Mynd: EPA

Auður ríkustu konu Afríku byggður á arðráni fátækrar þjóðar

Frá Angóla og víða um Afríku, Evrópu og til Mið-Austurlanda, liggur flókið net fjárfestinga í bönkum, olíu, sementi, fjarskiptum, fjölmiðlum og demöntum. Ríkasta kona Afríku segist hafa byggt þetta ævintýralega viðskiptaveldi sitt upp á eigin verðleikum; með skarpskyggni og framtakssemi. Rannsókn 120 blaðamanna, af 36 fjölmiðlum í tuttugu löndum hefur hins vegar leitt hið gagnstæða í ljós. Auðæfin voru fengin með arðráni og innherjaviðskiptum á „epískum skala“ á sama tíma og milljónir landa hennar bjuggu við sult.

Sam­kvæmt Lúanda-skjöl­unum, sem hófu að birt­ast í fjöl­miðlum víða um heim fyrir nokkrum dög­um, ­færði kaup­sýslu­konan Isa­bel dos Santos, elsta dótt­ir José Edu­ardo dos Santos, ­fyrr­ver­andi for­seta Angóla, hund­ruð millj­óna doll­ara af almannafé út úr einu fátæk­asta landi heims og inn í völ­und­ar­hús fyr­ir­tækja og félaga sem mörg hver eru skráð í skatta­skjól­u­m. 

Skjölin sýna einnig hvernig þekkt fjár­mála­fyr­ir­tæki á Vest­ur­lönd­um, lög­fræð­ing­ar, end­ur­skoð­endur og emb­ætt­is­menn – allt frá Lissa­bon til Lund­úna og Lúanda, frá Möltu til Dúbaí – aðstoð­uðu við svik­in. ­Banda­rísk ráð­gjafa­fyr­ir­tæki, m.a. Boston Consulting Group, McK­insey & Company og Pricewa­ter­hou­seCoopers (PwC) eru m.a. sögð hafa aðstoðað for­set­ann fyrr­ver­andi og dóttur hans við að reka rík­is­ol­íu­fyr­ir­tækið Son­an­gol með óheið­ar­legum hætti og nota hagn­að­inn til per­sónu­legra nota og fjár­mögn­unar marg­vís­legra verk­efna í Frakk­landi og Sviss.

Stjórn­völd í Angóla hafa nú fryst eignir dos Santos og eig­in­manns henn­ar, Sindika Dokolo. Dos Santos hafnar alfarið ásök­unum um spill­ingu og að hafa notið frænd­hygli og seg­ist fórn­ar­lamb póli­tískra norna­veiða. „Fjöl­miðlar kalla mig prinsessu. Ég þekki ekki margar prinsessur sem fara fram úr rúm­inu og byggja upp keðju stór­mark­aða,“ sagði hún í við­tali við Fin­ancial Times.

Portú­galar drógu landa­mærin

Angóla er á vest­ur­strönd Afr­íku og er sjö­unda stærsta land álf­unnar að flat­ar­máli. Landa­mæri þess liggja að Namib­íu, Aust­ur-­Kongó og Sam­b­íu. Líkt og í mörgum öðrum Afr­íku­löndum voru landa­mærin dregin af nýlendu­herrum, Portú­gölum í þessu til­viki, sem fyrst komu sér þar fyrir á sext­ándu öld. Innan landamær­anna lentu margar og ólíkar þjóðir og er ríkið fékk sjálf­stæði árið 1975 braust út blóðug borg­ara­styrj­öld sem varði í 27 ár. Þús­undir féllu og efna­hagur lands­ins hrund­i. 

Líkt og oft vill verða komu vest­ræn ríki að átök­un­um. Stjórn­ar­her MPLA-­flokks­ins, flokks föður dos Santos, naut stuðn­ings Rúss­lands og Kúbu en skæru­liða­hreyf­ing UNITA stuðn­ings Banda­ríkj­anna og Suð­ur­-Afr­íku.

Fædd í Sov­ét­ríkj­unum

Isa­bel dos Santos fædd­ist árið 1973 í Aserbaídsjan þaðan sem móðir hennar er og faðir hennar var við nám. Þá var hann skæru­liði og hátt­settur í frels­is­hreyf­ingu Angóla, MPLA. Hreyf­ingin var komm­ún­ísk að upp­lagi og dos Santos hafði verið sendur til Sov­ét­ríkj­anna til verk­fræði­náms. 

Móðir hennar var skák­meist­ari og einnig verk­fræði­nemi. Tveimur árum eftir fæð­ingu Isa­bel fékk Angóla loks sjálf­stæði frá Portú­gölum og fjórum árum síð­ar, 1979, varð faðir hennar annar for­seti lands­ins og fjöl­skyldan flutti inn í for­seta­höll­ina í höf­uð­borg­inni Lúanda.

Eftir að for­eldrar hennar skildu og landið ólg­aði af átökum flutti hún ásamt móður sinni til London þar sem hún gekk í stúlkna­skóla. Hún var fram­úr­skar­andi nem­andi og lærði síðar raf­magns­verk­fræði í Kings Col­lege. Eftir útskrift vann hún í tvö ár hjá end­ur­skoð­un­ar­fyr­ir­tæk­inu Coopers & Lybrand sem nú heitir PwC.

Náði for­skoti í far­síma­geira

Er borg­ara­stríð­inu var að ljúka snéri hún aftur til Angóla, þá rúm­lega tví­tug, og stofn­aði flutn­inga­fyr­ir­tæki. Það leiddi hana svo út í fjar­skipti, nánar til­tekið í hinn nýtil­komna far­síma­geira. Þar reynd­ist hún hafa veðjað á réttan hest. 

Hvað eru Lúanda-skjölin?

Rannsókn blaðamannanna 120 er m.a. byggð á yfir 715 þúsund skjölum sem gefa innsýn í starfsemi ýmissa fyrirtækja Isabel dos Santos. Samtök sem vernda uppljóstrara í Afríku (PPLAAF) komu skjölunum áfram til Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ).

Í skjölunum er að finna tölvupósta, samninga ýmis konar, áætlanir, lista yfir viðskiptamenn, upptökur af stjórnarfundum, bankayfirlit, skattaskýrslur og margt fleira. Niðurstaða rannsóknar blaðamannanna er m.a. sú að dos Santos og eiginmaður hennar hafi nýtt sér veikleika regluverks og lagaumhverfis til að græða mikla peninga og koma eignum undan skattayfirvöldum. Þetta gerðu hjónin með aðstoð vestrænna fjármálaráðgjafa.

Helstu niðurstöður Lúanda-skjalanna:

Í tvo áratugi voru stunduð innherjaviðskipti sem gerðu Isabel dos Santos að ríkustu konu Afríku en hið olíu- og demantsauðuga Angóla að einu fátækasta ríki veraldar.

Vefur meira en 400 fyrirtækja og dótturfyrirtækja í 41 landi tengjast dos Santos og eiginmanni hennar, Sindika Dokolo, þar af eru 94 í skattaskjólum á borð við Möltu, Máritíus og Hong Kong.

Margir fjármálaráðgjafar og fyrirtæki á Vesturlöndum aðstoðuðu við að færa til peninga, stofna félög og endurskoða reikninga. Þessir aðilar veittu sumir ráðgjöf um hvernig væri hægt að skjóta fé undan skatti á meðan aðrir þóttust ekki taka eftir neinu misjöfnu sem margt benti til að væri í gangi.

Tvö fyrirtæki, PwC og Boston Consulting Group, fengu á árunum 2010-2017 greiddar 5,6 milljónir dala fyrir störf sín í þágu fyrirtækja hjónanna.

Skjölin sýna einnig hvernig Isabel dos Santos:

Keypti banka á meðan aðrar fjármálastofnanir og tryggingafélög neituðu að stunda viðskipti við hana því þeim þótti ekki ljóst hvaðan auður hennar kæmi.

Ginnti stjórnvöld og stjórnendur fyrirtækja á Vesturlöndum til að setja peninga í verkefni sín.

Þrýsti á uppbyggingarverkefni sem varð til þess að þúsundir fátækra Angólamanna misstu heimili sín við ströndina.

Beindi hundruðum milljónum dollara sem fengnar voru að láni eða með samningum til eigin fyrirtækja og tengdra aðila, m.a. með því að millifæra 38 milljónir dollara frá ríkisrekna olíufyrirtækinu Sanangol inn á reikning í Dubaí, aðeins nokkrum klukkutímum eftir að forsetinn hafði rekið hana úr starfi stjórnarformanns.

Við lok tíunda ára­tug­ar­ins fengu hún og við­skipta­fé­lagar hennar fjar­skipta­leyfi fyrir far­síma í almennu útboði. Dos Santos hefur alla tíð neitað því að hafa kom­ist að þeim kjöt­kötlum vegna klíku­skap­ar. Fjar­skipta­fyr­ir­tæki henn­ar, Uni­tel, er nú það stærsta í land­inu.

Allar götur síðan hefur við­skipta­veldi hennar vax­ið, hrein­lega blásið út, og allan tím­ann hefur hún harð­neitað því að hafa notið for­skots, beint eða óbeint, vegna föður síns. Í vörnum sínum síð­ustu daga, sem hófust áður en Lúanda-skjölin voru birt, hefur hún alfarið hafnað því að hafa gert nokkuð rangt og minnt á að hún hafi efn­ast með vinnu­semi. Þannig hafi hún til dæmis stofnað Uni­tel í skrif­stofu­holu fyrir ofan síma­búð sem hún rak og vel­gengni stór­mark­aða hennar hafi verið vegna þess að þar var að finna „besta fisk­borð lands­ins“. 

Safn­aði auði í tvo ára­tugi

Er dos Santos var að hefja við­skipta­feril sinn, m.a. með kaupum á bar sem átti eftir að verða einn sá vin­sæl­asti á vest­ur­strönd Afr­íku, var Angóla að sigla út úr gríð­ar­legum efna­hags­þreng­ingum og inn í vel­sæld vegna hækk­andi olíu­verðs á heims­vísu. Það reynd­ist henni per­sónu­lega happa­drjúgt en lítið af olíu­auð­inum skil­aði sér hins vegar til almennra borg­ara lands­ins.

Isobel dos Santos hefur verið mjög sýnileg og fyrirferðarmikil samhliða því að hún hefur safnað að sér miklum auð.
Mynd: Wikicommons

Auð sinn hefur hún kom­ist yfir á síð­ustu tveimur ára­tugum og það tíma­bil í sögu Angóla hefur verið róstu­samt með ein­dæm­um. Borg­ara­styrj­öld­inni lauk, það fjar­aði undan hinu arð­sama olíu­æv­in­týri, og José Edu­ardo dos Santos, einn þaul­setn­asti for­seti Afr­íku fyrr og síð­ar, neydd­ist til að segja af sér for­seta­emb­ætt­i. 

Á þessum árum hafði hópur Angóla­manna efn­ast veru­lega þó lang­sam­lega mest for­seta­dóttirin Isa­bel dos Santos. Eignir hennar eru sam­kvæmt For­bes nú metnar á 2,2 millj­arða Banda­ríkja­dala, yfir 273 millj­arða íslenskra króna. Á sama tíma þarf hins vegar meiri­hluti almenn­ings í Angóla að lifa af tveimur doll­ur­um, um 250 krón­um, á dag.

Inn­viðir í molum

Inn­viðir Angóla eru enn bág­bornir þrátt fyrir að efna­hag­ur­inn hafi rétt úr kútnum eftir borg­ara­styrj­öld­ina og greiður aðgangur að lánum til upp­bygg­ing­ar, m.a. frá Kína, hafi verið fyrir hendi. Vegir eru slæmir og raf­orku­kerfið ófull­nægj­and­i. 

Á meðan dos Santos hélt miklar veislur fyrir fólk úr hinni nýju milli­stétt, þar sem engu var til spar­að, bjó mik­ill meiri­hluti Angóla­manna við sára fátækt, mat­ar­skort, vondan húsa­kost og tak­mark­aðan og oft nær engan aðgang að hreinu vatni.

Snekkj­ur, lúxus­í­búðir og lista­verka­safn

Dos Santos og eig­in­mað­ur­inn Dokolo reyndu ekk­ert að fela sinn rán­dýra lífs­stíl – frekar má segja að þau hafi flaggað hon­um. Dokolo safnar til dæmis sport­bílum og hann hefur birt myndir af risa­snekkju þeirra, Hay­ken, á sam­fé­lags­miðl­um. Lúx­uslífið tók á sig ýmsar birt­ing­ar­mynd­ir. Í Portú­gal eiga hjónin þak­íbúð í háhýsi og sveita­seitur við strönd­ina. Þá eru þau talin eiga þrjár fast­eignir í London til við­bótar við lúxus­í­búð í Monte Car­lo.

Dokolo safnar lista­verkum og er tal­inn eiga heims­ins stærsta safn afrískra verka. Þá á hann einnig verk eftir Andy War­hol og fleiri þekkta lista­menn. Hann fædd­ist líkt og eig­in­konan með silf­ur­skeið í munni. Faðir hans var mik­ill við­skipta­jöfur í Kins­hasa í Aust­ur-­Kongó en sjálfur ólst hann aðal­lega upp í Belgíu og Frakk­landi.

Pabbi rétti henni stjórn­ar­taumana

Árið 2016 vék for­set­inn José Edu­ardo dos Santos allri stjórn rík­is­ol­íu­fyr­ir­tæk­is­ins Son­an­gol og skip­aði dóttur sína, Isa­bel, stjórn­ar­for­mann. Hún sat þó ekki lengi á þeim stóli því um árið síðar lét eft­ir­maður föður hennar í emb­ætti, João Lourenço, hana fjúka. Hann sagði brott­ví­k­ing­una hluta af her­ferð sinni gegn spill­ingu í land­inu en dos Santos segir hann í per­sónu­legri her­ferð gegn sér. 

Dos Santos lifði hátt árum saman og blandaði geði við fræga og valdamikla fólkið. Hér sést tíst tónlistarkonunnar Nicki Minaj frá desember 2015, þegar hún hélt tónleika í Angóla.
Mynd: Skjáskot/Twitter.

Hálf­systk­ini dos Santos hafa einnig verið tengd spill­ingu. Systur henn­ar, Welwitschia dos Santos, var bolað út af angólska þing­inu. Hún sagði leyni­þjón­ustu lands­ins áreita sig í sífellu og flúði til Bret­lands.  Bróðir þeirra, José Filomeno dos Santos, hefur verið ákærður fyrir spill­ingu og rétt­ar­höldin standa nú yfir. Faðir þeirra, for­set­inn fyrr­ver­andi, er í Barcelona og sagður alvar­lega veik­ur. 

Lagði grunn að gíf­ur­legum auð­æfum dótt­ur­innar

Sér­fræð­ingar sem blaða­mannateymið ræddi við segja að end­ur­skoð­end­ur, lög­fræð­ingar og ráð­gjafar séu í lyk­il­hlut­verki þegar komi að pen­inga­þvætti í skatta­skjól­um, að skjóta fé undan skatti og í spill­ingu innan þess opin­bera sem eykur fjár­hags­legt ójafn­rétti og grefur undan lýð­ræði um allan heim.

Jose Eduardo dos Santos, fyrrverandi forseti Angóla. Dóttir hans Isabel sést fyrir aftan hann.
Mynd: EPA

 „Fað­ir Isa­bel dos Santos, José Edu­ar­do, lagði grunn­inn að gríð­ar­legum auð­æfum hennar með því að fá henni stjórn yfir miklum nátt­úru­auð­lindum Angóla á meðan millj­ónir landa hennar bjuggu við sult,“ segir í sam­an­tekt blaða­mannateym­is­ins. 

Seg­ist vera blóra­bögg­ull

Við­brögð Isa­bel dos Santos við upp­ljóstr­unum blaða­mann­anna hafa m.a. verið þau að segj­ast hafa verið gerð að blóra­böggli í póli­tískum til­gangi. Þá segir hún dóm­stóla Angóla spillta og hlut­dræga. Hún hefur verið búsett í London frá árinu 2018 en nú herma fréttir að hún ætli að flytja til­ Du­baí. Ferð­inni er að hennar sögn ekki heitið til Angóla í bráð. „Því að ástandið í Angóla núna er óör­uggt. Glæpa­tíðni er há, þar eru framin mörg rán og mörg morð. Landið er ekki öruggur stað­ur.“

Rann­sókn­ar­blaða­menn­irnir segja hins vegar Lúanda-skjölin varpa ljósi á umfangs­mikil við­skipti dos Santos í orku­geir­an­um, fjár­mála­líf­inu, fjar­skipt­um, demönt­um, smá­sölu, fjöl­miðlum og fleiru. Fjöl­skyldan hafi notað aflands­fé­lög til að kom­ast yfir marg­vís­lega starf­semi á Vest­ur­löndum sem og lifa lúx­us­lífi sem aðrir Angóla­menn gátu ekki einu sinni látið sig dreyma um. „Í stuttu máli er Lúanda-­lek­inn saga inn­herj­a­við­skipta á epískum skala.“

Banka­reikn­ingar frystir í Angóla vegna Sam­herj­a­máls­ins

Spill­ing­ar­mál í Angóla teygðu anga sína til Íslands í fyrra þegar banka­reikn­ingar Vict­ória de Bar­ros Neto, fyrr­ver­andi sjá­v­­­ar­út­­­vegs­ráð­herra Angóla, eig­in­­manns hennar og barna voru frystir í des­em­ber. Enn fremur var saka­­mál höfðað á hendur henn­i.  

Ástæðan er ætluð þátt­­taka hennar í Sam­herj­­a­­mál­inu svo­­kall­aða. Í umfjöllun Kveiks og Stund­ar­innar um mál­ið, sem var birt 12. nóv­em­ber 2019, kom meðal ann­ars fram að ­Sam­herji lægi undir grun um að hafa greitt mútur til að tryggja aðgengi að ódýrum kvóta í Namib­íu og Angóla.

João de Barros, sonur angólska ráðherrans, Antonio, ráðgjafi sama ráðherra, Tamson Hatuikulipi, Þorsteinn Már Baldvinsson, þá forstjóri Samherja, James Hatuikulipi og Sacky Shanghala í Hafnarfjarðarhöfn í nóvember 2013.
Mynd: Wikileaks

De Bar­ros Neto á að hafa leikið hlut­verk í athæfi sem fól í sér mút­u­greiðsl­­ur, pen­inga­þvætti og skatt­­svik.  Á meðal þeirra sem eiga að hafa notið góðs af greiðslum til sjá­v­­­ar­út­­­vegs­ráð­herr­ans fyrr­ver­andi er João de Bar­ros, einn barna ráð­herr­ans fyrr­ver­andi. Hann hefur meðal ann­­ars heim­­sótt Sam­herja til Íslands. ­

Við­ræður hafa staðið yfir milli angól­skra og namibískra stjórn­­­valda um lög­­­sögu í mál­inu, þar sem að stjórn­­­ar­­skrá Angóla heim­ili ekki fram­­sal á rík­­is­­borg­­urum lands­ins til ann­­ars lands. 

De Bar­ros Neto var sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra er José Edu­ardo dos Santos, faðir Isa­bel dos Santos, var for­seti.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar