Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum

Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.

Bóluefni
Auglýsing

„Ætlum við virkilega að sætta okkur við 1,5 prósent bólusetningarhlutfall í Afríku á meðan það er þegar orðið 70 prósent í sumum löndum?“

Þetta sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á blaðamannafundi á föstudag þar sem hann og aðrir sérfræðingar fóru yfir stöðuna á heimsfaraldri kórónuveirunnar. Hann sagði ástandið í Afríku hafa versnað hratt og dauðsföllum fjölgað um 80 prósent á aðeins fjórum vikum. Þar væri eins og víðast annars staðar hið bráðsmitandi delta-afbrigði veirunnar orðið ráðandi. Staðan í Afríku væri þó gjörólík þeirri sem er uppi í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem bólusetning væri skammt á veg komin og sömuleiðis skortir grundvallar aðföng til heilbrigðisþjónustu á borð við súrefni og hlífðarfatnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Að sama skapi væru sýnatökur í fátækum ríkjum aðeins brot (innan við 2 prósent) af þeim fjölda sem ríkari lönd eru að taka. „Því er heimurinn blindur þegar kemur að því að skilja sjúkdóminn og hvernig hann breytist. Án betri skimunar á alþjóðavísu getum við ekki barist við sjúkdóminn í eldlínunni og dregið úr hættunni á því að ný og hættulegri afbrigði komi fram.“

WHO stefnir enn að því markmiði að hvert ríki heims verði búið að bólusetja að minnsta kosti 10 prósent íbúa sinna fyrir lok september, að minnsta kosti 40 prósent fyrir lok árs og um 70 prósent um mitt næsta ár. „Við erum langan veg frá því að ná þessum markmiðum,“ sagði Ghebreyesus.

Um helmingur ríkja heims hefur náð þeim áfanga að bólusetja 10 prósent íbúanna og innan við fjórðungur 40 prósent þeirra. Aðeins þrjú lönd hafa fullbólusett 70 prósent íbúanna: Malta (86%), Sameinuðu arabísku furstadæmin (71%) og Ísland (75%).

Afríka tilbúin en fær ekki bóluefni

Nær ómögulegt er talið miðað við stöðuna nú að mikill meirihluti Afríkuríkja nái hinu 10 prósenta markmiði WHO fyrir lok september. Stofnunin hefur ítrekað kallað eftir því að þjóðir heims sameinist um það markmið að bólusetja sem flesta, alls staðar. „Enn er dreifing bóluefna óréttlát,“ sagði forstjóri stofnunarinnar.

Mörg Afríkuríki séu tilbúin með sínar bólusetningaáætlanir, búin að undirbúa fjöldabólusetningar. Það sem hins vegar vantar eru bóluefni.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO. Mynd: EPA

„Innan við tvö prósent af öllum skömmtum sem hefur verið dreift í heiminum hafa farið til Afríku,“ sagði Ghebreyesus og endurtók orð sín: „Innan við tvö prósent.“ Það sé gríðarlega alvarleg staða fyrir alla heimsbyggðina ef takast á að vinna bug á faraldrinum.

Hann hvatti enn og aftur stjórnvöld í efnaðri ríkjum að leggja meira af mörkum til COVAX-samstarfsins. Slík fjárfesting væri aðeins brot af því sem ríkisstjórnir væru að setja í baráttuna gegn COVID-19. „Spurningin er ekki hvort að heimsbyggðin hafi efni á að fara í þessar fjárfestingar heldur hvort að hún hafi efni á að gera það ekki.“

Algjörlega óásættanlegt

Bruce Aylward, læknir, faraldsfræðingur og einn helsti ráðgjafi forstjóra WHO, segir að sprengja í dauðsföllum af völdum COVID-19 í Afríku síðustu vikur ætti að vera „algjörlega óásættanleg“ á alþjóðavísu. „Það er algjörlega óásættanlegt að á tíma þar sem öflug og árangursrík bóluefni eru komin til sögunnar, á tíma þegar milljörðum skammta af þeim hefur verið dreift til ákveðinna heimshluta að dauðsföllum hafi fjölgað um 80 prósent í Afríku. Algjörlega óásættanlegt.“

Bruce Aylward faraldsfræðingur hjá WHO. Mynd: EPA

Hann sagði stefnubreytingar þörf. Með sama framhaldi myndu markmið WHO um 10 prósent bólusetningarhlutfall í Afríku ekki nást í september. „Það ætti að vera ör á samvisku okkar allra,“ sagði hann. Engin raunveruleg ástæða væri fyrir misskiptingunni, „nóg af bóluefni er til í heiminum, nóg af peningum er til í heiminum, næg þörf fyrir og næg eftirspurn eftir bóluefnum svo auðveldlega yrði hægt að ná 30-40 prósent hlutfalli þar sem bóluefni yrðu gerð aðgengileg“.

Stóra verkefnið hans núna, sem og annarra hjá WHO, væri að finna leiðir til að koma meira bóluefni inn á færibandið – koma því til fátækari ríkja.

Ákvörðunin liggur hjá nokkrum forstjórum

Hvenær munu lönd Afríku ná nægilega miklu ónæmi, hinum svokallaða hjarðónæmisþröskuldi, spurði hann svo og svaraði: „Því miður liggur ákvörðun þar um ekki hjá Afríkuríkjunum sjálfum. Núna er ákvörðunarvaldið hjá hópi forstjóra og stjórna stórra fyrirtækja sem selja bóluefni, hjá löndum sem framleiða bóluefni og hjá löndum sem hafa yfir að ráða samningum um meirihluta alls bóluefnis heimsins.“

Spurður hvort að 10 prósent bólusetningarmarkmið fyrir Afríku í september væri þá ekki óraunhæft svaraði hann að í ljósi þess sem hann hefði rakið væri „hræðilegt“ að segja slíkt. Við ættum aldrei að tala um hvað við teljum eiga eftir að gerast í Afríku samanborið við Bandaríkin eða Evrópu. Við ættum að setja sömu markmið, hafa sama metnað alls staðar. Þannig að ef Evrópa nær 60 eða 70 prósent hlutfalli í bólusetning í lok árs – af hverju ætti Afríka ekki að ná því líka?“

Þegar og ef örvunarskammtar verða þarfir

Að minnsta kosti tvö ríki, Ísrael og Ísland, hafa ákveðið að gefa fullbólusettum örvunarskammt á næstu dögum. Í Ísrael er verið að bólusetja eldra fólk með þriðja skammti Pfizer-BioNTech bóluefninu, og á Íslandi er að hefjast endurbólusetning fólks sem fékk Janssen-bóluefnið. Þeim mun standa ýmist skammtur af Pfizer eða Moderna til boða.

WHO hefur enn ekki mælt með örvunarskömmtum en segir tvennt skipta máli þegar komi að endurbólusetningu fólks, „þegar og ef“ hennar gerist þörf, sagði Ayward um þetta mál á blaðamannafundinum. Í fyrsta lagi væri það hversu lengi bóluefnin veittu vernd og í öðru lagi hvort að þau veittu vernd gegn nýjum afbrigðum.

Auglýsing

„Núna er það alveg ljóst að bóluefnin virðast hafa góð áhrif gegn alvarlegum veikindum, sjúkrahúsinnlögnum og dauða,“ sagði hann en að stöðugt væri safnað nýjum gögnum þar um. Helsta forgangsmálið væri að gera sér grein fyrir því að við erum stödd í heimsfaraldri þar sem allir þurfi að vinna saman. „Við getum ekki hugsað um forgang fyrir ákveðið land eða ákveðið samfélag heldur nálgast verkefnið á heimsvísu.“

Eins og að pissa í skóinn sinn

Forgangsverkefni væri að bólusetja alla aldraða, heilbrigðisstarfsmenn og fólk með undirliggjandi sjúkdóma til að hægja á útbreiðslu veirunnar og minnka líkur á nýjum afbrigðum. Síðan sé hægt að huga að öðrum hópum. „Svo ef við ætlum að breyta forgangsröðuninni þá ætti breytingin ekki að vera í forgangshópunum sjálfum heldur hvar við verðum að bólusetja forgangshópana.“

Hann sagði það eins og að pissa í skóinn sinn fyrir einstök lönd að halda að þau geti „bólusett sig út úr þessu“ án þess að veita stöðunni annars staðar í veröldinni athygli.

Auglýsing

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiErlent