Hyldýpið sem hægt var að brúa
Í heimsfaraldri þar sem barist hefur verið um bóluefni með peninga að vopni hefur heil heimsálfa verið skilin eftir með sárt ennið. Þetta eru ekkert annað en svik, segir forstjóri WHO. Hægt hefði verið að koma í veg fyrir fjölda dauðsfalla í Afríku ef jafnt hefði verið gefið. „Ör á samvisku okkar allra,“ segir faraldsfræðingur.
Þeir voru vanir að taka sex eða sjö grafir á viku. Núna eru þær svo margar á degi hverjum. „Við fundum varla fyrir fyrstu bylgjunni,“ segir Habib Sagna, vörður í stærsta kirkjugarði Yoff-hverfisins í Dakar, höfuðborg Senegal. „Í annarri bylgjunni þá voru nokkrar útfarir vegna COVID-19 en í þessari þriðju... núna erum við virkilega farin að finna fyrir því.“
Fyrir rúmu ári, þegar fyrsta bylgja faraldursins hafði gengið yfir Asíu, Evrópu og Norður- og Suður-Ameríku með skelfilegum afleiðingum fóru margir að spyrja sig hvað væri eiginlega í gangi í Afríku. Það þorði varla nokkur maður að segja það upphátt en álfan þar sem fjölmargar farsóttir hafa geisað síðustu áratugi, farsóttir sem Vesturlandabúar þekkja vart nöfnin á, virtist hafa sloppið að mestu við COVID-19. Og það þvert á hamfaraspár margra, m.a. auðjöfursins Bill Gates, sem sagði veikbyggð heilbrigðiskerfi álfunnar eiga eftir að bresta og dauðsföll skipta milljónum.
Sú varð ekki raunin.
En hvers vegna?
Skýringarnar (og kenningarnar) eru margar og auðvitað misjafnar eftir hverju ríki fyrir sig. Því ólíkt því sem margir halda er Afríka langt frá því að vera einsleit.
Snör og samstillt viðbrögð margra Afríkuríkja þegar við upphaf faraldursins eru hins vegar ein skýringin. Settar voru á harðar aðgerðir; útgöngubann, ferðabann og fleira í þeim dúr. Það verður að hafa í huga að þetta er heimsálfa þar sem ítrekað hefur verið barist við hættulega smitsjúkdóma, m.a. ebólu og kóleru. Það er því þekking til staðar til að hefta útbreiðslu.
Önnur skýring felst mögulega í þeirri staðreynd að Afríka er langyngsta heimsálfan. Meðalaldur íbúanna er rúmlega 19 ár á meðan hann er 42 ár í Evrópu og 35 ár í Bandaríkjunum. Þetta þýðir að allt að því helmingur íbúa Afríku eru börn og unglingar. Og þessir aldurshópar voru ólíklegri en aðrir til að smitast af nýju kórónuveirunni og einnig ólíklegri til að veikjast alvarlega.
Það má einnig leita skýringa í því að í löndum álfunnar, sem eru mörg við miðbaug, eyða flestir íbúar bróðurparti af tíma sínum utandyra ólíkt því sem þekkist t.d. í Evrópu og Bandaríkjunum. Og þrátt fyrir að borgir séu vissulega að vaxa hraðar í þessari heimsálfu en annars staðar á jarðarkringlunni býr enn stór og oft stærstur hluti íbúa í dreifbýli.
Allir þessir þættir samanlagðir höfðu líklega þau áhrif að fyrsta bylgjan reis aldrei hátt í Afríku. Ofan á þá alla kemur svo sú afleidda staðreynd, það sannleikskorn sem var í heimsendaspá Gates, að þar sem heilbrigðiskerfin eru veik, var ekki verið að taka sýni af fólki hægri vinstri líkt og í hinum vestræna heimi. Auk þess má ekki gleyma því að í mörgum löndum Afríku var COVID-19 einfaldlega ekki ofarlega á forgangslistanum. Faraldur HIV og alvarlegra barnasjúkdóma, svo dæmi séu tekin, áttu skuldlaust þau toppsæti.
En svo kom delta. Afbrigðið sem er um sextíu prósent meira smitandi en alpha-afbrigðið sem var svo aftur sextíu prósent meira smitandi en upprunalega veiran. Delta, hefur eins og á öðrum stöðum í heiminum, breytt öllu.
Munurinn á Afríku og „öðrum stöðum í heiminum“ er hins vegar sá að í álfunni er innan við eitt prósent íbúanna bólusettur. Þetta hlutfall er 41 prósent í Evrópu allri, 50 prósent í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum og 75 prósent á Íslandi. Ef litið er til einstakra ríkja Afríku er hlutfallið víða langt undir 1 prósenti. Það er til dæmis aðeins 0,2 prósent í Líberíu. Þar hafa um 96 þúsund bóluefnaskammtar verið gefnir eða jafnmargir og nú eru til á lager á Íslandi og nota á m.a. í örvunarskammta hjá fullbólusettum.
Ofan á bóluefnaskort vantar svo gjörgæslurými, hlífðarfatnað og flest það annað sem þarf til að verjast faraldrinum. Strangar takmarkanir voru góðar og gildar sem sóttvarnaráðstöfun þegar þær voru settar á í mörgum ríkjum Afríku í fyrra. En í álfu þar sem lífsbaráttan er hörð frá degi til dags í útbreiddu atvinnuleysi, uppskerubresti og stríðsástandi, er ekki hægt að banna fólki að fara um vikum og mánuðum saman.
„Þetta er ófremdar ástand,“ segir Babacar Diop, læknir á bráðamóttöku Fann-sjúkrahússins í Dakar. Sjúkrabílar aka stöðugt upp að sjúkrahúsinu með hóstandi sjúklinga. Diop getur ekki sinnt þeim öllum því það er skortur á súrefni á sjúkrahúsinu. Hann verður að vísa sjúkum frá. „Við fáum sjúklinga sem deyja hérna fyrir utan,“ segir Diop. Hann segir tölfræði yfir látna vegna COVID-19 í landinu mjög vanmetna. Fleiri deyi heima en á yfirfullum sjúkrahúsunum.
Þriðja bylgjan er risin í Senegal eins og annars staðar í Afríku. Og það er delta-afbrigðið sem knýr hana áfram. „Þetta afbrigði er algjör tímasprengja,“ segir Diop. Það eina sem fólk geti gert sé „að biðja“.
Fleira ungt fólk er að smitast af delta en fyrri afbrigðum. Fleira ungt fólk er einnig að veikjast en áður. Ungu Afríkuþjóðirnar stara ofan í hyldýpi.
En þetta er hyldýpi sem hægt hefði verið að brúa. Og er það kannski enn, ef allir myndu leggjast á eitt.
„Þar sem ég sit og skrifa þetta er mikið mannfall vegna COVID-19 hafið í Afríku,“ skrifar Mosoka Fallah, fyrrverandi framkvæmdastjóri heilbrigðismálastofnunar Líberíu í tímaritið Nature. Fallah starfar enn á sviði heilbrigðismála og nú hjá bandarísku smitsjúkdómastofnuninni, NAID. Í heimalandi hans Líberíu fjölgaði greindum tilfellum af veirunni um 144 prósent frá 1. júní til 21. júlí. Hann segir „alveg örugglega“ um vanmat á fjölda smita að ræða.
„Sjúkdómurinn er banvænni hér en annars staðar,“ segir hann og vísar í nýjar rannsóknir um að dánartíðni af hans völdum sé 18 prósent hærri í Afríku en að meðaltali í heiminum. „Um helmingur þeirra sem lagður er inn á gjörgæslu deyr á innan við þrjátíu dögum.“
En nóg af tölfræði, skrifar hann og heldur áfram: „Fjöldi grafa sem tekinn er í Líberíu dag hvern minnir á hamfarirnar vegna ebólu-faraldursins árið 2014.“ Líkt og þá hafi fjöldi heilbrigðisstarfsmanna sýkst og látist af völdum COVID-19. Og þeir voru of fáir fyrir. Samfélagsmiðlar voru áður fullir af afmæliskveðjum og öðrum heillaóskum. „Núna flæða um þá skilaboðin „hvíl í friði“,“ skrifar Fallah.
Fallah segir tímann að renna út. Bregðast verði þegar í stað við þeim bóluefnaskorti sem hrjái mörg Afríkuríki. Hann varar alþjóðasamfélagið við því að gera sömu mistök og í ebólu-faraldrinum. Þá hafi viðbrögðin verið alltof sein. Og fólk dáið úti á götu.
Hann óttast að holskefla smita skelli á álfunni á næstu vikum og að löndin séu engan veginn nægilega vel undirbúin. Víða sé þegar skortur á súrefni. Og hann eigi aðeins eftir að aukast. „Afríka slapp að mestu undan faraldrinum 2020, en ekki í ár. Okkur vantar bóluefni og við náum vart andanum.“
Hann gagnrýnir harðlega að auðugri lönd heimsins hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar í COVAX-samstarfinu sem átti að tryggja bóluefni fyrir fátækari ríki. Aðeins litlu broti af bóluefni sem heitið var til samstarfsins í ár hefur verið komið til Afríku. Hefði verið staðið við loforðin hefði mátt koma í veg fyrir fjölda dauðsfalla.
Forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar talar á sömu nótum í nýlegu viðtali við Washington Post. Tedros Adhanom Ghebreyesus er fæddur í Erítreu en er með eþíópískt ríkisfang. „Það er ekki hægt að nota neitt annað orð en svik yfir það sem er að gerast núna í Afríku,“ segir hann í viðtalinu. Fólk sé að deyja og í veg fyrir það hefði verið hægt að koma „hefðu ríkari þjóðir leyft þeim fátækari að fá sinn réttmæta hlut af bóluefnum“.
Af þeim rúmlega 3,7 milljörðum bóluefnaskammta sem dreift hefur verið á heimsvísu hefur aðeins 1,7 prósent farið til Afríku. Ghebreyesus hefur notað orðið „græðgi“ í þessu sambandi. „Heimsfaraldurinn var próf. Og heimsbyggðin er að falla á því.“ Þótt vissulega séu ýmsar hindranir í vegi bólusetningaherferða í Afríku séu sum ríkin vel undirbúin og tilbúin í slaginn. Það sem vanti sé bóluefni.
Flest ríki Afríku hafa ekki efni á að kaupa bóluefni beint frá framleiðendum þeirra. Og vegna alls konar einkaleyfa geta þau ekki framleitt efnin sjálf þótt vonir standi til að slíkt geti orðið í framtíðinni. Hið lága bólusetningarhlutfall í Afríku er því fyrst og fremst tilkomið vegna fjárskorts. Vegna þess að ríkari lönd höfðu, með peninga að vopni, betri samningsstöðu gagnvart lyfjafyrirtækjunum þegar í upphafi og gátu því hamstrað bóluefni. Þar var vissulega brýnt að bólusetja fólk enda tvær og jafnvel þrjár stórar bylgjur sem gengu yfir bæði Evrópu og Bandaríkin á aðeins einu og hálfu ári.
En allir vissu, alveg frá upphafi, að ráðast yrði að rót vandans með bólusetningum alls staðar í heiminum – til að ná árangri í baráttunni við COVID-19 um allan heim. „Vesturveldin hafa hagað sér með andstyggilegum hætti þegar kemur að því að láta [Afríku] bóluefni í té,“skrifar keníski rithöfundurinn Patrick Gathara í skoðanagrein á vef Al Jazeera. „Þau hafa hamstrað birgðir af bóluefnum sem þau þurfa ekki, fyrir fólk sem vill þau ekki en hafa neitað þeim sem þurfa þau og vilja um að fá þau.“ Hann vill þó líka minna á að ríkisstjórnir í Afríku beri ábyrgð.
Dæmi eru um að skammtar sem eru við það að renna út hafi verið sendir með flýti frá Vesturlöndum til Afríku. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hefur vakið athygli á þessu og segir að tugþúsundir skammta hafi farið til spillis af þessum sökum. Gathara varar við því að hraðafgreiðsla á bóluefnum sem eru að komast á „síðasta neysludag“ verði notuð til að fóðra þá orðræðu að gagnslítið sé að senda bóluefni til fátækari ríkja – þau séu ekki notuð.
„Hvenær munu lönd Afríku ná nægilega miklu ónæmi, hinum svokallaða hjarðónæmisþröskuldi?“ spurði Bruce Aylward, læknir, faraldsfræðingur og einn helsti ráðgjafi forstjóra WHO, á upplýsingafundi stofnunarinnar í síðustu viku. Hann svaraði sjálfur spurningunni: „Því miður liggur ákvörðun þar um ekki hjá Afríkuríkjunum sjálfum. Núna er ákvörðunarvaldið hjá hópi forstjóra og stjórnum stórra fyrirtækja sem selja bóluefni, hjá löndum sem framleiða bóluefni og hjá löndum sem hafa yfir að ráða samningum um meirihluta alls bóluefnis heimsins.“
Ástandið í Afríku hefur að sögn WHO versnað hratt og dauðsföllum fjölgað um 80 prósent á aðeins fjórum vikum. Forstjórinn Tedros Adhanom Ghebreyesus hvetur stjórnvöld í efnaðri ríkjum til að leggja meira af mörkum til COVAX-samstarfsins. Hann hefur svo ítrekað biðlað til ríkisstjórna heimsins, síðast á miðvikudag, að bíða með örvunarbólusetningar fullbólusettra borgara sinna þar til að minnsta kosti í lok september. Slíkt sé ekki réttlætanlegt á meðan hin djúpa gjá í bólusetningum sé til staðar í heiminum.
Kjarninn birtir um þessar mundir fréttaskýringar um stöðu heimsfaraldursins í hverri heimsálfu fyrir sig. Þegar hafa verið birtar greinar um Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og Eyjaálfu.