Blóðslóðin í sandinum

Það er skortur á sandi í heiminum. Það er að segja sandi til að seðja hina óþrjótandi eftirspurn mannanna eftir þessu einstaka byggingarefni. Þetta hefur orðið til þess að ólögleg námuvinnsla er ástunduð af kappi í fátækustu ríkjum heims.

Sandvinnsla úr árfarvegi í Búrma.
Sandvinnsla úr árfarvegi í Búrma.
Auglýsing

Hann er not­aður til að byggja húsin okk­ar, í veg­ina og brýrnar sem við ökum, glugg­ana sem við horfum út um og í snjall­sím­ana sem við störum á dag­inn út og inn. Sandur er eft­ir­sóttasta auð­lind jarðar á eftir vatni. Eft­ir­spurnin er umfram fram­boðið sem orðið hefur til þess að ólög­leg vinnsla hans, með til­heyr­andi eyði­legg­ingu vist­kerfa og þján­ingum fólks – jafn­vel morðum – hefur komið til sög­unnar á síð­ustu árum.

Það kann að hljóma und­ar­lega að skortur sé á sandi í heim­in­um. Hann virð­ist alls stað­ar. Í fjöll­un­um, á strönd­un­um, í eyði­mörk­un­um. Hann er undir hverju okkar fótspori.

Stað­reyndin er hins vegar sú að þegar kemur að því að nýta þessa auð­lind er sandur ekki bara sand­ur. Hann þarf að hafa ákveðna eig­in­leika til að bera til að henta til ákveð­innar fram­leiðslu. Það er dýrt að hreinsa sand og það er líka dýrt að mylja grjót til sand­fram­leiðslu.

Það er ómögu­legt að vita hversu mik­ill sandur er not­aður í heim­inum á hverju ári. Að því komst umhverf­is­nefnd Sam­ein­uðu þjóð­anna sem skoð­aði málið árið 2019. Til að reyna að átta sig á umfang­inu skaut hún á að 50 millj­arðar tonna af sandi væru not­aðir til sem­ents­fram­leiðslu árlega. Óljóst er hversu mikið af af honum er svo notað til ann­arrar fram­leiðslu. Slíkar tölur liggja almennt ekki fyr­ir.

„Vanda­málið er að við skiljum þetta efni ekki nógu vel,“ segir Lou­ise Gallag­her sem starfar hjá rann­sókn­ar­setri í Sviss sem sér­hæfir sig í að kort­leggja vinnslu á sandi og notk­un. „Við áttum okkur ekki nægi­lega á áhrif­unum á þau svæði þar sem við tökum sand­inn. Stundum vitum við ekki einu sinni hvaðan hann kem­ur, hversu mikið kemur til dæmis úr árfar­veg­um. Við vitum það ekki. Við ein­fald­lega vitum það ekki.“

Marg­vís­leg áhrif

En eitt er víst, að fjar­lægja sand úr sínu nátt­úru­lega umhverfi, hefur áhrif. Áhrif á vist­gerð þess ákveðna svæðis en jafn­vel einnig á heilu vist­kerf­in. Þá hefur vinnslan einnig áhrif á sam­fé­lög fólks, bæði stað­bundið og til lengri tíma litið á alþjóða­vísu. Sandur sem er unn­inn úr árfar­vegum mengar árnar sem aftur hefur áhrif á líf­ríki þeirra og afkomu fólks sem treystir á veiðar úr þeim. Þá eru ár heims­ins mik­il­vægt vatns­ból fyrir millj­ónir manna. Sandur er einnig unn­inn á strand­svæð­um, á svæðum sem oft eru þegar í vanda vegna hækk­unar sjáv­ar­borðs sem er vanda­mál sem skap­ast hefur vegna lofts­lags­breyt­inga. „Vinnsla sands hefur svo einnig marg­vís­leg önnur áhrif sem eru aldrei tekin með í reikn­ing­inn,“ segir Kiran Per­eira, óháður rann­sak­andi, sem skrifað hefur bók um sand­fram­leiðslu í heim­in­um. „Og þessi áhrif koma alls ekki fram í verði á sand­i.“

Krókódílar á árbakka í Indlandi. Mynd: WWF

Fágæt krókó­díla­teg­und við Ganges-fljót á Ind­landi er við það að deyja út vegna sand­vinnslu á búsvæðum henn­ar. Talið er að aðeins 250 full­orðin dýr sé nú þar að finna. Svo mikil vinnsla er víða við Mekong-fljótið í Suð­aust­ur-Asíu að árbakk­arnir eru orðnir óstöðugir sem ógnar bæjum og þorpum sem standa við þá og lífs­við­ur­væri margra. Fleira spilar þar inn í eins og virkj­anir og aðrar fram­kvæmd­ir.

Í Marokkó er sand­vinnsla á strand­svæðum farin að ógna ferða­þjón­ustu. Fal­legu sand­strend­urnar sem draga millj­ónir ferða­manna til lands­ins á hverju ári eru sumar hverjar farnar að láta á sjá. Auk þess hefur hún áhrif á líf­ríkið og eykur álagið á inn­viði við strend­urnar þar sem sjór­inn á greið­ari leið að þeim.

Ekki óþrjót­andi auð­lind

Sandur er svo hvers­dags­legt fyr­ir­bæri að fæstir gefa honum nokkru sinni gaum. Hann er þó, líkt og allt annað sem á jörðu finn­st, ekki óþrjót­andi auð­lind. En sú stað­reynd að hann er allt í kringum okkur hefur lík­lega orðið til þess að nei­kvæð áhrif umfangs­mik­illar vinnslu hans hefur hingað til ekki fengið mikla athygli. Vanda­málið er falið þótt sand­ur­inn sé „fyrir allra aug­um,“ segir Chris Hacn­key, land­fræð­ingur við háskól­ann í Newcastle sem skrif­aði grein um nei­kvæð áhrif vinnsl­unnar í vís­inda­tíma­ritið Nat­ure. „Spyrðu fólk hvert það telji mik­il­væg­asta hrá­efni jarð­ar. Sandur verður lík­lega ekki nefnd­ur.“

Mette Bend­ix­en, aðstoð­ar­pró­fessor við McG­ill-há­skóla í Montr­eal, er einnig meðal þeirra sem rann­sakað hafa við­skipti með sand. „Í fleiri ár höfum við unnið meiri sand en nátt­úran skap­ar,“ segir hún. Sand­notkun fari stöðugt vax­andi þar sem spreng­ing hafi orðið í bygg­ing­ar­iðn­aði. „Nú þegar er þetta farið að eyði­leggja vist­kerfi ánna þaðan sem sand­ur­inn er unn­inn. Einnig hefur fjöldi fólks misst heim­ili sín,“ segir hún í við­tali við danska rík­is­út­varpið.

Þriðj­ungur lands á jörð­inni er skil­greindur sem eyði­mörk. Sandur eyði­markanna er þó ekki hent­ugt bygg­ing­ar­efni eins og hann kemur af kúnni. Þegar hinn 830 metra hái skýja­kljúfur Burj Khalifa var til að mynda byggður í Sam­ein­uðu arab­ísku fursta­dæm­un­um, sem eru í Mið-Aust­ur­löndum þar sem eyði­merkur eru víð­feðm­ar, var sand­ur­inn til verks­ins fluttur inn frá Kanada og Ástr­al­íu. Sand­kornin í eyði­mörk­inni eru svo veðruð, yfir­borð þeirra svo slétt að sand­ur­inn er ekki með það grip sem til þarf til að búa til steypu. Sandur í far­vegum áa, á ströndum og á hafs­botni, er ákjós­an­legri til slíks brúks.

Og hann er brúk­aður af miklum móð. Síð­ustu ár hefur eft­ir­spurnin í Asíu og Kína marg­fald­ast með miklum búferla­flutn­ingum fólks úr sveitum í borg­ir. Borgir sem breiða orðið úr sér yfir gríð­ar­leg land­flæmi og eiga aðeins eftir að stækka á næstu árum og ára­tug­um. Kín­verjar eru taldir hafa notað meiri sand árin 2011 til 2014 en not­aður var í Banda­ríkj­unum alla tutt­ug­ustu öld­ina, tekur Mette Bend­ixen sem dæmi.

Sandur virðist alls staðar. En hann er ekki óþrjótandi náttúruauðlind. Mynd. EPA

Jarð­ar­búar eru meira en tvisvar sinnum fleiri nú en í byrjun átt­unda ára­tug­ar­ins. Því er spáð að um miðja öld­ina verði þeir orðnir tíu millj­arð­ar. Þetta er ein helsta ástæða þess að mann­kynið hefur vax­andi þörf til að nota „litlu sand­korn­in,“ segir Bend­ixen. Þótt vöxt­ur­inn sé ekki sam­bæri­legur í hinum vest­ræna heimi og í Asíu og Afr­íku er notk­unin þar gríð­ar­leg og með auknum efna­hags­um­svifum í rík­ari löndum heims er sífellt verið að byggja nýtt – og stærra.

En sandur er not­aður í fleira en steypu. Hann er t.d. not­aður í land­fyll­ing­ar. Mann­gerðar eyjur í Singapúr, þess land­litla og þétt­býla rík­is, voru búnar til úr sandi sem var fluttur inn frá Kam­bó­díu, Víetnam og Indónesíu. Mann­gerðu eyj­urnar í Dubaí, Pálma-eyj­ar, sem eru svo stórar að þær sjást utan úr geimn­um, voru búnar til úr sandi sem dælt var upp af botni Persafló­ans.

Verð á sandi hefur því farið hækk­andi á mark­aðs­torgi hins alþjóð­lega hag­kerf­is. Og þegar skortur er á ein­hverju segir reynslan okkur að ein­hverjir muni nýta sér hann og níð­ast á öðrum í leið­inni.

Verið er að stækka strönd Norðvestur-Póllands til að koma þar fyrir fleiri sóldýrkendum. Sandurinn í verkið er fenginn af botni Pomeranian-flóa í Eistrasalti. Mynd: EPA

Þær eru kall­aðar sand­-ma­fí­urnar, glæpa­gengin sem hafa brennt blaða­menn lif­andi, brytjað aðgerða­sinna í spað og ekið yfir lög­reglu­menn. Sand­-ma­fíur er að finna víða um heim, m.a. í Mexíkó og Suð­ur­-Afr­íku en ástandið er þó talið einna verst á Ind­landi þar sem ólög­leg sand­vinnsla er mjög umfangs­mik­il. Í Suð­aust­ur­hluta Asíu er talið að í það minnsta 193 hafi dáið í tengslum við slíka vinnslu, aðal­lega vegna hræði­legra aðstæðna í hinum ólög­legu námum, en margir hafa líka verið drepn­ir. Í Marokkó er talið að um helm­ingur alls sands sem not­aður er í land­inu á hverju ári sé unn­inn með ólög­mætum hætti.

Barna­þrælkun tíðk­að­ist einnig í þessum námum á Ind­landi og í ára­fjöld litu yfir­völd ein­fald­lega fram hjá því sem og annarri ólög­legri starf­semi námu­fyr­ir­tækj­anna. Í febr­úar á þessu ári breytt­ist það er yfir­maður stærsta námu­fyr­ir­tækis Ind­lands, V.V. Miner­als, var dæmdur í fang­elsi í Delí fyrir mútur er hann greiddi skóla­gjöld fyrir son emb­ætt­is­manns sem hafði með leyf­is­veit­ingar fyrir sand­vinnsl­una að gera. Fyr­ir­tækið er sagt hafa stundað ólög­lega námu­vinnslu í ára­tugi.

Til að koma böndum á sand­vinnslu heims­ins þurfa leið­togar að koma á betra eft­ir­liti með þessum iðn­aði og hafa mun meira aðhald í leyf­is­veit­ingum til námu­vinnslu. Nýsköpun í bygg­ing­ar­iðn­aði er enn­fremur nauð­syn­leg svo draga megi úr eft­ir­spurn eftir sandi. Þá eru einnig van­nýtt tæki­færi í end­ur­vinnslu bygg­ing­ar­efn­is, s.s. til land­fyll­inga og vega­gerð­ar. Per­eira segir að geta manna til bygg­ingar húsa þurfi ekki að standa og falla með sandi. Hægt sé að fara leiðir sem hafi minni áhrif á vist­kerfi jarð­ar. Þeirra verði að leita og þróa áfram.

Auglýsing

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Spennan magnast fyrir 70 ára krýningarafmæli Elísabetar Englandsdrottningar sem fagnað verður með ýmsum hætti 2. - 5. júní.
Konungssinnar eyða mörgum milljörðum í varning vegna krýningarafmælis drottningar
Áætlað er að Bretar muni eyða yfir 60 milljörðum króna í konunglegan varning vegna krýningarafmælis drottningar sem haldið verður upp á með fjögurra daga hátíðarhöldum. Tebollar, diskar með gyllingu og spiladósir eru meðal konunglegra muna sem rjúka út.
Kjarninn 29. maí 2022
Claus Hjort Frederiksen verður ekki ákærður, að minnsta kosti ekki meðan hann er þingmaður.
Fyrrverandi ráðherra slapp fyrir horn
Claus Hjort Frederiksen þingmaður og fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Danmerkur slapp fyrir horn þegar danska þingið felldi tillögu um að afnema þinghelgi hans. Ríkisstjórn og ríkislögmaður vildu ákæra Claus Hjort fyrir landráð.
Kjarninn 29. maí 2022
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Einar Þorsteinsson, Dóra Björt Guðjónsdóttir og Dagur B. Eggertsson funda stíft þessa dagana.
Nýr meirihluti verði klár í slaginn áður en fyrsti borgarstjórnarfundur hefst
Viðræður um myndun meirihluta í Reykjavík hafa staðið yfir í fjóra daga en Samfylkingin, Framsóknarflokkur, Píratar og Viðreisn stefna að því að ljúka þeim áður en fyrsti borgarstjórnarfundur kjörtímabilsins verður settur þann 7. júní næstkomandi.
Kjarninn 28. maí 2022
Örn Bárður Jónsson
Um Pútín, fáveldi og fasisma
Kjarninn 28. maí 2022
Mikið er lánað til byggingafyrirtækja um þessar mundir. Áætlað er að það þurfi að byggja 35 þúsund íbúðir á Íslandi á næstu tíu árum.
Bankar lánuðu fyrirtækjum meira á tveimur mánuðum en þeir gerðu samtals 2020 og 2021
Ný útlán, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, þriggja stærstu banka landsins til fyrirtækja voru 80,5 milljarðar króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Gríðarleg aukning hefur orðið á lánum til fasteignafélaga og þeirra sem starfa í byggingarstarfsemi.
Kjarninn 28. maí 2022
Icelandair beri að framfylgja ákvörðunum stjórnvalda bóki þau flug fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd
Icelandair svarar því ekki hvort flugfélagið muni flytja þá umsækjendur um alþjóðlega vernd sem til stendur að vísa úr landi á næstunni. Því sé ekki heimilt að svara fyrir hönd viðskiptavina sinna um möguleg eða fyrirhuguð flug.
Kjarninn 28. maí 2022
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Seðlabankinn segist ekki þurfa að svara fyrir félag sem hann átti vegna þess að því hefur verið slitið
Það er niðurstaða Seðlabanka Íslands að hann þurfi ekki að afhenda upplýsingar um ráðstöfun hundruð milljarða króna eigna út úr ESÍ, fjárfestingarleið bankans og stöðugleikasamninga sem gerðir voru við kröfuhafa föllnu bankanna.
Kjarninn 28. maí 2022
Morgunblaðssamstæðan frestaði greiðslu á launatengdum gjöldum upp á 193 milljónir
Stjórnvöld buðu fyrirtækjum sem eftir því sóttust að fresta greiðslu launatengdra gjalda vaxtalaust í nokkur ár þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Morgunblaðssamstæðan nýtti þetta úrræði og þarf að greiða 193 milljónir til baka í ríkissjóð til 2026.
Kjarninn 28. maí 2022
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar