Lögregluyfirvöld í Lúxemborg yfirheyrðu menn í tengslum við rannsókn sína á svokölluðu Lindsor-máli í mars síðastliðnum, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þau hafa haft málið til rannsóknar árum saman. Á meðal þeirra sem yfirheyrðir voru eru íslenskir ríkisborgarar, en ekki hafa fengist upplýsingar um hverjir það voru.
Lindsor málið hefur verið lengi til rannsóknar hjá yfirvöldum á Íslandi og í Lúxemborg. Embætti sérstaks saksóknara framkvæmdi meðal annars réttarbeiðni vegna rannsóknarinnar í Lúxemborg á árinu 2013. Rannsókn málsins er enn opin hjá yfirvöldum í báðum löndunum þótt hún hafi nú staðið yfir í á sjöunda ár og að engar ákærður hafi verið gefnar út í því. Þeir sem eru grunaðir um lögbrot í málinu, fyrrverandi helstu stjórnendur Kaupþings og vildarviðskiptavinur þeirra, hafa ávallt harðneitað að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað í málinu.
Veitt sama dag og neyðarlánið
Málið snýst meðal annars um lán upp á 171 milljón evra, um 25 milljarða króna miðað við gengi dagsins í dag, frá Kaupþingi til félags sem heitir heitir Lindsor Holding Corporation og er skráð til heimilis á Tortóla-eyju. Lindsor var í eigu Otris, félags sem stjórnendur Kaupþings stýrðu og virkaði sem nokkurs konar ruslakista, afskriftasjóður utan efnahagsreiknings Kaupþings. Þangað var lélegum, og ónýtum, eignum hrúgað.
Lánið var veitt 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland. Þann dag lánað Seðlabanki Íslands líka Kaupþingi 500 milljónir evra í neyðarlán. Þremur dögum síðar var Kaupþing fallinn.
Lánið til Lindsor var aldrei borið undir lánanefnd Kaupþings. Það var notað til að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum þess banka og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar, vildarviðskiptavinar Kaupþings. Í greinargerð sérstaks saksóknara sem fylgdi gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, í maí 2010, segir að „tilgangur viðskiptanna hafi verið sá að flytja áhættuna af fallandi verðgildi skuldabréfanna af eigendurm þeirra og yfir á Kaupþing á Íslandi“. Þar sagði einnig að gögn bendi til þess að Lindsor hafi keypt skuldabréfin á mun hærra verði en markaðsverði.
Þegar Kaupþing féll þremur dögum eftir kaupin á bréfunum var ljóst að Lindsor gat ekki greitt lánið til baka, enda eina eign félagsins verðlitlu skuldabréfin sem félagið hafði keypt á yfirverði þremur dögum áður. Engar tryggingar voru veittar fyrir láninu og tap kröfuhafa Kaupþings vegna þess því gríðarlegt. Þeir sem seldu bréfin losuðu sig hins vegar undan ábyrgðum og, ef grunsemdir embættis sérstaks saksóknara eru réttar, tryggðu sér um leið mikinn ágóða. Sá ágóði var auk þess í evrum þannig að hann margfaldaðist í íslenskum krónum þegar íslenska krónan féll.
Lánið til Lindsor var veitt 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland. Þann dag lánað Seðlabanki Íslands líka Kaupþingi 500 milljónir evra í neyðarlán. Þremur dögum síðar var Kaupþing fallinn.
Skjöl talin fölsuð
Embætti sérstaks saksóknara telur, samkvæmt greinargerðum sem það hefur lagt fram vegna rannsóknar á Lindsor-málinu, að þau skjöl sem lánasamningur Kaupþings við Lindsor byggði á hafi verið útbúin og undirrituð í nóvember og desember 2008, töluvert eftir fall Kaupþings. Skjölin eru því talin fölsuð bæði hvað varðar efni og dagsetningar. Þau eru undirrituð af Hreiðari Má Sigurðssyni og nokkrum starfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg og rannsakendur telja að Guðný Arna hafi haft milligöngu um frágang þeirra. Guðný Arna var á þeim tíma enn starfsandi hjá Nýja Kaupþingi, sem var byggður á grunni hins fallna Kaupþings, og hafði setið í skilanefnd gamla bankans. Hún hætti ekki störfum í bankanum fyrr en í lok desember 2008.
Þeir sem liggja undir grun í málinu gáfu á sínum tíma þær skýringar að skjölin hafi verið undirrituð eftirá að kröfu skiptastjóra Kaupþings í Lúxemborg, sem var á þeim tíma í fjárhagslegri endurskipulagningu. Hann var skömmu síðar keyptur af David Rowland og fjölskyldu hans og endurnefndur Banque Havilland. Undir því nafni starfar hann enn í dag. Þessar skýringar eru ein ástæða þess að málið er rannsakað af yfirvöldum í Lúxemborg.
Umfangsmiklar húsleitir og eignir frystar
Í mars 2011 réðst sérstakur saksóknari, Serious Fraud Office í Bretlandi og lögreglan í Lúxemborg í víðtækustu húsleitir sem farið hafa fram í Lúxemborg. Yfir 70 manns tóku þátt í þeim og leitað var á fimm stöðum. Leitað var í fyrirtæki Skúla Þorvaldssonar, sem er enn með umfangsmikla starfsemi í Lúxemborg, heima hjá Hreiðari Má, hjá Magnúsi Guðmundssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, og hjá ráðgjafafyrirtækinu Consolium, sem var m.a. í eigu Hreiðars Más. Hópurinn dvaldi alls í ellefu daga í Lúxemborg og lagt var hald á annað hundrað kíló af gögnum. Hann yfirheyrði alls um 15 manns, allt erlenda ríkisborgara sem annað hvort unnu í Kaupþingi í Lúxemborg fyrir hrun eða sinntu ráðgjafastörfum fyrir bankann. Þetta var í annað sinn á tveimur árum sem embættis sérstaks saksóknara réðst í húsleitir og yfirheyrslur í Lúxemborg. Þær aðgerðir snérust um mun fleiri mál en bara Lindsor-málið. Meðal þeirra mála sem verið var að rannsaka er hið svokallaða Marple-mál, þar sem Skúli, Hreiðar Már, Magnús og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri Kaupþings, eru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik.
Í mars 2011 réðst sérstakur saksóknari, Serious Fraud Office í Bretlandi og lögreglan í Lúxemborg í víðtækustu húsleitir sem farið hafa fram í Lúxemborg. Yfir 70 manns tóku þátt í þeim og leitað var á fimm stöðum.
Í kjölfarið voru eignir Skúla, Hreiðars Más, Magnúsar og fleiri í Lúxemborg kyrrsettar. Það var gert að beiðni bæði embættis sérstaks saksóknara og yfirvalda í Lúxemborg. Mest áhersla var lögð á að fá eignir Skúla Þorvaldssonar og félaga sem hann var skráður fyrir kyrrsettar þar sem sérstakur saksóknari taldi að í félögunum væri að finna milljarða króna ágóða af gerningum sem mögulega vörðuðu við lög. Samhliða var ráðist í rannsókn á því hvort Skúli hafi verið raunverulegur eigandi umræddra félaga eða hvort hann hafi verið að „leppa“ þau fyrir helstu stjórnendur Kaupþings.
Í ákærunni í Marple-málinu kom fram að fundist hafi umtalsverðir fjármunir í ýmsum erlendum fjármálastofnunum sem skráðir voru í eigu Skúla Þorvaldssonar eða félaga hans. Ýmist var um að ræða eignasöfn eða innstæður. Eignirnar voru frystar að beiðni embættis sérstaks saksóknara þann 3. júní 2011. Þegar eignirnar voru síðast virtar var virði þeirra 46,7 milljónir evra, eða rúmlega 7,2 milljarðar króna.
Skúli reyndi að fá frystingunni lyft en héraðsdómur hafnaði þeirri beiðni í mars síðastliðnum.
Ákært í öðrum málum
Rúm fjögur ár eru liðin síðan að aðgerðirnar áttu sér stað og rannsókn málsins stendur enn yfir. Samkvæmt heimildum Kjarnans voru nokkrir yfirheyrðir af lögreglunni í Lúxemborg vegna rannsóknar hennar á Lindsor-málinu í mars síðastliðnum.
Sérstakur saksóknari hefur undanfarin ár ákært helstu stjórnendur Kaupþings, og ýmsa aðra, í fjórum stórum málum og Hæstiréttur dæmdi auk þess þá Hreiðar Má, Magnús, Sigurð Einarsson, fyrrum starfandi stjórnarformann Kaupþings, og Ólaf Ólafsson, sem var einn stærsti eigandi bankans, í þunga fangelsisdóma í Al-Thani málinu svokallaða. En ekkert bólar hins vegar á niðurstöðu í Lindsor-málinu.
Hreiðar Már hafnaði því alfarið í aðsendri grein í Fréttablaðinu í október síðastliðnum að féð sem Kaupþing fékk í neyðarlán frá Seðlabanka Íslands hefði verið notað til að kaupa skuldabréf af starfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg, bankanum sjálfum eða vildarviðskiptavinum, líkt og málatilbúnaðurinn í Lindsor-málinu gengur út á.
Hafna ásökunum alfarið
Hreiðar Már hafnaði því alfarið í aðsendri grein í Fréttablaðinu í október síðastliðnum að féð sem Kaupþing fékk í neyðarlán frá Seðlabanka Íslands hefði verið notað til að kaupa skuldabréf af starfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg, bankanum sjálfum eða vildarviðskiptavinum, líkt og málatilbúnaðurinn í Lindsor-málinu gengur út á. Í greininni sagði Hreiðar Már: „Ekkert af fjármagninu sem Kaupþing fékk frá Seðlabanka Íslands var notað til kaupa á eigin skuldabréfum Kaupþings eins og haldið hefur verið fram. Allt fjármagnið var nýtt til að tryggja aðgang viðskiptavina bankans í fjölmörgum löndum Evrópu að bankainnistæðum sínum, tryggja aðgang dótturbanka Kaupþings í Evrópu að lausafé og mæta veðköllum bankans vegna fjármögnunar hans og viðskiptavina hans á verðbréfum hjá alþjóðlegum bönkum í Evrópu. Með öðrum orðum þá var allt féð notað til að tryggja sem frekast var kostur rekstur og hag Kaupþings og viðskiptavina bankans.“
Í samtali við Kjarnann sumarið 2014 sagði Hreiðar að hann hefði þá ekkert heyrt af rannsókn Lindsor-málsins í nokkur ár. Yfirvöld í Lúxemborg höfðu þá ekki yfirheyrt hann vegna þess máls né nokkurra annarra. Hann gerði á þeim tíma ráð fyrir að rannsókninni væri hætt.
Fréttaskýringin byggir að hluta til á skýringu sem birtist í app-útgáfu Kjarnans í júní 2014.