Hver langreyður safnar um 33 tonnum af kolefni á lífsleiðinni
Hvalir binda kolefni. Eiga í samskiptum. Eru forvitnir, lausnamiðaðir og fórnfúsir. Veiðar á þeim eru óþarfar, ekki hluti af menningu Íslendinga og að auki óarðbærar. Þær snúast enda ekki um hagnað heldur völd. „Kristján Loftsson er síðasti kvalarinn.“
Hvalveiðar Íslendinga eru barn síns tíma, tímarnir hafa breyst, við þurfum að sýna meiri ábyrgð og ekki bara veiða af því við getum það,“ segir Edda Elísabet Magnúsdóttir, doktor í sjávarlíffræði og einn helsti hvalasérfræðingur Íslendinga. Edda var meðal þeirra sem tóku til máls á mótmælum gegn hvalveiðum sem fjögur samtök stóðu fyrir á Austurvelli á föstudag.
Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, rifjaði í sinni ræðu upp að hvalveiðar hefðu fyrst og fremst verið stundaðar af útlendingum við Ísland í aldir, aðeins hins síðari ár af Íslendingum og því vart hluti af íslenskri menningu.
Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera á Íslandi, sagði hvali skutlaða með sprengjum og að þeir hái oft langt dauðastríð. Hún spurði hvort Íslendingum þætti það eitthvað skárra en nautahlaupið í Pamplona sem endaði með pyntingum á nautunum.
Þörf fyrir nýtingu þarf að vera mikil
Rök fyrir hvalveiðum á seinni árum „hafa því miður verið á lágu plani,“ sagði Edda og að oft snúist umræðan um náttúruna sem auðlind sem menn hefðu rétt á að nýta. „Slík orðræða var réttmætari á öldum áður þegar mannfólk þurfti almennt að hafa meira fyrir hverjum degi fyrir sig. En nú er veruleikinn allt annar, náttúrunni hnignar og fólksfjölgun er allt of mikil. Við eigum ekki sjálfsagðan rétt á að nýta stofna náttúrunnar. Þeir stofnar sem við nýtum þurfa að vera sterkir og þörfin fyrir nýtingu þeirra þarf að vera mikil.“
Í ljósi bágborinnar stöðu náttúrunnar þurfi manneskjur að breyta viðhorfum sínum. „Náttúran er ekki þarna fyrir okkur en til að lifa af þurfum við að lifa með henni og aðeins taka það sem við þurfum og það sem náttúran ræður við.“
Hvalveiðar ekki óumflýjanlegar
Edda benti á að tap lífbreytileika jarðar á heimsvísu gerist nú mun hraðar áður í 300 þúsund ára sögu mannsins. Yfir 30 þúsund af 120 þúsund tegundum séu nú á rauðum lista Alþjóða-náttúruverndarsamtakanna (International Union for Conservation of Nature, IUCN) um tegundir í útrýmingarhættu og hefur fjöldi þeirra þrefaldast á síðustu tuttugu árum.
„Hvers vegna? Jú fyrst og fremst vegna athafna okkar mannanna sem hefur gerbreytt ásýnd jarðarinnar, valdið margskonar mengun í lífríkinu, breytingum á loftslagi, súrnunar sjávar og öfgum í veðurfari.“
Lífbreytileika jarðar sé því ógnað sem aldrei fyrr vegna athafna mannsins eins og ofveiða og röskunar á náttúrulegum búsvæðum. „Sumt er jú óumflýjanlegt þar sem reyna þarf að tryggja fæðuöryggi mannsins,“ sagði Edda, „en svo ótalmargt sem við gerum er umflýjanlegt og óþarft. Hvalveiðar eru þar meðal annars.“
Fjöldi þeirra langreyða sem tilheyrir þeim stofni sem Hvalur hf. veiðir úr telur um 45 þúsund dýr og hrefnurnar um 150 þúsund í öllu Norður-Atlantshafi. Úr þeim stofni veiða Norðmenn líka.
„Fyrir spendýr sem fjölga sér hægt og setja gífurlega orku í hvert afkvæmi teljast þetta ekki stórir spendýrastofnar,“ sagði Edda. Fjöldi þeirra hvala sem má veiða sé ekki líklegur til að valda skaða á stofnunum eins og staðan er í dag. „En munum að umhverfi þessara dýra er að breytast á methraða sem við getum ekki fyllilega séð fyrir.“
Edda sagði að það einnig gleymast í umræðunni að hinar tíðræddu auðlindir séu lífverur sem eigi sér tilverurétt, sumar lifi í fjölskylduhópum alla sína ævi, tengist djúpum böndum, læri og leiki sér. „Ef fólk sýnir af sér minnstu tilfinningasemi gagnvart dýrunum og gerir athugasemdir við aflífunaraðferðir eða aðbúnað dýra, sem geta verið ómannúðlegar, eru slíkir einstaklingar afgreiddir sem órökréttar tilfinningaskjóður sem hafa greinilega aldrei verið í sveit.“
En þekkingu okkar fleyti hratt fram. „Og fyrir tilstuðlan rannsókna á atferli dýra höldum við áfram að læra og skilja betur gleði þeirra og sorg, forvitni, uppgötvanir, nýsköpun, lausnarleit, samkennd og fórnfýsi og svo mætti lengi telja. Upplifanir sem virðast ekki ýkja ólíkar okkar. Þar eru hvalir engin undantekning.“
Þegar við veljum að veiða villt dýr í náttúrunni eða halda þeim til manneldis þurfa að mati Eddu að liggja sterk rök að baki og nauðsynin að vera skýr.
Skammarleg skýrsla
Rannsóknir hafi meðal annars sýnt að endurkoma hvala inn á ákveðin svæði geti haft jákvæð áhrif á frumframleiðni sem auki frekari framleiðslugetu og lífbreytileika innan vistkerfa. Þannig sé úrgangur frá hvölum, sem er ríkur af snefilefnum, mikilvægur plöntusvifi, sem er svo aftur undirstaða vistkerfa sjávar. Einnig séu hvalhræ sem falla til botns mikilvægur hluti botnvistkerfa.
„Af miklu ábyrgðarleysi var því haldið fram í nýlegri skýrslu Hagfræðastofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða, að brotthvarf um 40 prósent hvala yrði til sambærilegrar fjölgunar í nytjastofnum í hafinu,“ sagði Edda. „Slík rökfærsla er verulega óvísindaleg og skammarleg fyrir íslenskt vísindasamfélag.“
Í skýrslunni hafi ekki verið tekið til greina að hvalir eru hluti af flæði orku um fæðuvef sjávar og gegni afar mikilvægu hlutverki í hringrás næringarefna. „Fiskveiðar mannsins fjarlægja hins vegar orku og næringarefni út úr vistkerfinu sem skilar sér ekki svo glatt til baka. Því er ekki hægt að bera saman afrán hvala og manna út frá orkuþörf líkt og var gert í skýrslunni.“
Edda minnti ennfremur á að stórhveli geta bundið mikið magn kolefnis nái þeir fullum aldri. „Áætlað hefur verið að stórhveli eins og langreyður og steypireyður safni um 33 tonnum af kolefni á sínum líftíma. Það minnir á mikilvægi hvala í bindingu kolefnis. Deyi hvalur í hafinu á kolefnið í líkama hans ekki greiða leið út í andrúmsloftið í formi koltvísýrings heldur nýtist hann í líkama annarra sjávarlífvera.“ Þegar hvalur sé hins vegar dreginn á land og verkaður losnar mun meira af koltvísýring milliliðalaust út í andrúmsloftið.
Hvalir hafa viðhaldið lifnaðarháttum sínum í um 50 milljónir ára í jafnvægi við umhverfið sitt. Jafnvægið helst svo lengi sem þeir taka ekki meira en umhverfið þolir. Þessu sagðist Edda vilja vekja athygli á þar sem gjarnan hefur verið reynt að réttlæta hvalveiðar vegna þess magns fæðu sem hvalir þurfa að innbyrða og gefið í skyn að magnið sé ónáttúrulegt og vont fyrir náttúruna. „Slík rök eiga ekki rétt á sér við réttlætingu hvalveiða,“ sagði hún. „Náttúran þarf að fá að njóta vafans, í ljósi meðferðar okkar á jörðinni hefur þörfin aldrei verið meiri.“
Ekki menning heldur léleg stjórnsýsla
Hvalveiðar hafa sannarlega verið stundaðar í sjónum í kringum Ísland öldum saman, en fyrst og fremst af útlendingum. „Íslendingar eru hins vegar frumkvöðlar í hvalveiðibanni,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður í ræðu sinni. Á meðan útlendingar „sópuðu upp hvölum“ hafi Íslendingar reynt af veikum mætti að hafa stjórn á veiðunum. Á þessari öld hafi eitt íslenskt hvalveiðifyrirtæki, Hvalur hf., fengið að veiða hundruð hvala bæði í svokölluðu „vísindaskyni“ og atvinnuskyni og reynt að koma kjötinu í verð, „þrátt fyrir litla sem enga eftirspurn“ og að kannanir sýni að meirihluti landsmanna styður ekki hvalveiðar.
Til þess að hægt sé að veiða og vinna hvali þurfi að gefa undanþágur frá reglugerðum um dýravelferð og hollustuhætti við framleiðslu matvæla. Almennt megi t.d. ekki verka kjöt utandyra. Í ár megi Hvalur hf. veiða 161 langreyði og 217 hrefnur en af því að hann veiddi ekki kvóta síðasta árs bætast við 32 langreyðar. Samkvæmt reglugerð frá 2019 má fyrirtækið veiða hvali til ársins 2023 – þrátt fyrir að kvóta sé almennt ekki úthlutað nema eitt ár í senn.
„Er þetta íslensk menning? Kannski er léleg stjórnsýsla, sérreglur fyrir útvalda og einkavinavæðing auðlinda hefð hér á landi en ég myndi ekki kalla það menningu.“
Valgerður Árnadóttir, formaður Samtaka grænkera, spurði í sinni ræðu hvort hvalveiðar Íslendinga væru eitthvað skárri en nautahlaupið í Pamplona sem margir Íslendingar hafa fordæmt á samfélagsmiðlum og þyki hryllilegt athæfi. „Er dauðastríð hvala eitthvað skárra? Þeir eru eltir uppi og skotnir með skutli sem springur inni í þeim. Hvalir há kvalafullt dauðastríð í langan tíma, allt frá 6 til 25 mínútna dauðastríð, og stundum lengur þegar það þarf að hlaða og skjóta þá aftur.“
Hún segir staðreynd að ekki sé arðbært að veiða hval. Og að fyrir því sé ekki einu sinni löng hefð í Íslandssögunni. „Samt sem áður hefur einn maður svo mikil ítök á Íslandi að hann hefur sannfært fjölda fólks að það sé hluti af sjálfstæðisbaráttu okkar að drepa hvali.“
Þessi maður, Kristján Loftsson, er milljarðamæringur, benti Valgerður á. Honum slétt sama um tap sitt af hvalveiðum. Hann kunni hvort eð er ekki aura sinna tal.
„Hvalveiðar fyrir honum snúast ekki um hagnað, þær snúast um völd. Kristján er síðasti kvalarinn, síðasti nautabaninn, hans auma leið til að sýna karlmennsku sína er með því að pynta og drepa ljúfar, mikilvægar og sjaldgæfar skepnur og hann mun ekki hætta því fyrr en ríkisstjórn Íslands stöðvar hann.“
Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hefur Hvalur hf. þegar veitt 37 langreyðar frá því að veiðarnar hófust 22. júní. Fleiri kunna að hafa verið skotnar í dag.