Lestur Fréttablaðsins mældist 29,9 prósent í janúarmánuði. Það er í fyrsta sinn síðan að mælingar á lestrinum hófust sem hann fer undir 30 prósent. Lesturinn hefur helmingast á einum áratug.
Blaðið var fyrst gefið út árið 2001 og náði fljótt mikilli fótfestu á dagblaðamarkaði með tilheyrandi sneið af auglýsingatekjukökunni. Vorið 2007 sögðust til að mynda 65,2 prósent landsmanna lesa Fréttablaðið.
Undir lok árs 2015 fór lestur blaðsins í fyrsta sinn undir 50 prósent og tæpum þremur árum siðar fór hann undir 40 prósent.
Lesturinn hefur að mestu dregist saman hjá yngri lesendum. Vorið 2010 lásu um 64 prósent landsmanna í aldurshópnum 18 til 49 ára blaðið. Nú lesa 20,4 prósent landsmanna undir fimmtugu það. Lesturinn í þeim hópi lækkaði um 4,6 prósentustig í fyrra og með sama áframhaldi verður ekki langt að bíða þangað til að hann fer undir 20 prósent.
Þetta mál lesa út úr nýjum tölum Gallup um lestur prentmiðla sem voru birtar í lok liðinnar viku.
Fréttablaðið er í eigu útgáfufélagsins Torgs og er flaggskip þess félags. Útgáfudögum þess var fækkað úr sex í fimm á viku á árinu 2020 þegar hætt var með mánudagsútgáfu blaðsins. Auk þess hefur dreifing fríblaðsins dregist saman úr 80 í 75 þúsund eintök á dag.
Í lok síðasta mánaðar var greint frá því að Jón Þórisson, sem var ritstjóri Fréttablaðsins frá haustinu 2019 og fram í ágúst í fyrra, væri kominn aftur til starfa hjá útgáfufélagi blaðsins, Torgi. Hann hefur tekið til starfa sem forstjóri útgáfufélagsins, sem heldur einnig úti DV, Hringbraut og tengdum miðlum. Sigmundur Ernir Rúnarsson er ritstjóri Fréttablaðsins.
Mikið tap og nýjum peningum dælt inn
Í júní 2019 keypti athafnamaðurinn Helgi Magnússon helmingshlut í útgáfufélagi Fréttablaðsins, Torgi. Kaupverðið var trúnaðarmál en í október keyptu Helgi og samstarfsmenn hans, meðal annars ritstjórinn Jón Þórisson, hinn helminginn í útgáfunni auk þess sem sjónvarpsstöðinni Hringbraut var rennt inn í reksturinn. Aftur var kaupverðið sagt trúnaðarmál. Eignarhaldið á Torgi hefur verið í félagi sem heitir HFB-77 ehf. Það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna í fyrra. Torg er eina þekkta eign félagsins og var keypt á síðasta ári. Í desember 2020 var greint frá því að Helgi hefði keypt nýtt hlutafé í Torgi fyrir 600 milljónir króna og rétt fyrir síðustu áramót setti hann 300 milljónir króna í viðbót inn í reksturinn.
Eignarhaldsfélag Helga, Hofgarðar, seldi sex prósent hlut sinn í Bláa lóninu í fyrra og hagnaðist fyrir vikið um 3,2 milljarða króna á því ári. Eigið fé Hofgarða, sem fjárfestir í skráðum og óskráðum verðbréfum, var 2,9 milljarðar króna í lok árs 2020 en er nú yfir sex milljarðar króna.
Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að rekstrartap Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, Hringbrautar, DV og tengdra miðla, var 688,7 milljónir króna á árinu 2020. Árið áður var rekstrartap félagsins 197,3 milljónir króna og því nam sameiginlegt rekstrartap þess á tveimur árum 886 milljónum króna.
Tíu prósent undir fimmtugu lesa Morgunblaðið
Hitt dagblað landsins, Morgunblaðið, bætti lítillega við sig í lestri í síðasta mánuði. Alls segjast 19,1 prósent landsmanna lesa blaðið, en vert er að taka það fram að Morgunblaðið er fríblað einu sinni í viku, á fimmtudögum, þegar það er í svokallaðri aldreifingu. Þá fær fjöldi manns sem er ekki áskrifandi blaðið óumbeðið inn um lúguna hjá sér. Lestur Morgunblaðsins hjá öllum aldurshópum hefur rúmlega helmingast frá vorinu 2009, þegar hann var 40 prósent.
Sá eigendahópur sem tók við Árvakri árið 2009 hefur samtals lagt félaginu til 1,9 milljarða króna í nýtt hlutafé á rúmum áratug, síðast 300 milljónir króna á árinu 2019. Samanlagt endanlegt tap félagsins á sama tímabili er yfir 2,5 milljörðum króna.
Stærsti eigandinn er Guðbjörg Matthíasdóttir og börn hennar, í gegnum félögin Hlyn A og Ísfélag Vestmannaeyja. Samanlagt á sá hópur 25,5 prósent hlut. Næst stærsti eigandinn eru Íslenskar Sjávarafurðir, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, með 19,4 prósent eignarhlut.
Tekjur blaða drógust saman um 38 prósent á fjórum árum
Fá 1997 til 2016 jukust tekjur fjölmiðla á Íslandi á hverju einasta ári í krónum talið með einni undantekningu, árinu 2009 þegar eftirköst bankahrunsins komu fram. Frá 2016 hafa þær hins vegar lækkað á milli allra ára sem liðin eru.
Það ár voru samanlagðar tekjur íslenskra fjölmiðla 28,1 milljarðar króna. Árið 2020 voru þær 25,1 milljarður króna og höfðu því lækkað um tæp ellefu prósent á fjórum árum.
Þetta má lesa úr nýjum tölum sem Hagstofa Íslands birti nýverið og sýna þróun á tekjum fjölmiðla á Íslandi.
Mestur hefur samdrátturinn orðið hjá þeim fjölmiðlum sem gefa út dagblöð og vikublöð. Tekjur þeirra hafa farið úr 7,3 í 4,5 milljarða króna á þessu fjögurra ára tímabili. Það er samdráttur upp á rúmlega 38 prósent.
Morgunblaðið og Fréttablaðið eru langstærstu miðlarnir sem tilheyra þessum flokki.