Alþjóðalögreglan Interpol hefur gefið út handtökuskipun á hendur angólska milljarðamæringnum og fyrrverandi forsetadótturinni Isabel dos Santos. Saksóknari í Angóla óskaði aðstoðar Interpol við að hafa uppi á, handtaka og framselja konuna sem er sú ríkasta í Afríku en er sökuð um að hafa safnað auði sínum með glæpsamlegum hætti.
Dos Santos er sögð búa í heimalandinu, á Bretlandseyjum og í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til skiptis. Þá er hún einnig oft sögð dvelja í Portúgal. Þarlendur fjölmiðill, Lusa, greindi frá tíðindunum um handtökuskipunina síðasta föstudag. Í fréttinni kemur fram að dos Santos, sem er 49 ára gömul, sé eftirlýst fyrir margvíslega meinta glæpi, m.a. fjárdrátt og fjársvik, peningaþvætti og fyrir að nota sín pólitísku tengsl sér til fjárhagslegs framdráttar. Hin pólitísku tengsl eru vissulega til staðar því faðir hennar, Jose Eduardo dos Santos var forseti Angóla í tæpa fjóra áratugi, allt frá árinu 1979 og til 2017. Hann tók virkan þátt í baráttu Angóla fyrir sjálfstæði undan stjórn Portúgala, fór til mennta í Sovétríkjunum sálugu, var utanríkisráðherra í fyrstu ríkisstjórn landsins og varð annar forseti hins sjálfstæða og yfirlýsta kommúnistaríkis. Hann lést í sumar, 79 ára að aldri.
Dóttir hans og augasteinn, Isabel dos Santos, hefur verið ásökuð um svik og spillingu árum saman. Núverandi stjórnvöld landsins ásökuðu hana m.a. árið 2020 um að hafa fært milljónir bandaríkjadollara úr sjóðum ríkisins til fyrirtækja sem hún og eiginmaður hennar áttu stóra hluti í á meðan faðir hennar var forseti. Þau eru einnig sökuð um að hafa komist yfir hluti í þessum fyrrum ríkisfyrirtækjum með aðstoð föður síns. Meðal fyrirtækjanna sem hún er talin hafa hagnast á með þessum millifærslum er olíurisinn Sonangol. Út úr því fyrirtæki er hún svo sögð hafa fært peninga á bankareikninga í skattaskjólum.
Lúanda-skjölin
Dos Santos er umfjöllunarefni Lúanda-skjalanna, sem lekið var til Samtaka rannsóknarblaðamanna, ICIJ, árið 2020 og fréttir í kjölfarið birtar upp úr í fjölmiðlum víða um heim. Helstu niðurstöður þeirra eru að í tvo áratugi voru stunduð innherjaviðskipti sem gerðu Isabel dos Santos að ríkustu konu Afríku en hið olíu- og demantsauðuga Angóla að einu fátækasta ríki veraldar.
Vefur meira en 400 fyrirtækja og dótturfyrirtækja í 41 landi tengjast dos Santos og eiginmanni hennar, Sindika Dokolo, þar af eru 94 í skattaskjólum á borð við Möltu, Máritíus og Hong Kong. Dokolo lést árið 2021 í köfunarslysi.
Margir fjármálaráðgjafar og fyrirtæki á Vesturlöndum aðstoðuðu við að færa til peninga, stofna félög og endurskoða reikninga. Þessir aðilar veittu sumir ráðgjöf um hvernig væri hægt að skjóta fé undan skatti á meðan aðrir þóttust ekki taka eftir neinu misjöfnu sem margt benti til að væri í gangi.
Tvö fyrirtæki, PwC og Boston Consulting Group, fengu á árunum 2010-2017 greiddar 5,6 milljónir dala fyrir störf sín í þágu fyrirtækja hjónanna.
Skjölin sýna einnig hvernig Isabel dos Santos keypti banka á meðan aðrar fjármálastofnanir og tryggingafélög neituðu að stunda viðskipti við hana því þeim þótti ekki ljóst hvaðan auður hennar kæmi. Að hún hafi ginnt stjórnvöld og stjórnendur fyrirtækja á Vesturlöndum til að setja peninga í verkefni sín og þrýst á uppbyggingarverkefni sem varð til þess að þúsundir fátækra Angólamanna misstu heimili sín við ströndina.
Þá er hún samkvæmt skjölunum sögð hafa beint hundruðum milljónum dollara sem fengnar voru að láni eða með samningum til eigin fyrirtækja og tengdra aðila, m.a. með því að millifæra 38 milljónir dollara frá ríkisrekna olíufyrirtækinu Sanangol inn á reikning í Dubaí, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að forsetinn hafði rekið hana úr starfi stjórnarformanns.
Dos Santos hefur hingað til neitað því harðlega að hafa misnotað sér stöðu sína sem dóttir forsetans í fjárhagslegum tilgangi. Hún hefur í reynd neitað því að hafa gert nokkuð rangt.
Bæði angólsk og portúgölsk yfirvöld hafa fryst allar eigur og bankareikninga dos Santos um leið og sakamálarannsókn á viðskiptaháttum hennar hófst. Viðskiptaveldi hennar liðaðist að mestu í sundur við þetta.
Í fyrra var svo gráu bætt ofan á svart er Pandoru-skjölin voru birt. Samkvæmt þeim er dos Santos og hópur annars áhrifafólks í Angóla sökuð um að hafa falið milljarða dollara í skattaskjólum. Þá ákváðu bandarísk stjórnvöld að frysta allar eignir og bankareikninga dos Santos og hefja sakamálarannsókn.
Portúgalar drógu landamærin
Angóla er á vesturströnd Afríku og er sjöunda stærsta land álfunnar að flatarmáli. Landamæri þess liggja að Namibíu, Austur-Kongó og Sambíu. Líkt og í mörgum öðrum Afríkulöndum voru landamærin dregin af nýlenduherrum, Portúgölum í þessu tilviki, sem fyrst komu sér þar fyrir á sextándu öld. Innan landamæranna lentu margar og ólíkar þjóðir og er ríkið fékk sjálfstæði árið 1975 braust út blóðug borgarastyrjöld sem varði í 27 ár. Þúsundir féllu og efnahagur landsins hrundi.
Líkt og oft vill verða komu vestræn ríki að átökunum. Stjórnarher MPLA-flokksins, flokks föður dos Santos, naut stuðnings Rússlands og Kúbu en skæruliðahreyfing UNITA stuðnings Bandaríkjanna og Suður-Afríku.
Fædd í Sovétríkjunum
Isabel dos Santos fæddist árið 1973 í Aserbaídsjan þaðan sem móðir hennar er og faðir hennar var við nám. Þá var hann skæruliði og háttsettur í frelsishreyfingu Angóla, MPLA. Hreyfingin var kommúnísk að upplagi og dos Santos hafði verið sendur til Sovétríkjanna til verkfræðináms.
Móðir hennar var skákmeistari og einnig verkfræðinemi. Tveimur árum eftir fæðingu Isabel fékk Angóla loks sjálfstæði frá Portúgölum og fjórum árum síðar, 1979, varð faðir hennar annar forseti landsins og fjölskyldan flutti inn í forsetahöllina í höfuðborginni Lúanda.
Eftir að foreldrar hennar skildu og landið ólgaði af átökum flutti hún ásamt móður sinni til London þar sem hún gekk í stúlknaskóla. Hún var framúrskarandi nemandi og lærði síðar rafmagnsverkfræði í Kings College. Eftir útskrift vann hún í tvö ár hjá endurskoðunarfyrirtækinu Coopers & Lybrand sem nú heitir PwC.
Náði forskoti í farsímageira
Er borgarastríðinu var að ljúka snéri hún aftur til Angóla, þá rúmlega tvítug, og stofnaði flutningafyrirtæki. Það leiddi hana svo út í fjarskipti, nánar tiltekið í hinn nýtilkomna farsímageira. Þar reyndist hún hafa veðjað á réttan hest.
Við lok tíunda áratugarins fengu hún og viðskiptafélagar hennar fjarskiptaleyfi fyrir farsíma í almennu útboði. Dos Santos hefur alla tíð neitað því að hafa komist að þeim kjötkötlum vegna klíkuskapar.
Á næstu árum óx viðskiptaveldi hennar hratt og allan tímann harðneitaði hún því að hafa notið forskots, beint eða óbeint, vegna föður síns. Í vörnum sínum síðustu ár hefur hún alfarið hafnað því að hafa gert nokkuð rangt og minnt á að hún hafi efnast með vinnusemi. Þannig hafi hún til dæmis stofnað Unitel í skrifstofuholu fyrir ofan símabúð sem hún rak og velgengni stórmarkaða hennar hafi verið vegna þess að þar var að finna „besta fiskborð landsins“.
Safnaði auði í tvo áratugi
Er dos Santos var að hefja viðskiptaferil sinn, m.a. með kaupum á bar sem átti eftir að verða einn sá vinsælasti á vesturströnd Afríku, var Angóla að sigla út úr gríðarlegum efnahagsþrengingum og inn í velsæld vegna hækkandi olíuverðs á heimsvísu. Það reyndist henni persónulega happadrjúgt en lítið af olíuauðinum skilaði sér hins vegar til almennra borgara landsins.
Auð sinn hefur hún komist yfir á síðustu tveimur áratugum og það tímabil í sögu Angóla hefur verið róstusamt með eindæmum. Borgarastyrjöldinni lauk, það fjaraði undan hinu arðsama olíuævintýri, og faðir hennar José Eduardo dos Santos, einn þaulsetnasti forseti Afríku fyrr og síðar, neyddist til að segja af sér.
Á þessum árum hafði hópur Angólamanna efnast verulega þó langsamlega mest forsetadóttirin Isabel dos Santos. Eignir hennar voru samkvæmt Forbes metnar á 2,2 milljarða Bandaríkjadala árið 2020, yfir 280 milljarða íslenskra króna. Á sama tíma þurfti hins vegar meirihluti almennings í Angóla að lifa af tveimur dollurum, um 250 krónum, á dag.
Innviðir í molum
Innviðir Angóla eru enn bágbornir þrátt fyrir að efnahagurinn hafi rétt úr kútnum eftir borgarastyrjöldina og greiður aðgangur að lánum til uppbyggingar, m.a. frá Kína, hafi verið fyrir hendi. Vegir eru slæmir og raforkukerfið ófullnægjandi.
Á meðan dos Santos hélt miklar veislur fyrir fólk úr hinni nýju millistétt, þar sem engu var til sparað, bjó mikill meirihluti Angólamanna við sára fátækt, matarskort, vondan húsakost og takmarkaðan og oft nær engan aðgang að hreinu vatni.
Snekkjur, lúxusíbúðir og listaverkasafn
Dos Santos og eiginmaðurinn Dokolo reyndu ekkert að fela sinn rándýra lífsstíl – frekar má segja að þau hafi flaggað honum. Dokolo safnaði til dæmis sportbílum og hann birti myndir af risasnekkju þeirra, Hayken, á samfélagsmiðlum. Lúxuslífið tók á sig ýmsar birtingarmyndir. Þau áttu þakíbúð í portúgalskri borg og sveitasetur við ströndina. Þá eru þau talin hafa átt að minnsta kosti þrjár fasteignir í London til viðbótar við lúxusíbúð í Monte Carlo.
Dokolo safnaði líka listaverkum og er talinn hafa átt heimsins stærsta safn afrískra verka. Þá átti hann einnig verk eftir Andy Warhol og fleiri þekkta listamenn. Hann fæddist líkt og eiginkonan með silfurskeið í munni. Faðir hans var mikill viðskiptajöfur í Kinshasa í Austur-Kongó en sjálfur ólst hann aðallega upp í Belgíu og Frakklandi.
„Faðir Isabel dos Santos, José Eduardo, lagði grunninn að gríðarlegum auðæfum hennar með því að fá henni stjórn yfir miklum náttúruauðlindum Angóla á meðan milljónir landa hennar bjuggu við sult,“ sagði í samantekt blaðamannateymisins sem afhjúpaði spillinguna með Lúanda-skjölunum.