Ef Íslandsmótinu í knattspyrnu myndi ljúka í dag, eftir 21. umferð, væri meðaltalsaðsókn á leiki í efstu deild karla sú lægsta frá árinu 1999. Alls hafa 898 manns horft á hvern leik deildarinnar að meðaltali nú þegar ein umferð er eftir af henni. Sumarið 2013 voru þeir 1.057 að meðaltali og því hefur meðaltalsaðsókn dregist saman um 15 prósent á milli ára. Haldist þessi meðaltalsaðsókn í síðustu umferð deildarinnar verður það í fyrsta skipti síðan árið 2002 sem hún fer undir 1.000 manns á leik.
[visualizer id="8254"]
Stórleikur gæti lagað stöðuna
Kjarninn hefur talið saman þann fjölda sem mætt hefur á þá 126 leiki sem þegar hafa verið leiknir í Pepsí-deild karla í sumar samkvæmt leikskýrslum sem birtar eru á vef KSÍ. Alls eru uppgefnar áhorfendatölur í 121 leikjanna og tölur úr hinum fimm leikjunum var hægt að nálgast í annars vegar umfjöllunum Fréttablaðsins og hins vegar Morgunblaðsins. Alls hafa 113.171 áhorfendur mætt á leikina 126, eða 5.389 að meðaltali í hverri umferð. Það gerir 898 manns á hvern leik.
Allar líkur eru á því að meðaltalið eigi eftir að hækka þar sem áhorfendur flykkjast vanalega á loka umferð deildarinnar. Í ár fer auk þess fram hreinn úrslitaleikur FH og Stjörnunnar um Íslandsmeistaratitillinn í Kaplakrika á laugardag. Búist er við að fimm til sex þúsund áhorfendum mæti á leikinn. Þeir gætu því orðið fleiri á þessum eina leik en áhorfendur á alla sex leiki hverrar umferðar hafa verið á leiki í Pepsí-deildinni að meðaltali til þessa. Aðsóknarmesti leikur mótsins hingað til er leikur KR og Vals í fyrstu umferð, sem fór fram á Gervigrasvellinum í Laugardal, en 2.128 áhorfendur mættu á hann.
„Annað atriði er veðurfar í Íslandi í sumar bætist ofan á þetta. Veðrið hefur verið mjög slæmt eiginlega í allt sumar. Það var ekkert sérstaklega gott í fyrra, en það er búið að vera enn verra núna. Sérstaklega á leikdögum, það hefur hitt þannig á að það hefur verið mjög slæmt á þeim."
Verði þessi spá um áhorfendafjölda í Kaplakrika á laugardag að veruleika gæti Íslandsmetið í fjölda áhorfenda á einum leik verið slegið. Það var sett í Frostaskjóli þegar ÍBV tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á móti KR í lokaumferð mótsins árið 1998, en þá mættu um 5.400 manns á völlinn.
Í sumar mættu fæstir áhorfendur mættu á leik Vals og Þórs sem fram fór 21. september. Samkvæmt leikskýrslu mættu einungis 145 manns á þann leik.
Gervigrasið, veðrið og HM höfðu mest áhrif
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segir það auðvitað vera áhyggjuefni að áhorfendum sé að fækka. Hann segir þó þrjú atriði útskýra fækkunina að einhverju leyti. „Heimsmeistaramótið í knattspyrnu er eitt þeirra. Það hefur alltaf mikil áhrif á aðsókn. Þessi keppni sem fór fram í sumar var auk þess einstaklega skemmtileg og fékk gríðarlega mikið áhorf. Annað atriði er veðurfar á Íslandi í sumar sem bætist ofan á þetta. Veðrið hefur verið mjög slæmt eiginlega í allt sumar. Það var ekkert sérstaklega gott í fyrra, en það er búið að vera enn verra núna. Sérstaklega á leikdögum, það hefur hitt þannig á að það hefur verið mjög slæmt á þeim. Þriðja atriðið er að í upphafi sumars vorum við í vandamálum með heimavelli liðanna og þurftum að spila nokkra leiki á gervigrasinu í Laugardalnum vegna ástands vallanna. Það hefur auðvitað veruleg áhrif líka. Að liðin gátu ekki leikið leikina á sínum heimavöllum heldur þurftu að spila fyrstu leikina í Laugardalnum.“
Þórir segir það auðvitað alltaf vera stefnu knattspyrnuhreyfingarinnar að fjölga áhorfendum á leikjum Íslandsmótsins. „Ég held að ég geti sagt að áhuginn á deildinni er ekkert minni en hann hefur verið. Það er mikil umfjöllun um hana í öllum miðlum og sýndur mikill áhugi á þeim umfjöllunum. Ég held að áhuginn á deildinni sé því ekkert minni en þessi þrjú atriði hafa klárlega áhrif á að fólk mætir ekki á völlinn.“
Að sögn Þóris verður lagst yfir fækkun áhorfenda á næstu vikum. „Við munum taka umræðu um málið þegar tímabilinu lýkur með forsvarsmönnum félaganna. Og auðvitað rétthafa deildarinnar. Hvað sé hægt að gera til að bregðast við og hífa upp aðsóknina á ný.“