„Lukkuriddararnir“ í bakgarðinum
Þrír fyrrverandi þingmenn, fjögur erlend stórfyrirtæki, félag í eigu svokallaðs hrunverja og fólk úr sveitum Vesturlands koma við sögu í frásögn Sunnu Óskar Logadóttur af fundi þar sem vindorkufyrirtæki kynntu áform sín. „Við viljum þetta ekki,“ sagði fundargestur. Allir þurfa „að taka á sig“ að fá vindmyllur nálægt sér, sagði Vilhjálmur Egilsson, formaður grænbókarnefndarinnar, sem er kominn í verkefni fyrir orkufyrirtækin.
Raustin var brýnd, augun hvesst og það allt að því glóði af rauðum kinnum á hitafundi um áformuð vindorkuver á Vesturlandi sem fram fór í Borgarnesi í síðustu viku. Virkjunaraðilar töluðu um fjárfestingar, loftslagsvá, kolefnishlutlaust ál og gígavattsstundir en minntust fáum, ef nokkrum, orðum á íslenska náttúru og samfélög fólksins í sveitunum þar sem þeir vilja vindvirkjanir sínar. „Mér finnst eins og það hafi verið ráðist á mig,“ sagði kona búsett í Norðurárdal hrygg í bragði. Hún líkt og nær allir sveitungar hennar vill ekki orkuver.
En, segja virkjunaraðilarnir, vegna háleitra markmiða íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, og öllum heiminum til heilla, þurfa „allir að taka það á sig, með einum eða öðrum hætti, að fá vindmyllur einhvers staðar nálægt sér og sjá vindmyllur,“ líkt og Vilhjálmur Egilsson orðaði það á fundinum sem fram fór í menningarhúsinu Hjálmakletti.
Fjögur vindorkufyrirtæki, Qair, Zephyr, EM Orka og Hafþórsstaðir, sem öll áforma vindvirkjanir á Vesturlandi, réðu Vilhjálm til kynningarstarfa fyrir verkefni sín undir hatti samtaka sem þau kalla Vestanátt. Og það var Vestanátt – „versta áttin“ eins og einhverjir fundarmanna hvísluðu sín á milli – sem boðaði til fundarins.
Vilhjálmur, sem er fyrrverandi rektor á Bifröst, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins – og ellilífeyrisþegi, eins og hann sjálfur kallaði sig – stýrði fundinum. Hann hafði framsögu um loftslagsvána, vitnaði ítrekað í grænbókina, skýrslu sem unnin var af starfshópi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í byrjun árs, sem hann sagði sýna að það yrði að virkja mikið, tvöfalda orkuframleiðsluna og rúmlega það. Og byrja sem fyrst.
Þetta er bókin hans Vilhjálms. Hann var formaður starfshópsins. En nýtir nú þá þekkingu og reynslu sem hann aflaði sér til að aðstoða vindorkufyrirtækin í kynningarmálum. Spurningar um flutning Vilhjálms yfir borðið, frá starfi í þágu ríkisstjórnarinnar til starfa hjá hagsmunaaðilum, vöknuðu á fundinum.
En fyrst gerðist þetta:
Fundargestur: „Eiga fundarmenn ekki kost á að spyrja á eftir hverju erindi?“
Vilhjálmur: „Ekki á eftir hverju en á eftir ...“
Gestur: „Er þá nokkur ástæða til að sitja hérna ef við megum ekki spyrja?“
Vilhjálmur: „Þú mátt spyrja sko!“
Kaffiilmur liðast um loftið í þéttsetnum salnum. Þrátt fyrir að flest séu vön að sleppa koffínneyslu á þessum tíma sólarhrings er biðröð í kaffikönnuna. Það er langur fundur fram undan í Hjálmakletti – fundur sem á eftir að fara í ýmsar og jafnvel óvæntar áttir.
Því kaffiangan er ekki það eina sem liggur í loftinu. Heldur líka tortryggni. Tortryggni fólksins sem býr eða á sér athvarf í dölum, í jaðri heiða eða undir fjöllum sem fyrirtækin sem til fundarins boða, öll sem eitt í meirihlutaeigu erlendra aðila, vilja reisa vindorkuver á. Tíu, tuttugu eða þrjátíu vindmyllur – jafnvel fleiri – á hverjum stað. Sem hver og ein gæti verið 150-250 metrar á hæð. Myndu gnæfa yfir sveitina. Raska mögulega rónni og friðnum. Spilla útsýni þeirra og forfeðranna. „Fyrir Norðurál? Við getum kallað þetta Norðurálsdal þá,“ sagði kjarnyrt kona sem á rætur í Norðurárdalnum.
Það logar á teljósum, litlum kertum í álbökkum, á hverju borði salarins. Kannski viðeigandi því Norðurál, álverið á Grundartanga, er þátttakandi í Vestanátt. Fyrirtækið sem stefnir að því að framleiða kolefnishlutlaust ál innan fárra ára, þótt ekki hafi komið fram í máli framkvæmdastjórans hvernig slíku markmiði verði náð með vöru sem á uppruna sinn í báxít-námum hinum megin á hnettinum. Stórt verkefni það.
Logar litlu teljósanna ólmast þegar líður á kvöldið enda blæs nokkuð hressilega á fundinum. Til hans eru mættir tugir fólks á öllum aldri úr sveitum Borgarfjarðar og víðar, sem eiga eftir að hlusta á kynningar sex karla og einnar konu og fá fyrirlestur frá hagfræðingi um „alþjóðlega þróun í loftslags- og orkumálum“. Fá að heyra um samfélagssjóði sem fyrirtækin ætla að stofna og að vindmyllurnar í nágrenni sveitabæja þeirra og sumarhúsa gætu orðið „hluti af lausninni“ svo Íslendingum takist að uppfylla markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.
Því vindmyllurnar sem fyrirtækin vilja reisa á Vesturlandi yrðu aðeins dropi í orkuhafið sem Vilhjálmur, nú fundarstjóri en áður formaður grænbókarhópsins, reiknaði út ásamt félögum sínum að vantaði upp á til að ná markmiðunum.
Gælustarf
„Þetta er gælustarf hjá mér,“ segir Vilhjálmur um aðkomu sína að kynningu virkjunaraðilanna. „Ég er eftirlaunaþegi eins og þið sjáið á mér, orðinn gamall og gugginn.“
Hann segist hafa kynnt sér það sem er að gerast í loftslagsmálum „úti í hinum stóra heimi“ er hann fór fyrir grænbókarnefndinni. Og niðurstaðan: „Það þarf að stórauka fjárfestingar í orkuframkvæmdum“ ef markmið um kolefnishlutleysi, „nettó-núll“ eins og hann kallar það, eiga að nást.
„Það er verið að fjárfesta meira í heiminum í dag í vindorku en í kolum, gasi og kjarnorku samanlagt,“ bendir hann á og á reyndar eftir að gera að minnsta kosti þrisvar sinnum til viðbótar áður en fundinum lýkur. Virkjanakostir í vindorku séu orðnir „hagkvæmari en þeir sem við höfum verið að nota í flestum tilvikum, bæði vatnsorka og jarðhiti. Það er því ekki tilviljun að menn eru að spá í vindorku á Íslandi eins og annars staðar í heiminum“.
Hann vitnar aftur í grænbókina, máli sínu til stuðnings: „Í grænbókinni kom fram að það þarf að tvöfalda raforkuframleiðslu á Íslandi á næstu átján árum til þess að ná kolefnishlutleysi árið 2040.“
Vilhjálmur varpar hverri glærunni á fætur annarri upp á breiðtjald. Yfirskriftir þeirra eru m.a. „Vegið meðalkostnaðarverð við vindorkuvinnslu á landi er lægst samanborið við aðra orkuvinnslu heimsins“ og „Umbreytingarvísitala orkuframleiðslu“. Sum súlu- og línuritin „segja kannski ekki margt“ viðurkennir hann. Og myndvarpinn á erfitt með grænan lit. Hann talar um Kína, ál sem framtíðarmálm og þunglamalegt kerfi hér á landi þegar komi að regluverkinu í kringum orkugeirann. „Á Íslandi hafa aldrei verið til meiri peningar en núna. Með lífeyrissjóðunum. Við höfum fjármagnið, við höfum fólkið, við höfum þekkinguna og getuna. Og þá er spurningin, ætlum við að nýta þessa stöðu til að vera í hópi leiðandi þjóða eða ætlum við að pakka saman og bíða þess sem verða vill?“
Þegar við hoppuðum yfir járnbrautirnar
Að ná kolefnishlutleysi í heiminum „mun styðja við lífskjör fólks um allan heim,“ segir hann. „Lykilatriði í því líka er að ná þróunarlöndunum í gang þannig að þau fari beint úr þeirri stöðu sem þau eru í yfir í grænar lausnir og hoppi yfir kolefnistímabilið með svipuðum hætti og við hoppuðum yfir járnbrautirnar í gamla daga í okkar sögu. Þetta er allt saman gerlegt.“
Vilhjálmur uppsker lófaklapp úr salnum en það eru alls ekki öll sem taka undir. Einhver horfa í gaupnir sér eða fram fyrir sig, nokkuð þung á brún.
Erindi Vilhjálms hefur ekki eytt tortryggninni. Svo mikið er víst.
Fundargestur: „Það liggur fyrir að fólkið á því svæði sem talað er um að setja vindmyllur á er búið að lýsa þeirri skoðun sinni að það vilji alls ekki fá þetta. Hvert er markmiðið með þessum fundi, að snúa fólki við? Fólk hefur komið með mjög skýr skilaboð: Við viljum þetta ekki á okkar svæði. Við ætlum að framleiða hrein matvæli“.
Vilhjálmur: „Ja, við viljum bara kynna þetta hérna. Það er ekki eins og Borgarfjörðurinn sé eini staðurinn í heiminum þar sem menn eru ekki sammála um þetta. En ég er bara að vekja athygli á því að út um allan heim er verið að fjárfesta í vindorku, sólarorku og þessari grænu orku. Og heimurinn er á þeirri vegferð. Við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því, hvort sem okkur líkar við vindmyllur eða ekki. Hvar viljum við vera? Viljum við láta aðra vera með vindmyllurnar eða viljum við vera með sjálf?
Viljum við velta vandanum ... á ég að fara norður í Skagafjörð og tala við Bjarna [Egilsson] bróður og segja við hann: Borgfirðingar eru alveg á móti þessu viltu ekki taka einhverjar vindmyllur á Skagaheiði? En ég segi, fyrir okkur Íslendinga sem heild: Ef við ætlum ekki að reisa eina einustu vindmyllu þá náttúrlega erum við ekki vel stödd.“
Það á aftur eftir að ræða um Skagafjörðinn og „Bjarna bróður“ á fundinum. En fleiri biðja um orðið eftir fyrirlestur Vilhjálms.
Samtalið á að vera við stjórnvöld
Rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir þekkir vel til í Norðurárdal, þar sem foreldrar hennar hafa stundað skógrækt í áratugi. Nú stendur til að byggja vindorkuver á nágrannajörðinni Hvammi sem er í eigu Festis, félags í eigu Ólafs Ólafssonar sem oft er kenndur við Samskip.
„Við sem erum hagsmunaaðilar hérna í Borgarfirði teljum ekki að samtal okkar eigi að vera við ykkur, þessi risafyrirtæki og lukkuriddarana, heldur við stjórnvöld og sveitarstjórnir,“ segir Kristín Helga. Með lukkuriddurum á hún við að þeir fari um landið og merki sér sem flest svæði í þeirri von að eitthvað samfélag sé nógu veikt til að gefa eftir. Þannig treysti þeir á lukkuna. Riddari er augljós tilvísun í heimsbókmenntirnar, þar sem Don Kíkóti var hinn sjónumhryggi riddari sem barðist við vindmyllur.
Með hvaða hatt ert þú, Vilhjálmur?
Hún beinir svo einni spurningu beint til Vilhjálms. „Með hvaða hatt ert þú hér í kvöld? Sem formaður úr grænbókarnefndinni, ertu með þann hatt? Ertu með hatt sem fyrrverandi rektor sem varst í sveitinni okkar eða ertu hér með nýjan hatt?“
Vilhjálmur brosir. „Ég er bara ég,“ segir hann og hlær létt. „Ég er bara eftirlaunaþegi, búinn að vera hérna í Borgarfirðinum í sjö ár og þykir vænt um bæði Borgarfjörðinn og Borgfirðinga. Síðan var ég nú bara að undirbúa frí. Þá var hringt í mig og ég beðinn um að taka að mér þetta verkefni, að kynna mér þetta og kynna þetta verkefni.“
Kristín Helga: „Þú ert ekki loftslagssérfræðingur og kemur ekki hérna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar...“
Vilhjálmur: „Ég kem ekki hérna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.“ Hann er á fundinum fyrir hönd vindorkufyrirtækjanna „og á þeirra vegum“.
Hann heldur svo áfram: „Ég er líka að þessu vegna þess að ég brenn fyrir það að við klúðrum ekki þessari stöðu sem að er hjá okkur í loftslagsmálunum. Mér finnst bara mjög mikilvægt að við hugsum líka sem borgarar í heiminum.“
Kristín Helga: „Þannig að versta áttin er svarið, þið ætlið að bjarga heiminum?“
Vilhjálmur: „Vestanáttin er bara það sem þessi fyrirtæki hafa verið að gera og hugsa. Og þau bara standa fyrir sínu og koma hérna upp og þið getið spurt þau. En þau eru ekki að taka af ykkur vindinn alla vega.“
Andrés Skúlason, verkefnisstjóri hjá Landvernd, spyr hvort Vilhjálmur hafi kynnt sér kolefnislosun frá vindorkuframleiðslu, allt frá framleiðslu mylla og til uppsetningar og reksturs vindorkuvera. Hann vitnar í skýrslu sem sýni að kolefnislosunin í öllu ferlinu sé mikil, svo mikil jafnvel að verin nái ekki að vinna upp kolefnissporið á líftíma sínum.
Meðan Andrés fer yfir rannsóknina hringir sími Vilhjálms. Tónninn líkist hringingu úr gömlum skífusíma. Rétt eins og hann sé að fá símtal úr fortíðinni. Vilhjálmur fiskar símann upp úr jakkavasanum og slekkur á honum.
„Þannig að þegar menn tala um græna orku og loftslagsmál, gætir þú sagt mér hvað er mikil losun frá þeim áformum sem hér eru á ferðinni?“ spyr Andrés.
„Nei, ég get það ekki,“ segir Vilhjálmur og bætir strax við: „Ég hef ekki séð þessa útreikninga sem þú ert að vísa til en mér þætti nokkuð einkennilegt, ég verð að segja það, því það er verið að fjárfesta fyrir hundruð milljarða dollara í vindorku í heiminum, að þetta sé bara allt saman ein vitleysa?“
24 þúsund
Frímann Snær Guðmundsson, hagfræðingur hjá Deloitte, er næstur á sviðið í Hjálmakletti til að kynna úttekt um nýtingu vindorku á Vesturlandi sem unnin var fyrir Vestanátt. Hann segir 24 þúsund gígavattstundir, rúmlega tvöföldun á núverandi orkuframleiðslu Íslands, vera „gífurlega stórar tölur“ sem jafnist á við 5-6 Norðurál. Vindorkuverkefni fyrirtækjanna fjögurra „gætu verði hluti lausnarinnar“.
24 þúsund gígavattstundir. Þessari tölu er ítrekað haldið á lofti á fundinum. Að „væntingarnar“ standi til að ná svo mikilli framleiðsluaukningu, líkt og það sé meitlað í stein.
Sú er hins vegar ekki raunin. Í grænbókinni, sem starfshópur undir forystu Vilhjálms vann, voru dregnar upp sex sviðsmyndir sem hver fyrir sig á að endurspegla mismunandi áherslur í þróun samfélagsins og atvinnulífsins til næstu ára. Miðað við ítrustu forsendur, full orkuskipti í lofti, á hafi og í sjó, er áætlað að rúmlega tvöfalda þurfi núverandi framleiðslu til ársins 2040 – að framleiða þurfi 24 þúsund GWst á ári til viðbótar. Þetta er sú sviðsmynd sem lengst gengur og þarfnast flestra gígavattstunda. Þetta er reyndar nákvæmlega sú tala sem Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, komst að í sínum útreikningum sem lagðir voru fram í vinnu starfshópsins.
Friðjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Qair Iceland, stígur fyrstur á svið af forsvarsmönnum vindorkufyrirtækjanna. Honum er hugsað til orða Kristínar Helgu frá upphafi fundarins. „Ég hef ekki heyrt orðið lukkuriddari áður. Ég hef yfirleitt verið kallaður vatnsgreitt kapítalistasvín, útsendari erlendra auðhringja. Þykir vænst um „sasari“ – sérfræðingur að sunnan. En lukkuriddari fer klárlega í bókina hjá mér.“
Stjórnarformaður Qair á Íslandi er Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Fyrirtækið er í eigu fransks félags og er með mörg vindorkuverkefni í pípunum um allt land. „Okkur er gríðarlega umhugað um að taka þátt í þessum orkuskiptum sem eru að eiga sér stað í heiminum,“ segir Friðjón. Auk vindorkuvera sé félagið með vetnisverkefni í þróun, m.a. eitt á Íslandi, nánar tiltekið á Grundartanga.
Þar yrði um að ræða vetnisverksmiðju sem þyrfti um 840 MW afl. Vindorkuverkefnin níu á Vesturlandi myndu ekki duga til að knýja hana. Friðjón sagði um „gríðarlega“ fjárfestingu að ræða, umfangsmikið verkefni sem vonandi yrði „lykill í orkuskiptum hérna á Íslandi“. Hann bætir svo við: „Þessi verksmiðja verður ekki að veruleika nema að einhver af verkefnum okkar eða kollega minna verði að veruleika.“
Breyta „brjáluðu roki“ í verðmæti
Helgi Hjörvar, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, hefur stofnað fyrirtækið Hafþórsstaði ehf. sem vinnur að þróun þriggja vindorkuvera. Á Vesturlandi er það kennt við Grjótháls, áður reyndar Alviðru, og er í landi jarðarinnar Hafþórsstaða sem er í eigu Helga. „Í stuttu máli er hugmyndin sú að taka þetta brjálaða rok sem er þarna upp á Grjóthálsi og breyta því í verðmæti.“
Hann segir það hafa komið sér vel að hafa verið „víða í orkubransanum“. Hann hafi t.d. verið í stjórn veitustofnana og setið í stjórn Landsvirkjunar. „En fyrst og fremst hef ég alltaf verið mikill áhugamaður um vind.“
Helgi segir verkefnið að Grjóthálsi full fjármagnað af evrópskum stofnanafjárfestum, „en við gerum hins vegar ráð fyrir því að íslenskum fjárfestum verði boðin aðkoma að fjármögnuninni“. Fjölmargir aðilar hafi leitað eftir því að fá að kaupa orkuna „ef skipulagsyfirvöld heimila okkur að reisa þetta þjóðþrifa fyrirtæki sem við teljum það vera.“
Kjörseyri við Hrútafjörð. Brekka í Hvalfirði. Hundastapi á Mýrum. Mosfellsheiði. Allt eru þetta staðir á Vesturlandi sem fyrirtækið Zephyr Iceland, sem er að mestu í eigu norska fyrirtækisins Zephyr, vill reisa vindmyllur á. „Svo erum við með fleiri staði hérna á Vesturlandi til skoðunar,“ segir Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr. „Það er ekki gott að segja hvernig þessi verkefni þróast og hver þeirra eru líklegust til að verða að raunveruleika.“
Hann fer ekki ítarlega ofan í neitt verkefnanna í erindi sínu. Fyrr um daginn hafði hann tjáð sig í umræðuþræði á Facebook um fyrirhugað vindorkuver Zephyr á Brekkukambi, hæsta fjalli á Hvalfjarðarströndinni, sem tugir íbúa og hagsmunaaðila hafa gert athugasemdir við, og mótmælt harðlega. „Varla til upplagðari staður undir vindmyllur,“ skrifaði Ketill og að framkvæmdin „gæti gert fjallið þarna að einhverjum vinsælasta útsýnisstað hér á SV-horni landsins“.
EM orka, sem er í eigu írska félagsins EMPower, er með eitt vindorkuverkefni á Íslandi; í Garpsdal í Reykhólasveit. Ríkharður Ragnarsson er verkefnisstjóri þess og kynnti hugmyndina fyrir fundargestum.
Hann byrjar á því að varpa upp mynd af hinu áformaða virkjanasvæði en þá kemur í ljós að birtan í skjánum er „óheppileg“, eins og hann orðar það. Hún er óheppileg, vissulega, ekki síst vegna þess að vindmyllurnar sem tölvuteiknaðar höfðu verið inn á myndina sjást alls ekki. Þetta er mynd af firði og íslensku fjalli undir skýjuðum himni. Ríkharður afsakar sig og bendir á heimasíðu fyrirtækisins. Þar megi sjá sömu mynd – en í betri gæðum.
Óvissan er „eitur í ykkar beinum“
„Við byrjuðum á því, í raun áður en við gerðum nokkuð annað, að fara til allra sem eru í tíu kílómetra fjarlægð og sýna hvernig verkefnið liti út,“ byrjar hann fyrirlestur sinn á. Og það er óhætt að segja að það sem á eftir kemur falli ágætlega í kramið hjá mörgum fundargesta. Það losnar um spennuna í loftinu um stund. Ríkharður segir EM Orku hafa byggt upp „töluvert mikinn stuðning“ í nærsamfélaginu, „einkum út af því að við vorum mjög fljótir að sýna raunverulega hvernig þetta liti út, við vorum ekkert að draga úr því. Að eyða þeirri óvissu er í raun og veru það fyrsta og eina sem þið hérna í salnum munduð vilja sjá. Þessi óvissa um hvernig vindorkugarðar líta út er náttúrlega eitur í ykkar beinum.“
Verkefnið sé komið á lokastig þróunar „í sátt við nærsamfélagið. Við vissum alveg að stór verkefni krefjast stórra spurninga og svo stórra svara. Við höfum alltaf verið tilbúnir að leggja allt fram“.
Hann óskar því næst eftir spurningum frá fundargestum.
Gestur: „Ég skynja stigsmun á því hvernig ykkur hefur tekist að nálgast nærsamfélagið og hvernig kollegum ykkar sem sitja þarna við borðið hefur tekist til. Spurning mín er: Væri ekki ráð að þú tækir þá í smá lexíu?“
Margir viðstaddra skella upp úr. „Ég veit ekki hvernig þeir myndu taka í það,“ segir Ríkharður og kímir. Vestanátt hafi boðað til fundarins til að „opna vettvanginn“.
„Ef fólk finnur fyrir óvissu þá verður það hrætt og þá byrja mótmæli. Við vissum þetta alveg, þess vegna var okkar fyrsta skref að svara spurningum sem við vissum að væru að fara að koma.“
En með þessum orðum er hann kominn út á hálann ís. Og tortryggnin, sem grunnt var á, vaknar aftur.
Fundargestur 1: „Andstaða byggist á ótta og hræðslu. Er það það sem þú ert að segja?“
Ríkharður: „Ég er ekki að leggja þér orð í munn ...“
Fundargestur 2: „Fáviska. Fáfræði?“
Ríkharður: „Nei, nei, nei ...“
Fundargestur 3: „Illa upplýst og sjáum ekki réttu ljósmyndirnar?“
Athygli hans er vakin á því að önnur vindorkuverkefni á Vesturlandi séu gjörólík því í Garpsdal. Þau yrðu í miklu meira návígi við byggð, inni í samfélögum sem byggja afkomu sína m.a. á ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og öðrum náttúrutengdum greinum.
„Ég er ekki að tala niður til ykkar, ég vil taka það fram,“ segir Ríkharður með áherslu.
Þvínæst sest hann ásamt félögum sínum í Vestanáttinni í sætaröð á sviðinu. Það er komið að umræðum eins og Vilhjálmur hafði lofað.
Jóhanna Leópoldsdóttir, íbúi í Norðurárdal, stendur upp í miðjum salnum og segir frá sinni stöðu. Hún sé flutt aftur í sveitina eftir áratuga fjarveru. Komin á þann aldur að áhyggjur af ýmsum toga séu að baki. „Ég ætlaði að hafa það rosalega gott í sveitinni minni. En mér líður þannig núna, þegar þessar vindorkuhugmyndir eru komnar, eins og það hafi verið ráðist á mig. Mér finnst eins og það hafi verið tekið af mér valdið yfir tíma mínum.“
Allt í einu þurfi hún að eyða mikilli orku í að setja sig inn í hluti sem hún hafi engan áhuga á, eins og orkuflutninga og vindorku. „Ég er sammála því að yfirvöld í þessu landi hafa ekki staðið sig í því að undirbúa okkur en mér finnst þetta fundarboð hljóma eins og áróður.“
Hún spyr svo: „Hverjar eru raunverulegar ástæður þess að þessir aðilar vilja endilega setja vindmyllur upp í bakgarðinum heima hjá mér – í andstöðu við íbúana? Það er rétt sem Vilhjálmur segir að heimurinn stendur frammi fyrir ýmsum vandamálum og af hverju fara [fyrirtækin] ekki þangað sem brýnna er að leysa þau?“
Vilhjálmur er til svars. „Mér finnst það sem þú ert að segja skipta máli,“ byrjar hann á að segja. En heldur svo áfram: „Þegar maður horfir á þetta úr hinni áttinni, þá er spurningin bara hvað er að gerast í heiminum og skipta þessar loftslagsbreytingar máli. Er þetta vegferð sem er ákveðin, í rauninni, þvert á okkar vilja? En ég held að flestir séu nú sammála um að það er raunveruleg þörf fyrir allan heiminn að ná þessum markmiðum, að það sé kolefnishlutleysi.“
Íslensk stjórnvöld hafi sett „metnaðarstigið“ hærra en önnur ríki. „Við þurfum að framleiða græna orku, kolefnisfría orku, á móti þessari kolefnisnotkun sem er í fluginu, fiskiskipunum og bílunum. Síðan þurfum við líka að framleiða orku svo við getum bætt okkar hag.“
Jóhanna: „Fyrirgefðu, þetta var ekkert svar.“
Vilhjálmur: „Af hverju hérna í Borgafirðinum? Þá get ég bara sagt líka, Jóhanna, að ef að við ætlum að ná þessum 24 þúsund [gígavattstundum] með vindmyllum – hvað þurfum við margar vindmyllur á Íslandi?“
Stærstu vindmyllurnar séu 15 MW að afli, bendir hann á. Það þyrfti 300 slíkar. Nær væri að miða við 4-5 MW vindmyllur en „þá myndum við þurfa þúsund,“ segir hann.
Fundargestur: „Það er pláss fyrir þær allar hjá Bjarna [bróður].“
Vilhjálmur svarar hálfhlæjandi: „Þú myndir nú segja eitthvað ef Bjarni fengi þetta allt saman! Ég skal lofa ykkur því að ef Skagfirðingarnir og Þórólfur Gíslason kæmust í þetta þá myndi orkan ekki fara úr Skagafirðinum. Heldur allt verða byggt upp þar!“
Jóhanna: „Væri það ekki bara fínt?“
Vilhjálmur: „Uuh, ok. Ég held að það sé mjög erfitt að koma fyrir 800 vindmyllum á Íslandi, 600 eða þúsund eða hvað þetta er, nema að þeim sé dreift eitthvað um landið og það taki það allir á sig með einum eða öðrum hætti að fá vindmyllur einhvers staðar nálægt sér og sjá vindmyllur.“
„Þetta var vörukynning hér í kvöld og í raun og veru,“ segir Kristín Helga rithöfundur og beinir orðum sínum til fundargesta. „Að hlusta á hagfræðinga tala um hvernig þeir ætla að bregðast við loftslagsmálunum og að við eigum að leggja fram okkar lönd í Norðurárdal til að stöðva kolanotkun í Kína og bjarga Norðuráli.“
Hún rifjar upp orð Guðveigar Eyglóardóttur, oddvita Framsóknarflokksins, fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor en Guðveig skrifaði á Facebook: „Það er enginn að fara að setja vindmyllugarð í Norðurárdal eða annars staðar í sveitarfélaginu. Það er engin ástæða til að fara upp á afturfæturna og eyða orku í að ræða það frekar.“
Kristín Helga segist því stóla á Guðveigu og aðra stjórnmálamenn. „Þar eigum við samtalið.“
Dynjandi lófaklapp.
Jóhanna: „Hvernig leggst það í ykkur að ætla að setja upp vindmyllur í Norðurárdal og í Þverárhlíð í fullkominni andstöðu við samfélagið? Ætlið þið að keyra þetta yfir okkur?“
Friðjón hjá Qair: „Ég held að ég sé í forsvari fyrir lukkuriddarana í bakgarðinum hjá þér, Jóhanna. Það er enginn drifkraftur hjá okkur að setja eitt eða neitt í bakgarðinn hjá þér. Við skoðum og rannsökum staði og svo látum við umsagnaraðila, stofnanir, um það hvort að þetta sé áhugaverður kostur eða ekki. Að þessum rannsóknum loknum getum við sagt hvort við viljum þetta í bakgarðinn hjá þér eða ekki. En okkur líst ágætlega á þennan kost.“
Fundargestur: „Eruð þið tilbúnir að fara fram með þetta verkefni á hnefanum þrátt fyrir augljósa andstöðu samfélagsins?“
Nokkrir aðrir fundargestir: „Heyr heyr!
Helgi Hjörvar: „Við fórum í rannsóknir til að athuga hversu góð staðsetning Grjóthálsinn væri og svo ætlum við að leggja verkefnið í dóm. Við förum ekki í gegnum neitt á hnefanum. [...] Það er Alþingi, sveitarstjórn og skipulagsyfirvaldið sem taka ákvörðun um það í ljósi heildarhagsmuna.“
Vilhjálmur bendir á, enn einu sinni, að verið sé að fjárfesta meira í vind- og sólarorku í dag en í kolum, gasi og kjarnorku samanlagt. „Og ég segi: Það getur bara ekki verið að allt þetta fólk sé einhver fífl, sem er að fjárfesta í þessum verkefnum.“
Hann segir alltaf einhverja andstöðu vera við svona stór verkefni. Hún sé sumstaðar mikil. Sumstaðar minni. „Þið haldið að þið séuð eitthvað sérstök að þessu leyti en það er bara ekki þannig,“ sagði hann við fundargesti í blálok fundarins. „Einhvern veginn þurfum við að komast áfram með þetta mál, hvar sem það endar.“