Lækkunin á heimsmarkaðsverði eru slæmar fréttir fyrir Stafangur, olíuhöfuðborg Noregs. Atvinnulífið í héraðinu telur að botninum sé ekki náð. Í fyrra voru 40 prósent allra starfa í fylkinu Rogalandi tengd olíuiðnaðinum og í einstökum byggðalögum náði hlutfallið upp í 85 prósent.
Á landsvísu voru um 330,000 störf á landsvísu tengd olíuiðnaðinum árið 2014. Undanfarið ár hafa hins vegar um 25,000 olíustörf horfið, mörg þeirra í Stafangri og nágrenni. Nú síðast á fimmtudaginn birti Stavanger Aftenblad forsíðufrétt um að 5000 störf til viðbótar gætu tapast ef ekki finnast ný verkefni fyrir 23 færanlega borpalla með verksamninga sem renna út á næstu 12 mánuðum.
Krísufrétt frá Stafangri gæti litið svona út: Atvinnuleysið hefur aukist um 67%, fasteignirnar ílendast á söluskránni og verðið hefur lækkað. Atvinnulífið er svartsýnna. Olíuverðið er ekki að fara að hækka vegna birgðastöðunnar á heimsvísu. Fleiri munu missa vinnuna og þeir sem þó halda starfinu þurfa að búa sig undir þrengri kjör.
Ef nánar er að gáð eru samt sem áður fá merki um alvöru kreppu. Þetta er væntingakreppa í olíuiðnaðinum og vissulega persónuleg kreppa fyrir þá sem missa vinnuna. En það er fátt sem minnir á hið kerfislæga, alltumlykjandi neyðarástand sem Ísland lenti í.
Hrun? – eða aftur í jafnvægi?
Uppsagnir í olíubransanum hafa bitnað illa á ákveðnum hópum og stéttum. Verkfræðingum á atvinnuleysisskrá hefur fjölgað um 60 prósent. Ófaglærðum atvinnulausum fjölgar um 20 prósent og sama gildir um fólk sem áður vann hjá ráðgjafarfyrirtækjum. Þeir sem hafa misst vinnuna í olíubransanum keppa nú um fá störf við fjölda annarra atvinnulausra með sama bakgrunn og menntun. Margir eru ráðalausir, því allan starfsferilinn hafa fyrirtækin slegist um starfskrafta þeirra.
Atvinnuleysið í Rogalandi hefur vissulega hækkað um tvo þriðju, en það er samt ekki nema 3,5 prósent. Það er ennþá lágt í sögulegu samhengi, lægra en á árunum 2001-2006, og enn undir landsmeðaltalinu í Noregi, sem er 4,3 prósent.
5000 riggansatte på norsk sokkel kan miste jobben. http://t.co/IZ9xPKNc43
— Aftenbladet.no (@StvAftenblad) October 1, 2015
Hjaðnandi fasteignabóla
Í Rogalandi hefur fasteignaverðið fallið um 0,9 prósent frá því í fyrra. Annars staðar í landinu heldur það áfram að hækka. Þetta á sér hins vegar flóknari skýringar. Verðþróunin í Stafangri undanfarin ár hefur verið sú brattasta í Noregi. Meðalverðið á fasteign í Stafangri hefur hækkað um 111,4 prósent á tíu árum og var þegar hæst lét í námunda við fasteignaverðið í höfuðborginni Osló.
Margir olíustarfsmenn sem áttu heima annars staðar áttu sér aukaheimili, pendlerleilighet, í Stafangri. Þeir voru kannski á tíðum fundum í Stafangri eða gistu í íbúðinni á milli vinnuferða út á borpallana. Í sumum tilfellum borgaði fyrirtækið íbúðina. Þetta var einn af skýringarþáttunum á bak við miklar húsbyggingar undanfarinna ára.
Fasteignabólan var þó byrjuð að hjaðna árið 2013, áður en olíuverðið fór að falla. Leiguverð hafði einnig verið himinhátt en hafði lækkað allnokkuð síðan 2013 eftir að framboðið margfaldaðist, og hefur lækkað enn frekar síðan í ársbyrjun eftir að eftirspurnin fór að dragast saman að auki.
Lækkunin á fasteignaverði er því frekar leiðrétting en hrun. Loksins hafa stúdentar og fólk “í venjulegri vinnu” aftur efni á að leigja og geta látið sig dreyma um að kaupa fasteign.
Dómsdagsspár og upphrópanastíll
Það vantar samt ekki dómsdagsspámennina eða upphrópunarmerkin. „Í ár var það Detroit, á næsta ári Stafangur”, sagði Øystein Dørum, aðalhagfræðingur DNB Markets, við Dagens Næringsliv fyrir tveimur vikum. Samanburðurinn er ekki fráleitur.
Detroit var ein af miðstöðvum velmegunar í Bandaríkjunum, þar sem allir gátu fengið störf í bílaiðnaðinum – og “allir” unnu í bílaiðnaðinum eða við störf tengd honum. Þegar bandarískir bílframleiðendur misstu fótanna eftir 2008 fór Detroit sömu leið. „Þetta er augljóslega ekki sagt í fullri alvöru”, segir Dørum, „en hér eru engu að síður atriði sem hægt er að líkja við Noreg.”
“Blóðið rennur um götur Stafangurs”, sagði hótelkóngurinn Petter Stordalen í mikilli æsifrétt VG í júní. Þar var meðal annars sagt frá því að einkaneyslan hefði dregist svo mikið saman að í miðbæ Stafangurs hafi hver búðin á fætur annarri lagt upp laupana.
Ef rýnt er í fréttina á bak við fyrirsagnirnar eru þar sögur á borð við þessa frá skartgripabúðinni Diamanthuset: „Fólk heldur áfram að gifta sig og trúlofa sig en hvatvísin er næstum horfin. Áður fyrr kom fólk inn og keypti eyrnalokka fyrir 30,000 [norskar] krónur af því það langaði í þá.” Já, við erum að tala um hvatvís skartgripakaup upp á rúma hálfa milljón íslenskra króna, á gengi júnímánaðar.
Veltan eykst í verslunum
Gangi maður um götur miðbæjarins í Stafangri ber fátt þess merki að hér hafi nokkuð markvert gerst eða stórar breytingar átt sér stað. Í öllu falli ekki með augum blaðamanns sem bjó við Laugaveginn þegar hver búðarglugginn á fætur öðrum var veggfóðraður með maskínupappír haustið 2008.
Þó að sumir verslunareigendur sem rætt er við finnist kaupæðið vera renna af heimamönnum, þá er tölfræðin á öðru máli. Kathrine Sørnes hjá samtökum eigenda verslunarhúsnæðis í miðbænum segir veltuna hjá 130 búðum hafa aukist um 3,8 prósent frá því í fyrra. Stórir verslunarkjarnar á borð við Tastasenteret og AMFI Madla hafa séð aukningu upp á 13,7 prósent og 5,6 prósent, eftir því sem kemur fram í Rosenkilden, riti Samtaka atvinnulífsins í Stafangri.
Þegar á heildina er litið ber allt að sama marki, nokkurn veginn á þessa leið: Gullöldinni er kannski að ljúka. Loftið að síga úr bólunni. Núverandi ástand er eiginlega ekki svo slæmt, eiginlega bara frekar eðlilegt, en ef við berum það saman við brjálæðislega uppganginn sem er búinn að vera hér síðustu árin, þá virðist þetta eðlilega ástand geta jafnast á við kreppu.
Traustur efnahagur Noregs
Þó er mikilvægast að hafa í huga að þó að Stafangur og Rogaland verði fyrir áfalli, þá eru þessir staðir samt sem áður hluti af einu ríkasta landi í heimi. Já, ef ekki bara ríkasta landi í heimi, allt eftir því hvaða mælikvarðar eru skoðaðir. Velferðarkerfið mýkir lendinguna fyrir þá sem missa vinnuna og norska ríkið hefur bolmagn til að aðstoða viðskiptalífið við að þreyja þorrann eða endurnýja sig.
Þó að norska hagkerfið eigi mikið undir olíunni komið, þá er hún ekki eina stoðin sem Norðmenn reiða sig á. Norðmenn hafa verið stórtækir í að virkja fallvötn og aðra endurnýjanlega orkugjafa. Stóriðja á borð við ál og járnblendi hefur byggst upp víða í fjörðum og dölum með gnægð af raforku.
Sem von er fær Noregur einnig miklar tekjur af fiskveiðum og fiskeldi, auk þess að reka einn stærsta farskipaflota í heimi. Lækkandi gengi norsku krónunnar upp á síðkastið eru góðar fréttir fyrir þessar útflutningsgreinar.
Olían er undirstaða atvinnulífsins í Rogalandi, beint og óbeint. Mynd: EPA.
Handlingsregelen – hin heilaga kýr
Í stað þess að nýta olíutekjurnar í þjóðarbúskapinn hafa Norðmenn lagt fyrir í öll þessi ár, í gríðarmikinn olíusjóð sem er í dag einn af stærstu fjárfestingarsjóðum í heimi. Síðan 2001 hefur verið nokkuð góð pólitísk sátt um svokallaða fjárlagareglu, eða handlingsregelen, sem gengur út á að nýta ekki nema að hámarki fjögur prósent af áætluðum eignum sjóðsins við ríkisreksturinn á ári hverju.
Það má líkja þessu við að maður eigi feita bankainnistæðu en nýti samt bara vextina til að drýgja launatekjurnar og leyfa sér aðeins betra líf. Markmiðið er vitaskuld að tryggja sterkan efnahag um ókomna tíð, líka eftir að olían er uppurin eða komin úr tísku í framtíðinni.