Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti stöðugleikamat Seðlabanka Íslands á undanþágubeiðnum Kaupþings, gamla Landsbankans og Glitnis á ríkisstjórnarfundi í morgun. Matið verður kynnt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í fyrramálið, síðan þingflokkum stjórnmálaflokka og lokst verður haldinn blaðamannafundur þar sem málið verður kynnt almenningi. Þetta tilkynnti Bjarni í samtali við RÚV í dag.
Upphaflega átti að kynna matið snemma í október, samhliða birtingu Seðlabankans á Fjármálastöðugleikariti sínu. Í ritinu átti að birtast viðauki um þau stöðugleikaskilyrði sem slitabúin þurfa að greiða til að komast hjá 39 prósent stöðugleikaskatti og um nauðasamning þeirra. Á kynningarfundi vegna útkomu ritsins átti einnig að opinbera mat á tillögum um aðgerðir og greiðslu stöðugleikaframlags sem uppfylla ætti sett stöðugleikaskilyrði stjórnvalda.
Þessari birtingu var
frestað. Frestunin olli miklum titringi á meðal kröfuhafa föllnu bankanna, sem
töldu málið vera í góðum farvegi fram að þeim tíma.
Íslandsbanki afhentur
Klukkan 4:10 aðfaranótt 20. október var opinberuð, í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, ein risastór ástæða fyrir frestun birtingarinnar. Glitnir, það slitabú sem á að greiða mest í stöðugleikaframlag, var ekki að mæta þeim skilyrðum sem fyrir búið höfðu verið sett.
Tilkynningin kom ekki að öllu leyti á óvart, þótt óvenjulega mikil þögn hafi ríkt um innihald hennar. Kjarninn hefur greint frá því að undanförnu að slitabú bæði Kaupþings og Landsbankans væru langt komin með að sýna fram á að þau séu að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda. Sömu sögu hafi ekki verið að segja af Glitni, sem á að greiða hæsta stöðugleikaframlagið og setti fram flóknustu forskriftina til að koma framlaginu til skila.
Vegna stöðunnar höfðu ráðgjafar stærstu kröfuhafa Glitnis, núverandi eiganda 95 prósent hlutar í Íslandsbanka, og framkvæmdahópur um losun fjármagnshafta átt fundi tímabilinu 25. september til 13. október vegna breytinga á stöðugleikaframlagi kröfuhafanna. Niðurstaðan varð sú að afhenda ríkinu Íslandsbanka að fullu. Eftir þessar breytingar taldi framkvæmdahópurinn að slitabú Glitnis sé að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og því séu forsendur fyrir undanþágu frá gjaldeyrishöftum fyrir hendi.
Tíminn á þrotum?
Slitabúin hafa öll fengið samþykki fyrir því á kröfuhafafundum sínum að greiða stöðugleikaframlag til ríkissjóðs. Samtals á það að lágmarki að nema 334 milljörðum króna.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru nauðasamningsdrög Kaupþings og gamla Landsbankans nokkuð nálægt því að mæta uppsettum stöðugleikaskilyrðum. Stóra vandamálið hefur verið Glitnir, það slitabú sem á að greiða uppistöðuna í stöðugleikaframlaginu. Það vandamál var talið leyst með því að búið myndi afhenda Íslandsbanka.
Í morgun var þó greint frá því í Morgunblaðinu að slitastjórnir föllnu bankanna telji að sá tími sem þær hafa til að leggja fram, og undirbúa, frumvarp um nauðasamning vera á þrotum. Ástæðan er sú að Seðlabanki Íslands hefur ítrekað dregið að birta svör um skilyrði fyrir undanþágum frá fjármagnshöftum. Því hafa slitastjórnir gamla Landsbankans (LBI) og Kaupþings þegar sent kröfuhöfum sínum gögn vegna nauðasamninganna, þrátt fyrir að svör Seðlabankans um hvort búin mæti settum stöðugleikaskilyrðum liggi ekki fyrir.
Allt opinberað á morgun
Nú er ljóst að niðurstaðan um hvort slitabúin hafi mætt stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda, sem er forsenda þess að sleppa við 39 prósent stöðugleikaskatt, liggur fyrir. Sú niðurstaða verður kynnt almenningi á morgun.
Þótt niðurstaðan verði sú að öll búin uppfylli skilyrðin er ekki þar með sagt að nauðasamningsleið þeirra gangi upp. Það á enn eftir að leggja nauðasamning fyrir kröfuhafafund og leggja hann svo fyrir dómstóla til samþykktar. Þetta þarf allt að gerast fyrir 31. desember, annars fellur 39 prósent stöðugleikaskattur á búin.
Gamli Landsbankinn áætlar að láta kröfuhafa sína kjósa um nauðasamning sinn 17. nóvember næstkomandi og Kaupþing hefur boðað sína kröfuhafa á fund 24. nóvember til sömu erindagjörða. Glitnir stefnir að því að halda slíkan kröfuhafafund um miðjan nóvember.