (@thisisnotarose) September 27, 2022
Ekki var enn búið að taka hina nýju leiðslu Nord Stream 2 í gagnið. Gas fór aðeins um Nord Stream 1. Og nú er sú leiðsla einnig orðin gaslaus.
Upphaf viðræðna um flutning gass frá Rússlandi til Evrópu má rekja til tíunda áratugar síðustu aldar. Þá var kalda stríðið talið að baki. Rússland bjó yfir gríðarlegum gaslindum og Evrópuríki þurftu gas í meira mæli en þau gátu sjálf unnið.
Það var þó ekki fyrr en árið 2005 að samningar um Nord Stream voru í höfn. Rússneska gasfyrirtækið Gazprom, sem er í ríkiseigu, varð stærsti eigandi gasleiðslunnar en þýsk einkafyrirtæki komu einnig að samningunum.
Sex árum síðar eða árið 2011 var gas farið að flæða frá Rússlandi suðvestur á bóginn í gegnum Nord Stream 1.
How strong is a Nord Stream pipe? Quite!
— Javier Blas (@JavierBlas) September 27, 2022
The steel pipe itself has a wall of 4.1 centimeters (1.6 inches), and it's coated with another 6-11 cm of steel-reinforced concrete. Each section of the pipe weighs 11 tonnes, which goes to 24-25 tonnes after the concrete is applied. pic.twitter.com/BFYnv36CaF
Nord Stream 2
Ekki leið á löngu þar til Gazprom viðraði áform um aðra leiðslu, Nord Stream 2, en þegar rússnesk stjórnvöld innlimuðu Krímskaga í Úkraínu árið 2014 ákváðu Evrópuríki og önnur vesturveldi að setja viðskiptahömlur á Rússland í refsingarskyni. Evrópa var orðin mjög háð rússneska gasinu, og því ljóst þá þegar að Rússar hefðu dýrmætt tromp uppi í erminni. Og að Nord Stream 2 myndi aðeins styrkja samningsstöðu þeirra. Pólsk stjórnvöld voru meðal þeirra sem vöktu athygli á þessu og vildu að varlega yrði farið í frekari samninga um gaskaup.
Engu að síður var gengið til samninga og Gazprom hóf að leggja leiðsluna. Þrátt fyrir að efasemdir um aukið samstarf við Rússa að þessu leyti hafi verið vaknaðar hjá ráðamönnum fleiri Evrópuríkja en Póllands. Stjórnvöld í Þýskalandi voru hins vegar áfram um að verkefnið hlyti brautargengi.
Með sprengingunum í gasleiðslunni í Eystrasalti í gær fengu Danir hvella áminningu um hversu nálægt stríðsrekstur Rússa er í raun og veru. Nord Stream 2 liggur mjög nálægt Borgundarhólmi. Nú hefur verið rifjað upp að nokkrir danskir stjórnmálamenn höfðu á sínum tíma lagst gegn því að rússneskt gas kæmi svo nálægt dönskum ströndum – myndi streyma um leiðslur á hafsbotni innan danskrar lögsögu. Áformin voru hins vegar að lokum samþykkt á sínum tíma.
Síðasta rörið var skrúfað í Nord Stream 2 í fyrra. Þá var spenna í samskiptum Rússa og Úkraínu orðin áþreifanleg að nýju og tvær grímur farnar að renna á leiðtoga á Vesturlöndum. Verið getur að þessi staða hafi verið ástæða þess að þýsk yfirvöld hikuðu við að ljúka mati á umhverfisáhrifum svo að gas gæti farið að flæða um leiðsluna. Líkt og rakið er í fréttum danska ríkisútvarpsins ákváðu Þjóðverjar svo að hafna því að leiðslan, sem var tilbúin, yrði tekin í notkun að svo stöddu. Neitunin kom aðeins tveimur dögum áður en Rússar hófu innrás sína í Úkraínu og var hluti af viðskiptaþvingunum sem vesturveldin ákváðu að beita Rússa vegna stríðsrekstrarins.
Smám saman skrúfað fyrir
En Evrópa gat ekki verið án rússneska gassins. Það er það ódýrasta á markaðnum og innviðir allir voru til staðar. Nord Stream 1 var því ekki lokað – gasið hélt áfram að streyma um þá leiðslu þrátt fyrir athafnir Rússa í Úkraínu. Það er nefnilega ekki einfalt mál að finna staðgengil þessa eldsneytis. Um 40 prósent af öllu gasi sem notað er í ríkjum Evrópusambandsins er unnið úr rússneskri jörðu.
Rússnesk stjórnvöld vissu af þessu leynivopni sínu. Að Evrópa myndi engjast um ef ekkert kæmi gasið. Og þess vegna skrúfuðu þau nokkrum sinnum fyrir það í sumar. Minnkuðu fyrst flæðið niður í 60 prósent. Sögðu það gert vegna viðhalds á gasleiðslunni löngu. Svo fór flæðið niður í 40 prósent. Þá 20 prósent. Og loks í síðasta mánuði, rétt áður en fyrstu haustlægðirnar skullu á, var skrúfað alveg fyrir.
Gazprom og rússnesk stjórnvöld hafa alfarið hafnað því að vera að nota gasið í því skyni að þvinga vesturveldin til að aflétta viðskiptabönnum. Þau hafa sagt að íhluti hafi vantað. Að ekki hafi tekist að ljúka hinu reglubundna viðhaldi sem komið hefði verði að í sumar vegna þess að það vantaði varahluti. Og að það vantaði varahluti vegna viðskiptaþvingana Vesturlanda.
Stjórnvöld í flestum Evrópuríkjum hafa blásið á þessar útskýringar. Tilgangurinn sé að valda skelfingu.
Og segja má að það hafi tekist. Orkukrísan sem nú geisar í álfunni er risavaxið verkefni. Orkuverð hefur hækkað svo mikið að óttast er að fátækt aukist í álfunni. Að fólk sligist undan rafmagnsreikningum. Að verksmiðjur þurfi að draga úr framleiðslu á nauðsynja- og neysluvörum.
Allt sprakk svo í loft upp í gær. Í bókstaflegri merkingu. Tvö göt urðu á gasleiðslunum skammt undan Kristjánseyju í Eystrasalti. Þótt Nord Stream 1 hafi verið lokuð var leiðslan full af jarðgasi. Gasið getur valdið truflunum fyrir skip, það getur verið erfitt að sigla í gegnum svelginn sem það veldur. Auk þess er það heilsufarsógn. Bæði siglingaleiðum og flugleiðum yfir svæðið hefur því verið breytt vegna lekans.
Jarðvísindastofnanir við Eystrasalt segja að sprengingar hafi vissulega orðið. Þær hafi komið fram á jarðskjálftamælum.
Sprengingarnar á leiðslunni voru viljaverk, sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur í gærkvöldi. „Þetta var ekki óhapp.“
„Skemmdarverk,“ var orðið sem forsætisráðherra Póllands notaði. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði slíkt hið sama.
„Þetta er ekki lítil sprunga þetta er risastórt gat,“ sagði danski orkumálaráðherrann.
Rússnesk stjórnvöld segja að ekki sé hægt að útiloka skemmdarverk. Þau segjast hins vegar ekki bera neina ábyrgð á slíku.
Gas, gas, gas
Evrópa vill ekki aðeins verða óháð rússnesku gasi. Hún vill verða óháð gasi almennt. Ef ná á markmiðum sem sett hafa verið fram í loftslagsmálum, svo að koma megi í veg fyrir hamfarahlýnun á jörðinni, þarf að draga verulega úr og að lokum að hætta að nota gas og önnur jarðefnaeldsneyti.
Það er því þyngra en tárum taki að gas streymi nú út úr gasleiðslum Eystrasaltsins, í hafið og loks að stórum hluta út í andrúmsloftið. Þetta mun hafa áhrif á umhverfið en hversu mikil er ekki gott að segja til um, jafnvel ómögulegt, því enginn veit á þessari stundu nákvæmlega hversu mikið gas er að leka út. „Það eru margir óvissuþættir en ef þessar gasleiðslur halda áfram að leka þá gætu áhrifin á umhverfið orðið gríðarleg og jafnvel fordæmalaus,“ hefur Reuters eftir David McCabe, sérfræðingi í loftslagi. Einn óvissuþátturinn er sá hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum sem er að finna í gasinu örverur í Eystrasaltinu munu binda. Gasið er að uppistöðu metangas, sem á eftir koltvíoxíði er mesti skaðvaldur loftslagsins og drifkraftur loftslagsbreytinga.