Mikil sala en lítill útflutningur hjá Ísey
Einungis 15 prósent af því skyri sem selt var undir merkjum Ísey erlendis í fyrra var framleitt á Íslandi. Rekstrarstjóri fyrirtækisins segir útgöngu Breta úr ESB hafa leitt til minni útflutnings á skyri, en unnið sé að því að auka hann aftur á þessu ári.
Af þeim 5.600 tonnum sem Ísey skyr seldi erlendis í fyrra voru einungis um 15 prósent þeirra, eða 840 tonn, framleidd á Íslandi. Þetta segir Einar Einarsson, Rekstrarstjóri Ísey útflutnings, í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Ekkert hefur verið flutt út til Bandaríkjanna, Rússlands, Japan eða Bretlands á síðustu tveimur árum, þrátt fyrir að skyr undir merkjum Ísey sé selt í löndunum. Samkvæmt Einari leiddi útganga Breta úr Evrópusambandinu til þess að hætt hafi verið við útflutning þangað, en búist er við auknum útflutningi í ár.
Nýtt félag stofnað fyrir erlenda skyrsölu
Árið 2018 tilkynnti Mjólkursamsalan að hún hefði ákveðið að stofna sérstakt dótturfélag fyrir erlenda starfsemi hennar undir nafninu Ísey útflutningur ehf. Erlenda starfsemin var fyrst í höndum Jóns Axels Pétursonar, en Ari Edwald, þáverandi forstjóri MS tók við af honum ári seinna.
Í tilkynningu sem MS sendi frá sér 2019 sagðist stjórn Mjólkursamsölunnar hafa ákveðið að leggja sérstaka áherslu á sókn í erlendum verkefnum á næstu misserum. Þá hygðist félagið ætla að efla og fjölga mörkuðum sem selja skyr undir merkjum MS og hámarka skyrsölu frá Íslandi.
Í nóvember í fyrra var svo öll erlend starfsemi Mjólkursamsölunnar færð í sjálfstætt félag, en samkvæmt henni var það gert til að aðskilja innlenda og erlenda starfsemi enn frekar og „skerpa stjórnunarlegar áherslur og sýn á mismunandi verkefni.“
Aukin umsvif erlendis
Á þessum árum stórjókst skyrsala Íseyjar erlendis. Samkvæmt ársreikiningi Íseyjar útflutnings ehf. jókst hagnaður þess úr 54 milljónum króna árið 2018 í 84 milljónir króna árið 2019. Á sama tíma tæplega þrefaldaðist kostnaðarverð seldra vara félagsins.
Á síðustu misserum hefur Mjólkursamsalan svo kynnt aukin umsvif Íseyjar skyrs erlendis, til dæmis í Frakklandi og í Japan. „Ísey skyr fæst nú í 20 löndum víðsvegar um heiminn vex hróður þess jafnt og þétt eftir því sem fjölgar í hópnum,“ stóð í tilkynningu Mjólkursamsölunnar frá því í nóvember í fyrra. “Við erum einstaklega stolt af þessum stórkostlega árangi sem náðst hefur enda er um að ræða mikla viðurkenningu fyrir Mjólkursamsöluna og Ísey skyr.“
Þessi aukning hefur þó ekki skilað sér í auknum útflutningi á skyri til Evrópusambandsins á sama tíma, en líkt og Kjarninn hefur greint frá hefur hann minnkað töluvert á síðustu tveimur árum. Í fyrra nam hann 516 tonnum, sem er rétt rúmur þriðjungur af útflutningi á skyri til ESB-landa árið 2018, þrátt fyrir að tollfrjáls útflutningskvóti til svæðisins hafi margfaldast á tímabilinu.
Sömuleiðis hefur ekkert verið flutt út til flestra landa utan Evrópusambandsins sem Ísey útflutningur starfar í. Samkvæmt Hagstofu nam samanlagður skyrútflutningur til Bandaríkjanna, Rússlands, Japan og Bretlands núll kílóum árin 2019 og 2020. Á hinn bóginn hefur útflutningurinn aukist töluvert í Sviss, en hann nam 53 tonnum árið 2019 og 425 tonnum í fyrra.
Í nýlegri skýrslu utanríkisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins segir að mjólkurframleiðendur, sem hugðu á umtalsverðan útflutning á skyri á síðustu árum hafi þess í stað gert samninga við erlenda framleiðendur um framleiðslu á skyri í sínum heimalöndum.
Sem dæmi um þetta er sala Ísey skyrs í Japan, sem Mjólkursamsalan tilkynnti að væri hafin í mars á síðasta ári. Samkvæmt þeirri tilkynningu er allt skyrið sem er selt þar í landi framleitt af Nippon Luna í Kyoto, eftir uppskrift og framleiðsluaðferð Mjólkursamsölunnar.
Samkvæmt Einari er þó helsta útskýringin á lágu hlutfalli útflutts skyrs sem selt er undir merkjum Ísey erlendis sú að samningar hafi verið gerðir við mjólkurframleiðendur í Bretlandi kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Þar sem útflutningur til Bretlands heyrir ekki lengur undir tollfrjálsum kvóta Evrópusambandsins var ákveðið að allt skyr frá Ísey yrði framleitt þar í stað þess að flytja það út.
Tóku þátt í átaki um að styrkja íslenska framleiðslu
Mjólkursamsalan var eitt sex íslenskra þátttökufyrirtækja í átakinu Íslenskt skiptir máli síðasta haust en markmið þess var að vekja athygli almennings á mikilvægi íslenskrar framleiðslu. Þegar átakið var kynnt stóð meðal annars á síðu Mjólkursamsölunnar: „Þegar þú kaupir íslenskt stuðlar þú að fjölbreyttu vöruúrvali, styrkir íslenskt hugvit og skapar samfélaginu störf. Það skiptir máli.“
Í svari við fyrirspurn Kjarnans um það hvort ákvarðanir fyrirtækisins um að semja frekar við erlenda skyrframleiðendur samsvöruðu þeirri stefnu svaraði Einar að áfram væri unnið að því að auka útflutning á skyri til meginlands Evrópu. Búist væri við 67 prósenta aukningu í ár, úr 840 tonnum í 1.400 tonn.