Mynd: EPA

Auður ríkustu konu Afríku byggður á arðráni fátækrar þjóðar

Frá Angóla og víða um Afríku, Evrópu og til Mið-Austurlanda, liggur flókið net fjárfestinga í bönkum, olíu, sementi, fjarskiptum, fjölmiðlum og demöntum. Ríkasta kona Afríku segist hafa byggt þetta ævintýralega viðskiptaveldi sitt upp á eigin verðleikum; með skarpskyggni og framtakssemi. Rannsókn 120 blaðamanna, af 36 fjölmiðlum í tuttugu löndum hefur hins vegar leitt hið gagnstæða í ljós. Auðæfin voru fengin með arðráni og innherjaviðskiptum á „epískum skala“ á sama tíma og milljónir landa hennar bjuggu við sult.

Samkvæmt Lúanda-skjölunum, sem hófu að birtast í fjölmiðlum víða um heim fyrir nokkrum dögum, færði kaupsýslukonan Isabel dos Santos, elsta dóttir José Eduardo dos Santos, fyrrverandi forseta Angóla, hundruð milljóna dollara af almannafé út úr einu fátækasta landi heims og inn í völundarhús fyrirtækja og félaga sem mörg hver eru skráð í skattaskjólum. 

Skjölin sýna einnig hvernig þekkt fjármálafyrirtæki á Vesturlöndum, lögfræðingar, endurskoðendur og embættismenn – allt frá Lissabon til Lundúna og Lúanda, frá Möltu til Dúbaí – aðstoðuðu við svikin. Bandarísk ráðgjafafyrirtæki, m.a. Boston Consulting Group, McKinsey & Company og PricewaterhouseCoopers (PwC) eru m.a. sögð hafa aðstoðað forsetann fyrrverandi og dóttur hans við að reka ríkisolíufyrirtækið Sonangol með óheiðarlegum hætti og nota hagnaðinn til persónulegra nota og fjármögnunar margvíslegra verkefna í Frakklandi og Sviss.

Stjórnvöld í Angóla hafa nú fryst eignir dos Santos og eiginmanns hennar, Sindika Dokolo. Dos Santos hafnar alfarið ásökunum um spillingu og að hafa notið frændhygli og segist fórnarlamb pólitískra nornaveiða. „Fjölmiðlar kalla mig prinsessu. Ég þekki ekki margar prinsessur sem fara fram úr rúminu og byggja upp keðju stórmarkaða,“ sagði hún í viðtali við Financial Times.

Portúgalar drógu landamærin

Angóla er á vesturströnd Afríku og er sjöunda stærsta land álfunnar að flatarmáli. Landamæri þess liggja að Namibíu, Austur-Kongó og Sambíu. Líkt og í mörgum öðrum Afríkulöndum voru landamærin dregin af nýlenduherrum, Portúgölum í þessu tilviki, sem fyrst komu sér þar fyrir á sextándu öld. Innan landamæranna lentu margar og ólíkar þjóðir og er ríkið fékk sjálfstæði árið 1975 braust út blóðug borgarastyrjöld sem varði í 27 ár. Þúsundir féllu og efnahagur landsins hrundi. 

Líkt og oft vill verða komu vestræn ríki að átökunum. Stjórnarher MPLA-flokksins, flokks föður dos Santos, naut stuðnings Rússlands og Kúbu en skæruliðahreyfing UNITA stuðnings Bandaríkjanna og Suður-Afríku.

Fædd í Sovétríkjunum

Isabel dos Santos fæddist árið 1973 í Aserbaídsjan þaðan sem móðir hennar er og faðir hennar var við nám. Þá var hann skæruliði og háttsettur í frelsishreyfingu Angóla, MPLA. Hreyfingin var kommúnísk að upplagi og dos Santos hafði verið sendur til Sovétríkjanna til verkfræðináms. 

Móðir hennar var skákmeistari og einnig verkfræðinemi. Tveimur árum eftir fæðingu Isabel fékk Angóla loks sjálfstæði frá Portúgölum og fjórum árum síðar, 1979, varð faðir hennar annar forseti landsins og fjölskyldan flutti inn í forsetahöllina í höfuðborginni Lúanda.

Eftir að foreldrar hennar skildu og landið ólgaði af átökum flutti hún ásamt móður sinni til London þar sem hún gekk í stúlknaskóla. Hún var framúrskarandi nemandi og lærði síðar rafmagnsverkfræði í Kings College. Eftir útskrift vann hún í tvö ár hjá endurskoðunarfyrirtækinu Coopers & Lybrand sem nú heitir PwC.

Náði forskoti í farsímageira

Er borgarastríðinu var að ljúka snéri hún aftur til Angóla, þá rúmlega tvítug, og stofnaði flutningafyrirtæki. Það leiddi hana svo út í fjarskipti, nánar tiltekið í hinn nýtilkomna farsímageira. Þar reyndist hún hafa veðjað á réttan hest. 

Hvað eru Lúanda-skjölin?

Rannsókn blaðamannanna 120 er m.a. byggð á yfir 715 þúsund skjölum sem gefa innsýn í starfsemi ýmissa fyrirtækja Isabel dos Santos. Samtök sem vernda uppljóstrara í Afríku (PPLAAF) komu skjölunum áfram til Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ).

Í skjölunum er að finna tölvupósta, samninga ýmis konar, áætlanir, lista yfir viðskiptamenn, upptökur af stjórnarfundum, bankayfirlit, skattaskýrslur og margt fleira. Niðurstaða rannsóknar blaðamannanna er m.a. sú að dos Santos og eiginmaður hennar hafi nýtt sér veikleika regluverks og lagaumhverfis til að græða mikla peninga og koma eignum undan skattayfirvöldum. Þetta gerðu hjónin með aðstoð vestrænna fjármálaráðgjafa.

Helstu niðurstöður Lúanda-skjalanna:

Í tvo áratugi voru stunduð innherjaviðskipti sem gerðu Isabel dos Santos að ríkustu konu Afríku en hið olíu- og demantsauðuga Angóla að einu fátækasta ríki veraldar.

Vefur meira en 400 fyrirtækja og dótturfyrirtækja í 41 landi tengjast dos Santos og eiginmanni hennar, Sindika Dokolo, þar af eru 94 í skattaskjólum á borð við Möltu, Máritíus og Hong Kong.

Margir fjármálaráðgjafar og fyrirtæki á Vesturlöndum aðstoðuðu við að færa til peninga, stofna félög og endurskoða reikninga. Þessir aðilar veittu sumir ráðgjöf um hvernig væri hægt að skjóta fé undan skatti á meðan aðrir þóttust ekki taka eftir neinu misjöfnu sem margt benti til að væri í gangi.

Tvö fyrirtæki, PwC og Boston Consulting Group, fengu á árunum 2010-2017 greiddar 5,6 milljónir dala fyrir störf sín í þágu fyrirtækja hjónanna.

Skjölin sýna einnig hvernig Isabel dos Santos:

Keypti banka á meðan aðrar fjármálastofnanir og tryggingafélög neituðu að stunda viðskipti við hana því þeim þótti ekki ljóst hvaðan auður hennar kæmi.

Ginnti stjórnvöld og stjórnendur fyrirtækja á Vesturlöndum til að setja peninga í verkefni sín.

Þrýsti á uppbyggingarverkefni sem varð til þess að þúsundir fátækra Angólamanna misstu heimili sín við ströndina.

Beindi hundruðum milljónum dollara sem fengnar voru að láni eða með samningum til eigin fyrirtækja og tengdra aðila, m.a. með því að millifæra 38 milljónir dollara frá ríkisrekna olíufyrirtækinu Sanangol inn á reikning í Dubaí, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að forsetinn hafði rekið hana úr starfi stjórnarformanns.

Við lok tíunda áratugarins fengu hún og viðskiptafélagar hennar fjarskiptaleyfi fyrir farsíma í almennu útboði. Dos Santos hefur alla tíð neitað því að hafa komist að þeim kjötkötlum vegna klíkuskapar. Fjarskiptafyrirtæki hennar, Unitel, er nú það stærsta í landinu.

Allar götur síðan hefur viðskiptaveldi hennar vaxið, hreinlega blásið út, og allan tímann hefur hún harðneitað því að hafa notið forskots, beint eða óbeint, vegna föður síns. Í vörnum sínum síðustu daga, sem hófust áður en Lúanda-skjölin voru birt, hefur hún alfarið hafnað því að hafa gert nokkuð rangt og minnt á að hún hafi efnast með vinnusemi. Þannig hafi hún til dæmis stofnað Unitel í skrifstofuholu fyrir ofan símabúð sem hún rak og velgengni stórmarkaða hennar hafi verið vegna þess að þar var að finna „besta fiskborð landsins“. 

Safnaði auði í tvo áratugi

Er dos Santos var að hefja viðskiptaferil sinn, m.a. með kaupum á bar sem átti eftir að verða einn sá vinsælasti á vesturströnd Afríku, var Angóla að sigla út úr gríðarlegum efnahagsþrengingum og inn í velsæld vegna hækkandi olíuverðs á heimsvísu. Það reyndist henni persónulega happadrjúgt en lítið af olíuauðinum skilaði sér hins vegar til almennra borgara landsins.

Isobel dos Santos hefur verið mjög sýnileg og fyrirferðarmikil samhliða því að hún hefur safnað að sér miklum auð.
Mynd: Wikicommons

Auð sinn hefur hún komist yfir á síðustu tveimur áratugum og það tímabil í sögu Angóla hefur verið róstusamt með eindæmum. Borgarastyrjöldinni lauk, það fjaraði undan hinu arðsama olíuævintýri, og José Eduardo dos Santos, einn þaulsetnasti forseti Afríku fyrr og síðar, neyddist til að segja af sér forsetaembætti. 

Á þessum árum hafði hópur Angólamanna efnast verulega þó langsamlega mest forsetadóttirin Isabel dos Santos. Eignir hennar eru samkvæmt Forbes nú metnar á 2,2 milljarða Bandaríkjadala, yfir 273 milljarða íslenskra króna. Á sama tíma þarf hins vegar meirihluti almennings í Angóla að lifa af tveimur dollurum, um 250 krónum, á dag.

Innviðir í molum

Innviðir Angóla eru enn bágbornir þrátt fyrir að efnahagurinn hafi rétt úr kútnum eftir borgarastyrjöldina og greiður aðgangur að lánum til uppbyggingar, m.a. frá Kína, hafi verið fyrir hendi. Vegir eru slæmir og raforkukerfið ófullnægjandi. 

Á meðan dos Santos hélt miklar veislur fyrir fólk úr hinni nýju millistétt, þar sem engu var til sparað, bjó mikill meirihluti Angólamanna við sára fátækt, matarskort, vondan húsakost og takmarkaðan og oft nær engan aðgang að hreinu vatni.

Snekkjur, lúxusíbúðir og listaverkasafn

Dos Santos og eiginmaðurinn Dokolo reyndu ekkert að fela sinn rándýra lífsstíl – frekar má segja að þau hafi flaggað honum. Dokolo safnar til dæmis sportbílum og hann hefur birt myndir af risasnekkju þeirra, Hayken, á samfélagsmiðlum. Lúxuslífið tók á sig ýmsar birtingarmyndir. Í Portúgal eiga hjónin þakíbúð í háhýsi og sveitaseitur við ströndina. Þá eru þau talin eiga þrjár fasteignir í London til viðbótar við lúxusíbúð í Monte Carlo.

Dokolo safnar listaverkum og er talinn eiga heimsins stærsta safn afrískra verka. Þá á hann einnig verk eftir Andy Warhol og fleiri þekkta listamenn. Hann fæddist líkt og eiginkonan með silfurskeið í munni. Faðir hans var mikill viðskiptajöfur í Kinshasa í Austur-Kongó en sjálfur ólst hann aðallega upp í Belgíu og Frakklandi.

Pabbi rétti henni stjórnartaumana

Árið 2016 vék forsetinn José Eduardo dos Santos allri stjórn ríkisolíufyrirtækisins Sonangol og skipaði dóttur sína, Isabel, stjórnarformann. Hún sat þó ekki lengi á þeim stóli því um árið síðar lét eftirmaður föður hennar í embætti, João Lourenço, hana fjúka. Hann sagði brottvíkinguna hluta af herferð sinni gegn spillingu í landinu en dos Santos segir hann í persónulegri herferð gegn sér. 

Dos Santos lifði hátt árum saman og blandaði geði við fræga og valdamikla fólkið. Hér sést tíst tónlistarkonunnar Nicki Minaj frá desember 2015, þegar hún hélt tónleika í Angóla.
Mynd: Skjáskot/Twitter.

Hálfsystkini dos Santos hafa einnig verið tengd spillingu. Systur hennar, Welwitschia dos Santos, var bolað út af angólska þinginu. Hún sagði leyniþjónustu landsins áreita sig í sífellu og flúði til Bretlands.  Bróðir þeirra, José Filomeno dos Santos, hefur verið ákærður fyrir spillingu og réttarhöldin standa nú yfir. Faðir þeirra, forsetinn fyrrverandi, er í Barcelona og sagður alvarlega veikur. 

Lagði grunn að gífurlegum auðæfum dótturinnar

Sérfræðingar sem blaðamannateymið ræddi við segja að endurskoðendur, lögfræðingar og ráðgjafar séu í lykilhlutverki þegar komi að peningaþvætti í skattaskjólum, að skjóta fé undan skatti og í spillingu innan þess opinbera sem eykur fjárhagslegt ójafnrétti og grefur undan lýðræði um allan heim.

Jose Eduardo dos Santos, fyrrverandi forseti Angóla. Dóttir hans Isabel sést fyrir aftan hann.
Mynd: EPA

 „Faðir Isabel dos Santos, José Eduardo, lagði grunninn að gríðarlegum auðæfum hennar með því að fá henni stjórn yfir miklum náttúruauðlindum Angóla á meðan milljónir landa hennar bjuggu við sult,“ segir í samantekt blaðamannateymisins. 

Segist vera blóraböggull

Viðbrögð Isabel dos Santos við uppljóstrunum blaðamannanna hafa m.a. verið þau að segjast hafa verið gerð að blóraböggli í pólitískum tilgangi. Þá segir hún dómstóla Angóla spillta og hlutdræga. Hún hefur verið búsett í London frá árinu 2018 en nú herma fréttir að hún ætli að flytja til Dubaí. Ferðinni er að hennar sögn ekki heitið til Angóla í bráð. „Því að ástandið í Angóla núna er óöruggt. Glæpatíðni er há, þar eru framin mörg rán og mörg morð. Landið er ekki öruggur staður.“

Rannsóknarblaðamennirnir segja hins vegar Lúanda-skjölin varpa ljósi á umfangsmikil viðskipti dos Santos í orkugeiranum, fjármálalífinu, fjarskiptum, demöntum, smásölu, fjölmiðlum og fleiru. Fjölskyldan hafi notað aflandsfélög til að komast yfir margvíslega starfsemi á Vesturlöndum sem og lifa lúxuslífi sem aðrir Angólamenn gátu ekki einu sinni látið sig dreyma um. „Í stuttu máli er Lúanda-lekinn saga innherjaviðskipta á epískum skala.“

Bankareikningar frystir í Angóla vegna Samherjamálsins

Spillingarmál í Angóla teygðu anga sína til Íslands í fyrra þegar bankareikningar Victória de Barros Neto, fyrr­ver­andi sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra Angóla, eig­in­manns hennar og barna voru frystir í desember. Enn fremur var saka­mál höfðað á hendur henni.  

Ástæðan er ætluð þátt­taka hennar í Sam­herj­a­mál­inu svo­kall­aða. Í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um málið, sem var birt 12. nóvember 2019, kom meðal annars fram að ­Sam­herji lægi undir grun um að hafa greitt mútur til að tryggja aðgengi að ódýrum kvóta í Namib­íu og Angóla.

João de Barros, sonur angólska ráðherrans, Antonio, ráðgjafi sama ráðherra, Tamson Hatuikulipi, Þorsteinn Már Baldvinsson, þá forstjóri Samherja, James Hatuikulipi og Sacky Shanghala í Hafnarfjarðarhöfn í nóvember 2013.
Mynd: Wikileaks

De Barros Neto á að hafa leikið hlut­verk í athæfi sem fól í sér mútu­greiðsl­ur, pen­inga­þvætti og skatt­svik.  Á meðal þeirra sem eiga að hafa notið góðs af greiðslum til sjáv­ar­út­vegs­ráð­herr­ans fyrr­ver­andi er João de Barros, einn barna ráð­herr­ans fyrr­ver­andi. Hann hefur meðal ann­ars heim­sótt Sam­herja til Íslands. ­

Viðræður hafa staðið yfir milli angól­skra og namibískra stjórn­valda um lög­sögu í mál­inu, þar sem að stjórn­ar­skrá Angóla heim­ili ekki fram­sal á rík­is­borg­urum lands­ins til ann­ars lands. 

De Barros Neto var sjávarútvegsráðherra er José Eduardo dos Santos, faðir Isabel dos Santos, var forseti.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar