Úr einkasafni Á mótorhjólum um Úganda Mynd: Einkasafn
Úr einkasafni

Með „blússandi ADHD“ á meðal villtra dýra Afríku

Mótorhjól. Fjórhjól. Bátar. Bílar og bodaboda. Þrír félagar frá Íslandi nýttu ýmsa fararskjóta á ferðalagi um hið ægifagra Úganda. Þeir gengu með nashyrningum og simpönsum, sáu hlébarða uppi í tré og lentu í árekstri við flóðhest. Blaðamaður Kjarnans hitti þá í höfuðborginni Kampala og fékk að heyra ævintýralega ferðasöguna.

Okkur vant­aði nýja heims­álfu í safn­ið,“ segir Páll Geir Bjarna­son. Blaða­maður Kjarn­ans er að for­vitn­ast um af hverju hann og tveir vinir hans, Björn Sæbjörns­son og Auðun Páls­son, ákváðu að fara í ferða­lag á mót­or­hjólum um Úganda. Mið­baugs­landið gróna og bjarta í Aust­ur-Afr­íku. Þeir hafa nefni­lega farið víða um á mót­or­hjól­um. Síð­ast voru þeir í Víetnam og Laos og þar áður ferð­uð­ust þeir um Taíland og Kam­bó­díu. Þetta eru ævin­týra­menn. Vilja stöðugt sjá eitt­hvað nýtt og drekka í sig öðru­vísi menn­ingu. Og þess á milli að hafa eitt­hvað spenn­andi að hlakka til. „Því það er hluti af ferða­lag­inu. Að und­ir­búa það og hlakka til næsta ævin­týr­is,“ segir Auð­un.

Þeir sitja á móti blaða­manni á huggu­legum veit­inga­stað í Kisem­ent­i-hverf­inu í Kampala, höf­uð­borg Úganda. Það er komið kvöld eftir mikið þrumu­veð­ur. Loftið er hreint eftir rign­ing­arnar og það er hugur þre­menn­ing­anna einnig. Þeir láta sér nefni­lega nægja að drekka í sig það sem fyrir augu og eyru ber. Eru löngu hættir að neyta áfengis og til­heyra nú allir félags­skapnum – bræðra­lag­inu eins og þeir kalla það – Sober Riders MC. Félag­arnir eru hressir og kát­ir, upp­veðraðir eftir stór­kost­legt ferða­lag segja þeir með áherslu.

Allt gekk vel, ef frá er talið rif­beins­brot Auð­uns eftir fall af hjól­inu á mal­ar­vegi. Hann bandar frá sér hend­inni er hann er spurður hvort það hafi sett eitt­hvað strik í reikn­ing­inn. Bein­brotið spillti ekki upp­lifun­inni, segir hann. Þó sleppti hann því að „skrölta um“ í bíl eða „bodaboda“ (skell­inöðru) í þjóð­görðum lands­ins líkt og Páll og Björn gerðu þá daga sem þeir voru ekki á keyrslu. Þess í stað hafi hann heim­sótt barna­skóla og komið þangað fær­andi hendi með skóla­bækur og skrif­færi fyrir um 300 börn.

Síð­asta ferða­lagi þeirra saman lauk í byrjun febr­úar árið 2020. Þeir flugu frá Víetnam til Íslands, þegar allt var í hers höndum á Ítalíu vegna heims­far­ald­urs­ins og ekki lengur sjálf­sagt að kom­ast heims­horna á milli. „En við vorum heppn­ir. Það lok­að­ist bara allt á eftir okk­ur,“ segir Páll.

Í þeirri ferð voru fleiri með­limir Sober Riders MC með og þegar heim var komið var fljót­lega farið að velta fyrir sér hvert skyldi haldið næst.

Hjólin litu kannski ekki fullkomlega út en þau gerðu það sem til af þeim var ætlast.
Úr einkasafni

En hvernig tekur hópur manns sam­eig­in­lega ákvörðun um næsta áfanga­stað?

„Við bara köstum þessu á milli okk­ar,“ segir Björn. Páll sam­sinnir því. „En við erum allir með blússandi ADHD og ofvirkni og þetta allt sam­an. Svo það er nú bara mjög kómískt hvernig svona ákvarð­anir eru teknar hjá okk­ur,“ segir hann og Björn og Auðun kinka kolli og hrist­ast úr hlátri. „Stundum er allt í einu komin ákvörðun en eng­inn man eða veit hvernig það gerð­is­t!“

Þannig að segja má að allt í einu hafi legið fyrir ákvörðun um að fara til Úganda. Um eitt og hálft ár er síðan skipu­lagn­ing ferða­lags­ins hófst. Ekki vilja þeir þó meina að und­ir­bún­ings­vinnan hafi verið tíma­frek. „Ég fór nú bara dag­inn fyrir ferð­ina út í bíl­skúr að leita að jakk­anum mínum og hjálm­in­um,“ segir Páll og kím­ir. Ali, eig­andi fyr­ir­tæk­is­ins Motorcycle Adventures Uganda, sá um skipu­lagið á tólf daga ferð um allt Úganda.

Fékk COVID skömmu fyrir brott­för

En líkt og í heim­ferð­inni frá Víetnam fyrir tveimur árum var COVID-19 enn óvissu­þáttur áður en lagt var af stað frá Íslandi til Afr­íku. Páll fékk COVID-19 tveimur vikum fyrir brott­för og sömu­leiðis öll fjöl­skylda Björns. „Ég var alveg fram á síð­ustu stundu að hugsa: Kemst ég eða ekki?“ rifjar Páll upp. Björn seg­ist hafa verið log­andi hræddur um að smit­ast en það hafi þó sloppið til enda fór hann í „ein­angr­un“ til dóttur sinnar síð­ustu dag­ana fyrir brott­för. Það var grund­vall­ar­at­riði að grein­ast ekki því enn þarf að fram­vísa nei­kvæðu PCR-­prófi við kom­una til Úganda.

Auðun var hins vegar þegar í Ken­ía, nágranna­ríki Úganda, og flaug þaðan til að hitta félaga sína. Hjálma og hlífð­ar­búnað tóku þeir með sér að heiman en Ali leigði þeim hins vegar mót­or­hjól.

Á fjórhjólum við Bujagali Falls í Jinja.
Úr einkasafni

„Ja­há,“ segir Páll hafa verið fyrstu við­brögð þegar hann sá hjól­in. Stefnu­ljósin að aftan voru brotin af, svo dæmi sé tek­ið, og hjólin titr­uðu og skulfu þegar þau voru sett í gang. „Öll ljósin í mæla­borð­inu kvikn­uð­u,“ segir Björn. En Ali bað þá að hafa ekki nokkrar áhyggj­ur, ef eitt­hvað myndi bila væri hann með alla mögu­lega vara­hluti í bílnum sem fylgdi þeim allan tím­ann.

Það gekk eft­ir. Það litla sem bil­aði var lagað á staðn­um. „Um leið og við fórum af stað þá sá maður að brems­urnar virk­uðu fínt og þá var þetta í góðu lag­i,“ segir Auð­un. „Þannig að þetta var bara góð byrjun á skemmti­legu ævin­týri.“ Hjólin voru því engin skrapa­tól eftir allt sam­an, heldur hinir ágæt­ustu far­ar­skjót­ar.

Moldarslóðar eins og nokkuð víða má sjá utan helstu leiða í Úganda. Það var einmitt á svipuðum vegi sem Auðun datt og rifbeinsbrotnaði.
Úr einkasafni

Og svo hófst ferða­lag­ið. Í umferð út úr Kampala sem er þekkt um víða ver­öld fyrir að vera þung og hæg og virð­ast algjör­lega kaó­tísk. Raðir fólks­bíla, flutn­inga­bíla og lít­illa rúta flétt­ast saman við ógrynni af skell­inöðrum, svoköll­uðum bodaboda, sem þræða sig á milli bíl­anna í umferða­tepp­un­um. „Um­ferðin er svo­lítið klikk­uð,“ við­ur­kennir Auð­un. „Það þarf að vera með alla athygl­ina í botni allan tím­ann. En ein­hvern veg­inn þá gengur þetta yfir­leitt upp. Það merki­lega er að það er eitt­hvað skipu­lag í þessu öllu, ein­hver regla í óregl­unn­i.“

Auðun ásamt biskupnum í Jinja. Mynd: Einkasafn

Fyrst lá leiðin til Jinja, lít­illar borgar austar við Vikt­or­íu­vatn, þar sem finna má upp­tök Níl­ar­fljóts. Þar fóru þeir m.a. í fjór­hjóla­ferð og römbuðu svo inn í mik­inn mann­fögn­uð. Gengu eig­in­lega á glað­leg hljóð­in. Við­staddur reynd­ist bisk­upinn í Jinja og tók hann þeim félög­unum fagn­andi. „Honum þótti svo til­komu­mikið þegar að þyngsti mað­ur­inn í hópnum fór að dansa við heima­fólk­ið,“ segir Auðun hlæj­andi og bendir á sjálfan sig. Hann lét sér ekki nægja að dansa heldur skaut sér inn í hljóm­sveit­ina og tók til við að hrista hrist­ur. Auðun og bisk­upinn eru nú orðnir mestu mát­ar. „Hann hefur mik­inn áhuga á Íslandi og vill gjarnan heim­sækja það.“

Frá Jinja var för­inni heitið norð­ur. Keyrt var í nokkra tíma einn dag­inn og hvílt og skoðað sig um þann næsta. Þeir heim­sóttu hvern þjóð­garð­inn á fætur öðrum, þjóð­garða á heims­mæli­kvarða sem eru helsta aðdrátt­ar­afl Úganda – perlu Afr­íku.

Þeir gengu á meðal nas­hyrn­inga og simpansa, komu auga á hlé­barða upp í tré og lentu svo í árekstri við flóð­hest. Engan sak­aði þó, hvorki menn né önnur dýr. Þá voru þeir á sigl­ingu á milli tveggja vatna skammt frá landa­mær­unum að Aust­ur-­Kongó. „Flóð­hest­ur­inn stakk sér upp úr vatn­inu beint undir bátnum sem við vorum í,“ segir Björn. „Allt í einu lyft­ist bát­ur­inn upp og hent­ist til!“ Upp­hófst mik­ill buslu­gangur en leið­sögu­mað­ur­inn sagði öllu óhætt og synti flóð­hest­ur­inn svo sína leið.

Flóðhestur stakk sér upp úr vatninu undir bát félaganna. Mikill buslugangur fylgdi.
Úr einkasafni

Einna eft­ir­minni­leg­ast er dvöl úti á lít­illi eyju í Bunyony­i-vatni. „Þetta er svaka­lega fal­legt svæði, það fal­leg­asta sem ég sá í Úganda,“ segir Björn. Keyrt er upp á fjall og svo „dettur maður niður í dal þar sem vatnið er. Alveg ævin­týra­lega flott með mörgum eyj­u­m“.

Þeir skella upp úr er þeir rifja dvöl­ina í eyj­unni upp enda ýmis­legt sem kom skemmti­lega á óvart. Í fyrsta lagi var bratt upp á hana. Þangað þurftu þeir að príla ein­hverja 200 metra. Áfanga­stað­ur­inn var lítið gisti­heim­ili, tré­kofi í skóg­ar­rjóðri. „Konan sem tók á móti okkur var svo ægi­lega glöð að sjá okk­ur,“ segir Björn enda voru þeir félagar með fyrstu ferða­mönnum til að koma þangað eftir tveggja ára útgöngu­bann í land­inu. Og hún hafði, eðli­lega, ekki verið að birgja sig upp af mat og drykk. „Á barnum var til ein flaska af app­el­sínu­gosi og ein af kóki,“ segir Páll. En því var þó fljót­lega kippt í lið­inn.

„St­urtan og kló­settið var úti og af því að það var raf­magns­laust þá var skugga­legt að fara þangað á nótt­unn­i,“ segir Auð­un. Það hafi þó verið upp­lifun „að tefla við páfann“ undir stjörnu­björtum himni. Hann heldur áfram: „Úti gekk maður í gegnum flugnaf­argan, leð­ur­blökur flugu yfir höfð­inu á manni og svo þegar maður kom aftur inn í her­bergi og reif upp sæng­ina þá voru þar fyrir fullt af maur­um, flugum og örugg­lega fleiri skor­dýr­um. Síðan heyrð­ist líka í eðl­unum hlaupa um vegg­ina. En það þýddi ekk­ert að fást um það. Ég henti mér bara í rúmið og sofn­að­i!“

Við bakka Bunyonyi-vatns.
Úr einkasafni

Í Úganda er dag­legt brauð að sjá vopn­aða verði við versl­an­ir, bens­ín­stöðvar og fleiri þjón­ustu­staði. Sömu sögu er að segja um flesta þjóð­garðs­verði og leið­sögu­menn innan þjóð­garð­anna. Þegar félag­arnir voru í safa­ríi á bodaboda í Murchin­son Falls stóð þeim ekki alveg á sama þegar leið­sögu­mað­ur­inn ók á undan þeim með hríð­skota­byssu um öxl­ina. Á hol­óttum veg­inum og á höstu hjól­inu sveifl­að­ist svo byssan til og frá, skall reglu­lega í hjólið og hlaupið sneri aftur beint í flasið á félög­un­um. „Þetta leit kannski ekki sér­stak­lega vel út fyrir fólk sem óvant því að sjá byss­ur,“ segir Páll.

Félagarnir fengu að vera viðstaddir messu og var vel tekið. Mynd: Einkasafn

Á einum stað á ferða­lag­inu stopp­uðu þeir í litlu þorpi. Álengdar heyrðu þeir að það var messa í gangi. Þeir færðu sig for­vitnir nær og leið­sögu­mað­ur­inn fór og spurði hvort að það væri í lagi að þeir fengju að vera við­stadd­ir. Það var auð­sótt mál. „Þannig að við skund­uðum þangað í öllum mót­or­hjólagall­an­um, inn í messu þar sem var verið að syngja af lífi og sál,“ segir Auð­un. „Við sett­umst aft­ast en það voru allir við­staddir að fylgj­ast með okk­ur.“

Þetta end­aði með því að prest­ur­inn kom og tal­aði við þá og „við vorum drifnir upp að alt­ar­inu og látnir kynna okkur fyrir söfn­uð­in­um,“ segir Björn. Þegar í ljós kom að þeir voru kristnir og færu í kirkju „þá ætl­aði allt um koll að keyra,“ segir Páll. „Þetta var mjög eft­ir­minni­leg­t.“

Það skemmti­leg­asta við ferða­lög er þetta óvænta, heldur hann áfram „Og hið óvænta ger­ist yfir­leitt ekki nema að maður fari út úr sínum túrist­ara­mma.“ Auðun er hjart­an­lega sam­mála. „Maður verður að vera óhræddur við að taka þátt í gleð­inni, sleppa fram af sér beisl­inu. Spjalla við fólk. Þá ger­ast töfr­arn­ir.“

Það er ekki hægt að sleppa þeim félögum við spurn­ing­una um veg­ina í Úganda. Þeir hafa löngum verið þekktir fyrir að vera eins og sann­kallað þvotta­bretti enda oft mal­ar- og mold­ar­slóðar sem svo voru mal­bik­aðir og í mynd­uð­ust miklar hol­ur. Úr þessu hefur verið bætt umtals­vert síð­ustu ár. „Veg­irnir hérna eru miklu betri en ég átti von á,“ segir Björn. „Ein­hverra hluta vegna voru þeir svo mjög fínir í nálægð við fæð­ing­ar­svæði for­set­ans,“ bætir Páll við. Auðun heldur áfram: „Já, þar var allt mal­bikað og vel við hald­ið, flott og fín­t!“

En hversu langt var ferða­lagið í kíló­metrum talið?

„Ef kíló­metra­mælir­inn hefði virkað á hjól­inu þá gæti ég sagt þér það,“ segir Páll hlæj­andi. „Minn mælir virt­ist mæla fet eða eitt­hvað álík­a!“ Á hjóli Björns var mílu­mælir sem virt­ist „nokkuð rétt­ur“ en það „stemmdi þó aldrei við það sem leið­sögu­mað­ur­inn var að segja“. Þeir giska þó á að þeir hafi farið á þriðja þús­und kíló­metra á þessum tólf dög­um. „Þetta hefur verið æðis­leg­t,“ segir Björn af inn­lifun um ferða­lag­ið.

Með sebrahestum.
Úr einkasafni

Eng­inn þeirra hafði áður komið til Úganda. Er blaða­maður Kjarn­ans hitti þá í Kampala var farið að stytt­ast í heim­ferð. Og þegar við­talið birt­ist nú eru þeir komnir til Íslands. Í marg­litar veð­ur­við­var­an­ir. Þar tekur hvers­dags­lífið við, í bili að minnsta kosti. Páll er dag­skrár­stjóri hjá SÁÁ á sjúkra­hús­inu Vogi. Björn sölu­stjóri í Brynju á Lauga­vegi og Auðun starfar hjá Íslenska gáma­fé­lag­inu. Viku­lega hitt­ast þeir og fleiri með­limir Sober Riders MC, bræðra­lags­ins sem stofnað var í Banda­ríkj­unum á tíunda ára­tug síð­ustu aldar og hefur verið með starf­semi á Íslandi frá árinu 2004.

„Þetta eru frjáls bif­hjóla­sam­tök,“ útskýrir Páll sem er for­seti þeirra á Íslandi. „Þetta er ekki deild innan AA-­sam­tak­anna en það er gerð krafa á að með­limir séu edrú. Við eigum það í grunn­inn sam­eig­in­legt að vera edrú og eiga mót­or­hjól. Svo styðjum við hvern annan í líf­inu og hjálp­umst að.“

Þeir láta einnig gott af sér leiða með ýmsum hætti, safna t.d. fjár­munum fyrir ákveðin mál­efni, s.s. Ein­stök börn og Hug­ar­afl. Það var einmitt í gegnum bræðra­lagið sem þeir þrír kynnt­ust. „Í klúbbnum eru menn sem eiga sér sumir langa sögu um að hafa átt í erf­ið­leikum með að ná undir sig fót­unum eftir neyslu,“ segir Björn. „En hafa svo komið inn í klúbb­inn, inn í þetta bræðra­lag, og eign­ast vini. Þetta hefur hjálpað þeim að ná því að vera edrú í mörg ár.“

Þjóðgarðsverðir eru gjarnan með byssur á sér. Sá sem fór með þeim á bodaboda innan eins garðsins var með eina slíka.
Úr einkasafni

Talið berst aftur að Úganda. Þar sem gróð­ur­sældin er gíf­ur­leg, ávextir vaxa víða villt­ir, dýrin hlaupa frjáls um skóga og sléttur og um 45 millj­ónir manna búa.

„Fólkið hér er mjög vina­legt og hefur tekið okkur opnum örm­um,“ segir Auð­un. „Það er víða mikil fátækt og hún eykst eftir því sem norðar og vestar dreg­ur. Þar býr fólk enn í strákof­um. Mér finnst áber­andi hvað konur og börn eru stöðugt að vinna og að bera vatn langar leið­ir. Og mér fannst átak­an­legt að sjá lítil börn bera fimm lítra brúsa og svo kon­urnar að bera tutt­ugu lítra og jafn­vel meira.“

Félagarnir á góðri siglingu. Mynd: Einkasafn

Björn tekur undir þetta. Oft hafi mátt sjá hópa af körlum sitja undir trjám eða á gangi – „á meðan kon­urnar eru stöðugt puð­andi. En alls staðar er fólkið virki­lega elsku­legt og stöðugt að spyrja hvernig maður hafi það með breiðu bros­i.“

Björn á miðbaug. Mynd: Einkasafn

En hvert ætla Sober Riders MC að fara næst í ferða­lag?

„Kannski til Kól­umbíu,“ segir Páll hugsi. „Við viljum auð­vitað bæta enn einni heims­álf­unni við.“ Þeir gleyma sér áfram við að tala um allt fólkið sem þeir kynnt­ust á leið­inni. „Það er það sem stendur upp úr,“ segir Auð­un.

„Sumum fannst alveg truflað að við værum að fara að ferð­ast hing­að,“ rifjar Björn upp. „Sögðu okkur að passa okkur á ljón­unum og þar fram eftir göt­un­um. Héldu að við yrðum í stöðugri lífs­hættu. En við vorum aldrei í hættu. Þetta var bara rosa­legt ævin­týri frá upp­hafi til enda.“

Auðun tekur í sama streng og segir svo: „Fyrir mig þá skilur þetta umtals­vert meira eftir heldur en Tenerife-­ferð.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal