Kröfuhafar þrotabús gamla Landsbankans búast við því að tilkynnt verði um framvindu um samkomulag um lengingu á 226 milljarða króna skuld nýja Landsbankans við búið í þessari viku. Samkvæmt heimildum Kjarnans telja þeir að upplýst verði um framvindu í málinu á kröfuhafafundi sem hefst í fyrramálið klukkan 9 og fer fram á Hotel Reykjavík Natura. Slitastjórn þrotabús Landsbankans, upplýsingafulltrúi nýja Landsbankans og ritstjóri Seðlabankans vildu ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
Uppgjör vegna tilfærslu eigna
Í desember 2009 var samið um uppgjör milli þrotabús gamla Landsbankans og nýja Landsbankans vegna þeirra eigna sem færðar voru þar á milli eftir bankahrunið. Í samkomulaginu fólst meðal annars að íslenska ríkið eignaðist nýja bankann utan lítils hlutar sem myndi renna til starfsmanna hans. Á móti gaf þrotabúið út uppgjörsskuldabréf sem nýi bankinn átti að greiða vegna þeirra eigna sem hann tók yfir.
Skuldabréfin voru upp á mörg hundruð milljarða króna í erlendum gjaldmiðlum og lokagreiðsla átti að vera innt af hendi í október 2018, tíu árum eftir fall Landsbankans. Því var ljóst að nýi Landsbankinn þurfti að verða sér úti um mikið magn af gjaldeyri til að standa við greiðslurnar.
Fljótt varð ljóst að svona miklar útgreiðslur á gjaldeyri, á jafn skömmum tíma, myndu ógna greiðslujöfnuði þjóðarbúsins verulega. Því var þrýst verulega á að fyrirkomulaginu yrði breytt.
Fljótt varð ljóst að svona miklar útgreiðslur á gjaldeyri, á jafn skömmum tíma, myndu ógna greiðslujöfnuði þjóðarbúsins verulega. Því var þrýst verulega á að fyrirkomulaginu yrði breytt.
Má ekki ógna greiðslujöfnuði
Þann 8. maí síðastliðinn var tilkynnt um að samkomulag hefði náðst milli Landsbankans og þrotabús gamla Landsbankans um breytingar á skilmálum skuldabréfanna, en eftirstöðvar þeirra á þeim tíma voru 226 milljarðar króna. Samkomulagið snérist um að lengt yrði í greiðslum af skuldabréfunum til ársins 2026 gegn því að vaxtakjör myndu hækka eftir árið 2018. Það var hins vegar bundið því að Seðlabanki Íslands myndi veita undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál, enda höft á fjármagnsflutninga í gildi í landinu.
Seðlabankinn svaraði beiðni þrotabúsins um undanþágur þann 14. júli síðastliðinn. Í svarbréfinu kemur fram að jákvæðir fletir séu á samkomulaginu. Greiðslubyrði innlendra aðila á gjaldeyrisskuldum við bú fallinna banka lækki til skamms tíma og Landsbankinn fái betri erlenda fjármögnun sem muni auðvelda honum aðgang að erlendum lánamörkuðum.
Eigi að síður kom fram í svarbréfi Seðlabankans að endanlegt svar ætti að geta legið fyrir „eigi síðar en í árslok“.
Þrátt fyrir þetta gat Seðlabankinn ekki veitt svar við beiðninni innan þeirra tímamarka sem þrotabú Landsbankans fór fram á, sem var fyrir 8. ágúst 2014. Uppgefnar ástæður voru tvær: í fyrsta lagi þyrfti slík ákvörðun að byggja á ítarlegri greiningu á áhrifum samkomulagsins á greiðslujöfnuð. Í öðru lagi var stefna stjórnvalda um losun fjármagnshafta í endurmati á þessum tíma. Eigi að síður kom fram í svarbréfi Seðlabankans að endanlegt svar ætti að geta legið fyrir „eigi síðar en í árslok“.
„Kjöraðstæður“ til losunar hafta
Síðan hefur margt gerst. Vinna stjórnvalda við losun fjármagnshafta hefur hrokkið í gírinn og framkvæmdastjórn um það verkefni var mönnuð. Hún hefur unnið ötullega að markmiðinu síðan. Í byrjun þessa mánaðar, nánar tiltekið 8. október, sagði Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, að þær aðstæður sem nú væru uppi í efnahagsmálum Íslands séu um margt „kjöraðstæður“ fyrir losun fjármagnshafta. Þessi orði lét hún falla á fundi í Seðlabankanum þar sem nýjasta útgáfa Fjármálastöðugleika bankans var kynnt. „Það er heldur ekki víst að þessar aðstæður vari að eilífu,“ sagði Sigríður enn fremur.
Sigíður Benediktsdóttir,framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, segir að nú séu kjöraðstæður í efnahagsmálum Íslands fyrir losun hafta.
Það var ekki að ástæðulausu að Sigríður viðraði þessa skoðun.Verðbólga hefur farið lækkandi undanfarin misseri og mælist nú 1,8 prósent á ársgrundvelli, en verðbólgumarkmiðið lögum samkvæmt er 2,5 prósent. Atvinnuleysi er lágt og hagvaxtarhorfur með þeim bestu í heiminum. Þessar stöðugt betri ytri aðstæður í hagkerfinu hjálpuðu til við að skapa aðstæður til að losa um höft.
Kröfuhafar búast við framvindu
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lýsti því síðan yfir á Alþingi á mánudag að gjaldeyrishöft yrðu líklega afnumin í nokkrum skrefum. Kjarnaatriði í þeirri vinnu sem ríkisstjórnin væri með í gangi á þessum vettvangi væri að gera allt sem hægt væri að gera fyrir haftaafnámskerfið svo ný aðlögun þyrfti ekki að eiga sér stað.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á Alþingi á mánudag að líklega yrðu höft afnemin í skrefum.
Undanfarna daga hefur verið hávær orðrómur um að unnið sé að fyrstu skrefum í átt að afnámi fjármagnshafta innan Seðlabankans og á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Seðlabankinn hefur ekki viljað tjá sig um hvað sé í vændum þegar eftir því hefur verið leitað. Fulltrúar kröfuhafa stóru bankanna þriggja sem Kjarninn hefur rætt við búast hins vegar við því að það dragi til tíðinda á allra næstunni.
Ef það gerist ekki þá búast þeir við því að tilkynningin komi á föstudag, áður en fulltrúar erlendu kröfuhafanna sem flykkjast nú til landsins, fara aftur til síns heima.
Þeir telja afar líklegt að tilkynnt verði um framvindu varðandi mögulegar undanþágur þrotabús Landsbankans vegna lengingar á skuldabréfum þess sem nýi Landsbankinn á að greiða á næstu árum, á kröfuhafafundi sem fram fer í fyrramálið. Ef það gerist ekki þá búast þeir við því að tilkynningin komi á föstudag, áður en fulltrúar erlendu kröfuhafanna sem flykkjast nú til landsins, fara aftur til síns heima.
Hvorki Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi nýja Landsbankans, né Kristinn Bjarnason,sem situr í slitastjórn Landsbankans, vildu tjá sig um málið þegar Kjarninn leitaði eftir því í dag. Það vildi Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri Seðlabankans, ekki heldur gera.