EPA

Lítil, meðal, stór, mjög stór

Einu sinni voru hænuegg bara hænuegg. Svolítið mismunandi að stærð, hvít eða brún. Í dag er öldin önnur: hvít egg, hamingjuegg, lífræn egg, brún egg o.s.frv. Stærðarflokkanir að minnsta kosti fjórir. Varphænur lifa ekki sældarlífi.

Hænsn hafa fylgt mann­kyn­inu í mörg þús­und ár. Talið er að hænsn hafi fyrst borist til Evr­ópu frá Afr­íku, um 700 árum fyrir Krist. Róm­verjar höfðu mikið dálæti á hænsnum, töldu þau spá­sagn­ar­dýr. Þeir höfðu hænsn með­ferðis í land­vinn­inga­ferðum sínum og eiga þannig að lík­indum mik­inn þátt í útbreiðslu þeirra í Evr­ópu.

Stærsti fugla­stofn í heimi

Ekki er nokkur leið að vita með vissu hve mörg hænsn eru til í ver­öld­inni. Sér­fræð­ingar hafa reynt að giska á fjöld­ann, sumir þeirra hafa miðað við þrjú hænsn á hvern íbúa jarð­ar­inn­ar, það væru þá um það bil 23 millj­arð­ar, aðrir telja töl­una frekar vera 50 millj­arða. Hver sem fjöld­inn er má lík­lega slá því föstu að hænsn eru stærsti fugla­stofn í heimi.

Auglýsing

Fjöldi varp­hæna áætl­aður fimm millj­arðar

Talið er að sam­tals séu í ver­öld­inni fimm millj­arðar varp­hæna. Til­tölu­lega flestar í Kína, lík­lega um einn millj­arð­ur. Næst­flestar í Banda­ríkj­un­um, á að giska 300 millj­ónir og litlu færri sam­tals í löndum Evr­ópu­sam­bands­ins. Sér­fræð­ingar telja að sam­tals verpi hænur heims­ins 1,1 trilljón eggja (trilljón 1 000000000000) á ári.

Ekki þarf að fjöl­yrða um að egg eru mik­il­væg fæða fólks um allan heim. Íbúar Mexíkó eiga „heims­met­ið“, þar nemur neyslan meira en 320 eggjum á mann á ári hverju. Algengur líf­tími hænsna er fimm til tíu ár. Hænur hafa iðu­lega orðið fjöskyldu­vinir og mörg dæmi eru um hænur sem hafa verið hættar að verpa en eig­end­urnir ekki viljað losa sig við þær og leyft þeim að lifa þangað til þær gáfu upp önd­ina af nátt­úru­legum orsök­um.

Varphænur lifa ekki sældarlífi.
EPA

Miklar breyt­ingar

Land­bún­að­ur, ekki síst á Vest­ur­lönd­um, hefur breyst mikið á und­an­förnum ára­tug­um.

Það á ekki síður við um hænsna­bú­skap en aðrar grein­ar.

Margir eiga góðar minn­ingar um hæn­urn­ar. Krakkar sem ólust upp í sveit voru gjarna látnir gefa hæn­unum og oft var það með fyrstu verk­efnum barna í þétt­býl­inu sem voru í sveit á sumrin að gefa púd­d­unum og fylgj­ast með þeim kepp­ast við að gleypa í sig mat­ar­af­ganga og maís­korn. Og tína egg­in.

Íslenskir krakkar hafa í ára­tugi kom­ist í kynni við bók­ina um litlu gulu hæn­una og þá ein­földu, en nota­drjúgu, heim­speki sem þar er að finna.

Margir bændur eru með nokkrar varp­hænur til heim­il­is­nota en að almenn­ingur í borgum og bæjum sé með fastan eggja­samn­ing við til­tek­inn bónda, eins og algengt var, heyrir nán­ast sög­unni til.

Í dag verður langstærstur hluti eggja til á stórum búum, eggja­fram­leiðsla er orð­inn iðn­að­ur. Og líkt og ger­ist í öðrum greinum vill eggja­bónd­inn gjarna geta fram­leitt sem mest. Að hver hæna skili sem mestum afköstum ef svo mætti að orði kom­ast. Og þar hafa orðið miklar breyt­ing­ar. Ekki allar til góðs, fyrir hæn­urn­ar.

EPA

20 egg, 200 egg, 300 egg

Hænur sem ganga alveg frjálsar og hafa engan sér­stakan varp­stað verpa að jafn­aði aðeins 20 eggjum á ári. Á þeim er engin pressa um afköst í varp­inu. Öðru máli gegnir um hænur sem aldar eru til varps.

Flestir fuglar bregð­ast við eggja­þjófn­aði úr hreiðrum með því að verpa nýju eggi í stað þess horfna. Hænur eru eins að þessu leyti og það hefur mað­ur­inn nýtt sér. Ef egg er alltaf tekið frá hæn­unni kepp­ist hún við að koma með nýtt egg í stað­inn. Með þessu móti geta hænur á hænsna­búum orpið meira en 200 eggjum á ári. Eðli hænsn­fugla er að verpa mest á vor­in, með lýs­ingu er hægt að líkja eftir vor­inu og fá þannig fleiri egg. Dæmi eru um búr­hænur sem verpa árlega meira en 300 eggj­um.

Eggjaneysla er gríðarleg. Mexíkóar eru taldir eiga heimsmetið: Um 320 egg á mann á ári.
EPA

Mis­mun­andi stærðir og aðstæður

En egg eru ekki bara egg, hvít eða brún. Þótt þau séu í grunn­inn eins, skurn, himna, hvíta og rauða eru þau ekki öll svipuð að stærð. Í versl­unum er hægt að velja lít­il, með­al­stór, stór og jafn­vel sér­stak­lega stór.

Enn­fremur er iðu­lega hægt að velja á milli eggja frá hænum sem eru hafðar í búrum, hænum sem ganga „frjáls­ar“ inn­an­dyra og frá hænum sem hafa aðgang að úti­svæði. Frá­vikin í eggja­stærð­inni eru til­komin með „kyn­bót­u­m“.

Danska rann­sóknin

Vís­inda­menn við Hafn­ar­há­skóla í Dan­mörku birtu fyrir skömmu nið­ur­stöður rann­sóknar sem þeir höfðu unnið að um nokk­urt skeið. Óhætt er að segja að nið­ur­stöð­urnar hafi vakið mikla athygli. Einn dönsku fjöl­miðl­anna sagði að lík­lega hefði mörgum Dönum svelgst á morg­un­kaff­inu, með egg­inu og ristaða brauð­inu, þegar þeir renndu yfir blað dags­ins.

Skýrsla vís­inda­mann­anna var birt í vís­inda­tíma­rit­inu PLOS One. Rann­sóknin beind­ist að vel­ferð varp­hæna, einkum hvaða áhrif það hefði á lík­am­legt ástand þeirra að verpa árlega jafn mörgum eggjum og raun ber vitni. Enn­fremur hvaða máli stærð eggj­anna skipti í þessu sam­bandi.

Danska rannsóknin beindist að velferð varphæna. Reyndust 85 prósent þeirra vera með sprungið eða brotið bringubein.
EPA

Slá­andi nið­ur­stöður

Vís­inda­menn­irnir rann­sök­uðu tæp­lega 5 þús­und hænur á 40 hænsna­búum víða í Dan­mörku, en sam­tals eru varp­hænur í Dan­mörku um það bil þrjár og hálf millj­ón.

Nið­ur­stöð­urnar eru slá­andi. Af þeim varp­hænum sem skoð­aðar voru reynd­ust 85 pró­sent vera með sprungið eða brotið bringu­bein. Ástæð­urnar eru tvær: Í fyrsta lagi er vöxtur hæn­anna stöðv­aður áður en þær hafa náð fullri stærð og í öðru lagi er það stærð eggj­anna. Lík­am­inn ræður ein­fald­lega ekki við stór egg og bringu­beinið spring­ur, eða hrein­lega brotn­ar. Þetta veldur miklum kvölum og vegna þess að hæn­urnar taka ekki „varp­hlé“ grær brotið aldrei. „Því yngri sem hæn­urnar eru þegar þær fara að verpa því stærra verður vanda­mál­ið,“ sagði Ida Thøfner sér­fræð­ingur hjá Rann­sókn­ar­stofnun land­bún­að­ar­ins (stofnun innan Hafn­ar­há­skóla). „Við vissum af þessu vanda­máli en grun­aði ekki að það væri jafn útbreitt og nú hefur komið í ljós.“ Og bætti við að þetta vanda­mál væri ekki sér­danskt.

Hægt að koma í veg fyrir bein­brotin

Í skýrsl­unni kemur fram að ef beðið væri með að láta hæn­urnar byrja að verpa, þangað til þær væru full­vaxn­ar, og beinin náð meiri styrk, væri hægt að koma í veg fyrir bein­brot­in. Vís­inda­menn­irnir segja að þetta myndi ekki þýða tekju­tap því full­vaxnar hæn­ur, sem væru ekki með brotin bein, lifðu lengur og skil­uðu þess vegna jafn­mörg­um, eða fleiri eggjum yfir ævina. „Ein­falt ráð sem öllum kæmi til góða, einkum hæn­un­um,“ sagði pró­fessor Jens Peter Christ­i­an­sen, einn þeirra sem vann að rann­sókn­inni.

Lengi hefur verið vitað að margar danskar varp­hænur væru með skaðað bringu­bein. Ástæðan hefur hingað til verið talin að hæn­urnar yllu skað­anum sjálf­ar, rækju sig til dæmis í fóð­ur­tæk­in. Nýja rann­sóknin sýnir að ástæð­urnar eru aðrar og brotin mun algeng­ari en áður var álit­ið.

Auglýsing

Getur almenn­ingur eitt­hvað gert?

Þessi spurn­ing var lögð fyrir vís­inda­menn­ina þegar þeir kynntu skýrsl­una. Svar þeirra var ein­falt: Kaupa minni egg. Ef sala minni eggja ykist til muna á kostnað þeirra stærri myndu eggja­bændur verða fljótir að laga sig að þeirri breyt­ingu.

Til gam­ans í lokin

Framar í þessum pistli var minnst á bók­ina um litlu gulu hæn­una. Hún kom fyrst út árið 1943, var íslensk aðlögun að banda­rískri bók (þar var hænan rauð) sem kom út árið 1940. Stein­grímur Ara­son kenn­ari er höf­undur íslensku útgáf­unn­ar, sem börn og full­orðnir hafa lesið sér til gagns og gam­ans.

Flosi Ólafs­son leik­ari var einn þeirra sem ekki efað­ist um upp­eld­is­gildi þeirra litlu gulu eins og fram kemur í eft­ir­far­andi stöku sem hann setti sam­an:

Las ég mér til mennt­unar

margan doðr­ant vænan

en lær­dóms­rík­ust lesn­ing var

Litla gula hæn­an.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar