Landsvirkjun áformar að auka aflgetu þriggja virkjana sinna á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu með því að bæta einni túrbínu við þær allar. En til að þessi stækkun skili aukinni raforkuframleiðslu þarf meira rennsli að koma til. Þrennt getur stuðlað að því: Aukin bráðnun jökla og/eða aukin úrkoma – tvö atriði sem Landsvirkjun tiltekur í áformum sínum – en einnig stórtækur flutningur vatns vestar úr vatnasviði Þjórsár, norðan núverandi virkjana.
Og það er einmitt hugmyndin með hinni umdeildu Kjalölduveitu sem Alþingi samþykkti fyrir helgi, á síðasta degi þingsins, að setja í biðflokk rammaáætlunar en ekki í verndarflokk líkt og verkefnisstjórn áætlunarinnar hafði lagt til og upprunaleg þingsályktunartillaga gerði ráð fyrir.
Landsvirkjun hefur lengi talað fyrir því að Kjalölduveita verði ekki sett í verndarflokk. Að hún sé ekki önnur útgáfa af Norðlingaölduveitu líkt og verkefnisstjórn rammaáætlunar komst að á sínum tíma. Hún sé utan friðlands Þjórsárvera þótt þar muni aðeins örfáum kílómetrum.
Sú ósk fyrirtækisins hefur nú verið uppfyllt með afgreiðslu nýrrar rammaáætlunar.
Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið telja að með fyrirhuguðum stækkunum Vatnsfells-, Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana ætli Landsvirkjun „bakdyramegin í Kjalölduveitu“. Stækkanirnar séu „óarðbærar og gagnslausar“ nema að fyrirtækið fari einnig í þá virkjun. „Án þess að fá viðbótarvatn úr Þjórsá yrði viðbótarraforkuframleiðsla alltof lítil til að bera sig fjárhagslega,“ sögðu samtökin í fréttatilkynningu vegna málsins á dögunum.
Þessu hafnar Landsvirkjun. Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri vatnsafls hjá fyrirtækinu, sagði t.d. í viðtali við Morgunblaðið þurfa „fjörugt ímyndunarafl“ til að tengja stækkanirnar og Kjalölduveitu saman.
En stjórnendur Landsvirkjunar neita því þó ekki að Kjalölduveita myndi bæta nýtingu vatns á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, „og þar með arðsemi bæði núverandi virkjana og stækkana á þeim“. Þetta kom fram í minnisblaði Landsvirkjunar sem sent var umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í byrjun mánaðarins. Engu að síður væri Kjalölduveita „ekki forsenda slíkra stækkana“.
Minnisblaðið sendi Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, er nefndin óskaði eftir skýrari svörum um forsendur þess að ráðast þyrfti í stækkun virkjananna. Nefndin var þá bæði með tillögu að rammaáætlun til meðferðar og frumvarp um breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) sem einfalda stækkun virkjana sem þegar eru í rekstri.
Með breytingunni, sem líkt og þriðji áfangi rammaáætlunar var samþykkt á lokadögum þingsins, þurfa slíkar stækkanir ekki lengur að fara í gegnum ferli rammaáætlunar. Þær þurfa ekki að koma til mats faghópa hvers áfanga hennar og verkefnisstjórnar. Svo framarlega sem stækkunin feli ekki í sér rask á óröskuðu landi. „Með því að undanskilja stækkanir á virkjunum sem eingöngu hafa áhrif á það landsvæði sem þegar er búið að taka ákvörðun um að heimila nýtingu á verður hægt að hraða framkvæmdum til að auka afkastagetu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Stækkanir á virkjunum þurfa áfram sem hingað til að fara í gegnum umhverfismat, það er að segja ef þær fela í sér matsskyldar framkvæmdir samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar. Það ferli getur vissulega tekið nokkra mánuði en þó ekki mörg ár líkt og reynslan hingað til er af afgreiðslu áfanga rammaáætlunar.
Samtals hyggst Landsvirkjun auka uppsett afl virkjananna þriggja um 210 MW en áætlað er að samanlögð orkuvinnslugeta myndi með þessu aðeins aukast um 25–42 gígavattstundir (GWst) á ári.
Raforkuvinnsla á Íslandi árið 2020 var 19.127 GWst. Verði allar virkjanirnar þrjár stækkaðar myndi það eingöngu hafa 0,13-0,22 prósent vinnsluaukningu í för með sér miðað við það ár. Við núverandi aðstæður myndu stækkanirnar auka vinnslu í virkjununum þremur um 1-1,5 prósent. Það verður að teljast mjög lítið.
Athygli höfunda frumvarps vakin
Þetta fór ekki framhjá höfundum lagafrumvarpsins um stækkunarheimildirnar.
„Athygli vekur að aukning í orkuvinnslugetu vatnsaflsvirkjananna þriggja er lítil miðað við hve uppsett afl eykst mikið,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu. „Í venjulegu árferði hefur vatnsaflsvirkjun með uppsett afl 210 MW orkuvinnslugetu upp á um 1300 GWst á ári. En því er ekki að heilsa hvað þessar áformuðu stækkanir Landsvirkjunar áhrærir.“
En hvers vegna vill Landsvirkjun þá að ráðast í dýrar og umfangsmiklar framkvæmdir í þremur virkjunum ef ávinningurinn – rafmagnsframleiðslan – er ekki meiri?
„Aukavélbúnaðinum sem setja á upp í umræddum stækkunum er ætlað að nýta leysingavatn sem í núverandi ástandi fer ónýtt fram hjá vélum stöðvanna þegar mikið rennsli er í ánum og miðlunarlón full,“ sagði í greinargerð frumvarpsins. „Slíkar aðstæður eru fyrir hendi í einungis skamman tíma á hverju ári og því yrðu viðbættu vélarnar nýttar aðeins í þann stutta tíma.“
Það þarf sem sagt meira vatn. Svo að nýju vélarnar skili þeim GWst af orku sem þær ráða við að framleiða miðað við aflgetu sína.
„Með þessari aflaukningu eykst orkuvinnslugeta stöðvarinnar aðeins lítillega nema að til komi meira rennsli, til dæmis með aukinni bráðnun jökla eða aukinni úrkomu,“ segir Landsvirkjun í nýframlagaðri matsáætlun vegna stækkunar Sigölduvirkjunar um allt að 65 MW. Þar með er hafið umhverfismat á stækkun fyrstu virkjunarinnar af þremur.
Sigölduvirkjun, sem gangsett var í byrjun árs 1978, er 150 MW að afli en yrði 215 MW með því að bæta við fjórðu túrbínunni. „Hins vegar þá verður orkuvinnslugeta stöðvarinnar sambærileg og hún er í dag nema að til komi meira rennsli,” segir á öðrum stað í matsáætluninni. Í henni er hvergi minnst á þriðja valmöguleikann: Að afla meira vatns inn í virkjanakerfið með veitu ofar á vatnasvæðinu.
Tilgangurinn með fyrirhugaðri aflaukningu í Sigöldustöð er að sögn Landsvirkjunar „auka sveigjanleika í orkuafhendingu“ og gera fyrirtækinu kleift að mæta afltoppum þegar eftirspurn er í hámarki. „Síðustu ár hefur rennsli aukist vegna hlýnunar loftlags og einnig er rennsli til stöðvarinnar meira í dag en það var þegar stöðin var byggð vegna ýmissa framkvæmda við veitur og miðlanir.“
Jöklar bráðna og rennslið eykst
Á næstu árum geri spár ráð fyrir markvert hærra meðalrennsli í ám á Íslandi árin 2021-2050 heldur en var á árunum 1961-1990 þegar Sigöldustöð var byggð.
Það er bláköld staðreynd að jöklar landsins eru að rýrna vegna loftslagsbreytinga og sumir þeirra gætu jafnvel horfið á næstu 1-2 öldum, gangi spár eftir. Afrennsli af þeim mun því halda áfram að aukast á næstu áratugum, líkt og Veðurstofan hefur sett fram í sviðsmyndum sínum.
Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið telja engu að síður augljóst að stækkanir virkjananna þriggja gætu „aldrei borgað sig“ sem sjálfstæðar framkvæmdir.
Kostnaðurinn 6-8 sinnum meiri en mögulegar tekjur
Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Íslands, vann að beiðni samtakanna arðsemismat fyrir stækkanirnar. Hann mat núvirtar framtíðartekjur af þeim á bilinu 600–2.500 milljónir króna miðað við hagrænan afskriftartíma upp á 25 ár. Til samanburðar yrði kostnaður við framkvæmdirnar samanlagt vart undir 15–20 milljörðum, eða um 5–7 milljarðar króna á hverja stækkun. Kostnaður yrði því um 6–8 sinnum meiri en mögulegar tekjur og væri þar þá ekki tekið tillit til vaxtakostnaðar eða orkusölutaps meðan á framkvæmdum stæði.
Að mati Náttúrugriða er því enginn fjárhagslegur grundvöllur fyrir stækkununum sem sjálfstæðum virkjanakostum, byggt á þeim upplýsingum sem Landsvirkjun hefur sent inn til Orkustofnunar. „Til þess að stækkanirnar gengju upp þyrfti aukið vatn í uppistöðulón virkjananna þriggja enda væri eina raunhæfa leiðin að auka vatnsrennslið í gegnum stækkanirnar og framleiða þannig meiri raforku. Eini möguleiki Landsvirkjunar á að auka vatnsmagnið væri með Kjalölduveitu.“
Með Kjalölduveitu yrði Þjórsá stífluð nokkrum kílómetrum neðar en áætlað var með Norðlingaölduveitu á sínum tíma. Stífla yrði reist þvert yfir farveg Þjórsár með inntakslóni, dælum, rennslisgöngum og skurðum. Frá inntakslóninu yrði vatni dælt til austurs yfir í Þórisvatn þaðan sem það myndi renna í gegnum allar þrjár virkjanirnar sem Landsvirkjun hyggst stækka.
Kjalölduveita yrði reist á óröskuðu landi og hefði til dæmis mikil áhrif á rennsli í fjórum fossum, misjafnlega mikið eftir árstíma þó. Fossar njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Ef af Kjalölduveitu yrði myndu þeir verða bergvatnsfossar að mestu því jökulvatninu yrði veitt fram hjá þeim.
Viðhald og vindorkuver
Landsvirkjun hefur rökstutt áformaðar stækkanir með fleiri þáttum en auknu vatnsrennsli. Þannig hefur komið fram að nýjar vélar kæmu sterkar inn þegar þær eldri þurfa viðhald. Auk þess þurfi meira afl í rafmagnsframleiðslu vegna áformaðra vindorkuvera. Einn slíkur virkjanakostur, Búrfellslundur, var einmitt færður úr biðflokki tillögu að rammaáætlun í nýtingarflokk við afgreiðslu þingsins í síðustu viku. Sá er á Hafinu, svæði austan Þjórsár. Umhverfismati á þeirri áformuðu framkvæmd lauk árið 2016.
Með gerð vindorkugarða aukast sveiflur í eftirspurn eftir rafmagni frá vatnsaflsvirkjunum, bendir Sigurður forstöðumaður Hagfræðistofnunar á í arðsemismati sínu. „Þegar vindur blæs sem mest má safna vatni í virkjunarlón, en tappa af þeim þegar lygnt er.“ Með nýjum aflvélum gefist því færi á að laga framleiðsluna betur að eftirspurn.
En ef Landsvirkjun á að hafa verulegar tekjur af stækkununum verður verðlagning á rafmagni að breytast, skrifar hann. Erlendis sé rafmagnsverð síbreytilegt – hæst þegar eftirspurnin er mest. En slíku er ekki að heilsa hér á landi. Verðlagningin er, að sögn Sigurðar, „frumstæðari“ en í grannlöndunum. „Heildsöluverð er tregbreytilegt og varla hægt að segja að það taki mið af framboði og eftirspurn. Meginástæðan er yfirburðastaða Landsvirkjunar, sem í raun er einráð á heildsölumarkaði.“
Lög gera ráð fyrir að Landsnet reki markað með rafmagn. Slíkur markaður hefur að sögn Sigurðar nokkrum sinnum verið boðaður, enn ekkert hefur enn orðið úr þeim ráðagerðum.
Öll verkefni þurfa að skila arðsemi
„Landsvirkjun vill ítreka að kostnaðarverð fyrir allar stækkanir og aflaukningar í virkjunum á Þjórsársvæði [...] eru skoðaðar óháð Kjalölduveitu,“ skrifaði Kristín Linda aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar í minnisblaði sínu til þingnefndarinnar á dögunum. Öll þau stækkunar- og aflaukningaverkefni sem Landsvirkjun ráðist í þurfi hverju sinni að skila arðsemi í samræmi við kröfur eiganda Landsvirkjunar.
Eigandinn er íslenska ríkið.
„Um er að ræða hagkvæman kost til aflaukningar þar sem að mannvirki, sem nú þegar eru til staðar, yrðu nýtt betur,“ stendur í matsáætlun Landsvirkjunar vegna áformaðrar stækkunar Sigölduvirkjunar. „Með því að nýta betur aukið rennsli er Landsvirkjun að sinna hlutverki sínu um að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.“
Einnig segir fyrirtækið ljóst að þörf sé á aukinni orkuframleiðslu og sveigjanleika í afli til að anna orkuskiptum á komandi áratugum. Hvort reisa þurfi nýjar virkjanir vegna orkuskipta er þó umdeilt.
Mikill stuðningur við frumvarpið
Flestir ef ekki allir eru áfram um að auka nýtingu núverandi virkjana frekar en að ráðast í nýjar virkjanir. Frumvarpinu um að stækkanir virkjana þurfi ekki lengur að fara í gegnum rammaáætlun var því tekið fagnandi af mörgum. Auðvitað á að heimila stækkanir sem ekki raska áður óröskuðu landi.
Um það er vart deilt og það skýrir þá samstöðu sem var um þessa lagabreytingu á þingi miðvikudaginn 15. júní. Fimmtíu þingmenn sögðu já. Sex greiddu ekki atkvæði. Enginn sagði fullum fetum nei.
Meðal þeirra sem sagði já var Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Hún hafði þó gert fyrirvara við álit meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um málið. Í álitinu kemur fram það mat meirihlutans að með hliðsjón af skýringum sem Landvirkjun gaf, yrðu stækkunaráformin í virkjununum í þremur í Þjórsá arðbær ein og sér og að „Kjalölduveita sé með öllu ótengd fyrirhuguðum stækkunaráformum“.
Þannig væri mikilvægt að hafa í huga að Kjalölduveita hefði í för með sér umhverfisrask á óröskuðu landi. Áréttaði meirihlutinn í því sambandi að aukinni aflþörf sé mætt með stækkun virkjana á þegar röskuðu landsvæði.
Þórunn skrifaði undir álitið en með þeim fyrirvara að hún teldi ekki liggja fyrir gögn „sem styðja það mat meirihluta nefndarinnar að stækkunaráform Landsvirkjunar á virkjunum í Þjórsá séu arðbær sem sjálfstæðar framkvæmdir“.
Biðleikurinn
Kjalölduveita er sem fyrr segir komin í biðflokk rammaáætlunar. Í þann flokk áætlunarinnar falla þær virkjanahugmyndir sem afla þarf frekari gagna um áður en hægt er að ákveða hvort þær falli að endingu í annað hvort nýtingarflokk eða verndarflokk. Það verður hlutverk verkefnisstjórnar fimmta áfanga áætlunarinnar, sem þegar hefur tekið til starfa, að gera tillögu þar um. Síðan er það á ábyrgð Alþingis að ákvarða endanlega hvar veitan, sem sumir vilja meina að sé Norðlingaölduveita í dulargervi – virkjun rétt utan friðlandsmarka Þjórsárvera sem gæti engu að síður haft áhrif á þá einstöku náttúrusmíð – endar í næsta áfanga rammaáætlunar. Hvort virkjað verði eða verndað.