EPA

Ísland og Ísrael örva bólusetta

Ísland og Ísrael eiga ýmislegt fleira sameiginlegt en fyrstu tvo stafina. Í báðum löndum er bólusetningarhlutfall með því hæsta sem fyrirfinnst á jörðu. Bæði sáu smit nær þurrkast út en fjórðu bylgjuna svo rísa skyndilega. Og nú hafa þau, sama daginn, ákveðið að gefa þegar bólusettum borgurum sínum örvunarskammta.

Yfir­völd í Ísr­ael hafa ákveðið að fara að leið­bein­ingum sér­fræð­inga­ráðs síns og bjóða borg­urum yfir sex­tugu þriðja skammt bólu­efn­is. „Hringið í for­eldra ykkar og afa og ömmur núna og gangið úr skugga um að þau fái þriðja skammt­inn,“ sagði for­sæt­is­ráð­herr­ann Naftali Benn­ett í sjón­varps­ávarpi í gær. Örv­un­ar­her­ferðin myndi byrja þegar um helg­ina.

Í gær var einnig tekin svipuð ákvörðun af íslenskum yfir­völd­um. Þeir sem fengið hafa bólu­efni Jans­sen býðst örv­un­ar­skammtur (e. booster) af bólu­efni Moderna eða Pfiz­er. Þeir fyrstu í röð­inni eru kenn­arar og aðrir starfs­menn skóla og hafa þeir verið boð­aðir til end­ur­bólu­setn­ingar strax eftir versl­un­ar­manna­helgi. „Það er komin ákvörðun um að gefa örv­un­ar­skammt þeim sem að fengu Jans­sen bólu­setn­ingu og hafa ekki sögu um COVID,“ sagði Kamilla Jós­efs­dótt­ir, stað­geng­ill sótt­varna­lækn­is, á upp­lýs­inga­fundi almanna­varna og land­læknis í gær. „Þessar bólu­setn­ingar fara lík­lega af stað víð­ast hvar í næstu viku. Við munum nota Moderna eða Pfiz­er, eftir því sem til­efni er til. En það er til nóg af bólu­efni til að klára þennan hóp á frekar stuttum tíma.“

Auglýsing

Í fréttum ísra­el­skra fjöl­miðla í gær kom fram að ríkið væri það fyrsta í heim­inum þar sem ákveðið hefði verið að gefa örv­un­ar­skammt bólu­efna. Það kann að vera rétt en lík­lega hefur þá munað klukku­stund­um, jafn­vel aðeins mín­út­um, á milli þess sem ákvörðun þeirra og íslenskra yfir­valda var til­kynnt.

Mun­ur­inn á áformunum felst þó í því að í Ísr­ael er verið að tala um að gefa þriðja skammt­inn af bólu­efni Pfiz­er-BioNtech, þess efnis sem nær ein­göngu hefur verið notað þar í landi, á meðan hér hefur verið ákveðið að bjóða þeim sem fengu bólu­efni Jans­sen örv­un­ar­skammt af öðru efni.

En af hverju örv­un­ar­skammt­ur?

Í Ísra­el, líkt og á Íslandi, er hlut­fall bólu­settra gegn COVID-19 sjúk­dómnum með því hæsta sem ger­ist í heim­in­um. Í báðum lönd­unum dró veru­lega úr fjölgun smita sam­hliða fram­gangi bólu­setn­inga en í kjöl­far aflétt­inga tak­markana, bæði á landa­mærum og inn­an­lands, sem og útbreiðslu hins bráðsmit­andi delta-af­brigð­is, varð smit­spreng­ing. Fjórða bylgjan hófst og það af krafti. Afger­andi svar fékkst þar með við einni stærstu spurn­ingu vís­ind­anna þegar kemur að bólu­setn­ingum gegn COVID-19: Bólu­settir geta sann­ar­lega smit­ast og veikst og þeir geta smitað aðra. Svars­ins við hinni stóru spurn­ing­unni, hversu alvar­leg veik­indi bólu­settra verða almennt, er enn beð­ið.

Fjórða bylgjan er hafin í bæði Ísrael og á Íslandi. Þær fyrri hafa verið mun stærri í smitum talið í Ísrael og munurinn í dag gæti skýrst af mismikilli skimun fyrir veirunni í samfélögunum tveimur. Á myndinni er miðað við fjölda staðfestra smita á hverja milljón íbúa.
Our world in data

Það er nokkuð síðan að vanga­veltur um örv­un­ar­skammta bólu­efna komu fram. Stór rann­sókn við Cambrig­de-há­skóla hófst í lok júní á gagn­semi slíkra skammta. Nið­ur­staðna er enn beð­ið. Lyfj­aris­inn Pfizer hefur um hríð sagt örv­un­ar­skammta lík­lega. Á mið­viku­dag, sama dag og fyr­ir­tækið birti óritrýnd rann­sókn­ar­gögn um að bólu­efni þess veitti enn „sterka vernd“ sex mán­uðum eftir bólu­setn­ingu og allt að því full­komna vörn gegn alvar­legum veik­ind­um, sögðu for­svars­menn þess að þörf yrði bráð­lega á end­ur­bólu­setn­ingu. Ætla þeir að sækja um leyfi fyrir henni til banda­rísku lyfja­stofn­un­ar­innar (FDA) um miðjan ágúst í ljósi þess að þeir telja þriðja skammt­inn þurfa til innan við ári eftir bólu­setn­ingu. „Það er mjög góð vörn í upp­hafi en svo minnkar hún,“ sagði Albert Bourla, for­stjóri Pfiz­er, er árs­fjórð­ungs­upp­gjör fyr­ir­tæk­is­ins var kynnt um miðja vik­una. Sagði hann delta-af­brigðið breyta jöfn­unni enn frek­ar. Hægt væri að tala um minnk­andi vörn gegn því sex mán­uðum eftir bólu­setn­ingu. Þar var hann fyrst og fremst að tala um væg ein­kenni en „það er aug­ljós­lega minnkuð vernd gegn inn­lögnum og alvar­legum veik­ind­um“.

Svona smit­andi er delta-af­brigðið

Delta-af­brigðið er mun meira smit­andi en önnur afbrigði veirunnar hingað til. Ekki aðeins sam­an­borið við upp­runa­legu veiruna sem greind­ist í Kína fyrir einu og hálfu ári, heldur allt að 60 pró­sent meira smit­andi en það sem átti þann vafa­sama heiður á und­an: Alp­ha-af­brigðið – sem aftur var 60 pró­sent meira smit­andi en upp­runa­lega veir­an.

Til útskýr­ingar á smit­hæfni delta birti The Guar­dian þessa útreikn­inga nýver­ið: Tíu mann­eskjur smit­aðar af upp­runa­lega afbrigði veirunnar myndu smita 25 aðra (í sam­fé­lagi án tak­mark­ana og bólu­setn­inga). En tíu mann­eskjur smit­aðar af delta-af­brigð­inu myndu smita 60-70 aðra við sömu aðstæð­ur.

Drengur fær bólusetningu í Tel Aviv. Ísraelsk stjórnvöld byrjuðu að bólusetja börn á aldrinum 12-15 ára fyrir nokkrum vikum.
EPA

En aftur að Ísr­a­el.

Fjöldi alvar­legra veikra af völdum COVID-19 sem lagðir hafa verið inn á sjúkra­hús var 20 á mánu­dag, 33 á þriðju­dag og 41 á mið­viku­dag. Ekki er sund­ur­liðað hvort sjúk­ling­arnir eru bólu­settir eða ekki. Fjöl­miðlar greina svo frá því að heil­brigð­is­yf­ir­völd telji að haldi fram sem horfi gæti fjöld­inn verið kom­inn upp í eitt þús­und í lok ágúst.

Sér­fræð­inga­ráð heil­brigð­is­yf­ir­valda hefur haft mögu­leika á örv­un­ar­skammti til athug­unar í þess­ari viku. Meðal þeirra upp­lýs­inga sem ráðið hafði til að meta þörf­ina á slíku á fundi sínum á mið­viku­dag voru að sögn fjöl­miðla gögn sem benda til að vörn bólu­efn­is­ins gegn alvar­legum veik­indum fólks yfir sex­tugu sem bólu­sett var í jan­úar hafði minnkað úr 97 pró­sent í apríl niður í 81 pró­sent í júlí.

Ráðið sam­þykkti að bjóða fólki í þessum ald­urs­hópi örv­un­ar­skammt en heim­ildir dag­blaðs­ins Haar­etz herma að ekki hafi verið ein­hugur innan þess um ákvörð­un­ina. Í fyrsta lagi voru skiptar skoð­anir um við hvaða aldur ætti að miða; 60, 65 eða 70 ár. Í öðru lagi lýstu ein­hverjir sér­fræð­ing­anna því yfir að enn lægju ekki nægi­leg gögn fyrir til að taka ákvörðun um hvort þriðja skammts­ins væri þörf. Aðrir töldu hins vegar að ef beðið yrði með ákvörð­un­ina gæti það haft skelfi­legar afleið­ing­ar.

Óvíst um ávinn­ing en koma ekki að sök

„Það er ekki víst að þeir virki,“ segir Mich­ael Edel­stein, ísra­elskur far­alds­fræð­ingur og pró­fessor við Bar Ilan-há­skóla, um þriðju skammt­ana, „en þeir munu ekki koma að sök.“ Jon­athan Gers­honi, landi hans og sér­fræð­ingur í ónæm­is­fræð­um, seg­ist ekki sann­færður um brýna nauð­syn örv­un­ar­skammta en ef bólu­efnið sé til ætti end­ur­bólu­setn­ing að gagn­ast fólki yfir sex­tugu og vörn þeirra gegn delta-af­brigð­inu.

„Við munum þurfa að taka margar ákvarð­anir í fram­tíð­inni, meðal ann­ars þá um end­ur­bætt bólu­efni gegn afbrigð­un­um, svo við verðum að byggja allar ákvarð­anir okkar á gegn­heilum gögn­um,“ hefur fjöl­mið­ill­inn Times of India eftir Nadav Dav­idovitch far­alds­fræð­ingi og for­manni lækna­fé­lags Ísra­els. Hann segir enn ekki ljóst hver raun­veru­legur ávinn­ingur af örv­un­ar­skammti sé og ótt­ast að sú her­ferð dragi áhersl­una frá því for­gangs­máli að bólu­setja þá rúmu milljón Ísra­ela sem fengið hafa boð í bólu­setn­ingu en ekki þegið það.

Samanburður á þróun bólusetninga í Ísrael og á Íslandi.
Our world in data

Og yfir til Íslands.

Tíu manns liggja nú á Land­spít­al­anum með COVID-19. Tveir þeirra eru á gjör­gæslu­deild og báðir eru óbólu­sett­ir. Þórólfur Guðna­son sótt­varna­læknir hefur sagt að flestir þeir sem eru bólu­settir og hafa smit­ast af veirunni síð­ustu vikur hafi fengið bólu­efni Jans­sen. Hann hefur sam­tímis tekið fram að Jans­sen, sem er gefið í einni sprautu, hafi aðal­lega verið gefið ungu fólki, þeim sama hópi sem orðið hefur hvað útsett­astur fyrir smiti, t.d. á skemmti­stöðum þar sem hóp­sýk­ingar hafa komið upp.

Rúm­lega 53 þús­und íbúar lands­ins eru bólu­settir með Jans­sen. Rúm­lega 37 pró­sent allra full­bólu­settra á aldr­inum 16-29 ára hafa fengið það bólu­efni. Um 17 pró­sent fólks á þessum aldri er enn óbólu­sett­ur.

Í gær voru 966 manns í ein­angrun með COVID-19 á Íslandi. Tæp­lega 42 pró­sent þeirra eru á aldr­inum 18-29 ára.

Bóluestning óléttra kvenna með bóluefni Janssen hófst í Kólumbíu í síðustu viku. Bólusetning óléttra kvenna á Íslandi hófst í gær.
EPA

Engar rann­sóknir enn birtar

„Það eru engar vís­inda­rann­sóknir sem hafa verið birtar um örvun Jans­sen bólu­setn­ing­ar,“ segir Kamilla Jós­efs­dótt­ir, stað­geng­ill sótt­varna­lækn­is, spurð hvaða vís­indi búi að baki þeirri ákvörðun um að end­ur­bólu­setja fólk. Í skrif­legu svari til Kjarn­ans á mið­viku­dag sagð­ist hún færa rök fyrir ákvörð­un­inni í minn­is­blaði til ráð­herra sem yrði „vænt­an­lega birt þegar og ef sátt næst um þessa fram­kvæmd“.

Í ljósi þess að Kamilla upp­lýsti á upp­lýs­inga­fundi í gær að ákvörð­unin lægi fyrir óskaði Kjarn­inn eftir því með tölvu­pósti, bæði til hennar og heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins, að fá minn­is­blaðið afhent þar sem það hafði ekki verið birt á vef ráðu­neyt­is­ins. Engin svör höfðu borist við þess­ari beiðni Kjarn­ans kl. 10 í morg­un, föstu­dag.

Kamilla sagði enn­fremur í svari sínu á mið­viku­dag að ekki væri búið að mæla með öðrum örv­un­ar­bólu­setn­ing­um, „en sama verður um þær, rökin fyrir þriðja skammti fyrir ákveðna hópa eru að styrkj­ast með vís­inda­rann­sóknum sem verður vitnað í þegar (og ef) við birtum slíkar leið­bein­ing­ar“. Sagði hún hægt að finna greinar um þetta með Google leit. „Það eru komin fram gögn sem er ekki búið að birta fyrir örvun aldr­aðra í sumum Evr­ópu­löndum og fleiri rann­sóknir sem mér skilst að verði birt­ar, m.a. frá Pfiz­er, í ágúst.“

Bólusett var af kappi í Laugardalshöll á vormánuðum.
Skjáskot/RÚV

Stóri samn­ing­ur­inn

Ísra­elsk stjórn­völd sömdu við lyfja­fyr­ir­tækið Pfizer um bólu­efni með ein­stökum samn­ingi í byrjun árs. Með samn­ingnum voru tryggðir millj­ónir skammta og hröð bólu­setn­ing þjóð­ar­inn­ar, ein sú hrað­asta í heimi, og að rann­sóknir yrðu gerðar á virkni bólu­efn­is­ins.

Samn­ing­ur­inn vakti gríð­ar­lega athygli, ekki síst hér á landi, þar sem þreif­ingar höfðu átt sér stað milli yfir­valda á Íslandi og lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins um slíkt hið sama. Það kom þó ekki að sök og þegar bólu­efni fóru að skila sér hing­að, þótt tafir hafi stundum orðið á afhend­ingu frá ein­staka fram­leið­end­um, tóku Íslend­ingar fljótt fram úr flestum þjóðum hvað bólu­setn­ing­ar­hlut­fall varð­ar. Í byrjun júní höfðum við tekið fram úr Ísr­ael og í dag eru um 74 pró­sent íbúa lands­ins óháð aldri bólu­sett en 62 pró­sent Ísra­ela.

Þörf eða ekki?

Í upp­hafi vik­unnar lýsti for­sæt­is­ráð­herr­ann Naftali Benn­ett því yfir að Ísr­ael væri „mjög nálægt“ því að taka ákvörðun um örv­un­ar­skammt af bólu­efni sem og að tryggja sér þá auka­skammta sem til þarf. Tveimur vikum fyrr sögðu bæði Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­unin og Smit­sjúk­dóma­stofnun Banda­ríkj­anna (CDC) að það væri ekki þörf á slíkum skömmt­um. Í sam­eig­in­legri til­kynn­ingu Lyfja- og Sótt­varna­stofn­unar Evr­ópu sem birt var 14. júlí sagði að of snemmt væri að stað­festa hvort og þá hvenær þörf yrði á örv­un­ar­skammti. Enn væru ekki komin fram nægj­an­lega góð gögn um hversu lengi vörn bólu­efna vari að teknu til­liti til útbreiðslu afbrigða á borð við delta.

Sér­fræð­ingar WHO sögðu á blaða­manna­fundi síð­ast í fyrra­dag að þeir teldu ekki þörf á örv­un­ar­skömmt­um. Ekki væru komin fram nógu ítar­leg gögn hvað það varð­aði. „Þetta er skýrt hjá okk­ur, það eru ekki nægar upp­lýs­ingar til mæla með [örv­un­ar­skammti] á þessum tíma­punkt­i,“ sagði Kate O’Brien, sem fer fyrir bólu­setn­ingum innan WHO, við blaða­menn á mið­viku­dag. Hún sagði umræðu­efnið „heitt“ og að margar rann­sóknir væru í gangi sem myndu nýt­ast við ákvarð­ana­tök­una.

Auglýsing

Nú eru komin fram gögn frá heil­brigð­is­ráðu­neyti Ísra­els sem virðast, að því er fram kemur í ísra­elskum fjöl­miðl­um, benda til dvín­andi verndar bólu­efnis Pfizer gegn smiti sem og gegn alvar­legum veik­ind­um. Og bæði Ísland og Ísr­ael ætla að bjóða örv­un­ar­skammta.

Alþjóða heil­brigð­is­mála­stofn­unin hefur hvatt Pfiz­er, Moderna og önnur fyr­ir­tæki sem fram­leiða bólu­efni gegn COVID-19 til að ein­beita sér að því að bæta aðgengi að bólu­efnum um allan heim, áður en farið verði að dreifa þriðja og jafn­vel fjórða skammti til þeirra sem þegar hafa verið bólu­sett­ir.

Græðgi vest­rænna ríkja

Tedros Adhanom Ghebr­eyesus, fram­kvæmda­stjóri WHO sagði nýverið að græðgi væri drif­kraft­ur­inn í mis­munun í bólu­setn­ingu milli heims­hluta. „Við erum að taka með­vit­aðar ákvarð­anir núna um að vernda ekki þá sem þurfa mest á því að halda,“ sagði hann og að þeir sem ekki hefðu enn fengið einn ein­asta skammt af bólu­efni ættu að ganga fyr­ir, áður en kæmi að því að gefa örv­un­ar­skammta á Vest­ur­lönd­um. Bólu­efna­fram­leið­endur ættu að gera allt sem þeir gætu til að styðja við COVAX-­sam­starfið og almennt við dreif­ingu bólu­efna til fátæk­ari ríkja heims.

Sou­mya Swa­m­in­athan, helsti vís­inda­sér­fræð­ingur WHO, sagði svo nýlega að stofn­unin myndi gefa út til­mæli varð­andi örv­un­ar­skammta byggð á vís­indum – ekki yfir­lýs­ingum ein­stakra lyfja­fram­leið­enda.

Mich­ael Ryan, sem fer fyrir bráða­að­gerðum WHO, sagði að ef ríku löndin ákveða að gefa örv­un­ar­skammta í stað þess að gefa bólu­efni til fátæk­ari ríkja myndum við síðar „líta til baka í reiði og ég held að við myndum líta til baka með skömm“.

Bólusetning gegn COVID-19 er mjög skammt á veg komin í Afríku. Hún er misjöfn milli landa en í sumum þeirra er innan við 1 prósent þjóða bólusett.
EPA

Einn af hverjum 76

Í rík­ustu löndum jarð­ar, sem Ísland til­heyr­ir, hefur að með­al­tali annar hver maður verið bólu­sett­ur. Í fátæk­ari löndum hefur aðeins einn af hverjum 76 fengið bólu­setn­ingu eða um 1,32 pró­sent íbúa þeirra.

Innan Evr­ópu er mis­skipt­ingin einnig mik­il. Smit­sjúk­dóma­stofnun Evr­ópu benti nýverið á að í tíu aðild­ar­ríkjum ESB ætti enn eftir að bólu­setja yfir 30 pró­sent af íbúum sem væru átta­tíu ára og eldri.

„Varð­andi spurn­ing­una um sið­ferði bólu­setn­ing­anna þá væri hægt að ræða það lengi og hafa á því margar skoð­an­ir,“ sagði Þórólfur Guðna­son sótt­varna­læknir á dög­unum við Kjarn­ann. „Sú stefna hefur hins vegar verið tekin hér að reyna að bólu­setja sem flesta og gera það á eins áhrifa­ríkan hátt og mögu­legt er,“ hélt hann áfram. „Þar undir fellur sú ákvörðun að gefa þeim sem fengu Jans­sen örv­un­ar­skammt.“

Því hefur ítrekað verið haldið fram af íslenskum sér­fræð­ingum, heil­brigð­is­yf­ir­völdum og stjórn­völdum að heims­far­aldr­inum ljúki ekki fyrr en heims­byggðin öll hafi verið bólu­sett. Í óbólu­settum sam­fé­lögum sé hætta á stökk­breyt­ingum veirunnar mest. Því sé það allra hagur að bólu­setja alla.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar