Lítil, meðal, stór, mjög stór
Einu sinni voru hænuegg bara hænuegg. Svolítið mismunandi að stærð, hvít eða brún. Í dag er öldin önnur: hvít egg, hamingjuegg, lífræn egg, brún egg o.s.frv. Stærðarflokkanir að minnsta kosti fjórir. Varphænur lifa ekki sældarlífi.
Hænsn hafa fylgt mannkyninu í mörg þúsund ár. Talið er að hænsn hafi fyrst borist til Evrópu frá Afríku, um 700 árum fyrir Krist. Rómverjar höfðu mikið dálæti á hænsnum, töldu þau spásagnardýr. Þeir höfðu hænsn meðferðis í landvinningaferðum sínum og eiga þannig að líkindum mikinn þátt í útbreiðslu þeirra í Evrópu.
Stærsti fuglastofn í heimi
Ekki er nokkur leið að vita með vissu hve mörg hænsn eru til í veröldinni. Sérfræðingar hafa reynt að giska á fjöldann, sumir þeirra hafa miðað við þrjú hænsn á hvern íbúa jarðarinnar, það væru þá um það bil 23 milljarðar, aðrir telja töluna frekar vera 50 milljarða. Hver sem fjöldinn er má líklega slá því föstu að hænsn eru stærsti fuglastofn í heimi.
Fjöldi varphæna áætlaður fimm milljarðar
Talið er að samtals séu í veröldinni fimm milljarðar varphæna. Tiltölulega flestar í Kína, líklega um einn milljarður. Næstflestar í Bandaríkjunum, á að giska 300 milljónir og litlu færri samtals í löndum Evrópusambandsins. Sérfræðingar telja að samtals verpi hænur heimsins 1,1 trilljón eggja (trilljón 1 000000000000) á ári.
Ekki þarf að fjölyrða um að egg eru mikilvæg fæða fólks um allan heim. Íbúar Mexíkó eiga „heimsmetið“, þar nemur neyslan meira en 320 eggjum á mann á ári hverju. Algengur líftími hænsna er fimm til tíu ár. Hænur hafa iðulega orðið fjöskylduvinir og mörg dæmi eru um hænur sem hafa verið hættar að verpa en eigendurnir ekki viljað losa sig við þær og leyft þeim að lifa þangað til þær gáfu upp öndina af náttúrulegum orsökum.
Miklar breytingar
Landbúnaður, ekki síst á Vesturlöndum, hefur breyst mikið á undanförnum áratugum.
Það á ekki síður við um hænsnabúskap en aðrar greinar.
Margir eiga góðar minningar um hænurnar. Krakkar sem ólust upp í sveit voru gjarna látnir gefa hænunum og oft var það með fyrstu verkefnum barna í þéttbýlinu sem voru í sveit á sumrin að gefa púddunum og fylgjast með þeim keppast við að gleypa í sig matarafganga og maískorn. Og tína eggin.
Íslenskir krakkar hafa í áratugi komist í kynni við bókina um litlu gulu hænuna og þá einföldu, en notadrjúgu, heimspeki sem þar er að finna.
Margir bændur eru með nokkrar varphænur til heimilisnota en að almenningur í borgum og bæjum sé með fastan eggjasamning við tiltekinn bónda, eins og algengt var, heyrir nánast sögunni til.
Í dag verður langstærstur hluti eggja til á stórum búum, eggjaframleiðsla er orðinn iðnaður. Og líkt og gerist í öðrum greinum vill eggjabóndinn gjarna geta framleitt sem mest. Að hver hæna skili sem mestum afköstum ef svo mætti að orði komast. Og þar hafa orðið miklar breytingar. Ekki allar til góðs, fyrir hænurnar.
20 egg, 200 egg, 300 egg
Hænur sem ganga alveg frjálsar og hafa engan sérstakan varpstað verpa að jafnaði aðeins 20 eggjum á ári. Á þeim er engin pressa um afköst í varpinu. Öðru máli gegnir um hænur sem aldar eru til varps.
Flestir fuglar bregðast við eggjaþjófnaði úr hreiðrum með því að verpa nýju eggi í stað þess horfna. Hænur eru eins að þessu leyti og það hefur maðurinn nýtt sér. Ef egg er alltaf tekið frá hænunni keppist hún við að koma með nýtt egg í staðinn. Með þessu móti geta hænur á hænsnabúum orpið meira en 200 eggjum á ári. Eðli hænsnfugla er að verpa mest á vorin, með lýsingu er hægt að líkja eftir vorinu og fá þannig fleiri egg. Dæmi eru um búrhænur sem verpa árlega meira en 300 eggjum.
Mismunandi stærðir og aðstæður
En egg eru ekki bara egg, hvít eða brún. Þótt þau séu í grunninn eins, skurn, himna, hvíta og rauða eru þau ekki öll svipuð að stærð. Í verslunum er hægt að velja lítil, meðalstór, stór og jafnvel sérstaklega stór.
Ennfremur er iðulega hægt að velja á milli eggja frá hænum sem eru hafðar í búrum, hænum sem ganga „frjálsar“ innandyra og frá hænum sem hafa aðgang að útisvæði. Frávikin í eggjastærðinni eru tilkomin með „kynbótum“.
Danska rannsóknin
Vísindamenn við Hafnarháskóla í Danmörku birtu fyrir skömmu niðurstöður rannsóknar sem þeir höfðu unnið að um nokkurt skeið. Óhætt er að segja að niðurstöðurnar hafi vakið mikla athygli. Einn dönsku fjölmiðlanna sagði að líklega hefði mörgum Dönum svelgst á morgunkaffinu, með egginu og ristaða brauðinu, þegar þeir renndu yfir blað dagsins.
Skýrsla vísindamannanna var birt í vísindatímaritinu PLOS One. Rannsóknin beindist að velferð varphæna, einkum hvaða áhrif það hefði á líkamlegt ástand þeirra að verpa árlega jafn mörgum eggjum og raun ber vitni. Ennfremur hvaða máli stærð eggjanna skipti í þessu sambandi.
Sláandi niðurstöður
Vísindamennirnir rannsökuðu tæplega 5 þúsund hænur á 40 hænsnabúum víða í Danmörku, en samtals eru varphænur í Danmörku um það bil þrjár og hálf milljón.
Niðurstöðurnar eru sláandi. Af þeim varphænum sem skoðaðar voru reyndust 85 prósent vera með sprungið eða brotið bringubein. Ástæðurnar eru tvær: Í fyrsta lagi er vöxtur hænanna stöðvaður áður en þær hafa náð fullri stærð og í öðru lagi er það stærð eggjanna. Líkaminn ræður einfaldlega ekki við stór egg og bringubeinið springur, eða hreinlega brotnar. Þetta veldur miklum kvölum og vegna þess að hænurnar taka ekki „varphlé“ grær brotið aldrei. „Því yngri sem hænurnar eru þegar þær fara að verpa því stærra verður vandamálið,“ sagði Ida Thøfner sérfræðingur hjá Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (stofnun innan Hafnarháskóla). „Við vissum af þessu vandamáli en grunaði ekki að það væri jafn útbreitt og nú hefur komið í ljós.“ Og bætti við að þetta vandamál væri ekki sérdanskt.
Hægt að koma í veg fyrir beinbrotin
Í skýrslunni kemur fram að ef beðið væri með að láta hænurnar byrja að verpa, þangað til þær væru fullvaxnar, og beinin náð meiri styrk, væri hægt að koma í veg fyrir beinbrotin. Vísindamennirnir segja að þetta myndi ekki þýða tekjutap því fullvaxnar hænur, sem væru ekki með brotin bein, lifðu lengur og skiluðu þess vegna jafnmörgum, eða fleiri eggjum yfir ævina. „Einfalt ráð sem öllum kæmi til góða, einkum hænunum,“ sagði prófessor Jens Peter Christiansen, einn þeirra sem vann að rannsókninni.
Lengi hefur verið vitað að margar danskar varphænur væru með skaðað bringubein. Ástæðan hefur hingað til verið talin að hænurnar yllu skaðanum sjálfar, rækju sig til dæmis í fóðurtækin. Nýja rannsóknin sýnir að ástæðurnar eru aðrar og brotin mun algengari en áður var álitið.
Getur almenningur eitthvað gert?
Þessi spurning var lögð fyrir vísindamennina þegar þeir kynntu skýrsluna. Svar þeirra var einfalt: Kaupa minni egg. Ef sala minni eggja ykist til muna á kostnað þeirra stærri myndu eggjabændur verða fljótir að laga sig að þeirri breytingu.
Til gamans í lokin
Framar í þessum pistli var minnst á bókina um litlu gulu hænuna. Hún kom fyrst út árið 1943, var íslensk aðlögun að bandarískri bók (þar var hænan rauð) sem kom út árið 1940. Steingrímur Arason kennari er höfundur íslensku útgáfunnar, sem börn og fullorðnir hafa lesið sér til gagns og gamans.
Flosi Ólafsson leikari var einn þeirra sem ekki efaðist um uppeldisgildi þeirra litlu gulu eins og fram kemur í eftirfarandi stöku sem hann setti saman:
Las ég mér til menntunar
margan doðrant vænan
en lærdómsríkust lesning var
Litla gula hænan.