Miklar umræður hafa verið undanfarna daga um þörf íslensku lögreglunnar fyrir skotvopn eftir að opinberað var að hún, og Landhelgisgæslan, hafa fengið nokkur hundruð MP5-hríðskotabyssur frá Norska hernum undanfarin misseri án þess að upplýst hefði verið með nokkrum hætti um það opinberlega. Enn liggur ekki ljóst fyrir hvort greiða þurfi fyrir vopnin eða hvort þau séu gjöf né hver það var sem tók ákvörðun um að fá þau.
Í janúar síðastliðnum skrifuðu Jón Heiðar Gunnarsson og Oddur Freyr Þráinsson ítarlega fréttaskýringu í Kjarnann um skotvopnaeign Íslendinga, fjölda slíkra vopna sem er að finna í undirheimum Íslands og hvernig Íslendingar standa í samanburði við önnur ríki í þessum málum. Vegna hinnar háværu vopnaumræðu sem nú er uppi endurbirtir Kjarninn fréttaskýringuna.
Margar byssur í íslenskum undirheimum
Í upphafi desembermánaðar féll byssumaður fyrir hendi lögreglunnar í fyrsta sinn á Íslandi. Maðurinn var ekki með byssuleyfi og ekki skráður fyrir byssunni. Byssan var hins vegar skráð og nú stendur yfir rannsókn á því hvernig maðurinn komst yfir hana. Í kjölfar þessa atburðar hafa margar spurningar vaknað varðandi skotvopnaeign Íslendinga. Hversu mörg skráð skotvopn eru í umferð hér á landi? Til hvers eru óskráð vopn notuð og hvernig berast þau til landsins? Hvers vegna eru fá ofbeldisverk tengd skotvopnum hér á landi?
Ísland í fimmtánda sæti
Skotvopnaeign Íslendinga er frekar mikil í samanburði við aðrar þjóðir að mati Helga Gunnlaugssonar afbrotafræðings og prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands. „Tæplega þriðjungur Íslendinga á eða hefur aðgang að skotvopni, sem er ekki minna en við sjáum annars staðar í Evrópu,“ segir Helgi.
Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur við Háskóla Íslands.
Ísland situr í 15. sæti á alþjóðlegum samanburðarlista þegar skotvopnaeign miðað við höfðatölu er skoðuð í alþjóðlegri rannsókn frá samtökunum Small arms survey. Þar kemur fram að Íslendingar eigi um 90.000 byssur en samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustóra er fjöldinn um 60.000 skotvopn. Auk þess eru flutt inn um 1.500 ný skotvopn á hverju ári.
Athygli vekur að tölurnar frá Ríkislögreglustjóra eru töluvert lægri heldur en alþjóðlegu tölurnar en hafa ber í huga að opinber gögn Ríkislögreglustjóra byggja á tölum um skráð skotvopn. Slíkar tölur gera því ekki ráð fyrir öllum þeim óskráðu skotvopnum sem eru í umferð.
Jónas Hafsteinsson, hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir ekki mikið um að óskráð vopn finnist í húsleitum hérlendis. Þau séu nánast teljanleg á fingrum annarrar handar. Þorri þeirra skotvopna sem finnist í húsleitum séu stolin vopn. Eitthvað sé um óskráðar byssur sem keyptar voru áður en byrjað var að skrá byssur á Íslandi. Ómögulegt sé að segja til um hver fjöldi þeirra sé.
Flestir viðmælendur Kjarnans eru sammála um að töluvert magn af skotvopnum sé til staðar í íslenskum undirheimum.
Afsagaðar haglabyssur og hefndaraðgerðir
Heimildarmaður sem þekkir til í undirheimum Íslands, en vildi ekki koma fram undir nafni, segir skotvopnaeign vera stöðuga í íslenskum undirheimum. „Byssurnar liggja alveg hér og þar í mislangan tíma. Þetta eru svipaðar byssur eins og gengur og gerist á íslenskum markaði fyrir utan það að haglabyssurnar eru oft afsagaðar. Ég veit ekki hversu hátt hlutfall af þessum byssum eru óskráðar þar sem raðnúmerin eru vanalega tekin af þeim til að koma í veg fyrir að hægt sé að rekja þær.“
Heimildarmaðurinn nefnir mörg nýleg dæmi þar sem skotvopn komu við sögu. Hann segir þó ótrúlega fá alvarleg mál koma upp í tengslum við skotvopn hér á landi miðað við hversu mikið af byssum er til staðar. „Slík vopn eru notuð þegar allt annað þrýtur í samskiptum mis heimskra manna og þegar svik eða hefnd er með í spilinu. Þetta er aðallega notað í hefndaraðgerðum og til að ógna fólki. Oftast vígbúa menn sig af heimsku, ótta eða vegna þess að þeir eru að taka byssur upp í skuld.“
„Sagan gleymist ekki á litla Íslandi“
Heimildarmaðurinn segir íslensku lögregluna fylgjast vel með og taka fast á skotvopnaeign. „Þeir gera mikið af skotvopnum upptæk. Þegar búið er að taka einhvern einu sinni með byssu þá vill hann ekki láta taka sig aftur því sagan gleymist ekki á litla Íslandi. Ef löggan þekkir þig fyrir að hafa verið með byssu þá ertu alltaf í veseni upp frá því.“
Ef löggan þekkir þig fyrir að hafa verið með byssu þá ertu alltaf í veseni upp frá því.
Hann telur að skotvopnum sé aðallega smyglað hingað til lands frá Asíu og þriðja heims ríkjum. „Það er algengara að menn eignist skotvopn í gegnum þýfi heldur en með smygli þó að það sé alltaf eitthvað um smygl. Þá eru einnig dæmi um að óskráð skotvopn frá fyrri tíð séu til sem erfðagripir innan fjölskyldna.“
Loftbyssur í tollinum
Tollurinn leggur ekki hald á mörg skotvopn samkvæmt Kára Gunnlaugssyni, yfirtollverði. „Við lögðum ekki hald á neinar „alvöru“ byssur á síðasta ári. Við stoppuðum hins vegar 27 loftbyssur á árinu 2012 og 33 árið 2011,“ segir Kári.
Kári Gunnlaugsson, yfirtöllvörður í Leifsstöð.
„Flestar byssurnar koma til landsins í farangri ferðamanna, aðallega með flugi frá Spáni. Þeim er eytt eftir að við gerum þær upptækar.“ Ef ekki eru greidd aðflutningsgjöld af byssum sem eru fluttar inn með löglegum hætti geta þær endað á uppboði að sögn Kára.
Byssur í ótryggum hirslum
Hjálmar Ævarsson, framkvæmdastjóri skotveiðiverslunarinnar Hlaðs, segir tími til kominn að breyta núverandi reglum um geymslu skotvopna til að sporna gegn þjófnaði á þeim. Frá árinu 2008 hefur verið tilkynnt um þjófnað á rúmlega 100 skotvopnum og síðustu ár hefur lögreglan reglulega lagt hald á umtalsvert magn af skotvopnum.
„Það er tímabært að ganga næsta skref í þessum málum, því samkvæmt núgildandi reglum þá ber skotveiðimönnum ekki skylda til að geyma skotvopn í sérstökum byssuskápum fyrr en þeir eiga fjórar byssur eða fleiri,“ segir Hjálmar. „Það væri góð byrjun að koma megninu af byssum í landinu í læstar hirslur til að sporna við þjófnaði á þeim og því mæli ég með því að fólk fái sér byssuskáp við kaup á fyrstu byssu.“
Hjálmar Ævarsson, framkvæmdastjóri skotveiðiverslunarinnar Hlaðs, segir að það þurfi að breyta reglum um geymslu skotvopna til að koma í veg fyrir þjófnað á þeim.
Hann bendir á að í flestum nágrannalöndum okkar er gerð krafa um fjögurra mm þykkt stál í byssuskápum. „Hér heima var slakað á kröfunum hvað þetta varðar. Fjögurra mm skápar eru mun meiri fyrirstaða fyrir þjófa heldur en þriggja mm skápar og því ættu menn að versla þá ef óskað er eftir hámarksöryggi.“
Ólíkt grundvallarviðhorf til skotvopna
Þrátt fyrir töluverða skotvopnaeign hérlendis er sjaldgæft að byssum sé beint gegn fólki á Íslandi. „Hér eru langflest morð framin með eggvopni eða barefli en skotvopn eru notuð í 20 prósent tilfella, ekki ósvipað hlutfallinu sem er annars staðar á Norðurlöndunum. Í Bandaríkjunum er hlutfallið mun hærra, eða meira en helmingur,“ segir Helgi Gunnlaugsson.
Íslendingar líta á skotvopn sem tæki til veiða eða nota við íþróttaiðkun, á meðan Bandaríkjamenn líta líka á vopn sem sjálfsvarnartæki fyrir sig og fjölskyldu sína.
Mikilvægasta ástæðan fyrir þessu er grundvallar munur í viðhorfi fólks til skotvopna. „Íslendingar líta á skotvopn sem tæki til veiða eða nota við íþróttaiðkun, á meðan Bandaríkjamenn líta líka á vopn sem sjálfsvarnartæki fyrir sig og fjölskyldu sína. Þetta er framandi hugsun fyrir okkur. Við lítum ekki á vopn sem tæki til að miða á aðra en fyrir marga Bandaríkjamenn er þetta nauðsynleg vörn gegn alls konar illþýði. Veruleikinn er samt reyndar sá að algengara er að vopnunum sé beitt á fjölskyldumeðlimi eða vini í stundarbrjálæði en að þeim sé beitt gegn vonda fólkinu.”
Lögreglan á Íslandi notar ekki skotvopn og hún virðist kæfa alvarlega glæpi og glæpasamtök strax í fæðingu, að mati Helga. Hann telur þetta virðast vera aðal ástæðuna fyrir því að skotvopnum er ekki beitt í meiri mæli í undirheimum Reykjavíkur. „Með þessum hætti hefur lögreglunni tekist að koma í veg fyrir neikvæða þróun sem enginn Íslendingur vill sjá.“
Lögreglan skýtur flesta
Helgi segir hættuna á aukinni skotvopnanotkun hér á landi vera til staðar en bendir á að slík áhætta sé hugsanlega af öðrum meiði en margir hefðu búist við. „Almennt er það þannig að lögreglan skýtur fleiri en öfugt. Tölurnar frá Bandaríkjunum eru skýrar hvað þetta snertir og hlutfallið er hátt, margfalt fleiri glæpamenn eða borgarar eru drepnir af lögreglu en öfugt.“
Almennt er það þannig að lögreglan skýtur fleiri en öfugt. Tölurnar frá Bandaríkjunum eru skýrar hvað þetta snertir og hlutfallið er hátt, margfalt fleiri glæpamenn eða borgarar eru drepnir af lögreglu en öfugt.
Íslenska lögreglan mun að öllum líkindum taka upp aukinn vopnaburð á einhverjum tímapunkti í framtíðinni að mati Helga. „Mér finnst líklegt að vopnaburður lögreglu á Íslandi verði meiri í framtíðinni. Kannski ekki við dagleg skyldustörf en líklega í lögreglubílum líkt og í nágrannalöndum okkar.“ Hann bendir á að norska lögreglan fékk nýlega leyfi til að hafa skotvopn í læstu hólfi í sínum lögreglubílum. Hingað til hefur norska lögreglan verið með minni vopnaburð heldur en kollegar sínir, bæði í Svíþjóð og Danmörku.
„Sumir fræðimenn og jafnvel aðilar innan lögreglu óttast að við meiri vopnaburð lögreglu verði komið á vígbúnaðarkapphlaupi, að þetta kalli á meiri vopnaburð og beitingu vopna í undirheimum, fyrir utan aukna hættu á voðaskotum,“ segir Helgi. „Við verðum að forðast slíka þróun eftir fremsta megni. Aukinn vopnaburður lögreglu þýðir ekki endilega það sama og aukið öryggi borgaranna og lögreglu.“
Íslenska lögreglan og Landhelgisgæslan fengu nokkur hundruð MP5 hríðskotabyssur frá norska hernum.