Árni Tryggvason

„Meira rennsli“ forsenda þess að stækkun Þjórsárvirkjana skili meiri orku

Til að stækkanir á þremur virkjunum Landsvirkjunar á hálendinu skili aukinni orku þarf meira vatn að renna í gegnum þær. Þrennt getur uppfyllt þá þörf: Bráðnun jökla, meiri úrkoma og ný veita. „Fjörugt ímyndunarafl“ þarf að sögn forstöðumanns hjá Landsvirkjun til að tengja stækkanirnar og áformaða Kjalölduveitu saman líkt og náttúruverndarsamtök hafa gert. Fyrirtækið neitar því þó ekki að vissulega myndi Kjalölduveita, sem á síðustu dögum þingsins var sett í biðflokk rammaáætlunar, þvert á tillögur verkefnisstjórnar og faghópa, bæta nýtingu og auka arðsemi virkjananna. En hún væri ekki forsenda fyrir stækkun þeirra.

Lands­virkjun áformar að auka afl­getu þriggja virkj­ana sinna á Þjórs­ár- og Tungna­ár­svæð­inu með því að bæta einni túrbínu við þær all­ar. En til að þessi stækkun skili auk­inni raf­orku­fram­leiðslu þarf meira rennsli að koma til. Þrennt getur stuðlað að því: Aukin bráðnun jökla og/eða aukin úrkoma – tvö atriði sem Lands­virkjun til­tekur í áformum sínum – en einnig stór­tækur flutn­ingur vatns vestar úr vatna­sviði Þjórs­ár, norðan núver­andi virkj­ana.

Og það er einmitt hug­myndin með hinni umdeildu Kjalöldu­veitu sem Alþingi sam­þykkti fyrir helgi, á síð­asta degi þings­ins, að setja í bið­flokk ramma­á­ætl­unar en ekki í vernd­ar­flokk líkt og verk­efn­is­stjórn áætl­un­ar­innar hafði lagt til og upp­runa­leg þings­á­lykt­un­ar­til­laga gerði ráð fyr­ir.

Lands­virkjun hefur lengi talað fyrir því að Kjalöldu­veita verði ekki sett í vernd­ar­flokk. Að hún sé ekki önnur útgáfa af Norð­linga­öldu­veitu líkt og verk­efn­is­stjórn ramma­á­ætl­unar komst að á sínum tíma. Hún sé utan friðlands Þjórs­ár­vera þótt þar muni aðeins örfáum kíló­metr­um.

Sú ósk fyr­ir­tæk­is­ins hefur nú verið upp­fyllt með afgreiðslu nýrrar ramma­á­ætl­un­ar.

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tökin Nátt­úru­grið telja að með fyr­ir­hug­uðum stækk­unum Vatns­fells-, Sig­öldu- og Hraun­eyja­foss­virkj­ana ætli Lands­virkjun „bak­dyra­megin í Kjalöldu­veit­u“. Stækk­an­irnar séu „óarð­bærar og gagns­laus­ar“ nema að fyr­ir­tækið fari einnig í þá virkj­un. „Án þess að fá við­bót­ar­vatn úr Þjórsá yrði við­bót­arraforku­fram­leiðsla alltof lítil til að bera sig fjár­hags­lega,“ sögðu sam­tökin í frétta­til­kynn­ingu vegna máls­ins á dög­un­um.

Þessu hafnar Lands­virkj­un. Gunnar Guðni Tóm­as­son, fram­kvæmda­stjóri vatns­afls hjá fyr­ir­tæk­inu, sagði t.d. í við­tali við Morg­un­blaðið þurfa „fjörugt ímynd­un­arafl“ til að tengja stækk­an­irnar og Kjalöldu­veitu sam­an.

Áhrif áformaðra stækkana virkjana Landsvirkjunar á orkuframleiðslu.
Náttúrugrið

En stjórn­endur Lands­virkj­unar neita því þó ekki að Kjalöldu­veita myndi bæta nýt­ingu vatns á Þjórs­ár- og Tungna­ár­svæð­inu, „og þar með arð­semi bæði núver­andi virkj­ana og stækk­ana á þeim“. Þetta kom fram í minn­is­blaði Lands­virkj­unar sem sent var umhverf­is- og sam­göngu­nefnd Alþingis í byrjun mán­að­ar­ins. Engu að síður væri Kjalöldu­veita „ekki for­senda slíkra stækk­ana“.

Minn­is­blaðið sendi Kristín Linda Árna­dótt­ir, aðstoð­ar­for­stjóri Lands­virkj­un­ar, er nefndin óskaði eftir skýr­ari svörum um for­sendur þess að ráð­ast þyrfti í stækkun virkj­an­anna. Nefndin var þá bæði með til­lögu að ramma­á­ætlun til með­ferðar og frum­varp um breyt­ingar á lögum um vernd­ar- og orku­nýt­ing­ar­á­ætlun (ramma­á­ætl­un) sem ein­falda stækkun virkj­ana sem þegar eru í rekstri.

Með breyt­ing­unni, sem líkt og þriðji áfangi ramma­á­ætl­unar var sam­þykkt á loka­dögum þings­ins, þurfa slíkar stækk­anir ekki lengur að fara í gegnum ferli ramma­á­ætl­un­ar. Þær þurfa ekki að koma til mats fag­hópa hvers áfanga hennar og verk­efn­is­stjórn­ar. Svo fram­ar­lega sem stækk­unin feli ekki í sér rask á órösk­uðu landi. „Með því að und­an­skilja stækk­anir á virkj­unum sem ein­göngu hafa áhrif á það land­svæði sem þegar er búið að taka ákvörðun um að heim­ila nýt­ingu á verður hægt að hraða fram­kvæmdum til að auka afkasta­getu þeirra virkj­ana sem þegar eru í rekstri,“ segir í grein­ar­gerð frum­varps­ins.

Umhverfismat vegna stækkunar Sigölduvirkjunar er hafið. Á myndinni sést kerfið sem fóðrar virkjunina af vatni til öflunar rafmagns.
Landsvirkjun

Stækk­anir á virkj­unum þurfa áfram sem hingað til að fara í gegnum umhverf­is­mat, það er að segja ef þær fela í sér mats­skyldar fram­kvæmdir sam­kvæmt ákvörðun Skipu­lags­stofn­un­ar. Það ferli getur vissu­lega tekið nokkra mán­uði en þó ekki mörg ár líkt og reynslan hingað til er af afgreiðslu áfanga ramma­á­ætl­un­ar.

Sam­tals hyggst Lands­virkjun auka upp­sett afl virkj­an­anna þriggja um 210 MW en áætlað er að sam­an­lögð orku­vinnslu­geta myndi með þessu aðeins aukast um 25–42 gíga­vatt­stundir (GWst) á ári.

Raf­orku­vinnsla á Íslandi árið 2020 var 19.127 GWst. Verði allar virkj­an­irnar þrjár stækk­aðar myndi það ein­göngu hafa 0,13-0,22 pró­sent vinnslu­aukn­ingu í för með sér miðað við það ár. Við núver­andi aðstæður myndu stækk­an­irnar auka vinnslu í virkj­un­unum þremur um 1-1,5 pró­sent. Það verður að telj­ast mjög lít­ið.

Athygli höf­unda frum­varps vakin

Þetta fór ekki fram­hjá höf­undum laga­frum­varps­ins um stækk­un­ar­heim­ild­irn­ar.

„At­hygli vekur að aukn­ing í orku­vinnslu­getu vatns­afls­virkj­an­anna þriggja er lítil miðað við hve upp­sett afl eykst mik­ið,“ sagði í grein­ar­gerð með frum­varp­inu. „Í venju­legu árferði hefur vatns­afls­virkjun með upp­sett afl 210 MW orku­vinnslu­getu upp á um 1300 GWst á ári. En því er ekki að heilsa hvað þessar áform­uðu stækk­anir Lands­virkj­unar áhrær­ir.“

En hvers vegna vill Lands­virkjun þá að ráð­ast í dýrar og umfangs­miklar fram­kvæmdir í þremur virkj­unum ef ávinn­ing­ur­inn – raf­magns­fram­leiðslan – er ekki meiri?

„Auka­vél­bún­að­inum sem setja á upp í umræddum stækk­unum er ætlað að nýta leys­inga­vatn sem í núver­andi ástandi fer ónýtt fram hjá vélum stöðv­anna þegar mikið rennsli er í ánum og miðl­un­ar­lón full,“ sagði í grein­ar­gerð frum­varps­ins. „Slíkar aðstæður eru fyrir hendi í ein­ungis skamman tíma á hverju ári og því yrðu við­bættu vél­arnar nýttar aðeins í þann stutta tíma.“

Það þarf sem sagt meira vatn. Svo að nýju vél­arnar skili þeim GWst af orku sem þær ráða við að fram­leiða miðað við afl­getu sína.

„Með þess­ari aflaukn­ingu eykst orku­vinnslu­geta stöðv­ar­innar aðeins lít­il­lega nema að til komi meira rennsli, til dæmis með auk­inni bráðnun jökla eða auk­inni úrkomu,“ segir Lands­virkjun í nýfram­lag­aðri mats­á­ætlun vegna stækk­unar Sig­öldu­virkj­unar um allt að 65 MW. Þar með er hafið umhverf­is­mat á stækkun fyrstu virkj­un­ar­innar af þrem­ur.

Á kortinu má var virkjanirnar þrjár sem áformað er að stækka, Vatnsfells, Sigöldu og Hrauneyjafossvirkjanir, er að finna. Þórisvatn er stærsta uppistöðulónið á svæðinu þaðan sem vatni er miðlað til virkjananna.
Landsvirkjun

Sig­öldu­virkj­un, sem gang­sett var í byrjun árs 1978, er 150 MW að afli en yrði 215 MW með því að bæta við fjórðu túrbín­unni. „Hins vegar þá verður orku­vinnslu­geta stöðv­ar­innar sam­bæri­leg og hún er í dag nema að til komi meira rennsl­i,” segir á öðrum stað í mats­á­ætl­un­inni. Í henni er hvergi minnst á þriðja val­mögu­leik­ann: Að afla meira vatns inn í virkj­ana­kerfið með veitu ofar á vatna­svæð­inu.

Til­gang­ur­inn með fyr­ir­hug­aðri aflaukn­ingu í Sig­öldu­stöð er að sögn Lands­virkj­unar „auka sveigj­an­leika í orku­af­hend­ingu“ og gera fyr­ir­tæk­inu kleift að mæta afltoppum þegar eft­ir­spurn er í hámarki. „Síð­ustu ár hefur rennsli auk­ist vegna hlýn­unar loft­lags og einnig er rennsli til stöðv­ar­innar meira í dag en það var þegar stöðin var byggð vegna ýmissa fram­kvæmda við veitur og miðl­an­ir.“

Jöklar bráðna og rennslið eykst

Á næstu árum geri spár ráð fyrir mark­vert hærra með­al­rennsli í ám á Íslandi árin 2021-2050 heldur en var á árunum 1961-1990 þegar Sig­öldu­stöð var byggð.

Það er bláköld stað­reynd að jöklar lands­ins eru að rýrna vegna lofts­lags­breyt­inga og sumir þeirra gætu jafn­vel horfið á næstu 1-2 öld­um, gangi spár eft­ir. Afrennsli af þeim mun því halda áfram að aukast á næstu ára­tug­um, líkt og Veð­ur­stofan hefur sett fram í sviðs­myndum sín­um.

Nátt­úru­vernd­ar­sam­tökin Nátt­úru­grið telja engu að síður aug­ljóst að stækk­anir virkj­an­anna þriggja gætu „aldrei borgað sig“ sem sjálf­stæðar fram­kvæmd­ir.

Þjórsárver með Hofsjökli í baksýn. Hofsjökull mun, ef fram heldur sem horfir, halda áfram að rýrna á næstu áratugum. Vatn undan honum rennur í Þjórsá.
Sigurður Magnússon

Kostn­að­ur­inn 6-8 sinnum meiri en mögu­legar tekjur

Sig­urður Jóhann­es­son, for­stöðu­maður Hag­fræði­stofn­unar Íslands, vann að beiðni sam­tak­anna arð­sem­is­mat fyrir stækk­an­irn­ar. Hann mat núvirtar fram­tíð­ar­tekjur af þeim á bil­inu 600–2.500 millj­ónir króna miðað við hag­rænan afskrift­ar­tíma upp á 25 ár. Til sam­an­burðar yrði kostn­aður við fram­kvæmd­irnar sam­an­lagt vart undir 15–20 millj­örð­um, eða um 5–7 millj­arðar króna á hverja stækk­un. Kostn­aður yrði því um 6–8 sinnum meiri en mögu­legar tekjur og væri þar þá ekki tekið til­lit til vaxta­kostn­aðar eða orku­sölu­taps meðan á fram­kvæmdum stæði.

Að mati Nátt­úru­griða er því eng­inn fjár­hags­legur grund­völlur fyrir stækk­un­unum sem sjálf­stæðum virkj­ana­kost­um, byggt á þeim upp­lýs­ingum sem Lands­virkjun hefur sent inn til Orku­stofn­un­ar. „Til þess að stækk­an­irnar gengju upp þyrfti aukið vatn í uppi­stöðu­lón virkj­an­anna þriggja enda væri eina raun­hæfa leiðin að auka vatns­rennslið í gegnum stækk­an­irnar og fram­leiða þannig meiri raf­orku. Eini mögu­leiki Lands­virkj­unar á að auka vatns­magnið væri með Kjalöldu­veit­u.“

Með Kjalöldu­veitu yrði Þjórsá stífluð nokkrum kíló­metrum neðar en áætlað var með Norð­linga­öldu­veitu á sínum tíma. Stífla yrði reist þvert yfir far­veg Þjórsár með inn­takslóni, dæl­um, rennsl­is­göngum og skurð­um. Frá inn­takslón­inu yrði vatni dælt til aust­urs yfir í Þór­is­vatn þaðan sem það myndi renna í gegnum allar þrjár virkj­an­irnar sem Lands­virkjun hyggst stækka.

Kjalöldu­veita yrði reist á órösk­uðu landi og hefði til dæmis mikil áhrif á rennsli í fjórum fossum, mis­jafn­lega mikið eftir árs­tíma þó. Fossar njóta sér­stakrar verndar í nátt­úru­vernd­ar­lög­um. Ef af Kjalöldu­veitu yrði myndu þeir verða bergvatns­fossar að mestu því jök­ul­vatn­inu yrði veitt fram hjá þeim.

Við­hald og vind­orku­ver

Lands­virkjun hefur rök­stutt áform­aðar stækk­anir með fleiri þáttum en auknu vatns­rennsli. Þannig hefur komið fram að nýjar vélar kæmu sterkar inn þegar þær eldri þurfa við­hald. Auk þess þurfi meira afl í raf­magns­fram­leiðslu vegna áform­aðra vind­orku­vera. Einn slíkur virkj­ana­kost­ur, Búr­fellslund­ur, var einmitt færður úr bið­flokki til­lögu að ramma­á­ætlun í nýt­ing­ar­flokk við afgreiðslu þings­ins í síð­ustu viku. Sá er á Haf­inu, svæði austan Þjórs­ár. Umhverf­is­mati á þeirri áform­uðu fram­kvæmd lauk árið 2016.

Samanburður á 145 metra hárri vindmyllu við Hallgrímskirkju. Á síðustu árum hafa vindmyllur hækkað enn frekar, eru orðnar um 200 metrar jafnvel. Myndin er úr frummatsskýrslu Landsvirkjunar vegna Búrfellslundar frá árinu 2015.
Landsvirkjun

Með gerð vind­orku­garða aukast sveiflur í eft­ir­spurn eftir raf­magni frá vatns­afls­virkj­un­um, bendir Sig­urður for­stöðu­maður Hag­fræði­stofn­unar á í arð­sem­is­mati sínu. „Þegar vindur blæs sem mest má safna vatni í virkj­un­ar­lón, en tappa af þeim þegar lygnt er.“ Með nýjum afl­vélum gef­ist því færi á að laga fram­leiðsl­una betur að eft­ir­spurn.

En ef Lands­virkjun á að hafa veru­legar tekjur af stækk­un­unum verður verð­lagn­ing á raf­magni að breytast, skrifar hann. Erlendis sé raf­magns­verð síbreyti­legt – hæst þegar eft­ir­spurnin er mest. En slíku er ekki að heilsa hér á landi. Verð­lagn­ingin er, að sögn Sig­urð­ar, „frum­stæð­ari“ en í grann­lönd­un­um. „Heild­sölu­verð er treg­breyti­legt og varla hægt að segja að það taki mið af fram­boði og eft­ir­spurn. Meg­in­á­stæðan er yfir­burða­staða Lands­virkj­un­ar, sem í raun er ein­ráð á heild­sölu­mark­að­i.“

Lög gera ráð fyrir að Lands­net reki markað með raf­magn. Slíkur mark­aður hefur að sögn Sig­urðar nokkrum sinnum verið boð­að­ur, enn ekk­ert hefur enn orðið úr þeim ráða­gerð­um.

Öll verk­efni þurfa að skila arð­semi

„Lands­virkjun vill ítreka að kostn­að­ar­verð fyrir allar stækk­anir og aflaukn­ingar í virkj­unum á Þjórs­ár­svæði [...] eru skoð­aðar óháð Kjalöldu­veit­u,“ skrif­aði Kristín Linda aðstoð­ar­for­stjóri Lands­virkj­unar í minn­is­blaði sínu til þing­nefnd­ar­innar á dög­un­um. Öll þau stækk­un­ar- og aflaukn­inga­verk­efni sem Lands­virkjun ráð­ist í þurfi hverju sinni að skila arð­semi í sam­ræmi við kröfur eig­anda Lands­virkj­un­ar.

Eig­and­inn er íslenska rík­ið.

„Um er að ræða hag­kvæman kost til aflaukn­ingar þar sem að mann­virki, sem nú þegar eru til stað­ar, yrðu nýtt bet­ur,“ stendur í mats­á­ætlun Lands­virkj­unar vegna áform­aðrar stækk­unar Sig­öldu­virkj­un­ar. „Með því að nýta betur aukið rennsli er Lands­virkjun að sinna hlut­verki sínu um að hámarka afrakstur af þeim orku­lindum sem fyr­ir­tæk­inu er trúað fyrir með sjálf­bæra nýt­ingu, verð­mæta­sköpun og hag­kvæmni að leið­ar­ljósi.“

Einnig segir fyr­ir­tækið ljóst að þörf sé á auk­inni orku­fram­leiðslu og sveigj­an­leika í afli til að anna orku­skiptum á kom­andi ára­tug­um. Hvort reisa þurfi nýjar virkj­anir vegna orku­skipta er þó umdeilt.

Mik­ill stuðn­ingur við frum­varpið

Flestir ef ekki allir eru áfram um að auka nýt­ingu núver­andi virkj­ana frekar en að ráð­ast í nýjar virkj­an­ir. Frum­varp­inu um að stækk­anir virkj­ana þurfi ekki lengur að fara í gegnum ramma­á­ætlun var því tekið fagn­andi af mörg­um. Auð­vitað á að heim­ila stækk­anir sem ekki raska áður órösk­uðu landi.

Um það er vart deilt og það skýrir þá sam­stöðu sem var um þessa laga­breyt­ingu á þingi mið­viku­dag­inn 15. júní. Fimm­tíu þing­menn sögðu já. Sex greiddu ekki atkvæði. Eng­inn sagði fullum fetum nei.

Meðal þeirra sem sagði já var Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Hún hafði þó gert fyr­ir­vara við álit meiri­hluta umhverf­is- og sam­göngu­nefndar um málið. Í álit­inu kemur fram það mat meiri­hlut­ans að með hlið­sjón af skýr­ingum sem Land­virkjun gaf, yrðu stækk­unar­á­formin í virkj­un­unum í þremur í Þjórsá arð­bær ein og sér og að „Kjalöldu­veita sé með öllu ótengd fyr­ir­hug­uðum stækk­unar­á­form­um“.

Tölvuteikning Landsvirkjunar af mögulegu útliti Kjalölduveitu. Skjáskot: Landsvirkjun

Þannig væri mik­il­vægt að hafa í huga að Kjalöldu­veita hefði í för með sér umhverf­is­rask á órösk­uðu landi. Árétt­aði meiri­hlut­inn í því sam­bandi að auk­inni afl­þörf sé mætt með stækkun virkj­ana á þegar rösk­uðu land­svæði.

Þór­unn skrif­aði undir álitið en með þeim fyr­ir­vara að hún teldi ekki liggja fyrir gögn „sem styðja það mat meiri­hluta nefnd­ar­innar að stækk­unar­á­form Lands­virkj­unar á virkj­unum í Þjórsá séu arð­bær sem sjálf­stæðar fram­kvæmd­ir“.

Bið­leik­ur­inn

Kjalöldu­veita er sem fyrr segir komin í bið­flokk ramma­á­ætl­un­ar. Í þann flokk áætl­un­ar­innar falla þær virkj­ana­hug­myndir sem afla þarf frek­ari gagna um áður en hægt er að ákveða hvort þær falli að end­ingu í annað hvort nýt­ing­ar­flokk eða vernd­ar­flokk. Það verður hlut­verk verk­efn­is­stjórnar fimmta áfanga áætl­un­ar­inn­ar, sem þegar hefur tekið til starfa, að gera til­lögu þar um. Síðan er það á ábyrgð Alþingis að ákvarða end­an­lega hvar veit­an, sem sumir vilja meina að sé Norð­linga­öldu­veita í dul­ar­gervi – virkjun rétt utan friðlands­marka Þjórs­ár­vera sem gæti engu að síður haft áhrif á þá ein­stöku nátt­úru­smíð – endar í næsta áfanga ramma­á­ætl­un­ar. Hvort virkjað verði eða vernd­að.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar